Prentað þann 15. jan. 2025
903/2024
Reglugerð um hollustuhætti.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Umsjón og samræming.
- III. KAFLI Starfsleyfi og skráning.
- IV. KAFLI Skyldur rekstraraðila.
- V. KAFLI Húsnæði sem ætlað er til búsetu eða dvalar o.fl.
- VI. KAFLI Heimili, stofnanir og leiksvæði fyrir börn.
- VII. KAFLI Tjald- og hjólhýsasvæði og útihátíðir.
- VIII. KAFLI Önnur sérstök ákvæði fyrir tilteknar tegundir starfsemi.
- 32. gr. Starfsemi þar sem viðhafa skal sérstakt hreinlæti og smitgát.
- 33. gr. Snyrti-, sólbaðs- og nuddstofur.
- 34. gr. Húðflúrsstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
- 35. gr. Sjúkrastofnun og stofur þar sem framkvæmdar eru aðgerðir.
- 36. gr. Dvalarheimili og sambýli fyrir fullorðna.
- 37. gr. Fangelsi og fangagæsla.
- 38. gr. Íþróttamannvirki og íþróttavellir.
- 39. gr. Skipulögð afþreyingarstarfsemi.
- 40. gr. Skemmti- og þemagarðar.
- 41. gr. Almenningssamgöngutæki og samgöngumiðstöðvar.
- IX. KAFLI Hundar, kettir og önnur dýr.
- X. KAFLI Heilbrigðiseftirlit.
- XI. KAFLI Ýmis ákvæði.
- Viðauki
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öruggt nærumhverfi og forvarnir, með áherslu á að vernda og viðhalda lýðheilsu og heilnæmum lífsskilyrðum viðkvæmra hópa og almennings.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um framkvæmd hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits, þ.m.t. vöktun og rannsóknir, eftirlit með meindýravörnum, gæludýrum, opnum svæðum, húsnæði og vistarverum og sóttvörnum.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér greinir:
- Almenningssamgöngutæki eru samgöngutæki sem flytja almenning á milli staða, önnur en leigubílar.
- Baðaðstaða er aðstaða fyrir viðskiptavini eða almenning þar sem aðgangur er að sturtu eða baði.
- Eftirlit er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
- Eftirlitsaðilar eru heilbrigðisnefndir.
- Fangelsi og fangagæsla eru stofnanir þar sem vistaðir eru þeir sem afplána refsingar, sæta gæsluvarðhaldi (skammtímagæsla) eða eru vistaðir tímabundið í fangaklefa.
- Fjallaskálar eru staðir utan alfaraleiðar þar sem er gisting í herbergjum eða í svefnskálum og almenningur hefur aðgang að, svo sem skálar fyrir ferðamenn, veiðiskálar og sæluhús.
- Fullbúin baðaðstaða er rými, með baðkeri eða sturtu, salerni þar sem við á og handlaug, spegli, sápu, handþurrkum, ruslafötu og snögum eða fráleggsstað fyrir föt.
- Fullbúin snyrting er rými með salerni, salernispappír, handlaug með rennandi vatni, spegli, sápu, handþurrkum og ruslafötu, sem og tíðavörum eftir atvikum.
- Færanleg starfsemi er starfsemi sem eðlis síns vegna er færanleg milli staða til að vinna tímabundið verk á hverjum stað. Notast er við hreyfanlegan búnað sem tengist almennt ekki veitukerfum á staðnum. Um er að ræða starfsemi sem hvorki þarf byggingarleyfi fyrir né er gert ráð fyrir á skipulagi, þó þarf leyfi lóðarhafa hverju sinni og/eða stöðuleyfi, eftir því sem við á.
- Gistiskýli er húsnæði sem ætlað til svefns, matar og daglegrar dvalar sem úrræði fyrir viðkvæma hópa, þ,m.t. tímabundið húsnæði fyrir heimilislausa, húsnæðisúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi og húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
- Gististaður er starfsemi sem fellur undir lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
- Gæludýr er hvert það lifandi dýr sem haldið er til afþreyingar, sbr. reglugerð um velferð gæludýra.
- Handlaug er vaskur með rennandi vatni sem ætlaður er til handþvotta.
- Heilsugæslustöð er aðstaða þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt á vegum heilsugæslustöðva, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.
- Heilsuræktarstöð er staður þar sem fer fram skipuleg starfsemi og almenningi boðið upp á aðstöðu til líkamsæfinga eða íþróttaiðkana.
- Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga eru vistheimili, meðferðarheimili, hjálparstöðvar, neyðarathvörf, sumardvalarheimili og sumarbúðir og önnur heimili sem taka sex eða fleiri börn til uppeldis eða umönnunar til lengri eða skemmri tíma.
- Hestaleiga og/eða reiðskóli er starfsemi þar sem boðnir eru fram reiðtúrar gegn gjaldi, og/eða kennsla í hestamennsku.
- Húðflúrsstofa og stofa þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr er staður þar sem tákn, mynd eða texti er grafinn á húð, með eða án bleks, stungið er gat á húð eða líkamshluta sem setja má skartgrip í og annað þar sem húð er rofin, t.d. efnum sprautað undir húð eða í fegrunarskyni.
- Húsnæði sem ætlað er til búsetu eða dvalar er híbýli eða íbúðarhúsnæði, frístundahús, gististaðir, starfsmannabúðir, starfsmannabústaðir og annað sambærilegt húsnæði, svo sem gistiskýli eða tímabundið húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
- Innra eftirlit er eftirlit rekstraraðila með eigin starfsemi framkvæmt af starfsmönnum hans eða þjónustuaðila, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi, starfsskilyrðum, lögum og reglugerðum séu uppfylltar.
- Íbúðarhúsnæði er varanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar þeirra sem þar búa.
- Íþróttahús og/eða íþróttamiðstöð er íþróttamannvirki þar sem fram fer skipulögð íþróttastarfsemi ásamt annarri starfsemi eftir atvikum og sem almenningur hefur aðgang að.
- Íþróttavöllur er sérstakt svæði þar sem fram fer skipulögð íþróttastarfsemi ásamt annarri starfsemi eftir atvikum sem almenningur hefur aðgang að.
- Meindýr eru rottur og mýs annars vegar og skordýr og aðrir hryggleysingjar hins vegar, sem valda tjóni, óhollustu, útbreiðslu sjúkdóma eða umtalsverðum óhreinindum í eða við híbýli manna, í gripahúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv.
- Meindýravarnir eru aðferðir og efni sem notast er við þegar meindýrum skal eytt eða haldið í lágmarki.
- Nálastungustofa er stofa þar sem nálastungum er beitt í fegrunar- eða meðferðarskyni, þó ekki nálastungur á heilbrigðisstofnunum.
- Nuddstofa er stofa þar sem boðið er upp á nudd, þó ekki nudd á heilbrigðisstofnunum.
- Ónæði er veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir, svo sem vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis.
- Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi starfsemi og háður er eftirliti heilbrigðisnefndar samkvæmt reglugerð þessari.
- Samgöngumiðstöð er miðstöð samgangna sem þjónustar almenning þar sem bílar, ferjur, flugvélar, rútur og strætisvagnar eða sambærileg farartæki koma og fara.
- Samkomuhús/samkomustaður er staður þar sem fram fer skemmtana- og samkomuhald, meðal annars samkomusalur, tónleikasalur, safn, leikhús, kvikmyndahús, kirkja, félagsmiðstöð, markaður og veitingastaður og verslunarmiðstöðvar.
- Sérklefi er kynhlutlaus búningsaðstaða með munaskáp, salernis- og baðaðstöðu og nýtist m.a. þeim sem þurfa sérstaka aðstoð eða sértækan búnað.
- Skemmti- og þemagarður er tímabundin eða varanleg starfsemi á svæði, með eða án tækja, þar sem almenningur getur sótt sér ýmsa afþreyingu.
- Sjúkrastofnun er stofnun þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta og fellur undir lög um heilbrigðisþjónustu, svo sem heilbrigðisstofnanir.
- Skipulögð afþreyingarstarfsemi er atvinnustarfsemi þar sem boðin er fram eða seld afþreying sem kallar á sérstakan búnað og sérstaka þekkingu starfsmanna, m.a. varðandi öryggismál. Um getur verið að ræða bæði staðbundna afþreyingu eða skipulagðar ferðir, eins og t.d. flúðasiglingar, ís- og hellaskoðunarferðir, köfun, klifur, hestaleigur og reiðskóla eða reiðnámskeið, vélsleðaferðir og önnur sambærileg afþreyingarþjónusta.
- Skolvaskur er vaskur, með rennandi heitu og köldu vatni, til að þrífa á fullnægjandi hátt búnað og áhöld og er hvorki notaður til handþvotta né í tengslum við matvæli.
