Fara beint í efnið

Prentað þann 23. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 24. mars 2007 – 5. sept. 2009 Sjá lokaútgáfu

941/2002

Reglugerð um hollustuhætti.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar. Markmið.

1. gr.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og samræma heilbrigðiseftirlit í landinu. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur til einstakra þátta sem þar er fjallað um.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um framkvæmd hollustuverndar og heilbrigðiseftirlit samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá gildir reglugerðin um vöktun og rannsóknir, eftirlit með meindýravörnum, gæludýrahaldi og opnum svæðum.

3. gr. Skilgreiningar.

Eftirlit er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

Eftirlitsaðilar eru heilbrigðisnefnd og faggiltir skoðunaraðilar samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heilbrigðisfulltrúi annast eftirlit í umboði heilbrigðisnefndar.

Fjallaskálar eru smáhýsi sem eru að jafnaði utan alfaraleiðar og almenningur hefur aðgang að, s.s. skálar fyrir ferðamenn og veiðiskálar og sæluhús.

Frístundahús er hús sem ætlað er til tímabundinnar dvalar. Frístundahús þarf ekki að uppfylla skilyrði sem sett eru um íbúðarhús.

Fullbúin snyrting er sérstakt snyrtiherbergi með vatnssalerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu og handþurrkum.

Gistirými er herbergi eða svefnskáli sem tilheyrir gististað og boðið er til gistingar.

Gististaður er hvert það hús eða húshluti þar sem dvalið er lengur eða skemur gegn greiðslu og telst ekki íbúð eða íbúðarherbergi.

Gæludýr er hvert það lifandi dýr sem haldið er til afþreyingar.

Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir eru sjúkrahús og aðrar sjúkrastofnanir, læknastofur, heilsugæslustöðvar og starfsemi þar sem tveir eða fleiri heilbrigðisstarfsmenn starfa saman, svo og stofnanir fyrir aldraða og fatlaða, áfangaheimili, hvers konar þjálfunarstofnanir, sjúkranuddstofur, meðferðar- og endurhæfingarstofnanir.

Heimili og stofnanir fyrir börn eru vistheimili, meðferðarheimili, hjálparstöðvar, neyðarathvörf, sumardvalarheimili og sumarbúðir og önnur heimili sem taka sex eða fleiri börn til uppeldis eða umönnunar til lengri eða skemmri tíma. Börn heimilisfólks 12 ára og yngri sem þar búa skulu talin með dvalarbörnum.

Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra, öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum.

Íbúðarherbergi er herbergi sem er ætlað til daglegrar dvalar og svefns fyrir fólk.

Íbúðarhúsnæði er varanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar þeirra sem þar búa.

Innra eftirlit er eftirlit rekstraraðila með eigin starfsemi framkvæmt af starfsmönnum hans eða þjónustuaðila, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi eða reglugerðum séu uppfylltar.

Íþróttamannvirki eru íþróttahús, íþróttavellir og íþróttamiðstöðvar þar sem fram fer skipulögð starfsemi og sem almenningur hefur aðgang að.

Matsölustaðir eru staðir þar sem framreiddur er matur og/eða drykkur til viðskiptavina án neyslu þeirra á staðnum.

Meindýr eru dýr sem valda eða geta valdið tjóni á eigum fólks eða sýkingarhættu.

Ónæði er veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir, s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis.

Rannsóknir (prófanir) felast í greiningu sýna vegna eftirlits, eftirlitsverkefna, vöktunar og annarra þjónusturannsókna eða fyrirbyggjandi aðgerða á sviði hollustuhátta og mengunarvarna.

Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi starfsemi.

Samkomustaðir eru staðir þar sem fer fram skemmtana- og samkomuhald, þar með taldir hljómleikasalir, söfn, leikhús, kvikmyndahús, kirkjur, markaðir og veitingastaðir.

Skólar taka til húsnæðis og lóðar svo sem leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og sérskóla, hvort sem um er að ræða einkaskóla eða skóla sem reknir eru á vegum opinberra aðila.

Starfsleyfi er ákvörðun heilbrigðisnefndar í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreinda starfsemi að því tilskildu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis.

Starfsmannabúðir eru færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.

Starfsmannabústaður er varanlegt íbúðarhúsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks í tengslum við atvinnustarfsemi.

Tjald- og hjólhýsasvæði eru svæði á vegum sveitarstjórna, einstaklinga eða annarra aðila ætluð ferðamönnum til dvalar gegn gjaldi.

Útihátíð er samkoma sem haldin er utanhúss vegna hátíðahalda eða skemmtana fyrir almenning.

Veitingastaðir eru staðir þar sem framreiddur er matur og/eða drykkur til neyslu fyrir viðskiptavini á staðnum, þar með talin mötuneyti, skyndibitastaðir og söluskálar.

Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.

II. KAFLI Umsjón og samræming. Yfirstjórn.

4. gr.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.

5. gr. Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun skal vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin sé með líkum hætti á landinu öllu og skal stofnunin koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa.

Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast. Stofnunin gefur út fræðsluefni, leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um heilbrigðiseftirlit og framkvæmd þess, svo og um samræmingu krafna um mælingar sem gerðar eru.

Umhverfisstofnun skal taka saman yfirlit yfir þær upplýsingar sem heilbrigðisnefndum ber að senda stofnuninni samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

6. gr. Heilbrigðisnefnd.

Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar.

III. KAFLI Starfsleyfi. Starfsleyfisskylda.

7. gr.

Stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali 1 hvort sem er á ábyrgð einstaklinga eða lögaðila skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd.

Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út.

8. gr. Umsókn um starfsleyfi.

Umsókn um starfsleyfi skal senda heilbrigðisnefnd. Umsóknum skulu fylgja upplýsingar um rekstraraðila, lýsing á tegund starfseminnar, umfangi hennar og umfangi einstakra rekstrarþátta, uppdrættir af staðsetningu og önnur gögn ef þurfa þykir.

9. gr. Útgáfa starfsleyfis.

Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi.

Í starfsleyfi skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengi, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.

10. gr. Gildistími.

Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma.

Ef starfsleyfi er gefið út til lengri tíma en fjögurra ára, er heimilt að endurskoða það að jafnaði á fjögurra ára fresti.

11. gr. Innra eftirlit.

Heilbrigðisnefnd getur gert kröfu í starfsleyfi um innra eftirlit í starfsemi þar sem smithætta er fyrir hendi eða sérstakra öryggisráðstafana er þörf.

