Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 31. júlí 2012 – 1. feb. 2014 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 31. júlí 2012 af rg.nr. 673/2012

945/2009

Reglugerð um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til framkvæmdar Tryggingastofnunar ríkisins á fyrirframgreiðslu meðlags og öðrum framfærsluframlögum samkvæmt meðlagsákvörðun, samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar nr. 100/2007 setja. Reglugerðin tekur einnig til framkvæmdar stofnunarinnar á greiðslu bráðabirgðameðlags með ófeðruðum börnum skv. 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.

2. gr. Skilgreiningar.

Meðlagsákvörðun: Dómur, dómsátt, úrskurður sýslumanns eða samningur staðfestur af sýslumanni um meðlag eða önnur framfærsluframlög, eða sambærilegar erlendar ákvarðanir.

Meðlagsgreiðandi: Kynforeldri eða kjörforeldri sem meðlagsákvörðun kveður á um að skuli greiða meðlag.

Meðlagsmóttakandi: Sá sem fer með forsjá barns eða barn býr hjá samkvæmt lögmætri skipan og meðlagsákvörðun kveður á um að skuli þiggja meðlag.

II. KAFLI Greiðslur meðlags og annarra framfærsluframlaga.

3. gr. Greiðsluheimild.

Tryggingastofnun greiðir meðlag eða aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, hverjum þeim sem telst vera meðlagsmóttakandi skv. 2. gr. og leggur fram meðlagsákvörðun.

Tryggingastofnun greiðir á sama hátt barnsmóður samkvæmt meðlagsákvörðun:

  1. Framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 25. gr. barnalaga.
  2. Hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 25. gr. barnalaga.
  3. Kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 26. gr. barnalaga.

4. gr. Fjárhæð meðlags.

Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal nema sömu fjárhæð og barnalífeyrir eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.

5. gr. Umsóknir og fylgiskjöl.

Umsóknir skulu berast til Tryggingastofnunar á eyðublöðum stofnunarinnar eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar. Með umsókn skal fylgja frumrit af meðlagsákvörðun eða staðfest afrit sýslumanns og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslu. Þá er umsækjanda jafnframt skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar.

Hafi meðlagsmóttakandi verið búsettur erlendis skal ennfremur leggja fram staðfestingu frá stjórnvöldum þess lands um að greiðslur hafi verið stöðvaðar eða að þær hafi ekki farið fram fyrir milligöngu viðkomandi stjórnvalds.

III. KAFLI Tímabil greiðslna.

6. gr. Upphaf greiðslna.

Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur fengið fyrirfram greitt meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt úrskurðinum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Meðlag skal greiða fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar. Upphaf greiðslna skal miðast við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist Tryggingastofnun skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.

Óheimilt er að greiða meðlag ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi eru í hjúskap, óvígðri sambúð eða skráð með sama lögheimili.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er Tryggingastofnun heimilt að hefja greiðslur frá þeirri dagsetningu sem kveðið er á um í meðlagsákvörðun í tengslum við slit á hjúskap eða óvígðri sambúð, enda þótt meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi séu skráðir með sama lögheimili á þeim tíma, sbr. þó 7. gr.

Ávallt er skilyrði að barn sé búsett á heimili meðlagsmóttakanda við upphaf greiðslna.

7. gr. Heimild til að greiða meðlag aftur í tímann.

Heimilt er að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn skv. 5. gr. berast Tryggingastofnun.

Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.

8. gr. Stöðvun greiðslna.

Meðlagsgreiðslur skulu stöðvast fyrsta næsta mánaðar eftir að barn nær átján ára aldri. Greiðslur skulu einnig falla niður í eftirtöldum tilvikum:

  1. Ef barn gengur í hjúskap, nema sýslumaður ákveði annað.
  2. Ef barn flytur af heimili meðlagsmóttakanda eða er af öðrum ástæðum ekki lengur á framfæri meðlagsmóttakanda.
  3. Ef barn og meðlagsgreiðandi eru með sameiginlegt lögheimili.
  4. Ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi ganga í hjúskap, hefja sambúð eða eru skráð með sama lögheimili.
  5. Ef meðlagsmóttakandi og/eða barn eru búsett erlendis.
  6. Þegar liggur fyrir niðurstaða úr erfðafræðilegri rannsókn (DNA) sem útilokar meðlagsgreiðanda frá því að vera faðir barns.
  7. Ef breyting er gerð á meðlagsákvörðun sem leiðir til þess að greiðsluheimild er ekki lengur til staðar.
  8. Að ósk meðlagsmóttakanda eða þegar skilyrðum reglugerðar þessarar er að öðru leyti ekki lengur fullnægt.

IV. KAFLI Meðlag til bráðabirgða og önnur framfærsluframlög.

9. gr. Meðlag til bráðabirgða.

Ef foreldri leggur fram bráðabirgðaúrskurð skv. 35. gr. og 1. mgr. 59. gr. barnalaga, um meðlag til bráðabirgða með barni, skal greiða foreldri barnsins meðlag samkvæmt úrskurðinum þar til meðlagsákvörðun liggur fyrir.