- Skólahúsnæði tekur til húsnæðis og lóðar svo sem leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og sérskóla, hvort sem um er að ræða einkaskóla eða skóla sem reknir eru á vegum opinberra aðila þar sem kennsla og námskeiðahald fer fram.
- Snyrting er rými með salerni, handlaug og ruslafötu.
- Snyrtistofa er stofa þar sem veitt er líkamssnyrting, svo sem hársnyrting, fót-, hand- og andlitssnyrting.
- Starfsmannabúðir eru færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.
- Starfsmannabústaður er varanlegt íbúðarhúsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks í tengslum við atvinnustarfsemi.
- Tjald- og hjólhýsasvæði er svæði ætluð ferðamönnum til dvalar.
- Útihátíð er samkoma sem haldin er utanhúss vegna hátíðahalda eða skemmtana fyrir almenning, á afmörkuðu svæði og stendur yfir í meira en þrjár klukkustundir, svo sem bæjarhátíðir, sbr. reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
- Veitingastaður er staður þar sem framreiddur er matur og/eða drykkur hvort sem er til neyslu fyrir viðskiptavini á staðnum eða ekki, þ.m.t. mötuneyti, skyndibitastaður og söluskáli.
- Verslunarmiðstöð er bygging með verslunum og/eða veitingastöðum undir sama þaki þar sem fyrir hendi er sameiginleg aðstaða fyrir gesti.
II. KAFLI Umsjón og samræming.
4. gr. Stjórn mála.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar sem og heilbrigðisnefndir eftir því sem við á.
5. gr. Umhverfisstofnun.
Umhverfisstofnun skal vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu. Stofnunin skal sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt.
Stofnunin skal sjá um gerð fræðsluefnis og upplýsa þá er starfa að heilbrigðiseftirliti. Stofnunin skal koma á og hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa. Þá skal stofnunin veita ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast og vinna að samræmingu og framfylgd krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði heilbrigðiseftirlits. Til þess að stuðla sem best að þessu markmiði gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Heilbrigðisnefndum ber að fylgja leiðbeiningum og viðmiðunarreglum sem Umhverfisstofnun gefur út.
Umhverfisstofnun heldur námskeið um sýkingavarnir og hæfnispróf sem þau sem stunda húðrof skulu standast. Umhverfisstofnun er heimilt að fela aðilum sem stofnun metur hæfa á grundvelli þekkingar og reynslu að hafa umsjón með þjálfun, námskeiðum, endurmenntun og hæfnisprófum samkvæmt reglugerð þessari. Upplýsingar um aðila sem stofnunin metur hæfa og viðurkennd námskeið og hæfnispróf skulu vera aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar.
Umhverfisstofnun skal skilgreina og birta skrá um þá þætti heilbrigðiseftirlits sem hentar að heilbrigðisnefnd feli faggiltum skoðunaraðilum, sbr. 5. mgr. 44. gr. Þá skal stofnunin birta samningsfyrirmynd sérstaks samnings heilbrigðisnefndar við hinn faggilta skoðunaraðila, sbr. lög nr. 7/1998.
6. gr. Heilbrigðisnefnd.
Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar þessarar.
Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar, vinna að bættu heilbrigðiseftirliti, annast fræðslu fyrir almenning og samþætta framkvæmd þessarar reglugerðar við framkvæmd annarra reglugerða á sviði hollustuhátta, mengunarvarna og umhverfisvöktunar sem henni er falið að framfylgja til að stuðla að heilnæmum lífsskilyrðum og öruggu nærumhverfi.
III. KAFLI Starfsleyfi og skráning.
7. gr. Starfsleyfi og skráning.
Rekstraraðili sem er með starfsemi sem talin er upp í viðauka skal hafa gilt starfsleyfi útgefið af heilbrigðisnefnd eða staðfesta skráningu eftir því sem við á, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Starfsleyfi skal veitt uppfylli starfsemi þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim, að teknu tilliti til annarrar löggjafar sem um starfsemina gildir. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út.
Umhverfisstofnun er heimilt í sérstökum undantekningartilfellum þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir reglugerð þessa, að veita rekstraraðila bráðabirgðaheimild í allt að eitt ár, að hans beiðni fyrir starfseminni samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að framlengja þessa bráðabirgðaheimild um eitt ár að uppfylltum skilyrðum þessarar reglugerðar.
Um starfsemi sem er skráningarskyld fer samkvæmt reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rekstraraðili slíkrar starfsemi skal skrá starfsemina í samræmi við ákvæði þeirrar reglugerðar. Óheimilt er að hefja skráningarskyldan atvinnurekstur fyrr en skráning hefur farið fram og rekstraraðili fengið staðfestingu þar um. Rekstraraðili skal uppfylla starfsskilyrði, þ.e. þær almennu kröfur, sem gilda um reksturinn.
Starfsleyfi eða staðfesting á skráningu, eftir því sem við á, skulu vera sýnileg viðskiptavinum og þeim sem nota viðkomandi þjónustu ásamt upplýsingum um að almenningur geti snúið sér til heilbrigðisnefndar ef talið er að starfsemin brjóti gegn lögum eða reglum sem um hana gilda.
8. gr. Umsókn um starfsleyfi.
Rekstraraðili starfsemi sem háð er starfsleyfi skal sækja um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar á því formi sem krafist er áður en starfsemi hefst. Skal rekstraraðili tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn og að henni fylgi þau gögn sem heilbrigðisnefnd telur nauðsynleg. Umsóknum skulu m.a. fylgja upplýsingar um rekstraraðila, lýsing á tegund starfseminnar, umfangi hennar, umfangi einstakra rekstrarþátta, fasteignanúmer fasteignar. og staðsetningu. Rekstraraðili skal sýna fram á að samþykki byggingarfulltrúa liggi fyrir og starfsemin standist skipulag.
9. gr. Útgáfa starfsleyfis.
Starfsleyfi skal gefið út á tiltekinn rekstraraðila. Allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skal vera í samræmi við skipulagslög og, eftir því sem við á, gildandi deiliskipulag eða aðalskipulag.
Í starfsleyfi skal lýsa í hverju starfsemin er fólgin, tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, m.a. færanlega starfsemi, tegund hennar, fastaeignanúmer, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengi, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni, sbr. 16. gr.
Í starfsleyfi má heimila að færanleg starfsemi tengist tímabundið fráveitu á staðnum enda sé fráveita til staðar sem hefur gilt starfsleyfi, eðli verkefnisins krefst þess og leyfi eiganda fráveitu liggur fyrir.
Heilbrigðisnefnd skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa á vefsíðu sinni hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Birting á vefsíðu heilbrigðisnefndar telst vera opinber birting. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur heilbrigðisnefndar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
Heilbrigðisnefnd skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna.
Heilbrigðisnefnd skal auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Starfsleyfi skal fylgja greinargerð þar sem farið er yfir málsmeðferðina og gerð grein fyrir afstöðu heilbrigðisnefndar til athugasemda sem bárust. Nefndin skal auk þess hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 8. gr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi, starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 7. gr., og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.
10. gr. Gildistími starfsleyfis.
Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist nefndinni.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi á gildistíma þess vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða ef breytingar verða á aðalskipulagi sveitarfélags.
11. gr. Breytingar á starfsemi.
Rekstraraðila ber að veita heilbrigðisnefnd upplýsingar með hæfilegum fyrirvara um fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem varða ákvæði starfsleyfis.
Sé fyrirhuguð breyting sem rekstraraðili áformar, sbr. 1. mgr., umtalsverð skal heilbrigðisnefnd endurskoða starfsleyfið. Nefndin metur upplýsingar frá rekstraraðila skv. 1. mgr. innan fjögurra vikna frá móttöku þeirra og tilkynnir rekstraraðila skriflega hvort nauðsynlegt sé að breyta eða gefa út nýtt starfsleyfi vegna breytinga á starfsemi. Þurfi að gefa út nýtt starfsleyfi ber umsækjanda að leggja fram nýja umsókn þess efnis til heilbrigðisnefndar. Í umsókn rekstraraðila skulu a.m.k. koma fram þær upplýsingar sem krafist er í 8. gr. eins og við á hverju sinni.
IV. KAFLI Skyldur rekstraraðila.
12. gr. Reglufylgni.
Rekstraraðilar og aðrir sem undir reglugerð þessa falla skulu tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar þessarar og annarra reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsskilyrði, starfsleyfisskilyrði ef við á og almennar kröfur. Auk framangreinds ber rekstraraðilum að fylgja ákvæðum annarra laga og reglugerða sem um viðkomandi starfsemi gilda og leiðbeiningum þar um að því er varðar hollustuhætti, svo sem byggingarreglugerðar, reglugerðar um hávaða, reglugerðar um neysluvatn, reglugerðar um fráveitur og skólp.
