Prentað þann 21. nóv. 2024
921/2006
Reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum.
I. KAFLI Gildissvið og markmið.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum eða sérreglum.
2. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín, einkum álagi er kann að leiða til heyrnarskaða.
3. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- hávaði: óæskilegt heyranlegt hljóð. Hávaði er gefinn upp í einingunni desibel A (dB(A)),
- hámarkshljóðþrýstingur (ppeak): hámarksgildi C-tíðnivegins augnablikshljóðþrýstings,
- daglegt álag vegna hávaða (LEX,8h) (dB(A) m.v. 20 μPa): tímavegið meðaltal álags vegna hvers konar hávaða á vinnustað, þar með talið hávaða sem stafar af höggum eða sprengingum, í einn vinnudag sem er að nafngildi átta klukkustunda vinnudags, sbr. lið 3.6 í ISO-staðlinum 1999:1990,
- vikulegt álag vegna hávaða (LEX,8h): tímavegið meðaltal daglegs álags vegna hávaða fyrir vinnuviku, sem er að nafngildi fimm átta klukkustunda vinnudagar, sbr. lið 3.6 í ISO-staðlinum 1999:1990.
4. gr. Viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir álag vegna hávaða.
Viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk fyrir daglegt álag vegna hávaða og hámarkshljóðþrýsting skulu vera eftirfarandi:
- viðmiðunarmörk álags vegna hávaða: LEX,8h = 87 dB(A) og ppeak = 200 Pa (1),
- efri viðbragðsmörk álags vegna hávaða: LEX,8h 85 dB(A) og ppeak = 140 Pa (2),
- neðri viðbragðsmörk álags vegna hávaða: LEX,8h = 80 dB(A) og ppeak = 112 Pa (3).
Þegar álag á starfsmann vegna hávaða á vinnustað er metið með tilliti til viðmiðunarmarka skv. a-lið 1. mgr. skal taka mið af þeirri hljóðdeyfingu sem fæst með þeim heyrnarhlífum sem hann notar við störf sín. Þegar álag á starfsmann vegna hávaða á vinnustað er metið með tilliti til viðbragðsmarka skv. b- eða c-liðum 1. mgr. skal ekki taka tillit til hljóðdeyfingar sem fæst með heyrnarhlífum.
Þar sem álag vegna hávaða við störf breytist verulega frá degi til dags, er heimilt að meta álagið á starfsmenn með tilliti til viðmiðunarmarka og viðbragðsmarka vikulegs álags vegna hávaða í stað viðmiðunarmarka og viðbragðsmarka daglegs álags vegna hávaða þegar eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
- gildi vikulegs álags vegna hávaða skv. fullnægjandi mati eða mælingu fari ekki yfir viðmiðunarmörk sem nema 87 dB(A), og
- gerðar séu viðeigandi ráðstafanir til að draga eins og kostur er úr áhættunni sem fylgir hlutaðeigandi starfsemi.
Álag vegna hávaða má aldrei fara yfir viðmiðunarmörk samkvæmt ákvæði þessu, sbr. þó 9. gr. reglugerðar þessarar.
(1) 140 dB (C) m.v. 20 μPa.
(2) 137 dB (C) m.v. 20 μPa.
(3) 135 dB (C) m.v. 20 μPa.
5. gr. Sérstök vinnusvæði.
Í stjórnklefum, verkstjórnarherbergjum og öðrum stöðum þar sem mikilvægt er að samræður geti átt sér stað skal að því stefnt að hávaði fari ekki yfir 65 dB(A) að jafnaði á vinnutíma.
Í mat- og kaffistofum er æskilegt að hávaði fari ekki yfir 60 dB(A) að jafnaði þann tíma sem notkun stendur yfir.
Á skrifstofum og öðrum stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað skal leitast við að hávaði fari ekki yfir 50 dB(A) að jafnaði á vinnutíma.
II. KAFLI Skyldur atvinnurekanda.
6. gr. Áhættumat.
Þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu vegna hávaða skal atvinnurekandi meta, og mæla ef þörf krefur, hve miklu álagi vegna hávaða starfsmenn verða fyrir, sbr. 65. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Mat og mælingar skv. 1. mgr. skulu skipulagðar og framkvæmdar með hæfilegu millibili af þar til hæfum aðilum, sbr. einnig 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Atvinnurekandi skal varðveita gögn, sem fengin eru úr mati og/eða mælingum á álagi vegna hávaða á viðeigandi formi til að þau geti komið að gagni síðar.
Aðferðir og mælitæki, sem notuð eru, skulu vera til þess fallin að meta eða mæla hámarkshljóðþrýsting og daglegt og vikulegt álag vegna hávaða að teknu tilliti til viðmiðunarmarka og viðbragðsmarka skv. 4. gr. reglugerðar þessarar. Enn fremur skulu aðferðirnar og mælitækin miðuð við þær aðstæður sem eru einkennandi fyrir viðkomandi vinnustað og skal einkum tekið tillit til sérkenna hávaðans sem mæla skal, þess hversu lengi álag vegna hávaða varir, umhverfisþátta og eiginleika mælitækjanna. Við mat á niðurstöðum mælinga skal jafnframt taka tillit til ónákvæmni við mælingar í samræmi við mælifræðilegar venjur.