Innra eftirlit skal taka mið af umfangi og stærð fyrirtækja. Í innra eftirliti felst að:

1. tilgreina áhættuþætti, fyrirbyggjandi aðgerðir og mikilvæga eftirlitsstaði, s.s. varðandi hitastig vatns og heilbrigðisvottorð starfsfólks,

2. gera skriflegar hreinlætisáætlanir sem fela í sér umgengnisreglur og áætlanir eftir því sem við á, s.s. um meindýravarnir, viðhald loftræstikerfa, þrif og gerileyðingu,

3. skilgreina viðeigandi þjálfun starfsfólks og gera grein fyrir starfsréttindum þeirra,

4. skrá óhöpp, slys og úrbætur,

5. skrá viðhald tækja og búnaðar eftir því sem við á.

12. gr. Breytingar á starfsemi.

Rekstraraðila ber að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varða ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara.

Heilbrigðisnefnd metur upplýsingarnar, samkvæmt 1. mgr., innan fjögurra vikna frá móttöku þeirra og tilkynnir rekstraraðila skriflega hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi og ber þá umsækjanda að leggja fram umsókn þess efnis.

Umsókn um nýtt starfsleyfi vegna breytinga á rekstri skal berast til heilbrigðisnefndar. Í umsókn rekstraraðila skulu a.m.k. koma fram þær upplýsingar sem krafist er í 8. gr. eins og við á hverju sinni.

13. gr. Handhafi starfsleyfis.

Starfsleyfi skal gefið út á rekstraraðila og á tiltekna staðsetningu viðkomandi starfsemi. Starfsleyfi skal hanga uppi á áberandi stað.

Taki nýr rekstraraðili við starfsemi sem hefur gilt starfsleyfi er heilbrigðisnefnd heimilt, að fenginni umsókn þar um, að færa starfsleyfið á nýjan rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt starfsleyfi enda verði engin önnur breyting á starfseminni. Með þessu færast öll réttindi og allar skyldur starfsleyfisins yfir á hinn nýja starfsleyfishafa.

IV. KAFLI Almennt um húsnæði og lóðir. Húsnæði og lóðir.

14. gr.

Húsnæði, þ.m.t. starfsmannabústaðir, starfsmannabúðir og húsnæði stofnana og fyrirtækja, sem fjallað er um í reglugerð þessari, skulu hafa hlotið samþykkt byggingarnefndar. Lóð í kringum húsnæði skal vera frágengin og henni haldið hreinni þannig að ekki berist að óþörfu óþrifnaður inn og valdi óþægindum fyrir þá sem þar dvelja eða leita þjónustu. Húsnæði skal vera þannig gert og viðhaldið, umgengið og þrifið að þeir sem þar dveljast, starfa, eða nálægir íbúar, hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Þar skal vera nægilegt heitt og kalt vatn og fullnægjandi frágangur fráveitu og sorpíláta.

Húsnæði, sem fjallað er um í reglugerð þessari, skal í samræmi við eðli starfseminnar fullnægja almennum skilyrðum um rými, birtu, upphitun og loftræstingu. Eftir því sem við á skulu gólf, veggir, loft og húsbúnaður gerður úr eða klæddur efni sem auðvelt er að þrífa. Forstofu og fatageymslum skal komið fyrir þar sem fólk dvelur í skemmri eða lengri tíma. Aðskilin fatageymsla skal vera fyrir viðskiptavini og starfsfólk.

Húsnæði stofnana og fyrirtækja samkvæmt VI.-XIII. kafla skal haldið hreinum og snyrtilegum og ýtrasta hreinlætis gætt í samræmi við starfsemina. Loftræstikerfi skal halda við og hreinsa reglulega. Allsherjarhreingerning eða málun skal fara fram eftir þörfum.

Fara skal að fyrirmælum heilbrigðisnefndar um allt er varðar hreinlæti, hollustuvernd og öryggismál.

Húsnæði fyrirtækja og stofnana samkvæmt VI.-XIII. kafla skal vera aðskilið frá óskyldri starfsemi eða íbúðarhúsnæði, nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglugerð þessari.

Um framleiðslu og dreifingu matvæla fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

Sérstakt loftræst rými skal vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug, þar sem það á við.

Vatnskerfi skal vera þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda. Í skólum og öðrum kennslustöðum, leikskólum og daggæslu í heimahúsum, heilsuræktar- og íþróttastöðvum, íþróttahúsum, samkomustöðum, gististöðum, heilbrigðis- og meðferðarstofnunum skal nota hitastýrð blöndunartæki í handlaugum og böðum til þess að vatnshiti við töppunarstað fari ekki yfir 43°C. Vatnshiti við töppunarstað í handlaugum og böðum skal ekki fara yfir 38°C á leikskólum, gæsluvöllum og í daggæslu í heimahúsum.

Aðgangur skal vera að neysluvatni í starfsemi sem fjallað er um í V.-XI. kafla, sbr. þó ákvæði 28. gr. Um gæði þess gilda ákvæði reglugerðar um neysluvatn.

Við framkvæmdir og viðhald skal taka tillit til eðlis starfseminnar.

15. gr. Salernisaðstaða.

Í eða við hverja byggingu, þar sem fólk hefst við að jafnaði, skal koma fyrir hæfilegum fjölda salerna og hreinlætistækjum, sbr. ákvæði í fylgiskjali 2.

Salernisklefi skal vera a.m.k. 1,2 m² að stærð en salernisklefi sem fatlaðir geta notað, minnst 3,3 m² að stærð. Handlaug með heitu og köldu vatni og tilheyrandi hreinlætisbúnaði skal vera í klefanum eða við hann í sérstöku rými. Þá skal vera ruslafata með loki í hverjum salernisklefa. Þar sem skilrúm salernisklefa ná ekki niður að gólfi og upp að lofti skulu salernisrými vera aðgreind fyrir konur og karla.

Salernisklefi og anddyri skulu vera úr eða klædd efni sem gott er að halda hreinu. Þar skal vera fullnægjandi loftræsting og birta.

Salernisklefi má ekki opnast beint út í rými þar sem matvæli eru meðhöndluð og hæfileg aðgreining skal vera þar sem fólk hefst við að jafnaði.

16. gr. Gæði húsnæðis og umhirða.

Almenningur getur leitað til heilbrigðisnefndar ef leiguhúsnæði og annað íbúðarhúsnæði er ekki talið fullnægjandi m.t.t. hollustuhátta eða ef húsnæði er álitið heilsuspillandi.

Byggingar og mannvirki skulu hönnuð, byggð og viðhaldið þannig að heilsu manna sé ekki stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka, hávaða, fráveitu skólps, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi, vatni, gasleka eða geislunar.

Byggingarefni mega ekki vera skaðleg eða gefa frá sér skaðleg efni eða gufur.

17. gr. Hreinlæti og snyrtingar starfsfólks.

Starfsfólk sem vinnur við stofnanir eða fyrirtæki, sem um er fjallað í VII.-XIII. kafla, skal stunda persónulegt hreinlæti og klæðast hreinum vinnufatnaði við störf sín.