Starfsemi og athafnir sem falla undir reglugerð þessa skulu háð heilbrigðiseftirliti, sbr. X. kafla. Fylgja ber fyrirmælum heilbrigðisnefndar um atriði er varða hreinlæti, hollustuhætti og öryggisþætti.
Verði frávik frá þeim kröfum og skilyrðum sem um starfsemina gilda skal rekstraraðili upplýsa heilbrigðisnefnd tafarlaust um það og grípa tafarlaust til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að öllum kröfum vegna starfseminnar sé framfylgt eins fljótt og auðið er.
Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Umhverfisstofnunar, veitt undanþágu frá einstökum greinum reglugerðar þessarar. Óski rekstraraðili eftir slíkri undanþágu skal skriflegri beiðni beint til ráðherra þar sem tilgreina skal með skýrum hætti frá hvaða skilyrði óskað er eftir undanþágu og í hvaða grein það er að finna, umbeðinn gildistíma undanþágu og þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort aðstæður máls séu svo sérstakar að veita skuli undanþágu í umbeðnu tilviki. Veiti ráðherra undanþágu samkvæmt þessari grein skal heilbrigðisnefnd kveða á um hana í starfsleyfi, þar sem við á.
13. gr. Öryggisþættir.
Rekstraraðili ber ábyrgð á að tæki og búnaður sem tilheyrir starfseminni sé í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda og reglulega yfirfarinn samkvæmt þeim reglum og leiðbeiningum sem um viðkomandi tæki eða búnað gilda. Rekstri starfseminnar skal háttað á þann veg að heilsa og öryggi þeirra sem þjónustuna sækja sé sem best tryggð. Tryggja skal að starfsfólk hafi hlotið viðeigandi þjálfun og fylgja skal reglum um aldurstakmark viðskiptavina. Þar sem við á skal tryggja viðskiptavinum nauðsynlegan öryggisbúnað.
14. gr. Hreinlæti og smithætta.
Rekstraraðilum ber að gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku er varðar aðbúnað, farartæki og önnur tæki og búnað, húsnæði, lóðir og önnur svæði sem tilheyra viðkomandi rekstri.
Rekstraraðilar skulu gæta þess að starfsstöðvar verði ekki útbreiðslustaðir smitsjúkdóma. Ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm, hættu vegna eitrana eða annað sem getur ógnað öryggi meðal starfsfólks eða viðskiptavina skal þegar í stað tilkynna það heilbrigðisnefnd. Sé þess þörf skal heilbrigðisnefnd tilkynna sóttvarnalækni um slík tilfelli.
Starfsfólk sem starfar á stöðum sem reglugerð þessi tekur til skal stunda persónulegt hreinlæti og klæðast hreinum fatnaði við störf sín. Starfsfólk sem er við vinnu sína í beinni snertingu við notendur eða viðskiptavini má ekki stunda vinnuna séu þau haldin smitsjúkdómi með bráð einkenni, svo sem sótthita (> 38,5°C), mikinn hósta eða niðurgang.
Sé þvottur þveginn á staðnum skal það gert við aðstæður sem heilbrigðisnefnd samþykkir.
15. gr. Eyðing meindýra.
Þeir sem eyða meindýrum skulu að lokinni vinnu við útrýmingu á rottum eða veggjalús gera skýrslu um verkið og senda til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Þar skal koma fram hver er verkbeiðandi, um hvaða meindýr var að ræða, hver framkvæmdi verkið og hvenær, hvaða útrýmingarefni voru notuð til verksins og varúðarráðstafanir sem gripið var til í því skyni að vernda heilsu manna, dýra annarra en meindýra og umhverfið. Skýrslu skal skila innan þriggja virkra daga ef um er að ræða útrýmingu á veggjalús en innan mánaðar ef um er að ræða útrýmingu á rottum.
16. gr. Innra eftirlit.
Heilbrigðisnefnd getur gert kröfu um innra eftirlit í starfsleyfi atvinnureksturs og skal það taka mið af umfangi og eðli starfsemi. Um innra eftirlit í skráningarskyldri starfsemi fer samkvæmt starfsskilyrðum sem gilda um hlutaðeigandi starfsemi, sbr. reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Í innra eftirliti felst m.a. að:
- tilgreina áhættuþætti, fyrirbyggjandi aðgerðir og mikilvæga eftirlitsstaði, svo sem varðandi hitastig vatns á töppunarstað,
- viðhafa skriflegar hreinlætisáætlanir sem fela í sér umgengnisreglur og áætlanir eftir því sem við á, svo sem um meindýravarnir, viðhald loftræsikerfa, þrif og gerileyðingu,
- skilgreina viðeigandi þjálfun starfsfólks, tryggja að starfsfólk hafi hlotið hana og gera grein fyrir starfsréttindum þeirra,
- skrá óhöpp, slys og úrbætur, sem og frávik varðandi öryggisþætti,
- skrá viðhald tækja og búnaðar,
- gera skriflega áætlun um öryggi gesta og notenda, sem felur í sér almennt áhættumat og áætlun um forvarnir, sem hluta af innra eftirliti. Grípa skal til viðeigandi aðgerða í samræmi við niðurstöður áhættumatsins til þess að draga úr eða koma í veg fyrir aðstæður sem geta ógnað öryggi gesta og notenda.
Sé rekstraraðili með virkt innra eftirlit og gæðakerfi skal heilbrigðisnefnd taka tillit til þess við gerð áhættumats fyrir viðkomandi starfsemi, m.a. hvað varðar tíðni eftirlits.
17. gr. Húsnæði.
Húsnæði sem fjallað er um í reglugerð þessari skal vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.
Eigandi eða umráðamaður húsnæðis eða mannvirkis sem heyrir undir reglugerð þessa skal, m.a. við framkvæmdir, halda eigninni við og halda henni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð, girðingum og búnaði, þannig að valdi fólki ekki ónæði eða stefni heilsu þess í hættu. Leitast skal við að nota vistvæn efni og aðferðir við slíkar aðgerðir og þrif.
Húsnæði telst heilsuspillandi þegar ástand þess er á þann hátt að það hefur áhrif á flesta eða alla sem þar dvelja að jafnaði og er skaðlegt heilsu þeirra, t.d. vegna hita- eða rakaskemmda, hávaða, fráveitu, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi, eða vatni, gasleka, geislunar, meindýra, óþrifnaðar eða viðhaldsleysis. Heilbrigðisnefnd sker úr um hvort húsnæði sé ófullnægjandi eða heilsuspillandi samkvæmt þessari grein.
Húsnæði eftirlitsskyldrar starfsemi skal vera aðskilið frá óskyldri starfsemi eða íbúðarhúsnæði, nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglugerð þessari.
Húsnæði skal í samræmi við eðli starfseminnar fullnægja almennum skilyrðum um rými, birtu, upphitun og loftræsingu samkvæmt mati heilbrigðisnefndar. Hús og lagnir skulu vera meindýraheld og skólplögnum haldið við. Gólf, veggir, loft og húsbúnaður skal, eftir því sem við á, gerður úr eða klæddur efni sem auðvelt er að þrífa.
Vatnskerfi skal vera þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda. Vatnshiti við töppunarstað í handlaugum og böðum sem börn geta komist að skal ekki fara yfir 38°C á leikskólum og í daggæslu barna í heimahúsum. Á stofnunum þar sem viðkvæmir einstaklingar búa eða dvelja getur heilbrigðisnefnd gert kröfur um hitastýrð blöndunartæki á handlaugar, í steypiböðum og baðkerjum. Þar sem lítil notkun er á neysluvatnskerfum getur heilbrigðisnefnd gert kröfur um reglubundna skolun vatnslagna við tiltekið hitastig til að koma í veg fyrir vöxt örvera. Að öðru leyti skulu vatnslagnir og hitastig vatns uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar.
Aðgangur skal vera að neysluvatni í húsnæði sem ætlað er til búsetu eða dvalar og starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa, sbr. þó ákvæði 24. gr. um fjallaskála.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að gera kröfu um að í húsnæði sé gert ráð fyrir rými fyrir hjálpartæki og tiltekinn búnað þar sem þess er þörf.
Óheimilt er að haga viðhaldi og hreinsun húsa, húshluta, húsmuna, bifreiða, lausamuna og tækja þannig að leitt geti til óþarfa óþrifnaðar eða ónæðis fyrir aðra.
Öll hættuleg tæki og hættuleg efni, eins og ræstiefni, lyf, málningarvörur og hættuleg eða oddhvöss áhöld og tæki, skulu geymd á tryggan og öruggan hátt þar sem börn og óviðkomandi ná ekki til.
Við framkvæmd reglugerðar þessarar skal, eftir því sem við á, standa vörð um rétt einstaklinga til kynræns sjálfræðis og líkamlegrar friðhelgi.
18. gr. Lóðir og önnur opin svæði.
