Prentað þann 5. des. 2025
932/2025
Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um heimilisuppbót og uppbætur vegna kostnaðar skv. 8. og 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
2. gr. Umsóknir og afgreiðsla þeirra.
Sækja skal um uppbætur samkvæmt reglugerð þessari hjá Tryggingastofnun og skulu umsóknir vera á eyðublöðum stofnunarinnar eða rafrænum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
Um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fer skv. IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð.
3. gr. Endurreikningur og uppgjör uppbóta.
Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna fjárhæðir uppbóta samkvæmt reglugerð þessari á grundvelli þeirra upplýsinga, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar.
II. KAFLI Heimilisuppbót.
4. gr. Fjárhagslegt hagræði.
Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:
- Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði.
- Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
- Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.
Ef heimilismaður er á aldrinum 18-25 ára og í námi eða starfsþjálfun skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann.
Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að greiða heimilisuppbót þegar um er að ræða sambýli fatlaðs fólks í sértækum húsnæðisúrræðum skv. b-lið 2. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og sambýli einstaklinga á áfangaheimilum, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.
5. gr. Makar heimilismanna.
Nú dvelst maki elli-, örorku- eða hlutaörorkulífeyrisþega til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er þá heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu uppbóta.
III. KAFLI Uppbætur vegna kostnaðar.
6. gr. Hámark uppbóta.
Grunnupphæð uppbóta er 65.730 kr.
Hámark uppbótar skal vera sem hér segir:
- 90% af grunnupphæð til þeirra ellilífeyrisþega eða einstaklinga sem fá greiðslur skv. IV. kafla laga um almannatryggingar sem eru í hjúskap eða óvígðri sambúð.
- 70% af grunnupphæð til þeirra ellilífeyrisþega eða einstaklinga sem fá greiðslur skv. IV. kafla laga um almannatryggingar sem fá greidda heimilisuppbót.
- 120% af grunnupphæð til þeirra ellilífeyrisþega eða einstaklinga sem fá greiðslur skv. IV. kafla laga um almannatryggingar sem eru einhleypir og njóta umönnunar.
- 80% af lífeyri til þeirra lífeyrisþega sem greiða dvalarkostnað á sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi
Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að greiða einhleypum ellilífeyrisþega eða einstaklingi sem fær greiðslur skv. IV. kafla laga um almannatryggingar, sem nýtur umönnunar og getur sýnt fram á verulegan kostnað skv. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, allt að 140% uppbót á greiðslur sínar.
Heimilt er að greiða ellilífeyrisþega eða einstaklingi sem fær greiðslur skv. IV. kafla laga um almannatryggingar, sem nýtur uppbótar vegna sjúkra- eða lyfjakostnaðar eða kostnaðar vegna kaupa á heyrnartæki, sem sjúkratryggingar greiða ekki eða húsaleigukostnaðar, sem fellur utan húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings, allt að 50% uppbót á greiðslur sínar.
7. gr. Tekju- og eignamörk.
Uppbætur vegna kostnaðar skulu aldrei greiddar til einstaklings sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr.
Uppbætur vegna kostnaðar skulu aldrei greiddar til einstaklings sem hefur heildartekjur yfir 3.924.048 kr. á ári.
8. gr. Endurskoðun réttinda.
Ákvarðanir um greiðslu uppbóta vegna kostnaðar skulu að jafnaði vera tímabundnar. Tryggingastofnun skal endurskoða reglulega hvort skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt og fjárhæðir greiðslna. Séu gögn ekki tiltæk er heimilt að fara þess á leit við greiðsluþega að hann skili gögnum til staðfestingar því að skilyrði til áframhaldandi greiðslu uppbótar séu fyrir hendi.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 6. mgr. 9. gr., sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og 63. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, öðlast gildi 1. september 2025. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir 7. gr. er Tryggingstofnun heimilt að greiða uppbætur vegna kostnaðar til einstaklings sem fær greiðslu skv. 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lög um almannatryggingar, hafi viðkomandi einstaklingur notið slíkra uppbóta fyrir 1. september 2025.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, 28. ágúst 2025.
Inga Sæland.
Bjarnheiður Gautadóttir.
B deild - Útgáfudagur: 29. ágúst 2025
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.