Starfsmenn stofnana eða fyrirtækja, samkvæmt VII.-XIII. kafla, mega ekki stunda vinnu sína séu þeir haldnir næmum sjúkdómi eða kvilla sem öðrum getur stafað hætta af.

Starfsfólk stofnana eða fyrirtækja, sem fjallað er um í reglugerð þessari, skal eiga greiðan aðgang að snyrtingum og öðrum búnaði samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða.

18. gr. Hreinlæti og þrif mannvirkja.

Eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði.

Ekki má haga hreinsun húsa, húshluta og húsmuna þannig að leitt geti til óþrifnaðar eða ónæðis fyrir aðra.

19. gr. Hreinlæti og dýr.

Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3. Heimilt er þó fötluðu fólki að hafa með sér hjálparhunda á gististaði, veitingastaði, í skóla, á snyrtistofur og hársnyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþrótta- og baðstaði, fangelsi og samkomuhús, enda sé hinum fatlaða ótvíræð nauðsyn að hjálparhundi. Hundurinn skal merktur sem hjálparhundur og hinn fatlaði skal hafa leyfi fyrir honum í samræmi við ákvæði í samþykktum einstakra sveitarfélaga. Heilbrigðisnefnd er heimilt, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar að veita undanþágu til að halda hunda, ketti og önnur gæludýr á heilbrigðis- og meðferðastofnunum.

Heilbrigðisnefnd getur heimilað að farið sé með dýr inn í íþróttamannvirki þar sem aðstaða er til íþróttaiðkunar á ís vegna sýninga eða keppni. Kveða skal á um það í starfsleyfi íþróttamannvirkisins eða gefa út sérstakt starfsleyfi fyrir einstakar sýningar eða keppni ef slík starfsemi er ekki með reglubundnu millibili á skautasvellinu. Umhverfisstofnun skal gefa út leiðbeiningar um skilyrði slíks starfsleyfis. Að sýningu eða keppni lokinni skal upplýsa gesti sem koma í íþróttamannvirkið um að í húsinu hafi verið dýr og hvaða dýr um ræðir þannig að þeir sem haldnir eru ofnæmi þurfi ekki að verða fyrir óþægindum. Í starfsleyfi skal setja skilyrði sem á að uppfylla fyrir hverja sýningu eða keppni.

Búpening má ekki hafa í híbýlum manna né í öðrum húsum nema sem til þess eru ætluð.

20. gr. Hreinlæti á lóðum og opnum svæðum.

Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.

Þeir sem annast flutninga á almannafæri, skulu haga þeim þannig að ekki valdi óþrifnaði.

21. gr.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum.

V. KAFLI Hávaði. Almennt um hávaða.

22. gr.

Skylt er að haga allri háværri starfsemi þannig að ekki valdi ónæði. Að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum í reglugerð um hávaða.

Heilbrigðisnefnd getur gefið fyrirmæli vegna ónæðis af hávaða á skemmtistöðum, frá hljómflutningstækjum og öðrum tækjum á almannafæri, sem valdið geta ónæði með hávaða.

VI. KAFLI Íbúðarhúsnæði, starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir. Þynningarsvæði.

23. gr.

Íbúðarhúsnæði skal ekki vera á þynningarsvæði samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, þeirrar starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali I með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

24. gr. Íbúðarhúsnæði.

Óheimilt er að leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi nema húsnæðið hafi hlotið samþykki byggingarnefndar. Ekki má leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi ef heilsu manna er stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka, hávaða, fráveitu skólps, meindýra, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi eða vatni, gasleka eða geislunar.

Heilbrigðisnefnd getur bannað afnot íbúðarhúsnæðis ef hún telur húsnæðið hættulegt heilsu íbúanna. Þar skal sérstaklega tekið tillit til velferðar barna, sjúklinga og aldraðra.

Hús skulu vera meindýraheld sem og lagnir. Skólplögnum skal haldið við.

Óheimilt er að hafa loðdýrabú, alifuglabú og svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemur 500 metrum. Á sama hátt skal vera hæfileg fjarlægð milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og starfsemi sem valdið getur samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin er upp í 1. ml. hins vegar s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnustarfemi.

25. gr. Starfsmannabústaðir.

Um starfsmannabústaði gilda sömu reglur og um íbúðarhúsnæði eftir því sem við á.

Um eldvarnir gilda ákvæði laga um brunavarnir og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

Um veitingu starfsleyfis til reksturs starfsmannabústaða skal heilbrigðisnefnd hafa samráð við Vinnueftirlit ríkisins.

Í hverju rúmi svefnrýmis skal vera dýna, a.m.k. 2 metrar á lengd og 80 cm breið. Almenn lýsing skal vera góð.

Starfsmannabústaðir fyrir 4 aðila eða færri skulu fullnægja almennum kröfum um íbúðarhúsnæði samkvæmt byggingarreglugerð.

Þegar starfsmannabústaðir eru fyrir 5 eða fleiri skal að auki vera til staðar að minnsta kosti eitt 18 m² herbergi til tómstunda og félagsstarfa. Sé ekki um íbúð að ræða skal handlaug vera í hverju herbergi ef ekki er snyrting þar. Þvottahús skal vera á staðnum. Íbúar skulu eiga greiðan aðgang að fullnægjandi búnings- og baðaðstöðu. Þar skal vera a.m.k. eitt salerni og einn baðklefi fyrir hverja 10 íbúa. Um salerni fer að öðru leyti samkvæmt fylgiskjali 2 ef slík aðstaða fylgir ekki hverju herbergi.

26. gr. Starfsmannabúðir.

Starfsmannabúðir má ekki setja niður svo nærri ám, vötnum eða sjávarströnd að flæðihætta stafi af eða svo nærri klettum og skriðum, að grjóthrun eða ofanflóðahætta sé fyrir hendi eða þar sem þær geta mengað ár, vötn eða sjávarstrendur.

Um starfsmannabúðir gilda sömu ákvæði og um íbúðarhúsnæði að svo miklu leyti sem við á. Um eldvarnir gilda ákvæði laga um brunavarnir og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

Um veitingu starfsleyfis til reksturs starfsmannabúða skal heilbrigðisnefnd hafa samráð við Vinnueftirlit ríkisins.

Frárennsli frá starfsmannabúðum skal leiða í viðurkennda rotþró eða safntank.

Eldhús skal fullnægja ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla eftir því sem við á.

Lofthæð í starfsmannabúðum skal vera minnst 2,2 m enda sé loftræsting fullnægjandi.

Gólfflötur skal vera minnst 4 m² á hvern íbúa í svefnrými. Í hverju rúmi svefnrýmis skal vera dýna, a.m.k. 2 metrar á lengd og 80 cm breið.