Ganga skal frá lóðum og girðingum þannig að fólki stafi ekki hætta af. Halda skal lóðinni hreinni, koma í veg fyrir óþarfa óþrifnað og tryggja að þeir sem þar dvelja eða leita þjónustu verði ekki fyrir óþægindum.
Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun, óþrifnaði eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Tilkynna skal lóðareiganda eða eiganda lausamunar um málið eftir því sem kostur er, til að stuðla að því að hlutaðeigandi hafi fengið vitneskju um málið og gefist færi á að bregðast við áður en hluturinn er fjarlægður, sbr. einnig reglugerð um meðhöndlun úrgangs.
19. gr. Snyrtingar.
Um gerð og fjölda salerna og handlauga í húsnæði eða á svæði sem fellur undir reglugerð þessa gilda ákvæði sem tiltekin eru í einstökum greinum. Að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar, m.a. hvað varðar fjölda snyrtinga.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að gera kröfu um viðeigandi fjölda salerna í starfsleyfi eftir umfangi starfsemi á stöðum þar sem almenningur sækir þjónustu eða viðburði.
Salernisrými skal vera loftræst og má ekki opnast beint út í aðstöðu þar sem matvæli eru meðhöndluð. Salerni skal aðgreint frá því rými þar sem fólk hefst við að jafnaði.
Handlaug með tilheyrandi hreinlætisbúnaði skal vera í nálægð við salerni. Þá skal vera salernispappír og ruslafata við hvert salerni.
Í skólum, samkomuhúsum, verslunarmiðstöðum, veitingastöðum og öðru húsnæði sem almenningur hefur aðgang að og þar sem fólk safnast saman skal vera aðstaða til að skipta á börnum sé um að ræða staði þar sem gert er ráð fyrir að komið sé inn með ungabörn.
Æskilegt er að snyrtingar séu aðstöðumerktar, t.d. með myndum af salerni, skiptiaðstöðu og þvagskálum, frekar en kynjamerktar. Þar sem snyrtingar kvenna og karla eru aðskildar skal einnig vera til staðar kynhlutlaus snyrting.
V. KAFLI Húsnæði sem ætlað er til búsetu eða dvalar o.fl.
20. gr. Staðsetning.
Sveitarstjórn skal við ákvörðun á staðsetningu íbúðasvæðis eða íbúðarhúsnæðis, frístundahúsabyggðar, gistihúsa, starfsmannabúða, starfsmannabústaða og annars sambærilegs húsnæðis taka tilliti til hugsanlegra umhverfisþátta og mengunar frá nærliggjandi starfsemi samkvæmt reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Sama á við um staðsetningu skóla, daggæslu dagforeldra, frístundaheimila og leikvalla. Þar sem kveðið er á um fjarlægðartakmörk í öðrum reglugerðum eða í skipulagi skal taka tillit til þeirra marka. Sveitarstjórn getur leitað umsagnar heilbrigðisnefndar um framangreinda þætti.
21. gr. Íbúðarhúsnæði.
Óheimilt er að leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi nema húsnæðið fullnægi almennum kröfum um íbúðarhúsnæði, sbr. 1. mgr. 17. gr. Hvorki má leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi ef heilsu manna er stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka, lýsingu, hávaða, skólps, meindýra, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi eða vatni, gasleka eða geislunar. Óheimilt er að leigja húsnæði til búsetu ef það er ekki ætlað til búsetu.
Almenningur getur leitað til heilbrigðisnefndar ef leiguhúsnæði og annað íbúðarhúsnæði er ekki talið fullnægjandi m.t.t. hollustuhátta eða ef húsnæði er álitið heilsuspillandi, sbr. 17. gr. Berist heilbrigðisnefnd tilkynning um leiguhúsnæði sem er ekki talið fullnægjandi m.t.t. hollustuhátta eða húsnæðið er álitið heilsuspillandi, skal jafnframt tilkynna leigusala um málið og honum boðið að vera viðstaddur þegar skoðun á húsnæði fer fram. Í framangreindum tilvikum getur heilbrigðisnefnd krafist úrbóta af hálfu eiganda húsnæðis innan ákveðins tímafrests. Hafi eigandi húsnæðis ekki gert viðeigandi úrbætur innan frests getur heilbrigðisnefnd bannað afnot af íbúðarhúsnæðinu. Stafi alvarleg hætta af notkun húsnæðisins þannig að aðgerðir þoli enga bið er heilbrigðisnefnd heimilt að banna notkun þess til bráðabirgða þegar í stað, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Við ákvörðun heilbrigðisnefndar skal sérstaklega tekið tillit til velferðar barna, sjúklinga og aldraðra.
22. gr. Starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir.
Um starfsmannabústaði og starfsmannabúðir gilda sömu reglur og um íbúðarhúsnæði eftir því sem við á.
Gólfflötur skal vera minnst 4 m² á hvern íbúa í svefnrými. Í hverju rúmi svefnrýmis skal vera dýna, a.m.k. 2 metrar á lengd og 90 cm breið. Lofthæð í starfsmannabúðum skal vera minnst 2,2 m. Þegar starfsmannabústaður eða starfsmannabúðir fyrir fimm eða fleiri skal að auki vera til staðar a.m.k. eitt 18 m² herbergi til tómstunda og félagsstarfa. Ekki skulu fleiri en 18 einstaklingar um hvert slíkt herbergi.
Íbúar skulu eiga greiðan aðgang að fullnægjandi búningsaðstöðu og fullbúinni baðaðstöðu. Þar skal vera a.m.k. einn baðklefi fyrir hverja tíu íbúa. Þar skal vera a.m.k. eitt salerni fyrir hverja tíu íbúa. Í starfsmannabústað skal, sé ekki um íbúð að ræða, handlaug vera í hverju herbergi ef ekki er sér snyrting þar. Þvottaaðstaða skal vera til staðar í starfsmannabústöðum.
Starfsmannabúðir má ekki setja niður svo nærri ám, vötnum eða sjávarströnd að flæðihætta stafi af eða svo nærri klettum og skriðum, að grjóthrun eða ofanflóðahætta sé fyrir hendi eða þar sem þær geta mengað ár, vötn eða sjávarstrendur. Fráveita skal vera í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp, eftir því sem við á.
23. gr. Gististaðir.
Um flokkun gististaða og tegundir fer samkvæmt reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Ávallt skal skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum búnaði ef við á, áður en nýjum gesti er vísað til gistiherbergis eða rúms.
Fullbúin baðaðstaða skal vera á staðnum ef hana er ekki að finna í gistiherbergi. Ekki skulu vera fleiri en tíu viðskiptavinir um fullbúna baðaðstöðu með búningsklefa.
Handlaug skal vera í herbergi, sé ekki fullbúin baðaðstaða eða fullbúin snyrting í gistiherbergi. Heilbrigðisnefnd getur þó, að fenginni beiðni frá hlutaðeigandi rekstraraðila, veitt rekstraraðila skriflegt leyfi til að hafa handlaug við herbergi þar sem sérstökum vandkvæðum er bundið að hafa hana í herberginu sjálfu svo sem vegna aldurs hússins eða hönnunar. Í leyfinu skal kveða á um gildistíma þess og þau skilyrði sem leyfið er háð. Kveða skal á um framangreint í starfsleyfi þar sem við á. Ekki er skylt að hafa handlaug í eða við gistiherbergi á minni gistiheimilum, þ.e. gististöðum með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út fimm eða færri herbergi eða einungis er rými fyrir tíu einstaklinga eða færri.
Séu gæludýr á heimili þar sem rekin er heimagisting, þ.e. gisting í flokki I samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, skal það koma fram í markaðssetningu og gestum tilkynnt það sérstaklega þegar bókað er.
Ákvæði þessarar greinar gilda jafnframt um leigu á annars konar gistiaðstöðu, svo sem í skipi, tjald- eða kúlugistingu, eftir því sem við á. Við staðsetningu og rekstur skal þess gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu, svo sem vegna umferðar, hávaða eða ólyktar. Enn fremur skal þess gætt að ónæði berist ekki frá svæðinu til nálægra íbúa.
24. gr. Fjallaskálar.
Um fjallaskála gilda ákvæði 23. gr. um gististaði þar sem við getur átt. Rekstraraðila er ekki skylt að sjá gestum fyrir rúmfötum.
Fjallaskálar skulu hafa viðunandi salernis- og snyrtiaðstöðu, sem samþykkt er af heilbrigðisnefnd.
Þar sem þannig hagar til að ekkert vatn er að hafa frá náttúrunnar hendi skal viðhafa sérstakar ráðstafanir til að forðast mengun. Þar sem yfirborðsvatn er leitt í krana skal merkja sérstaklega, að þar sé um að ræða yfirborðsvatn sem geti verið varhugavert til neyslu. Leiðbeiningar um notkun vatnsins til neyslu, t.d. að það þurfi að sjóða, skulu vera til staðar og vel sýnilegar gestum.