Mæliaðferðir skv. 3. mgr. geta falið í sér úrtak sem skal vera dæmigert fyrir það álag vegna hávaða sem starfsmenn verða fyrir.
Áhættumat skv. 1. mgr. skal byggjast á öllum tiltækum upplýsingum. Einkum skal taka tillit til:
- hve álag vegna hávaða er mikið, hvers eðlis það er og hve lengi það varir, þar með talið hvort um hávaða sem stafar af höggum eða sprengingum er að ræða,
- viðmiðunarmarka og viðbragðsmarka skv. 4. gr. reglugerðar þessarar,
- allra áhrifa er varða heilsu og öryggi starfsmanna í sérstökum áhættuhópum,
- allra áhrifa á heilsu og öryggi starfsmanna sem stafa af víxlverkun hávaða og efna sem geta valdið skaða á heyrn og notuð eru við vinnu sem og víxlverkun hávaða og titrings, að svo miklu leyti sem það er tæknilega mögulegt,
- allra óbeinna áhrifa á heilsu og öryggi starfsmanna sem stafa af víxlverkun hávaða og viðvörunarmerkja eða annarra hljóða, sem fylgjast þarf með í því skyni að draga úr hættu á slysum,
- upplýsinga um hávaðamengun sem framleiðandi búnaðar sem ætlaður er til vinnu veitir í samræmi við gildandi reglugerðir,
- hvort til er annars konar búnaður sem hannaður er til að draga úr hávaðamengun,
- hvort álags vegna hávaða gætir áfram utan vinnutíma skv. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum,
- viðeigandi upplýsinga sem fengist hafa í tengslum við heilsufarsskoðanir, sbr. III. kafla reglugerðar þessarar, þar með talinna upplýsinga sem hafa verið birtar, eftir því sem kostur er,
- hvort séu til staðar heyrnarhlífar sem deyfa hljóð nægilega mikið að teknu tilliti til aðstæðna.
Atvinnurekandi skal endurskoða áhættumatið reglulega, einkum ef orðið hafa verulegar breytingar í tengslum við hávaða eða ef niðurstöður heilsufarsskoðana starfsmanna, sbr. III. kafla reglugerðar þessarar, sýna að slíkt sé nauðsynlegt.
Þegar grunur leikur á að hávaði sé yfir efri viðbragðsmörkum álags vegna hávaða skv. 4. gr. reglugerðar þessarar getur öryggistrúnaðarmaður eða félagslegur trúnaðarmaður krafist þess að gerðar séu viðeigandi mælingar á hávaða.
7. gr. Áætlun um heilsuvernd.
Atvinnurekandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir þar sem tekið er tillit til tækniframfara og tiltækra ráðstafana sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir áhættu af álagi vegna hávaða við upptök hans. Þegar ekki er tæknilega unnt að koma í veg fyrir áhættu af álagi vegna hávaða skal dregið úr henni eins og kostur er og henni haldið í lágmarki. Einkum skal taka tillit til:
- annarra starfsaðferða þar sem starfsmenn verða síður fyrir álagi vegna hávaða,
- þess að valinn sé viðeigandi búnaður til vinnu, að teknu tilliti til eðlis starfseminnar, sem gefur frá sér eins lítinn hávaða og kostur er, sbr. einnig reglur um hávaðamengun í umhverfinu af völdum tækjabúnaðar til notkunar utanhúss sem og aðrar sérreglur sem ætlað er að takmarka hávaða frá búnaði sem ætlaður er til vinnu,
- hönnunar og uppbyggingar vinnustaða og verkstöðva,
- viðeigandi upplýsinga og þjálfunar sem ætlað er að leiðbeina starfsmönnum um rétta og örugga notkun búnaðar til vinnu í því skyni að halda álagi vegna hávaða í lágmarki,
-
tæknilegra aðferða sem ætlaðar eru til að draga úr hávaða:
- sem berst í lofti, svo sem með hlífum, yfirbyggingum eða klæðningum með hljóðísogsefnum,
- sem rekja má til hönnunar, svo sem hljóðdeyfing eða einangrun,
- viðeigandi áætlana um viðhald búnaðar sem ætlaður er til vinnu, vinnustaðar og heildarskipulags innan vinnustaðar,
-
skipulags vinnunnar til að draga úr hávaða þar sem stefnt er að:
- takmörkun á þeim tíma sem álag vegna hávaða varir og þess hve mikið það er,
- viðeigandi skipulagi vinnu með hæfilegum hvíldartímum.