Almenn lýsing skal vera hæfileg. Greiður aðgangur skal vera að salerni, handlaugum og baðklefa með baðtækjum. Um salerni fer að öðru leyti samkvæmt fylgiskjali 2.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að semja við Vinnueftirlit ríkisins um að það taki að sér eftirlit með starfsmannabúðum.

VII. KAFLI Gististaðir og samkomustaðir. Gististaðir.

27. gr.

Á gististöðum skal gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku. Allur búnaður skal vera hreinn og heill.

Ávallt skal skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum hreinlætisbúnaði áður en nýjum viðskiptavini er vísað til gistiherbergis. Ef þvottur er þveginn á staðnum skal það gert við aðstæður sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Fullnægjandi baðaðstaða skal vera á staðnum ef ekki er snyrting með baðaðstöðu í gistiherbergi. Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en 10 viðskiptavinir um baðaðstöðu með búningsklefa. Handlaug skal vera í herbergjum sé ekki sér snyrtiherbergi. Um salerni fer samkvæmt fylgiskjali 2. Ekki er þó skylt að hafa handlaug á gistiherbergjum á einkaheimilum.

Ákvæði 5. mgr. 14. gr. eiga ekki við um gistingu á einkaheimilum.

Um svefnpokapláss gilda framangreind ákvæði eftir því sem við á.

28. gr. Fjallaskálar.

Fjallaskálar skulu hafa viðunandi salernis- og snyrtiaðstöðu. Þar sem því verður við komið skal vera vatnssalerni og handlaug. Að öðru leyti gilda um fjallaskála ákvæði um gististaði eftir því sem við getur átt, þar með talinn frágangur umhverfis, neysluvatns, sorps, snyrtinga og frárennslis. Þar sem þannig hagar til að ekkert vatn er að hafa frá náttúrunnar hendi skal viðhafa sérstakar ráðstafanir til að forðast mengun. Ákvæði 14. gr. um aðgengi að neysluvatni á ekki við um fjallaskála.

29. gr. Frístundahús og frístundasvæði.

Við staðsetningu frístundahúsa skal þess sérstaklega gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir hættu eða ónæði sem getur stafað frá umhverfinu, s.s. vegna umferðar, hávaða og ólyktar.

Í frístundahúsum sem ætluð eru til útleigu skal vera fullbúin snyrting með baðaðstöðu eða aðgangur að sérstöku húsi með snyrtingu og baðaðstöðu. Eldhús eða eldhúskrókur skal fylgja hverju húsi. Svefnherbergi skulu aldrei vera minni en 5 m².

Skólp skal leitt í viðurkennda rotþró eða aðra viðurkennda fráveitu.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að fara fram á sérstakar ráðstafanir við frístundasvæði til að minnka slysahættu í umhverfinu.

30. gr. Ferjur, farþegaskip o.fl.

Sækja skal um leyfi til heilbrigðisnefndar til að starfrækja sölu á veitingum og gistingu um borð í ferjum, farþegaskipum og öðrum skipum þar sem veitt er slík þjónusta.

Lofthæð skal vera a.m.k. 2,2 m í veitingasal og annars staðar þar sem viðskiptavinir eiga aðgang að. Það sama á við um lofthæð í eldhúsi.

Fjöldi snyrtinga skal vera í samræmi við fylgiskjal 2. Sérsnyrting skal vera fyrir starfsfólk.

Þar sem skipi hefur verið breytt í gististað skal vera handlaug á herbergjum sé ekki snyrting þar. Safngeymar skulu vera fyrir frárennsli. Loftgæði og loftræsting skal vera góð.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að setja í starfsleyfi ákveðnar kröfur um aðgengi og umhverfi til að minnka slysahættu.

31. gr. Veitingastaðir.

Viðskiptavinir veitingastaða skulu eiga greiðan aðgang að salerni, sbr. fylgiskjal 2.

Á veitingastöðum skal starfsfólk hafa aðgang að sér snyrtingu.

Um salerni starfsfólks á veitingastöðum skal fara að ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða.

32. gr. Tjald- og hjólhýsasvæði.

Við staðsetningu og rekstur tjald- og hjólhýsasvæða skal þess sérstaklega gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu. Enn fremur skal þess gætt að ónæði berist ekki frá svæðinu til nálægra íbúa.

Á tjald- og hjólhýsasvæðum skal gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku.

Rekstraraðili svæðisins skal sjá um að það sé þrifið og að umgengni sé góð.

Á svæðinu skal vera nægilegt neysluvatn og aðstaða til uppþvotta.

Á svæðinu eða í námunda við það skal vera aðstaða til að tæma og hreinsa ferðasalerni. Rekstraraðili skal veita upplýsingar um og vísa á aðstöðuna.

Um snyrtingar fer samkvæmt fylgiskjali 2. Þess skal gætt við staðsetningu útisalerna að af þeim stafi ekki óhollusta eða óþrifnaður.

33. gr. Útihátíðir.

Starfsleyfisumsókn fyrir útihátíðir ásamt fylgigögnum skal send heilbrigðisnefnd með minnst tveggja vikna fyrirvara. Með starfsleyfisumsókn skal fylgja eftirfarandi, eftir því sem við á.

1. Upplýsingar um áætlaðan fjölda samkomugesta.

2. Vottorð sem sýni gæði neysluvatns.

3. Upplýsingar um fjölda snyrtinga og fráveitu.

4. Greinargerð um þrif og losunarbúnað snyrtinga.

5. Áætlun um þrif á svæði meðan á samkomu stendur.

6. Áætlun um hreinsun svæðis að aflokinni samkomu.

Um fjölda snyrtinga fer samkvæmt fylgiskjali 2.

VIII. KAFLI Kennslustaðir, gæsluvellir, leikvellir og daggæsla í heimahúsum.

34. gr. Almenn ákvæði.

Þess skal gætt við staðsetningu skóla, daggæslu í heimahúsum, gæsluvalla og leikvalla að ekki verði um að ræða ónæði vegna hávaða frá umferð, atvinnurekstri eða annarri starfsemi.

Við framkvæmdir og viðhald skal taka tillit til eðlis starfseminnar.

Fara skal að fyrirmælum heilbrigðisnefndar varðandi hreinlæti, hollustuhætti og öryggisþætti.

Ræsting skal fara fram samkvæmt hreinlætisáætlun.

35. gr. Lóð, leiktæki og leikföng.

Litir og föndurefni mega ekki innihalda skaðleg efni og skulu standast gildandi reglugerðir varðandi merkingar og innihald.

Um leikvallatæki og leiksvæði gilda ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða.

Leikföng skulu hæfa aldri barna og þannig gerð og viðhaldið að þau skapi ekki hættu. Leikföng skulu þrifin reglulega.

Við eftirlit með loftræstingu, öryggi og slysavörnum skal farið að leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um öryggi og slysavarnir á leikskólum og leiksvæðum og ÍST-EN stöðlum þar sem við á.