25. gr. Frístundahús sem ætluð eru til útleigu.
Við staðsetningu frístundahúsa skal þess sérstaklega gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu, svo sem vegna umferðar, hávaða og ólyktar.
Eldhús eða eldhúskrókur skal fylgja hverju húsi. Svefnrými skulu aldrei vera minni en 5 m² og lofthæð aldrei minni en 2,2 m.
Í frístundahúsum sem ætluð eru til útleigu skal vera fullbúin snyrting með baðaðstöðu eða aðgangur að sérstöku húsi með snyrtingu og baðaðstöðu.
26. gr. Gistiskýli.
Í gistiskýlum skal fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku gætt. Allur búnaður skal vera hreinn og heill. Rúm skal vera minnst 2 m að lengd og 90 cm breitt. Lýsing skal vera fullnægjandi. Ávallt skal skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum búnaði ef við á, áður en nýjum gesti er vísað til rúms.
Fullnægjandi baðaðstaða skal vera á staðnum ef ekki er snyrting með baðaðstöðu í gistiherbergi. Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en tíu gestir um baðaðstöðu með búningsklefa. Handlaug skal vera í herbergjum sé ekki sér snyrting í hverju herbergi. Ekki skulu vera fleiri en tíu gestir um fullbúna snyrtingu.
Þegar gistiskýli er fyrir fimm eða fleiri skal að auki vera til staðar a.m.k. eitt 18 m² herbergi til tómstunda og félagsstarfa. Ekki skulu fleiri en 18 gestir um hvert slíkt herbergi.
VI. KAFLI Heimili, stofnanir og leiksvæði fyrir börn.
27. gr. Almenn ákvæði.
Undir þennan kafla falla leiksvæði, þ.m.t. við fjöleignarhús með sameiginlegu svæði, og skólahúsnæði fyrir börn, daggæsla barna í heimahúsum, heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga, frístundaheimili, og önnur sambærileg svæði og stofnanir fyrir börn, og skal framangreint vera háð heilbrigðiseftirliti. Börn heimilisfólks 12 ára og yngri sem þar búa skulu talin með fjölda dvalarbarna.
Rekstraraðili skal tryggja öryggi og leitast við að koma í veg fyrir slys. Hann skal í innra eftirliti setja starfsreglur hvað varðar lóð, innréttingar og búnað eftir því sem við á.
Girða skal af lóð við leikskóla. Heimilt er að krefjast þess að lóð við grunnskóla og frístundaheimili sé girt af að öllu leyti eða hluta vegna slysahættu í umhverfinu.
Ræsting skal fara fram samkvæmt skriflegri hreinlætisáætlun og verklýsingu fyrir hvert vinnusvæði sem kveður á um hvað eigi að þrífa, hve oft og hvaða efni eigi að nota til þrifa. Leitast skal við að nota vistvæn efni og aðferðir við þrif.
Um öryggi leiksvæða gilda ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.
Um daggæslu barna í heimahúsum gilda enn fremur ákvæði reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum.
28. gr. Húsnæði og aðbúnaður.
Hljómburður og hljóðeinangrun skulu vera þannig að þeir sem dvelja í húsnæði og stofnunum sem falla undir þennan kafla hljóti ekki skaða af eða verði fyrir truflun af ólíkri starfsemi. Að öðru leyti gildir reglugerð um hávaða.
Rými á hvern nemanda í grunnskóla fer samkvæmt reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
Miða skal rými nemanda í skólum og barna í leikskólum við ákvæði í byggingarreglugerð. Meta skal þörfina eftir aldri barna. Aðstaða skal vera til tómstunda og innileikja.
Þar sem aðstaða er til íþróttaiðkunar skal vera fullnægjandi búningsaðstaða og fullbúin snyrting og baðaðstaða.
Þar sem við á skal vera aðstaða til að skipta á börnum.
Á heimilum og stofnunum þar sem börn sofa yfir nótt skulu ekki aðrar vistarverur en svefnherbergi eða svefnsalir notaðar til svefns. Í svefnsölum skal ætla hverju barni a.m.k. 4 m². Hvert barn skal hafa sér rúm sem hæfir aldri þess. Í rúmum skal vera dýna, sæng, koddi og rúmteppi. Rúmföt skulu vera til staðar og skulu þau vera heil og hrein og skipt um a.m.k. vikulega þegar um lengri dvalartíma er að ræða en tvær vikur.
Þegar um er að ræða sumarbúðir og skylda starfsemi þar sem dvalartími er tvær vikur eða skemmri tími má miða við minni gólfflöt á barn í svefnsal með kojum, þó aldrei minni en 2 m². Er þá einnig heimilt að hafa svefnpoka í rúmum, enda sé í rúmum dýna og lak.
Fullbúin snyrting og baðaðstaða skal vera til staðar á heimilum og stofnunum fyrir börn og hæfa aldri þeirra. Eitt bað skal vera til staðar fyrir tíu börn, þegar um er að ræða hóp barna í sumarbúðum eða sambærilega starfsemi.
Innanstokksmunir og leikföng skulu hæfa aldri barna. Leikföng skulu vera CE-merkt og þannig gerð og viðhaldið að þau skapi ekki hættu. Litir og föndurefni mega ekki innihalda skaðleg efni og skulu standast gildandi reglugerðir varðandi merkingar og innihald. Leikföng skulu þrifin reglulega.
29. gr. Skólahúsnæði fyrir börn.
Salerni og handlaugar skulu vera við hæfi barna eftir því sem við á.
Í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal vera aðstaða til aðhlynningar nemenda vegna skyndiveikinda. Skal þar vera að lágmarki legubekkur, stóll og handlaug. Þar sem heilsugæsla er starfrækt í skólum, skal hún fullnægja kröfum sem gerðar eru til lækningastofa.
Handlaug skal vera í kennslustofum í grunnskólum.
Á leikskólum skal vera handlaug ætluð fullorðnum og skolvaskur.
Sé mötuneyti starfrækt í skóla skal nemendum séð fyrir sérstakri aðstöðu til að matast. Í aðstöðu leik- og grunnskóla þar sem börn matast jafnframt skal vera greiður aðgangur að handlaug fyrir börn.
Um heimavist gilda almenn ákvæði um íbúðarhúsnæði og gististaði eftir því sem við á.
Skólahúsnæði, skólalóð og búnaður skal að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsumhverfi leikskóla og reglugerðar um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
VII. KAFLI Tjald- og hjólhýsasvæði og útihátíðir.
30. gr. Tjald- og hjólhýsasvæði.
Við staðsetningu og rekstur tjald- og hjólhýsasvæða fyrir ferðamenn skal þess gætt að ferðamenn og aðrir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu, svo sem vegna umferðar, hávaða og ólyktar. Enn fremur skal þess gætt að ónæði berist ekki frá svæðinu til nálægra íbúa.
Rekstraraðili svæðisins skal sjá um að það sé þrifið, að umgengni sé góð og öryggisgæsla sé nægjanleg.
Umgengnisreglur skulu vera til staðar og sýnilegar gestum og þeim sem nota viðkomandi þjónustu.
Á svæðinu skal vera aðstaða til uppþvotta og fullnægjandi aðstaða fyrir sorp.
Á svæðinu eða í námunda við það skal vera aðstaða til að tæma og hreinsa ferðasalerni. Rekstraraðili skal veita gestum upplýsingar um og vísa á aðstöðuna.
Fyrir 25 gesti skal vera ein fullbúin snyrting þar sem tekið er tillit til þarfa fólks með fötlun. Fyrir 26-50 gesti skulu vera tvö salerni og tekið tillit til þarfa fólks með fötlun a.m.k. varðandi annað salernið. Fyrir hverja 50 gesti umfram 50 skal vera eitt salerni. Þvagskálar geta komið að 1/3 hluta fyrir salerni þeirra sem geta nýtt þannig aðstöðu. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna.
Þess skal gætt við staðsetningu útisalerna að af þeim stafi ekki óheilnæmi, ólykt og óþrifnaður.
31. gr. Útihátíðir og mótssvæði.
Við staðsetningu og rekstur mótssvæða og útihátíða skal þess gætt að þeir sem þar dvelja verði ekki fyrir ónæði sem getur stafað frá umhverfinu, svo sem vegna umferðar, hávaða og ólyktar. Enn fremur skal þess gætt að ónæði berist ekki frá svæðinu til nálægra íbúa.
Rekstraraðili skal sjá til þess að öryggisgæsla sé nægjanleg. Rekstraraðili svæðisins skal sjá um að það sé þrifið, að umgengni sé góð og öryggisgæsla sé nægjanleg.
Umgengnisreglur skulu vera til staðar og sýnilegar gestum og þeim sem nota viðkomandi þjónustu.
