Fara beint í efnið

Prentað þann 22. jan. 2022

Stofnreglugerð

935/2011

Reglugerð um stjórn vatnamála.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um hlutverk stjórnvalda vatnamála og annarra aðila er koma að stjórn vatnamála og skiptingu vatnaumdæmisins í vatnasvæði.

2. gr. Yfirstjórn og ábyrgð.

Landið er allt eitt vatnaumdæmi ásamt árósum og strandsjó.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.

Umhverfisstofnun annast stjórnsýslu á sviði vatnsverndar, sbr. 7. gr. laga um stjórn vatnamála og ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

3. gr. Vatnaráð.

Umhverfisráðherra skipar vatnaráð til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði 5. gr. laga um stjórn vatnamála.

Hlutverk vatnaráðs er að vera ráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála.

Vatnaráð:

 1. hefur umsjón með gerð tillögu að vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun og tekur afstöðu til tillagna áður en áætlanirnar fara í opinbera kynningu í samræmi við 27. gr. laga um stjórn vatnamála. Vatnaráð skal skila skriflegri umsögn til Umhverfisstofnunar innan þess frests sem stofnunin tilgreinir,
 2. gerir tillögu til ráðherra um staðfestingu vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar og endurskoðun þeirra þegar við á, að fenginni tillögu Umhverfisstofnunar,
 3. veitir umsögn um reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga um stjórn vatnamála,
 4. fylgist með og skilar skýrslu til ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig markmiðum laga um stjórn vatnamála er náð og metur þann kostnað sem af framkvæmd laganna hlýst fyrir ríki og sveitarfélög og setur fram ábendingar um kostnaðinn eftir því sem þörf krefur. Ráðið skal skila framangreindri skýrslu eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Vatnaráð skal funda eftir því sem ástæða þykir til, en þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

Umhverfisstofnun annast daglegan rekstur og umsýslu vatnaráðs og er ráðinu til ráðgjafar. Umhverfisstofnun leggur ráðinu til aðstöðu og starfsmann sem sér m.a. um fundarboðun og fundarritun.

4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Hlutverk Umhverfisstofnunar er að:

 1. samræma vinnu við gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar,
 2. tryggja samráð og samstarf hlutaðeigandi stofnana,
 3. leggja til gögn sem stofnunin hefur í sinni umsjá og nýtast við stjórn vatnamála,
 4. tryggja miðlun upplýsinga um vatnasvæðin,
 5. setja fram tillögur um umhverfismarkmið fyrir gerðir vatnshlota,
 6. sjá um að fram fari efnahagsleg greining vegna vatnsnotkunar,
 7. vinna tillögur um vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög að höfðu samráði við vatnasvæðisnefndir og ráðgjafarnefndir,
 8. vinna stöðuskýrslu,
 9. hafa umsjón með framkvæmd aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar,
 10. hafa umsjón með kynningar- og umsagnarferli áætlana,
 11. hafa umsjón með skýrslugjöf, m.a. vegna miðlunar upplýsinga í samevrópskan vatnagagnagrunn,
 12. sjá um gerð fræðsluefnis og gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur.

Umhverfisstofnun gerir eftir því sem við á samninga við viðeigandi stofnanir, sbr. 9. gr., um einstök verk við framkvæmd laga um stjórn vatnamála og reglugerða settra með stoð í þeim og samninga um að leggja fram gögn og sérfræðiþekkingu vegna framkvæmda laga um stjórn vatnamála, sbr. 8. gr. Umhverfisstofnun getur einnig gert sambærilega samninga við aðra.

Umhverfisstofnun skal vinna að vatnaáætlun og endurskoðun hennar með hliðsjón af áætlunum opinberra aðila og helstu hagsmunaaðila, svo sem á sviði náttúruverndar, orkunýtingar, samgangna, vatnsveitna, fráveitna og skipulagsmála. Vatnaáætlun skal lögð fram til kynningar einu ári áður en hún tekur gildi. Vatnaáætlun skal kynna í samræmi við lög um umhverfismat áætlana.

Umhverfisstofnun sendir staðfesta vatnaáætlun til viðkomandi sveitarfélaga og þeirra stjórnvalda sem áætlunin varðar. Jafnframt skal stofnunin auglýsa opinberlega vatnaáætlun sem hlotið hefur staðfestingu og hafa hana aðgengilega á vefsetri Umhverfisstofnunar.