36. gr. Innra eftirlit.

Innra eftirlit skal að lágmarki felast í hreinlætisáætlun sem tekur til daglegra þrifa á húsnæði, þrifa á leikföngum og áhöldum. Þá skal innra eftirlit taka til skráningar á slysum og eftirlits með öryggisþáttum og búnaði.

37. gr. Húsnæði.

Dagsbirta eða lýsing skal vera góð. Innanstokksmunir skulu vera við hæfi notenda.

Hljómburður skal vera hæfilegur og hljóðeinangrun þannig að truflun verði ekki af ólíkri starfsemi innan skólans.

Þar sem aðstaða er til íþróttaiðkana skal vera fullkomin bað-, búnings- og salernisaðstaða.

Greiður aðgangur skal vera að drykkjarvatni. Rými á hvern nemanda í grunnskóla fer samkvæmt reglugerð um lágmarksaðstöðu í grunnskóla. Rými á hvern nemanda í leikskóla fer samkvæmt reglugerð um starfsemi leikskóla. Rými á nemanda í öðrum kennslustöðum skal vera að lágmarki 1,4 m² og a.m.k. 3 m² á hvert barn í leikstofum. Meta skal þörfina eftir aldri barna.

Öll hættuleg efni og tæki eins og ræstiefni, lyf, málningarvörur og hættuleg eða oddhvöss tæki skulu geymd þar sem börn ná ekki til svo sem í læstum lyfja- eða efnaskápum eða í annars konar læstri hirslu.

Starfsreglur, innréttingar og búnað skal miða við að auka öryggi og koma í veg fyrir slys og vera í samræmi við staðla.

Um fjölda salerna fer samkvæmt fylgiskjali 2.

38. gr. Skólar.

Heimilt er að krefjast þess að skólalóð við leikskóla og grunnskóla sé girt af að öllu leyti eða hluta vegna slysahættu í umhverfinu.

Í skólum skal vera aðstaða til aðhlynningar nemenda vegna skyndiveikinda. Skal þar vera að lágmarki legubekkur, stóll og handlaug. Þar sem heilsugæsla er starfrækt í skólum, skal hún fullnægja kröfum sem gerðar eru til lækningastofa.

Handlaug skal vera í hverri kennslustofu í grunnskólum. Sé mötuneyti starfrækt í skóla skal nemendum séð fyrir sérstakri aðstöðu til að matast.

Um heimavist gilda almenn ákvæði um íbúðarhúsnæði og gistiheimili eftir því sem við á.

39. gr. Leikskólar.

Salerni og handlaugar skulu vera við hæfi barna. Auk þess skal þar vera handlaug ætluð fullorðnum og skolvaskur. Þar sem við á skal vera aðstaða til að skipta á börnum.

Starfsfólk skal hafa sér snyrtingu samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða.

40. gr. Húsakynni daggæslu í heimahúsum.

Eldhús skal búið fullnægjandi innréttingu og tækjum. Lágmarkstæki eru eldavél, kæliskápur og uppþvottavaskur.

Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal vera a.m.k. 3 m² að gólffleti á hvert barn. Leiksvæði og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergum.

Um leikvallatæki, leikföng og lóð gilda ákvæði 35. gr., eftir því sem við á.

Ákvæði 5. mgr. 14. gr. um aðskilnað á ekki við um starfsemi daggæslu í heimahúsum nema hvað svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna.

41. gr. Gæsluvellir.

Ef húsnæði er til staðar á gæsluvöllum skal það uppfylla lágmarkskröfur um húsnæði, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. Þar sem við á skal vera aðstaða til að skipta á börnum.

Starfsfólk skal hafa sér snyrtingu samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði og handlaug.

IX. KAFLI Um heimili og stofnanir fyrir börn. Húsnæði og aðstaða.

42. gr.

Á heimilum og stofnunum fyrir börn skulu ekki aðrar vistarverur en svefnherbergi eða svefnsalir notaðar til að láta börn sofa. Rúm og aðrir innanstokksmunir skulu hæfa aldri barna.

Í svefnsölum skal ætla hverju barni a.m.k. 4 m². Í sumarbúðum og skyldri starfsemi þar sem dvalartími er tvær vikur eða skemmri tími má miða við minni gólfflöt á barn í svefnsal með kojum, þó aldrei minni en 2 m². Kojur mega aðeins vera tveggja hæða. Fara skal eftir ÍST-EN stöðlum.

Börn skulu sofa sér í rúmi. Í rúmum skal vera dýna, sæng, koddi og rúmteppi. Rúmföt skulu vera til staðar og skulu þau vera heil og hrein og skipt um a.m.k. vikulega þegar um lengri dvalartíma er að ræða en tvær vikur. Þegar um er að ræða sumarbúðir og skylda starfsemi og dvalartími er tvær vikur eða skemmri tími er heimilt að hafa svefnpoka í rúmum, enda sé í rúmum dýna og lak.

Fullbúin snyrting og baðaðstaða skal vera til staðar. Eitt bað skal vera til staðar fyrir 10 börn, þegar um er að ræða hóp barna í sumarbúðum eða sambærilega starfsemi. Á heimilum þar sem færri en átta börn eru vistuð til lengri eða skemmri tíma skal vera fullbúin snyrting með baðaðstöðu.

Aðstaða skal vera til tómstunda og innileikja.

Ákvæði 5. mgr. 14. gr. eiga ekki við þar sem börn dvelja á einkaheimilum.

X. KAFLI Snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. Almenn ákvæði.

43. gr.

Ávallt skal hreinsa, sótthreinsa og dauðhreinsa tæki og búnað eftir því sem við á með viðeigandi efnum og aðferðum. Nota skal einnota dauðhreinsaðan búnað s.s. nálar þar sem því verður við komið. Hrein og sótthreinsuð og/eða dauðhreinsuð áhöld og búnaður skal notaður við hvern viðskiptavin. Margnota áhöld sem snerta eða fara í gegnum húð viðskiptavinar skulu dauðhreinsuð og pökkuð á viðurkenndan hátt. Nota skal einnota áhöld þegar því er við komið. Skartgripir sem settir eru í nýgerð göt á húð, skulu vera dauðhreinsaðir og lausir við skaðleg efni.

Nauðsynlegur búnaður og aðstaða, s.s. borð og þvottalaug, skal vera til staðar til þvotta og sótthreinsunar á áhöldum. Þar sem gerðar eru hvers konar stungur á húð skal sérstök smitgát viðhöfð. Góð aðstaða skal vera til handþvotta.

Upplýsa skal um hugsanleg ofnæmisviðbrögð af völdum nikkels, sbr. ákvæði reglugerðar um takmörkun á nikkeli í tilteknum vörum. Handklæði, ábreiður eða tauhlífar skal þvo og geyma í lokuðum skápum eða ílátum.