Á mótssvæðum og útihátíðum skal fjöldi fullbúinna snyrtinga ekki vera færri en fjórar þar sem tekið er tillit til þarfa fólks með fötlun. Fyrir hverja 200 gesti umfram 200 skal vera eitt salerni til viðbótar. Þvagskálar geta komið að 1/3 hluta fyrir salerni þeirra sem geta nýtt þannig aðstöðu. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna. Salerni skulu eftir atvikum dreifð um útihátíðarsvæði.
VIII. KAFLI Önnur sérstök ákvæði fyrir tilteknar tegundir starfsemi.
32. gr. Starfsemi þar sem viðhafa skal sérstakt hreinlæti og smitgát.
Undir þessa grein fellur starfsemi þar sem starfsfólk, tæki, búnaður eða áhöld geta komist í snertingu við notendur eða viðskiptavini, svo sem snyrtistofur, nuddstofur, húðflúrsstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr. Greinin gildir einnig um heilbrigðisþjónustu þar sem gerðar eru aðgerðir, svo sem læknastofur og fótaaðgerðastofur, sjúkrahús, aðrar sjúkrastofnanir og önnur sambærileg starfsemi.
Húsnæði og búnaði stofnana og fyrirtækja samkvæmt þessari grein skal haldið hreinu og snyrtilegu og ítrasta hreinlætis gætt í samræmi við þá starfsemi sem um ræðir. Allsherjarhreingerning skal fara fram eftir þörfum en a.m.k. árlega.
Starfsfólk skal gæta ítrasta hreinlætis við störf sín og ávallt þvo hendur fyrir og eftir snertingar við viðskiptavin, meðferðir eða aðgerðir og hvers konar inngrip. Sama á við um meðhöndlun matvæla. Einnota hanskar skulu notaðir þar sem við á.
Ávallt skal hreinsa, sótthreinsa og dauðhreinsa tæki, áhöld og búnað eftir því sem við á með viðeigandi efnum og aðferðum. Nota skal einnota eða dauðhreinsaðan búnað, svo sem nálar, þar sem því verður við komið. Hrein og sótthreinsuð og/eða dauðhreinsuð áhöld og búnaður skal notaður fyrir hvern viðskiptavin. Margnota áhöld sem snerta eða fara í gegnum húð viðskiptavinar skulu dauðhreinsuð og pökkuð eða varin á viðurkenndan hátt. Skartgripir sem settir eru í nýgerð göt á húð skulu vera dauðhreinsaðir og lausir við skaðleg efni. Þar sem gerðar eru stungur á húð skal viðhafa sérstaka smitgát. Menguð áhöld skal sótthreinsa eftir notkun eins fljótt og auðið er. Úrgangi sem til fellur við framangreint skal farga í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
Dauðhreinsibúnað skal prófa með sporaprófum eða öðrum viðurkenndum aðferðum. Prófun skal fara fram eftir þörfum, þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Niðurstöður prófa skulu vera aðgengilegar eftirlitsaðila.
Nauðsynlegur búnaður og aðstaða, svo sem borð og skolvaskur, skal vera til staðar til þvotta og sótthreinsunar á áhöldum. Handklæði, ábreiður eða tauhlífar skal þvo og geyma í skápum eða ílátum. Þvott þar sem meðferðir og inngrip eru og hætta er á húðrofi eða að húð sé rofin skal þvo við 60° til 90°C. Ílát undir blandað sótthreinsiefni skal vera með þéttu loki og merkt á fullnægjandi hátt í samræmi við efnalöggjöf.
Í vinnurými skal vera sérstök handlaug með fljótandi handsápu, gerlaeyði og einnota handþurrkum eða sambærilegu. Heilbrigðisnefnd getur í starfsleyfi gert ítarlegri kröfur vegna smitgátar, svo sem um handfrjálsan búnað.
Aldrei skulu fleiri en 25 gestir vera um hverja snyrtingu. Baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini þar sem við á. Heilbrigðisnefnd getur í starfsleyfi gert ítarlegri kröfur vegna smitgátar, svo sem um aðstöðu til að skipta um föt.
33. gr. Snyrti-, sólbaðs- og nuddstofur.
Á snyrtistofum skal ætla a.m.k. 5 m² gólfrými fyrir hvern aðgerðarstól. Sérstakir vaskar skulu vera til staðar eftir eðli starfseminnar.
Á hársnyrtistofum skal vera sérstakur vaskur til hárþvotta og sérstakir vaskar til þvotta á áhöldum og blöndunar efna.
Á nuddstofu skal vera gott aðgengi að handlaug í eða við vinnurými.
Á sólbaðsstofum skulu sólbekkir og hlífðargleraugu þrifin eftir hverja notkun. Ljósabekkir og sólarlampar skulu þannig staðsettir og varðir að aðrir en þeir sem nota bekkina verði ekki fyrir geislun. Hlífðargleraugu skulu vera aðgengileg fyrir viðskiptavini og baðaðstaða skal vera á staðnum. Á sólbaðsstofum skal hengja upp á áberandi stað þær reglur sem gilda um notkun ljósabekkja og sólarlampa. Þar skal m.a. taka fram að einstaklingum yngri en 18 ára eru óheimil afnot af sólarlömpum í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum. Að öðru leyti skal fylgja kröfum Geislavarna ríkisins um ljósabekki og ljósaperur, svo og upplýsingum og aðvörunum embættis landlæknis til viðskiptavina.
34. gr. Húðflúrsstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
Undir þessa grein fellur starfsemi húðflúrsstofa og annarra stofa þar sem fram fer húðgötun og húðrof, þar á meðal nálastungustofur.
Sá sem stundar húðgötun, húðflúrun eða veitir meðferð með nálastungum skal hafa lokið hæfnisprófi á viðurkenndu námskeiði í beitingu smitgátar, hreinsun/sótthreinsun/dauðhreinsun búnaðar og öðru sem viðvíkur starfseminni eða hafa lokið námi á heilbrigðissviði, sem felur í sér fræðslu um smitgát og sóttvarnir. Rekstraraðili skal framvísa gögnum þess efnis að starfsfólk uppfylli skilyrði 1. ml.
Nota skal einnota nálar og hnífa. Æskilegt er að annar búnaður sé einnota þar sem því verður við komið. Sé notaður margnota búnaður skal hreinsa hann vandlega með þvotti og sótthreinsa og/eða dauðhreinsa milli notkunar og milli einstaklinga og viðhafa fyllstu smitgát.
Óheimilt er að flúra, gata húð eða beita nálastungum á einstakling undir 18 ára aldri, nema með skriflegu samþykki forráðamanns. Framvísa skal skilríkjum ef vafi leikur á um aldur. Óheimilt er að flúra, gata húð eða beita nálastungum á fólk sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Viðskiptavinir skulu fá munnlegar og skriflegar upplýsingar um aðgerðina, þ.e. húðflúr (eða fjarlægingu þess), húðgötun eða annað húðrof. Upplýsingarnar skulu m.a. fela í sér fræðslu um varanlega breytingu á húð, mögulega sýkingarhættu, eftirmeðferð á flúraða eða gataða húðsvæðinu og hugsanleg ofnæmisviðbrögð, m.a. af völdum nikkels.
Gæta skal ítrasta hreinlætis við starfið. Sá sem framkvæmir aðgerð skal þvo hendur sínar fyrir og eftir aðgerð. Hreinir einnota hanskar skulu notaðir við húðflúrun og húðgötun á meðan á verkinu stendur. Handlaug, sem eingöngu er notuð til handþvotta, skal vera til staðar í vinnurými.
Rekstraraðilar skulu hengja upp á áberandi stað þær reglur sem gilda um starfsemina.
35. gr. Sjúkrastofnun og stofur þar sem framkvæmdar eru aðgerðir.
Undir þessa grein fallasjúkrahús, heilsugæsla, skurðstofur utan sjúkrahúsa þar sem gerðar eru aðgerðir, svo sem tannlæknastofur, lækna- og meðferðastofur og fótaaðgerðastofur.
Tryggja skal gott aðgengi starfsfólks að handlaug í tengslum við hvers kyns heilbrigðisþjónustu. Á skurðstofum skal vera sérstök handþvottaaðstaða og einnig sérstakt aðskilið rými með viðeigandi búnaði til hreinsunar áhalda, svo sem áhaldaþvottavél og gufusæfi eftir aðstæðum og hægt að aðskilja hreint og óhreint.
Tæki og áhöld sem notuð eru í heilbrigðisþjónustu skal hreinsa vandlega með þvotti og sótthreinsa og/eða dauðhreinsa milli notkunar og milli einstaklinga og viðhafa fyllstu smitgát. Áhöld sem fara í gegnum húð skulu vera dauðhreinsuð.