5. gr. Hlutverk sveitarfélaga.

Sveitarfélög og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru Umhverfisstofnun til aðstoðar við undirbúning tillögu að vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun og endurskoðun þeirra. Sveitarfélög skulu, í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og innan marka netlaga, framfylgja kröfum sem fram koma í aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun í samræmi við ákvæði laga um stjórn vatnamála og reglugerða á sviði vatnsverndar.

6. gr. Vatnasvæðanefndir.

Á hverju vatnasvæði skal starfa vatnasvæðanefnd. Umhverfisstofnun skipar fulltrúa í vatnasvæðanefnd ásamt varamönnum og skal óska eftir tilnefningum í hana frá sveitarfélögum, heilbrigðisnefndum á viðkomandi vatnasvæði og ráðgjafarnefndum.

Í nefndina er heimilt að skipa fulltrúa allra sveitarfélaga á viðkomandi vatnasvæði. Sveitarfélögum á hverju vatnasvæði er heimilt að koma sér saman um að tilnefna einn eða fleiri sameiginlega fulltrúa í vatnasvæðanefnd. Þá skal skipa í nefndina einn fulltrúa frá hverri heilbrigðisnefnd sveitarfélaga á svæðinu, einn fulltrúa frá náttúruverndarnefnd/umhverfisnefnd ef slíkar nefndir starfa á svæðinu og einn fulltrúa frá Umhverfisstofnun sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Í vatnasvæðanefnd skal einnig vera einn fulltrúi frá ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila og einn fulltrúi frá ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila. Fulltrúar ráðgjafarnefnda skulu hafa sérstaka þekkingu á viðkomandi vatnasvæði. Heimilt er að kalla aðra fulltrúa í ráðgjafarnefndum á fundi vatnasvæðanefnda eftir atvikum. Tilnefningaraðilar bera kostnað af setu fulltrúa sinna í nefndinni.

Hlutverk vatnasvæðanefndar er að samræma vinnu við gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar og stöðuskýrslu á viðkomandi vatnasvæði og afla þar upplýsinga vegna gerðar stöðuskýrslu, vöktunaráætlunar, aðgerðaáætlunar og vatnaáætlunar fyrir viðkomandi vatnasvæði. Vatnasvæðanefnd skal vera rannsóknastofnunum til ráðgjafar vegna verkefna sem þeim eru falin í samningum við Umhverfisstofnun um málefni sem snerta viðkomandi vatnasvæði. Heimilt er að stofna stýrihóp innan hverrar vatnasvæðanefndar til að samræma framkvæmd vinnunnar.

Formaður boðar til funda í vatnasvæðanefndum eftir þörfum og eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

7. gr. Ráðgjafarnefndir.

Umhverfisráðherra skipar fulltrúa í tvær ráðgjafarnefndir á landsvísu til að starfa með Umhverfisstofnun, annars vegar ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila og hins vegar ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila, að fengnum tilnefningum aðila sem eru tilgreindir í 3. og 4. mgr.

Umhverfisstofnun skal hafa náið samráð við ráðgjafarnefndirnar og leggur til starfsmann sem hefur umsjón með starfi nefndanna.

Í ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skulu m.a. eiga sæti fulltrúar frá Orkustofnun, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun, Veiðimálastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Siglingastofnun Íslands, Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Matvælastofnun, Mannvirkjastofnun, Landmælingum Íslands, Skógrækt ríkisins, Vegagerðinni, Landbúnaðarháskóla Íslands, Íslenskum orkurannsóknum, náttúrustofum og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skal leggja fram nauðsynleg gögn vegna vinnu við gerð áætlana samkvæmt lögum um stjórn vatnamála og upplýsingar um hvaða gögn liggja fyrir. Fulltrúar í ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila skulu vera til ráðgjafar um þau málefni sem samtök þeirra helga sig.

Í ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila skulu m.a. eiga sæti fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökum Íslands, Samorku, Landssambandi smábátaeigenda, samtökum veiðiréttarhafa, samtökum veiðifélaga, samtökum útivistarfélaga, hafnarsambanda, fuglaverndarfélögum, félögum um vernd hálendisins, náttúru- og umhverfisverndarsamtökum og skógræktar- og landgræðslufélögum.