Ef upp kemur grunur um sjúkdóm meðal starfsfólks eða viðskiptavina sem ætla má að tengist starfseminni ber að tilkynna slíkt til heilbrigðisyfirvalda.

Nálum, öðrum hvössum hlutum, spilliefnum og umbúðum undan spilliefnum ber að safna og koma til viðeigandi förgunar.

Viðskiptavinir skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingum.

44. gr. Snyrtistofur.

Ætla skal a.m.k. 5 m² gólfrými fyrir hvern aðgerðastól.

Sérstakar þvottalaugar skulu vera til hárþvotta og til blöndunar efna. Á fótsnyrtistofu skal vera handlaug, vaskur til að þrífa áhöld og gott aðgengi að skolvaski.

Nota skal einnota áhöld ef hætta er á smiti eða sjúkdómi af einhverju tagi.

45. gr. Nuddstofur og sjúkraþjálfun.

Baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini þar sem við á. Vel staðsettar handlaugar skulu vera í vinnurými.

46. gr. Sólbaðsstofur.

Baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini.

Ljósabekkir skulu þannig staðsettir og varðir að aðrir en þeir sem nota bekkina verði ekki fyrir geislun. Hlífðargleraugu skulu vera aðgengileg fyrir viðskiptavini.

Á ljósastofum skal hengja upp á áberandi stað þær reglur sem gilda um notkun ljósabekkja.

Starfsfólk fyrirtækis skal þrífa og sótthreinsa sólbekki og hlífðargleraugu eftir hverja notkun.

Kröfum Geislavarna ríkisins um ljósabekki og ljósaperur, svo og upplýsingum og aðvörunum landlæknis til viðskiptavina skal fylgt við reksturinn.

47. gr. Húðflúrstofur og stofur sem framkvæma húðgötun, nálarstungur, fegrunarflúr og hvers konar húðrof.

Rekstraraðila ber að afla vottorðs frá landlækni.

Óheimilt er að flúra, húðgata eða beita nálarstungu á einstaklingi undir 18 ára aldri nema með skriflegu leyfi forráðamanns. Framvísa skal skilríkjum ef vafi leikur á um aldur. Engan má flúra, húðgata eða beita nálarstungu sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Viðskiptavinir og forráðamenn í viðeigandi tilvikum skulu fá munnlegar og skriflegar upplýsingar um húðflúr. Upplýsingarnar skulu m.a. fela í sér fræðslu um varanlega breytingu á húð, mögulega sýkingarhættu, eftirmeðferð á flúraða eða gataða húðsvæðinu og hugsanleg ofnæmisviðbrögð.

Gæta skal ýtrasta hreinlætis við starfið. Sá sem framkvæmir aðgerð skal þvo hendur sínar fyrir og eftir aðgerð. Hanskar skulu notaðir við húðflúrun og húðgötun. Handlaug skal vera til staðar sem eingöngu er notuð til handþvotta.

Rekstraraðilar skulu hengja upp á áberandi stað þær reglur sem gilda um starfsemina.

XI. KAFLI Dvalarheimili, heilbrigðis- og meðferðarstofnanir. Sjúkraflutningar.

48. gr.

Farartæki og búnaður sem ætluð eru til sjúkraflutninga skal vera hreinn og vel við haldið.

49. gr. Tannlæknastofur, læknastofur, aðgerðastofur og aðrar sambærilegar stofnanir.

Ávallt skal hreinsa, sótthreinsa og dauðhreinsa tæki og búnað eftir því sem við á með viðeigandi efnum og aðferðum. Nota skal hrein áhöld og búnað við hvern viðskiptavin. Nota skal dauðhreinsuð tæki og áhöld í vefi fólks og einnota dauðhreinsaðan búnað, þar sem því verður við komið og viðhafa fyllstu smitgát.

Á tannlæknastofum, læknastofum, aðgerðastofum og öðrum þeim stöðum þar sem áhöld eru notuð á vefi fólks, skal sótthreinsa eins fljótt og auðið er menguð áhöld. Ílát undir blandað sótthreinsiefni skal vera með þéttu loki. Loftræsting skal vera góð þar sem notkun og blöndun fer fram.

Dauðhreinsibúnaðinn skal athuga reglulega.

Dauðhreinsuð áhöld skal geyma í lokuðum umbúðum eða ílátum og haldið aðgreindum frá óhreinum áhöldum. Aðstaða til almennrar hreinsunar áhalda og dauðhreinsunar skal vera vel aðgreind. Heilbrigðisnefnd getur gert kröfu um sérstaka áhaldaþvottavél.

Rými sem ætluð eru til aðgerða skulu vel aðgreind og þannig útbúin að ekki verði hætta á mengun frá öðru rými.

Í aðgerðarými fótaaðgerðastofa skal vera handlaug, vaskur til að þrífa áhöld og gott aðgengi að skolvaski.

50. gr. Dvalarheimili.

Fullnægjandi baðaðstaða skal vera á staðnum sé snyrting með baðaðstöðu ekki inn af íbúðarherbergi. Skulu aldrei vera fleiri en 10 heimilismenn um baðaðstöðu með búningsklefa. Handlaug skal vera í herbergjum sé snyrtiherbergi ekki inn af því. Um salerni fer samkvæmt fylgiskjali 2.

XII. KAFLI Vistarverur fanga. Skammtímagæsla.

51. gr.

Stærð klefa skal vera minnst 5 m². Fangi skal hafa aðgang að svefnbekk, kodda og teppi. Hann skal einnig hafa aðgang að snyrtingu og baði. Þrífa skal klefa eftir hverja notkun og sótthreinsa eftir þörfum. Greiður aðgangur skal vera að drykkjarvatni.

52. gr. Gæsluvarðhald.

Gólf og veggir klefa skulu klædd efnum sem auðvelt er að þrífa. Rúm skal vera minnst 2 m að lengd og 80 cm breitt með rúmfatageymslu. Fangi skal hafa sængurföt og teppi. Fataskápur, borð og stóll skulu vera í klefa. Í honum skal vera ruslafata og spegill (álþynna). Fangi skal hafa aðgang að snyrtingu og baði. Aldrei skulu fleiri en 10 fangar nota sömu snyrtingu. Lýsing skal vera fullnægjandi. Jafnframt skal vera hægt að útiloka birtu frá gluggum.

53. gr. Afplánun.

Ákvæði 52. gr. gilda og um húsnæði þar sem afplánun fer fram nema að í hverjum klefa skal vera salerni með handlaug skermað af frá svefnaðstöðu. Aðgangur skal vera að baði.

XIII. KAFLI Heilsuræktar- og íþróttastöðvar og íþróttahús.

54. gr.

Rekstri starfseminnar skal háttað á þann veg að heilsa og öryggi þeirra sem þangað koma sé sem best tryggð.