Við hreinsun áhalda (þvott/sótthreinsun og dauðhreinsun) skal nota viðurkenndar aðferðir og tækjabúnað sem er yfirfarinn og gæðaprófaður reglulega með viðurkenndum aðferðum.
Pökkuð dauðhreinsuð áhöld skulu geymd fram að notkun í lokuðum umbúðum eða ílátum þar sem þau verða ekki fyrir utanaðkomandi óhreinindum eða hnjaski.
Rými sem ætluð eru til aðgerða skulu vel aðgreind og þannig útbúin að ekki verði smithætta eða sýkingarhætta frá öðru rými. Loftræsing skal vera í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis.
Í aðgerðarými fótaaðgerðastofa og annarra heilbrigðisstofa skal vera handlaug með viðeigandi búnaði og gott aðgengi að skolvaski.
Að öðru leyti skal fylgja reglum viðkomandi starfsemi um hreinlæti, smitgát og sóttvarnir, þar sem við á.
Gestir skulu hafa aðgengi að fullbúinni snyrtingu sem hönnuð eru á grundvelli algildrar hönnunar.
36. gr. Dvalarheimili og sambýli fyrir fullorðna.
Fullbúin baðaðstaða og fullbúin snyrting skal vera á staðnum sé hún ekki inn af hverju íbúðarherbergi. Skulu aldrei vera fleiri en tíu heimilismenn um baðaðstöðu með búningsklefa og fullbúna snyrtingu. Baðaðstaða skal standast kröfur til friðhelgi einkalífs. Handlaug skal vera í herbergi sé snyrting ekki inn af því.
37. gr. Fangelsi og fangagæsla.
Í skammtímagæslu skal stærð klefa vera minnst 5 m². Fangi skal hafa aðgang að svefnbekk, kodda, teppi og baðaðstöðu. Þrífa skal klefa eftir hverja notkun og sótthreinsa eftir þörfum. Greiður aðgangur skal vera að drykkjarvatni.
Í klefa sem notaður er við gæsluvarðhald og afplánun skal rúm vera minnst 2 m að lengd og 90 cm breitt og með rúmfatageymslu. Fangi skal hafa hrein sængurföt og teppi. Fataskápur, borð og stóll skulu vera í klefa. Í klefanum skal vera ruslafata og óbrjótanlegur spegill (álþynna). Fangi skal hafa aðgang að baðaðstöðu. Lýsing í klefa skal vera fullnægjandi. Jafnframt skal vera hægt að útiloka birtu frá gluggum.
Fangar í afplánun skulu hafa aðgang að sameiginlegu rými þar sem hægt er að neyta matar. Aldrei skulu fleiri en tíu fangar nota sömu snyrtingu.
38. gr. Íþróttamannvirki og íþróttavellir.
Undir þessa grein falla íþróttamannvirki þar sem fram fer skipulögð starfsemi, svo sem íþróttahús, íþróttamiðstöðvar og íþróttavellir.
Starfsfólk rekstraraðila sem falla undir þessa grein skulu hafa lágmarksþekkingu og hæfni í sóttvörnum, skyndihjálp og öryggisþáttum, sótt námskeið í skyndihjálp, hafa þekkingu á almennum sóttvörnum og og viðhalda færni sinni og þekkingu, m.a. með námskeiðum. Viðurkenndur sjúkra- og skyndihjálparbúnaður skal vera til staðar, sbr. reglur Vinnueftirlitsins um öryggi í íþróttahúsum.
Gestir skulu eiga greiðan aðgang að búningsherbergi með baðaðstöðu. Gestir skulu hafa greiðan aðgang að fullbúnum snyrtingum. Í nýjum íþróttamannvirkjum eða eftir meiri háttar breytingu á húsnæði íþróttamannvirkja skal vera til staðar sérklefi eða sérklefar og skal að lágmarki einn sérklefi uppfylla kröfur algildrar hönnunar. Undir meiri háttar breytingar falla m.a. nýbyggingar, viðbyggingar og umfangsmiklar breytingar á búningsaðstöðu eða öðrum sambærilegum rýmum, sem fellur ekki undir venjubundið viðhald húsnæðis.
Innanhússgervigrasvelli skal þrífa reglulega.
39. gr. Skipulögð afþreyingarstarfsemi.
Rekstraraðila í skipulagðri afþreyingarþjónustu ber að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til starfsemi skv. 13. gr. og eftir atvikum 16. gr.
Viðskiptavinir skulu hafa aðgang að salernisaðstöðu. Búnings- og baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini eftir því sem við á.
40. gr. Skemmti- og þemagarðar.
Rekstraraðilum skemmti- og þemagarða ber að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til starfsemi skv. 13. gr. og eftir atvikum 16. gr.
Rekstraraðilar sem flytja inn, framleiða, markaðssetja, veita aðgang að eða dreifa uppblásnum leiktækjum skulu tryggja að uppblásnu leiktækin uppfylli kröfur ÍST EN 14960-1: Uppblásanleg leiktæki - Hluti 1: Öryggiskröfur og prófunaraðferðir. (Inflatable play equipment - Part 1: Safety requirements and test methods).
41. gr. Almenningssamgöngutæki og samgöngumiðstöðvar.
Rými sem ætlað er farþegum í almenningssamgöngutækjum skal vera vel við haldið og hreint. Notkun almenningssamgöngutækja skal hagað á þann hátt að almenningur verði ekki að óþörfu fyrir ónæði frá þeim af völdum hávaði eða loftmengunar.
Um aðgang dýra að almenningssamgöngutækjum fer skv. 4. mgr. 43. gr.
Gestir samgöngumiðstöðva skulu hafa aðgang að fullbúinni snyrtingu.
IX. KAFLI Hundar, kettir og önnur dýr.
42. gr. Almennt.
Um gæludýrahald skal fara eftir samþykkt viðkomandi sveitarfélags. Setji sveitarfélag sér samþykkt um gæludýrahald skal í henni kveða á um ábyrgðartryggingar. Um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi fer samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús, sbr. og ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga.
Gæludýrahald skal ekki valda óþrifnaði, hávaða, ónæði eða smithættu fyrir íbúa.
Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum og spóluorma í köttum.
Varðandi ábyrgð og skyldur umráðamanna hunda og katta til að tryggja heilbrigði og velferð þeirra gilda ákvæði laga um velferð dýra og reglugerðar um velferð gæludýra.
Búfé má einungis hafa í húsum sem til þess eru ætluð.
43. gr. Aðgangur dýra að tilteknum svæðum, húsnæði og almenningssamgöngutækjum.
Óheimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum í eftirtalin rými eða svæði, nema að um það sé sérstaklega getið í þessari grein eða að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar, sbr. 4. mgr.:
- Sjúkrastofnanir, svo sem lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús, aðgerðastofur og húsnæði sjúkraþjálfara.
- Skóla og leikvelli.
- Fangelsi.
- Íþróttastöðvar, íþróttahús, sund- og baðstaði og heilsuræktarstöðvar.
- Snyrtistofur, nuddstofur, sólbaðsstofur og húðflúrsstofur.
- Samkomuhús, svo sem kirkjur, leikhús, tónleikasali, söfn og kvikmyndahús.
- Gististaði í flokki II, III og IV samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
- Mötuneyti.
- Sumarbúðir fyrir börn.
- Almenningssamgöngutæki.
Heimilt er þó að fara með dýr inn á staði sem eru sérstaklega ætlaðir dýrum, svo sem snyrtistofur og sjúkrastofnanir fyrir dýr.
Heimilt er fólki með fötlun að hafa með sér hjálparhunda á gististaði, veitingastaði, í skóla, á snyrtistofur og hársnyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþrótta- og baðstaði, fangelsi, verslunarmiðstöðvar, samkomuhús og í almenningssamgöngutæki, enda sé viðkomandi einstaklingi ótvíræð nauðsyn að hjálparhundi. Hundurinn skal merktur sem hjálparhundur.
Heimilt er eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða, svo sem matsölustaða og kaffihúsa, að leyfa að komið sé með hunda og ketti inn í veitingasali veitingastaða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Ætíð skal taka mið af hagsmunum gesta.
- Auglýsa skal á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu, sem og á vef hlutaðeigandi fyrirtækis, að heimilt sé að koma með hunda og ketti inn á staðinn.
- Tryggja skal að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd og skal farið að leiðbeiningum Matvælastofnunar um hunda og ketti á veitingastöðum.
- Mæting á viðkomandi stað skal vera valfrjáls og fólki ekki gert að sækja sér þangað þjónustu.
- Tilkynna skal um nýtingu þessarar heimildar til heilbrigðisnefndar með sannanlegum hætti.
- Fylgja skal ítarlegri skilyrðum sem heilbrigðisnefnd getur kveðið á um í starfsleyfi rekstraraðila, m.a. um mat á áhættu.