Fulltrúar í ráðgjafarnefndum velja sér formann og varaformann úr sínum hópi til tveggja ára í senn. Ráðgjafarnefndum er heimilt að stofna stýrihópa til að tryggja framkvæmd starfs nefndanna. Þá er nefndunum heimilt að stofna vinnuhópa um ákveðin verkefni, svo sem vegna flokkunar vatns, álagsgreiningar, gerðar vöktunaráætlunar eða skýrslugjafar.

Hlutverk ráðgjafarnefnda er að vera Umhverfisstofnun og vatnaráði til ráðgjafar um atriði samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Tilnefningaraðilar bera kostnað af setu fulltrúa sinna í viðkomandi ráðgjafarnefnd.

Formaður boðar fundi í ráðgjafarnefndum eftir þörfum og ekki sjaldnar en einu sinni á ári.

8. gr. Rannsóknastofnanir.

Verkefni eftirfarandi rannsóknastofnana við framkvæmd laga um stjórn vatnamála er sem hér segir:

 1. Veðurstofa Íslands leggur til miðlægt upplýsingakerfi um vatnshlot, eiginleika þeirra, ástand og hefur umsjón með þeim og leggur til sérfræðiþekkingu sína á því sviði. Hún skal meta magnstöðu grunnvatnshlota og leggur til gögn og sérfræðiþekkingu um vatnsformfræðilega og eðlisefnafræðilega þætti ferskvatnshlota og hefur samræmingarhlutverk á því sviði;
 2. Veiðimálastofnun leggur til gögn um lífríki og hefur samræmingarhlutverk á því sviði. Hún skal einnig leggja til gögn um vatnsformfræðilega og eðlisefnafræðilega þætti vatnshlota, þ.m.t. árósa og sjávarlóna, í umsjón hennar ásamt sérfræðiþekkingu sinni;
 3. Hafrannsóknastofnunin leggur til gögn um lífríki og um vatnsformfræðilega og eðlisefnafræðilega þætti strandsjávar í umsjón hennar ásamt sérfræðiþekkingu sinni og hefur samræmingarhlutverk á því sviði;
 4. Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til gögn um vistkerfi þurrlendis og votlendis sem tengjast vatnabúskap yfirborðs- og grunnvatnshlota og eru í umsjón hennar ásamt sérfræðiþekkingu sinni og hefur samræmingarhlutverk á því sviði.

Framangreind gögn eru ætluð til notkunar fyrir opinbera aðila, almenning og Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun er heimilt að miðla gögnum áfram í viðeigandi miðlægt upplýsingakerfi. Ennfremur skulu gögnin vera aðgengileg fyrir vatnaráð við mat á kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög.

Stofnanir samkvæmt þessari grein skulu, eftir því sem við á, leita til annarra aðila, svo sem heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, til að afla gagna. Um nánari tilhögun þessa samstarfs fer eftir samningum sem Umhverfisstofnun gerir við framantaldar stofnanir.

9. gr. Samningar við rannsóknastofnanir.

Í samningum við rannsóknastofnanir og aðra, sbr. 8. gr., skulu vera skýr ákvæði um markmið og umfang verkefnis, skyldu til samstarfs við aðra aðila, verkskil, eignarhald gagna og nýtingu þeirra, greiðsluáætlun, verk- og tímaáætlun með áfangaskilum, eftirlit með framvindu verksins, reglulega verkfundi og upplýsingaskyldu um fyrirsjáanlegar tafir eða aðrar mögulegar vanefndir. Í samningunum skulu einnig vera ákvæði um úrræði Umhverfisstofnunar vegna vanefnda á samningi.

10. gr. Vatnasvæði.

Vatnaumdæmið skiptist í fjögur vatnasvæði, sbr. viðauka með reglugerð þessari.

Vatnsvæði skv. 1. mgr. eru eftirfarandi:

 1. Vatnasvæði 1: Vestfirðir og Norðurland vestra.
 2. Vatnasvæði 2: Norðurland eystra og Austurland.
 3. Vatnasvæði 3: Suðurland.
 4. Vatnasvæði 4: Suðvesturland.

11. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. og g., h. og i. liði 29. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og að fenginni umsögn vatnaráðs, sbr. c. lið 1. mgr. 6. gr. laganna.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Vatnaráð skal skila fyrstu skýrslu til ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga samkvæmt d-lið 3. mgr. 3. gr. eigi síðar en 30. júní 2014.

Umhverfisráðuneytinu, 28. september 2011.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.