Sérstaklega skal þess gætt að heilsuræktar- og íþróttastöðvar og íþróttahús verði ekki útbreiðslustaðir sjúkdóma. Leiki grunur á að um slíkt geti verið að ræða, skal þegar í stað tilkynna það heilbrigðisnefnd.

Rekstraraðili ber ábyrgð á að tæki og búnaður til íþróttaiðkana sé samkvæmt viðurkenndum öryggiskröfum. Fara skal eftir ÍST EN-stöðlum. Innra eftirlit skal að lágmarki felast í hreinlætisáætlun. Þar skal vera ákvæði um öryggiskerfi og neyðaráætlun ef slys ber að höndum. Skrá skal óhöpp, slys og úrbætur.

Starfsfólk heilsuræktar- og íþróttastöðva og íþróttahúsa skal hafa sér salernis- og baðaðstöðu samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða.

Viðskiptavinir skulu eiga greiðan aðgang að búningsherbergi með baði. Um salerni fer samkvæmt fylgiskjali 2.

Um setlaugar gilda ákvæði reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

XIV. KAFLI Almenn samgöngutæki.

55. gr.

Öll almenn samgöngutæki skulu háð heilbrigðiseftirliti.

Rými sem ætlað er farþegum í almennum samgöngutækjum skal vera vel við haldið og því haldið hreinu. Farþega má eigi flytja svo marga eða á þann hátt að valdi þeim eða öðrum hættu. Dýr má ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Þetta gildir þó ekki um hjálparhunda, sbr. 19. gr. Notkun almennra samgöngutækja skal þannig hagað að frá þeim stafi ekki hávaði eða loftmengun að óþörfu.

Um meðferð og eftirlit með matvælum, neysluvatni og hreinlætistækjum í samgöngutækjum gilda almenn ákvæði þessarar reglugerðar, reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, reglugerðar um neysluvatn og þar sem við á reglugerðar um veitinga- og gististaði.

XV. KAFLI Hundar, kettir og önnur gæludýr. Almennt um gæludýr.

56. gr.

Þeir sem halda gæludýr í mannvirkjum á íbúðarlóðum í þéttbýli eða á heimilum sínum þurfa ekki að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar eða sveitarstjórnar nema ákvæði samþykkta viðkomandi sveitarfélags kveði á um annað. Að öðru leyti gilda ákvæði 13. tl. A liðar 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.

Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga um gæludýrahald.

57. gr. Hundar.

Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum.

Til hreinsunar hunda gegn bandormum og spóluormum skal nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota.

Eiganda eða umráðamanni hunds er skylt að láta ormahreinsa hund sinn árlega. Hann ber allan kostnað af hreinsun hundsins, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags.

Skylt er að ormahreinsa alla hunda fjögurra mánaða og eldri. Þar sem búrekstur er skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags.

Nýgotnar tíkur og 3 – 4 vikna hvolpar skulu spóluormahreinsaðir sérstaklega samkvæmt leiðbeiningum dýralæknis. Hundeigandi skal framvísa vottorði um spóluormahreinsun við skráningu hundsins.

Ef ekki er kveðið á um annað í samþykkt viðkomandi sveitarfélags skal eigandi eða umráðamaður hunds geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa til eftirlitsaðila ef óskað er. Heilbrigðisnefnd getur í samráði við embætti yfirdýralæknis, heimilað að vottorð frá öðrum en dýralækni verði viðurkennd, ef sérstakar aðstæður krefjast þess.

Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga. Setji sveitarfélag sér samþykkt um hundahald skal í henni kveða á um hreinsun hunda, ábyrgðartryggingar og merkingu.

58. gr. Kettir.

Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum spóluorma í köttum.

Til ormahreinsunar katta gegn spóluormum skal nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota.

Eiganda eða umráðamanni kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun hans, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags.

Skylt er að ormahreinsa alla ketti fjögurra mánaða og eldri.

Ef ekki er kveðið á um annað í samþykkt viðkomandi sveitarfélags skal eigandi eða umráðamaður kattar geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því við eftirlitsaðila ef óskað er. Heilbrigðisnefnd getur, í samráði við embætti yfirdýralæknis, heimilað að vottorð frá öðrum en dýralækni verði viðurkennd, ef sérstakar aðstæður krefjast þess. Óheimilt er að halda ketti í fjöleignarhúsum ef kattahaldið sannanlega veldur eða viðheldur sjúkdómum hjá íbúum.

Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga. Setji sveitarfélag sér samþykkt um kattahald skal í henni kveða á um hreinsun katta, ábyrgðartryggingar og merkingu.

XVI. KAFLI Eftirlit og gjaldtaka. Eftirlitsaðilar.

59. gr.

Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess.

Á varnarsvæðum ber utanríkisráðherra ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess.

60. gr. Umfang heilbrigðiseftirlits.

Heilbrigðiseftirlit nær m.a. til almennrar skoðunar á húsnæði, búnaði og umhverfi, töku sýna og skoðunar á skráðu og skjalfestu efni. Þá nær heilbrigðiseftirlit til eftirlits með snyrtivörum, eiturefnum og hættulegum efnum, fræðslu, samvinnu stofnana, úrvinnslu gagna, öryggisþátta og athafna einstaklinga eftir því sem við á. Eftirlitið felst jafnframt í því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd er falið.

61. gr. Skráning.

Heilbrigðisnefnd ber að halda skrá um eftirlitsskylda starfsemi og skal a.m.k. skrá eftirtalin atriði:

1. starfsleyfi sem í gildi eru og eftirlitsaðili hefur eftirlit með,
2. staðsetningu starfsstöðvar,
3. nafn, lögheimili og kennitölu rekstraraðila,
4. niðurstöður einstakra þátta eftirlits,
5. til hvaða úrræða hefur verið gripið ef ekki hefur verið farið að ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa,
6. kvartanir sem borist hafa vegna viðkomandi starfsemi,
7. önnur skyld atriði.

62. gr. Skoðun og eftirlit.

Eftirlitsaðila er heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem reglugerð þessi, aðrar reglugerðir eins og við á hverju sinni og samþykktir sveitarfélaga ná yfir og er eftirlitsaðila heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Fulltrúum Umhverfisstofnunar ber að hafa samráð við heilbrigðisnefnd við töku sýna.

Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd reglugerðar þessarar, annarra reglugerða eins og við á hverju sinni og samþykktum sveitarfélaga og ber þeim endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.

63. gr. Reglubundið eftirlit.

Tíðni eftirlits skal háð mati eftirlitsaðila.

Eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi skal vera reglubundið og eftir ákveðinni áætlun, eftir því sem kostur er.