Um fjárhæð, framkvæmd og greiðslufyrirkomulag fer samkvæmt II. og III. kafla.

Meðlagsmóttakanda er skylt að upplýsa Tryggingastofnun um endanlega niðurstöðu máls þegar hún liggur fyrir. Þá skal stofnunin fylgjast með framgangi mála hjá þar til bærum aðilum.

10. gr. Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar.

Tryggingastofnun skal greiða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ef ungmennið leggur fram úrskurð sýslumanns eða samning staðfestan af honum um að foreldri þess skuli greiða því framlag til menntunar eða starfsþjálfunar. Með umsókn skal fylgja vottorð um skólavist eða starfsþjálfun.

Greiða skal þá fjárhæð sem fram kemur í úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, en þó að hámarki þá fjárhæð sem tilgreind er í 4. gr. Um framkvæmd og greiðslufyrirkomulag fer samkvæmt II. og III. kafla.

Greiðslur skv. 1. mgr. falla niður frá næstu mánaðamótum eftir að ungmennið nær 20 ára aldri. Ef úrskurður sýslumanns eða samningur staðfestur af honum um niðurfellingu á framlaginu berst stofnuninni áður en ungmennið nær 20 ára aldri eða ef ungmennið hættir í námi eða starfsþjálfun fyrir þann tíma falla greiðslur einnig niður.

Ungmenni er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ef það hættir í námi eða starfsþjálfun og skal stofnunin stöðva greiðslur þegar staðfesting berst um að ungmenni sé ekki lengur í námi eða starfsþjálfun.

11. gr. Úrskurðir um greiðslu vegna sérstakra útgjalda.

Nú leggur meðlagsmóttakandi fram úrskurð sýslumanns eða samning staðfestan af honum um að meðlagsgreiðandi skuli inna af hendi greiðslu vegna útgjalda af sérstöku tilefni, t.d. vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar, skal Tryggingastofnun hafa milligöngu um þær greiðslur.

Um umsókn fer skv. 5. gr.

Framlög samkvæmt 1. mgr. koma til viðbótar reglubundnum meðlagsgreiðslum og skulu greidd út næstu mánaðamót eftir að umsókn og gögn berast Tryggingastofnun.

Þegar um er að ræða greiðslur vegna skírnar, fermingar eða greftrunar skal greiða að hámarki þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í leiðbeiningarreglum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins hverju sinni.

12. gr. Bráðabirgðameðlag skv. 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun er heimilt að greiða bráðabirgðameðlag á meðan aflað er faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með umsókn þarf að fylgja staðfesting frá sýslumanni um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar eða staðfesting um að faðernismál hafi verið höfðað fyrir dómi.

Tryggingastofnun skal fylgjast með framgangi mála hjá þar til bærum aðilum. Ef ekki berst staðfesting um framgang máls innan hæfilegs tíma skal stofnunin leitast við að afla frekari upplýsinga og er heimilt að stöðva greiðslur tímabundið þar til upplýsingar berast.

Þegar barn hefur verið feðrað og meðlagsákvörðun liggur fyrir skal skila frumriti ákvörðunarinnar til Tryggingastofnunar. Ef frumrit berst ekki skal stöðva greiðslur.

Þegar meðlagsákvörðun hefur borist skal meðlag, sem Tryggingastofnun hefur greitt samkvæmt þessari grein, innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við meðlagsákvörðunina. Um ofgreitt bráðabirgðameðlag fer samkvæmt 16. gr.

V. KAFLI Fyrirframgreiðsla meðlags þegar foreldri eða barn er búsett erlendis.

13. gr. Erlendar meðlagsákvarðanir.

Ef foreldri, sem er búsett erlendis, hefur með erlendri ákvörðun verið gert að greiða foreldri barns, sem búsett er hér á landi, meðlag með því, sem er lægra en meðlag skv. 4. gr., skal greiða meðlag sem nemur mismuninum á þeirri fjárhæð og fjárhæð meðlags sem tilgreind er í 4. gr. Skilyrði er að fyrir liggi úrskurður sýslumanns um skyldu Tryggingastofnunar til að greiða mismuninn.

Ef ákveðið hefur verið í erlendri meðlagsákvörðun að foreldri, sem er búsett erlendis, skuli ekki greiða meðlag með barni skal Tryggingastofnun greiða meðlag skv. 4. gr., leggi foreldri sem búsett er hér á landi fram úrskurð sýslumanns um skyldu stofnunarinnar til að greiða meðlag.

14. gr. Búseta erlendis.

Tryggingastofnun er aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag ef hann er búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal stofnunin hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur er utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæla fyrir um það.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr. Upplýsingaskylda vegna breytinga.

Þeim sem fá greitt meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt reglugerð þessari er skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á högum sem geta haft áhrif á greiðslur, svo sem brottflutning úr landi eða ef barn flyst af lögheimili meðlagsmóttakanda.

16. gr. Ofgreiðsla.

Hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt reglugerð þessari á stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum. Einnig skal stofnunin tilkynna Innheimtustofnun sveitarfélaga um leiðréttingu á greiðslum.

17. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.