Eigendur eða rekstraraðilar veitingastaða sem ekki hafa sérstaklega leyft aðgang hunda og katta er heimilt að vísa frá viðskiptavinum með gæludýr.
Heilbrigðisnefnd getur, að fenginni beiðni frá hlutaðeigandi rekstraraðila, veitt rekstraraðila leyfi til að heimila aðgang hunda, katta og annarra dýra að tilteknum svæðum, húsnæði eða almenningssamgöngutækjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Heilbrigðisnefnd skal gefa út skriflegt leyfi þar um, þar sem kveðið er á um gildistíma leyfis og þau skilyrði sem leyfið er háð. Kveða skal á um framangreint í starfsleyfi þar sem við á. Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu og þau lágmarksskilyrði sem heilbrigðisnefnd skal setja fyrir veitingu þess.
Ákvæði þessara greinar eiga ekki við um heimili fólks, svo sem dvalarheimili eða sambýli. Þar er heimilt að halda gæludýr eftir því sem rekstraraðilar ákveða og í samræmi við ákvæði í samþykktum hlutaeigandi sveitarfélaga.
X. KAFLI Heilbrigðiseftirlit.
44. gr. Eftirlitshlutverk heilbrigðisnefndar.
Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar þessarar og annarra reglugerða settra á grundvelli laganna, auk ákvæða annarra laga eða reglna sem heilbrigðisnefnd er falið að annast um framkvæmd á að því er varðar hollustuhætti.
Heilbrigðisnefnd skal hafa eftirlit með atvinnurekstri, annarri starfsemi og framkvæmdum auk athafna einstaklinga eftir því sem við á, og tryggja að skilyrðum samkvæmt lögum, reglugerðum, ákvæðum starfsleyfis, starfsskilyrðum og almennum kröfum að því er varðar hollustuhætti sé fullnægt, sbr. viðauka. Heilbrigðisnefnd gerir áætlanir um eftirlit eftirlitsskyldra aðila á grundvelli eftirlitsáætlana Umhverfisstofnunar og í samræmi við áhættumat um hollustuhætti.
Heilbrigðisnefnd getur haft eftirlit með starfsemi og athöfnum sem eru hvorki starfsleyfis- né skráningarskyldar í því skyni að kanna hvort starfsemin eða athafnirnar séu í samræmi við reglugerð þessa, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Heilbrigðisfulltrúi annast eftirlit í umboði heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefnd getur falið framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits eða tilteknum heilbrigðisfulltrúum afgreiðslu einstakra mála í tilteknum málaflokkum sem undir heilbrigðisnefnd heyra.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að fela faggiltum skoðunaraðilum tiltekna þætti heilbrigðiseftirlitsins með sérstökum samningi skv. 4. mgr. 5. gr. Umsókn skoðunaraðila varðandi eftirlit með þeim þáttum sem Umhverfisstofnun hefur skilgreint að henti að heilbrigðisnefnd feli faggiltum skoðunaraðilum skal afgreidd innan tveggja mánaða frá móttöku. Heilbrigðisnefnd er heimilt að semja við Vinnueftirlitið um að það taki að sér hollustuháttaeftirlit með starfsmannabúðum.
Heimild til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar við framsal eftirlits og annað sem varðar valdsvið og þvingunarúrræði er þó eingöngu í höndum heilbrigðisnefndar.
45. gr. Reglubundið eftirlit.
Eftirlit með starfsleyfisskyldum atvinnurekstri og skráningarskyldum atvinnurekstri, sbr. viðauka, skal vera reglubundið. Heilbrigðisnefnd gerir reglulega áætlanir um reglubundið eftirlit á grundvelli eftirlitsáætlana Umhverfisstofnunar þar sem m.a. skal kveða á um tíðni vettvangsheimsókna fyrir mismunandi starfsemi. Tímabilið milli tveggja vettvangsheimsókna skal byggjast á niðurstöðum áhættumats fyrir viðkomandi starfsemi.
Eftirlitsaðila er heimilt að fjölga tímabundið eftirlitsferðum ef nauðsyn krefur, t.d. þegar nýr búnaður hefur verið tekinn í notkun eða vegna kvartana. Heimilt er að hækka eftirlitsgjald sem því nemur.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að draga úr reglubundnu eftirliti með atvinnurekstri sem er með innra eftirlit með ákveðnum eftirlitsþáttum og heilbrigðisnefnd hefur samþykkt. Hafi starfsemi verið starfrækt samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfis eða starfsleyfisskilyrða og séu hollustuhættir fullnægjandi er heilbrigðisnefnd heimilt að draga úr reglubundnu eftirliti og lækkar þá eftirlitsgjald sem því nemur.
46. gr. Óreglubundið eftirlit.
Óreglubundið eftirlit, t.d. fyrirvaralaust eða stikkprufu eftirlit, skal fara fram þegar aðstæður krefjast, svo sem vegna eftirfylgni, kvartana, óhappa, slysa, starfsemi utan hefðbundinna starfsstöðva, óreglulegrar starfsemi, rekstrar og athafna sem ekki eru starfsleyfis- eða skráningarskyld og þegar ástæða er til eftirlits með takmörkuðum þáttum starfseminnar.
47. gr. Umfang eftirlits.
Heilbrigðiseftirlit nær m.a. til skoðunar á húsnæði, lóð, búnaði og umhverfi, töku sýna og skoðunar á skráðu og skjalfestu efni. Þá nær heilbrigðiseftirlit til eftirlits með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfis- eða skráningarskyldri hollustuháttastarfsemi, fræðslu, samráðs stofnana, úrvinnslu gagna, öryggisþátta og sóttvarna.
48. gr. Framkvæmd eftirlits.
Eftirlitsaðila er heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem reglugerð þessi, aðrar reglugerðir eins og við á hverju sinni og samþykktir sveitarfélaga ná yfir og er eftirlitsaðila heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Eftirlit skal framkvæmt í viðurvist fulltrúa rekstraraðila þar sem við á, nema aðstæður krefjist annars.
Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að aðstoða eftirlitsaðila eins og nauðsyn krefur, m.a. að veita eða afla allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits og afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits endurgjaldslaust.
Eftir hverja vettvangsheimsókn skal eftirlitsaðili skrá skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og skiptir máli varðandi það hvort starfsemi sé í samræmi við lög, reglur og starfsleyfisskilyrði eða starfsskilyrði þar sem við á og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir eru nauðsynlegar. Skýrslan skal gerð aðgengileg á vefsvæði heilbrigðisnefndar eftir að rekstraraðili hefur fengið tækifæri til að koma að athugasemdum og brugðist hefur verið við þeim. Athugasemdirnar skulu eftir atvikum birtar með skýrslunni.
49. gr. Skrá um eftirlitsskylda starfsemi.
Heilbrigðisnefnd ber að halda skrá um eftirlitsskylda starfsemi og skal a.m.k. skrá eftirtalin atriði:
- Þau starfsleyfi sem í gildi eru og þá starfsemi sem háð er skráningarskyldu og eftirlitsaðili hefur eftirlit með,
- staðsetningu starfsstöðvar,
- fasteignanúmer og merkingu (undirnúmer) starfsstöðvar ef við á,
- nafn, lögheimili og kennitölu rekstraraðila,
- niðurstöður einstakra þátta eftirlits,
- til hvaða úrræða hefur verið gripið ef ekki hefur verið farið að ákvæðum laga og reglugerða eða skilyrðum skráninga og starfsleyfa,
- kvartanir sem borist hafa vegna viðkomandi starfsemi og
- önnur skyld atriði.
Heilbrigðisnefnd skal fyrir 1. mars ár hvert skila til Umhverfisstofnunar yfirliti yfir framkvæmd og niðurstöður eftirlits á því formi sem stofnunin óskar eftir.
50. gr. Frávik.
Telji heilbrigðisnefnd að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða, starfsleyfa eða starfsskilyrða sem um viðkomandi starfsemi gilda skal hún krefja rekstraraðila um úrbætur sem heilbrigðisnefnd telur nauðsynlegar og fullnægjandi.
Heilbrigðisnefnd skal upplýsa Umhverfisstofnun um frávik þar sem til álita kemur að beita stjórnvaldssektum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
51. gr. Þagnarskylda.
Þeir sem starfa samkvæmt reglugerð þessari af hálfu heilbrigðisnefnda eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
Upplýsingar og tilkynningar heilbrigðisnefnda til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
XI. KAFLI Ýmis ákvæði.
52. gr.
Um gjaldtöku fyrir skráningu, starfsleyfi og eftirlit sem og um málsmeðferð og úrskurði, valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
53. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna.
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 34. gr. þurfa þeir sem starfa við húðrof ekki að framvísa skírteini þess efnis að hafa staðist hæfnispróf fyrr en eftir eitt ár frá gildistöku reglugerðar þessara, eftir því sem við á.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 11. júlí 2024.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Magnús Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.