Eftirlit skal að jafnaði framkvæmt í viðurvist fulltrúa rekstraraðila nema aðstæður krefjist annars. Eftirlitsaðili skal gera eftirlitsskýrslu og afhenda rekstraraðila. Ef fram kemur í eftirlitsskýrslu að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfis, skal eftirlitsaðili að jafnaði gefa rekstraraðila kost á að tjá sig um efni eftirlitsskýrslu innan hæfilegs frests. Telji eftirlitsaðili, að liðnum þeim fresti, að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfa getur eftirlitsaðili gripið til þvingunarúrræða, sbr. XVI. kafla.

Eftirlitsaðila er heimilt að fjölga tímabundið eftirlitsferðum ef nauðsyn krefur, t.d. þegar nýr búnaður hefur verið tekinn í notkun eða vegna kvartana. Hækkar þá eftirlitsgjald sem því nemur.

Eftirlitsaðila er heimilt að draga úr reglubundnu eftirliti hjá atvinnurekstri sem er með innra eftirlit með ákveðnum eftirlitsþáttum og eftirlitsaðili hefur samþykkt.

Sé starfsemi starfrækt í a.m.k. fjögur ár í röð samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfis og sé hollustuvernd fullnægjandi er eftirlitsaðila heimilt að draga úr reglubundnu eftirliti og lækkar þá eftirlitsgjald sem því nemur.

64.gr. Tilfallandi eftirlit.

Auk reglubundins eftirlits skal eftirlit vera tilfallandi þegar aðstæður krefjast, svo sem vegna eftirfylgni, kvartana, óhappa, slysa, starfsemi utan hefðbundinna starfsstöðva, óreglulegrar starfsemi, rekstrar og athafna sem ekki eru starfsleyfisskyld og þegar ástæða er til eftirlits með takmörkuðum þáttum starfseminnar.

65. gr. Yfirlit um framkvæmd eftirlits.

Heilbrigðisnefnd skal fyrir 1. mars ár hvert skila til Umhverfisstofnunar yfirliti yfir framkvæmd og niðurstöður eftirlits á því formi sem stofnunin óskar eftir.

66. gr. Gjaldtaka.

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi fyrir vinnslu og útgáfu starfsleyfa samkvæmt fylgiskjali 1 og fyrir eftirlit, aðra þjónustu og verkefni sem tengjast framangreindum þáttum í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum. Um gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu sem tengist ekki eftirlitsskyldri starfsemi fer samkvæmt 25. gr. framangreindra laga. Heilbrigðisnefnd skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjöld samkvæmt 1. mgr. má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar.

XVII. KAFLI Málsmeðferð og úrskurðir. Úrskurðarnefnd.

67. gr.

Rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga um heilbrigðiseftirlit eða um ákvarðanir yfirvalda sem tengjast því er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þetta gildir þó ekki í þeim tilvikum þegar umhverfisráðherra fer með úrskurðarvald, sbr. 68. gr.

Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar.

68. gr. Ágreiningur stjórnvalda.

Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd reglugerðarinnar eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Sama gildir um ágreining milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda.

XVIII. KAFLI Valdsvið, þvingunarúrræði og undanþágur. Minniháttar athugasemdir.

69. gr.

Ef eftirlitsaðili hefur einungis minniháttar athugasemdir við starfsemi rekstraraðila er eftirlitsaðila heimilt að gera kröfur um úrbætur innan tiltekins frests í eftirlitsskýrslu.

70. gr. Krafa um úrbætur.

Telji eftirlitsaðili eftir að rekstraraðila hefur verið gefinn kostur á að koma að andmælum sínum, sbr. 63. gr., að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfis getur hann veitt rekstraraðila skriflega áminningu og krafist úrbóta innan tiltekins frests.

Eftirlitsaðili getur krafist tímasettrar áætlunar um úrbætur frá rekstraraðila. Telji eftirlitsaðili áætlun um úrbætur ekki fullnægjandi skal hann setja fram kröfur um frekari úrbætur og tímafresti.

Í áminningu skal sérstaklega geta afleiðinga sé úrbótum ekki sinnt innan tilskilins frests.

71. gr. Áætlun um úrbætur.

Í áætlun um úrbætur skal m.a. koma fram hvernig fylgst verði með að úrbætur komist á.

Eftirlitsaðili getur tekið ákvörðun um að krefjast sérstakra úttekta á kostnað hlutaðeigandi rekstraraðila í samræmi við áætlun sem rekstraraðili gerir um úrbætur og eftirlitsaðili samþykkir.

72. gr. Dagsektir.

Hafi rekstraraðili ekki fylgt kröfu um úrbætur, sbr. 70. gr., getur eftirlitsaðili ákveðið honum dagsektir þar til farið hefur verið að fyrirmælum sem fram koma í áætlun um úrbætur. Dagsektir renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits og er hámark þeirra 200.000 kr. á dag.

Jafnframt er eftirlitsaðila heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi.

Þegar verk það sem eftirlitsaðili lætur vinna er komið til vegna vanhirðu og óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.

73. gr. Stöðvun eða takmörkun starfsemi.

Verði aðili uppvís að því að stunda starfsleyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis ber að stöðva starfsemina verði ekki bætt úr innan tilskilins frests.

Ef brot á starfsemi með starfsleyfi er mjög alvarlegt eða úrbótum ekki sinnt innan tilskilins frests, sbr. 70. gr., er eftirlitsaðila heimilt að stöðva hana að hluta eða öllu leyti þar til úr hefur verið bætt.

Sé úrbótum ekki sinnt innan tiltekins frests eða um alvarlegri tilvik sé að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs. Meti eftirlitsaðili ástandið það alvarlegt er honum heimilt, þrátt fyrir 2. mgr., að afturkalla starfsleyfið án fyrirvara.

Heimilt er að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf til að stöðva starfsemi.

74. gr. Undanþágur.

Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar að veita undanþágu frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar.

XIX. KAFLI Viðurlög.

75. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar og samþykktum sveitarfélaga varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

76. gr.

Sektir má ákvarða lögaðila þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.

XX. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

77. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, með síðari breytingum, reglugerð um starfsmannabústaði og starfsmannabúðir nr. 84/1982, með síðari breytingum, og reglugerð um ormahreinsun hunda nr. 837/1999.

Reglugerðin skal endurskoðuð eigi síðar en 30. júní 2008.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Starfsemi, sem fyrir gildistöku reglugerðar þessarar hefur gilt starfsleyfi en uppfyllir ekki ný ákvæði reglugerðarinnar, er veittur frestur til 1. janúar 2006 til að uppfylla þau ákvæði.

II.

Starfsemi sem er starfrækt við gildistöku reglugerðarinnar og gerð er starfsleyfisskyld, er veittur frestur til 1. júní 2003 til að sækja um starfsleyfi. Starfseminni er veittur frestur til 1. janúar 2006 að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar.

Umhverfisráðuneytinu, 27. desember 2002.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.