Prentað þann 22. nóv. 2024
931/2021
Reglugerð um breytingu á reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 1277/2016.
1. gr.
2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
2. gr.
5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
5. gr.
Búnaður gististaða.
Húsnæði og búnaður gististaða skal vera í samræmi við kröfur í starfsleyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi svæði og skal jafnframt fullnægja kröfum laga og reglugerða á sviði hollustuhátta, byggingarmála, brunamála og um atvinnuhúsnæði. Starfsemi heimagistingar og minna gistiheimilis telst almennt falla í notkunarflokk 3 samkvæmt byggingarreglugerð.
Á gististöðum skal gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku. Allur búnaður skal vera hreinn og heill.
Ávallt skal þrífa og skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum hreinlætisbúnaði áður en nýjum viðskiptavini er vísað til gistirýmis. Ef þvottur er þveginn á staðnum skal það gert við aðstæður sem heilbrigðisnefnd samþykkir.
Stærð rúma skal vera a.m.k. 2,00 x 0,90 m fyrir einn, en að minnsta kosti 2,00 x 1,40 m fyrir tvo og skal vera sæng og koddi fyrir hvern gest.
Ákvæði 3.-4. mgr. gilda ekki um fjallaskála.
3. gr.
7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
7. gr.
Hótel.
Á hóteli skal gestamóttaka vera aðgengileg allan sólarhringinn og næturvarsla til staðar.
Fullbúin snyrting með baðkeri eða sturtu ásamt salerni og handlaug skal vera með hverju herbergi.
Snyrting skal vera vel loftræst.
4. gr.
8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
8. gr.
Stærra gistiheimili.
Á stærri gistiheimilum skal vera næturvarsla eða aðgengi að síma og skal neyðarnúmer þá birt á áberandi stað.
Handlaug skal vera í hverju herbergi. Fyrir hverja 10 gesti skal vera a.m.k. ein fullbúin snyrting og fullkomin baðaðstaða sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.
5. gr.
9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
9. gr.
Minna gistiheimili.
Á minni gistiheimilum er ekki gerð krafa um næturvörslu.
Fyrir hverja 10 gesti skal vera a.m.k. ein fullbúin snyrting og fullkomin baðaðstaða sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.
Eldvarnir skulu taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.
6. gr.
12. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
12. gr.
Íbúðir.
Íbúðargisting er leiga á stakri íbúð til ferðamanna.
Eldvarnir skulu taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.
Innan íbúðar skal vera a.m.k. ein fullbúin snyrting og fullkomin baðaðstaða sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.
7. gr.
24. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
24. gr.
Umsókn um leyfi.
Umsókn skal send leyfisveitanda í því umdæmi sem starfsemi eða skemmtun er fyrirhuguð. Umsókn vegna sölu veitinga um borð í skipi skal send leyfisveitanda í umdæmi heimahafnar skips.
Umsókn skal vera á sérstöku eyðublaði eða á miðlægri leyfisveitingagátt. Jafnan skal skila umsókn rafrænt og jafnframt heimila leyfisveitanda að afla nauðsynlegra gagna sem fylgja þurfa umsókn rafrænt eftir því sem slíkt er mögulegt.
Í umsókn skal tilgreina fastanúmer og skráð heiti þeirrar fasteignar þar sem fyrirhuguð starfsemi mun fara fram.
Þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. um tilgreiningu fastanúmers er leyfisveitanda heimilt í sérstökum tilvikum að gefa út rekstrarleyfi með þeim skilyrðum að úr annmörkum verði bætt innan tiltekins frests, að hámarki tvö ár. Verði ekki bætt úr annmörkum innan frestsins ber leyfisveitanda að afturkalla leyfið án fyrirvara og aðvörunar.
Gjald fyrir leyfisbréf, sem innheimt er samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, skal greitt þegar umsókn er lögð inn.
8. gr.
30. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
30. gr.
Almennt um tækifærisleyfi.
Sækja þarf um tækifærisleyfi fyrir skemmtun eða einstökum atburði sem fram fer á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi. Einnig þarf að sækja um tækifærisleyfi fyrir áfengisveitingum þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi eða ef þörf er á viðbót við gilt rekstrarleyfi, svo sem tímabundinni viðbót til að veita áfengi eða viðbótarafgreiðslutíma áfengis á stað sem þegar hefur rekstrarleyfi sem felur í sér áfengisveitingar.
Leyfi til skemmtunar eða atburða sem ekki er ætlað að standa lengur en í sólarhring skal sækja um með tveggja vikna fyrirvara.
Leyfi til skemmtunar eða atburðar sem ætlað er að standa lengur en sólarhring skal sækja um með minnst 30 daga fyrirvara. Sé skemmtun eða atburður sérstaklega umfangsmikil, og kalli á mikinn undirbúning, skal sækja um leyfi með minnst þriggja mánaða fyrirvara.
9. gr.
32. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
32. gr.
Umsagnir.
Leyfisveitandi skal leita umsagnar lögreglustjóra og sveitarstjórnar, þ.m.t. heilbrigðisnefndar og slökkviliðs, í því umdæmi sem skemmtun er fyrirhuguð. Þá getur leyfisveitandi leitað umsagna annarra umsagnaraðila sem getið er í 25. gr. ef þörf er talin á.
Umsagnir skal veita eins fljótt og auðið er. Umsagnir framangreindra aðila eru bindandi og skulu að jafnaði veittar innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 2. mgr. og 3. mgr. 30. gr. Berist umsagnir ekki innan þess frests sem leyfisveitandi tilgreinir er leyfisveitanda heimilt að gefa út leyfi.
10. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. ágúst 2021.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Sigrún Brynja Einarsdóttir.
Þórarinn Örn Þrándarson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.