Ef álag vegna hávaða fer yfir efri viðbragðsmörk skv. 4. gr. reglugerðar þessarar, þrátt fyrir ráðstafanir sem atvinnurekandi gerir til að koma í veg fyrir slíkt álag, skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að álag vegna hávaða fari niður fyrir mörkin. Fari álag vegna hávaða yfir viðmiðunarmörk skv. 4. gr. reglugerðarinnar skal atvinnurekandi jafnframt breyta áætlun um heilsuvernd skv. 1. mgr. til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og tilgreina í áætluninni ástæður þess að álag vegna hávaða fór yfir mörkin. Við endurskoðun áætlunar um heilsuvernd skal einkum taka tillit til forvarna skv. 1. mgr.
Atvinnurekandi skal setja upp viðeigandi viðvörunarmerki á stöðum innan vinnustaðarins að teknu tilliti til áhættumatsins skv. 6. gr. reglugerðar þessarar þar sem starfsmenn kunna að verða fyrir álagi vegna hávaða sem fer yfir efri viðbragðsmörk skv. 4. gr. reglugerðar þessarar. Enn fremur skal atvinnurekandi afmarka þá staði og takmarka aðgang að þeim sé þess kostur og áhætta af álagi vegna hávaða réttlætir það.
Þegar starfsmaður á þess kost að nýta sér hvíldaraðstöðu sem atvinnurekandi hefur umsjón með að teknu tilliti til eðlis starfsins skal dregið úr álagi vegna hávaða í hvíldaraðstöðunni að því marki sem það samrýmist tilgangi og notkunarskilyrðum aðstöðunnar.
Atvinnurekandi skal laga ráðstafanir samkvæmt ákvæði þessu sérstaklega að þörfum starfsmanna sem eru í sérstökum áhættuhópum hvað varðar álag vegna hávaða.
8. gr. Persónuhlífar.
Þegar almennar ráðstafanir til verndar starfsmönnum verða ekki taldar nægilegar til verndar einstökum starfsmönnum skulu þeir fá viðeigandi heyrnarhlífar sem hæfa hverjum og einum, sbr. gildandi reglur um notkun persónuhlífa, þegar álag vegna hávaða fer yfir neðri viðbragðsmörk skv. 4. gr. reglugerðar þessarar.
Starfsmenn skulu nota persónuhlífar sem atvinnurekandi sér þeim fyrir, sbr. gildandi reglur um notkun persónuhlífa, þegar álag vegna hávaða er við eða fer yfir efri viðbragðsmörk skv. 4. gr. reglugerðar þessarar.
Velja skal heyrnarhlífar þannig að þær útiloki áhættu á heyrnarskaða sé þess nokkur kostur eða haldi áhættu á heyrnaskaða í lágmarki.
Atvinnurekandi skal gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að starfsmenn noti heyrnarhlífar sem hann sér þeim fyrir vegna starfa þeirra. Enn fremur ber atvinnurekandi ábyrgð á eftirliti með notkun heyrnarhlífa.
9. gr. Undanþágur frá notkun heyrnarhlífa.
Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá notkun heyrnarhlífa skv. 8. gr. reglugerðar þessarar við sérstakar aðstæður og líkur eru á að heilsu og öryggi starfsmanns sé, vegna eðlis starfs hans, meiri hætta búin noti hann stöðugt heyrnarhlífar en þegar hann er án þeirra. Í slíkum tilvikum er Vinnueftirliti ríkisins jafnframt heimilt að veita undanþágu frá viðmiðunarmörkum skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar.
Skilyrði fyrir undanþágu skv. 1. mgr. er að áhættu af álagi vegna hávaða sé haldið í lágmarki að teknu tilliti til hinna sérstöku aðstæðna og að hlutaðeigandi starfsmaður gangist undir heilsufarsskoðun skv. III. kafla reglugerðar þessarar.
Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir þær undanþágur sem veittar eru samkvæmt ákvæði þessu og ástæður þeirra.
10. gr. Þjálfun starfsmanna og upplýsingar til þeirra.
Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmenn hans, sem við störf sín eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við eða yfir lægri viðbragðsmörkum skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar, eða fulltrúar þeirra fái upplýsingar og nægilega og viðeigandi þjálfun, einkum varðandi:
- eðli slíkrar áhættu,
- ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr áhættunni af álagi vegna hávaða eða halda henni í lágmarki, þar með taldar þær aðstæður þar sem slíkum ráðstöfunum er beitt,
- viðmiðunarmörk og viðbragðsmörk skv. 4. gr. reglugerðar þessarar,
- niðurstöður mats og mælinga á hávaða skv. 6. gr. reglugerðar þessarar ásamt skýringum á gildi þeirra og hugsanlegri áhættu,
- rétta notkun heyrnarhlífa,
- hvernig greina megi vísbendingar um heyrnarskaða og ástæður þess að tilkynna skuli um þær,
- við hvaða aðstæður starfsmenn eigi rétt á heilsufarsskoðunum skv. III. kafla reglugerðar þessarar og hvert markmið þeirra sé,
- öruggar starfsvenjur til að halda álagi vegna hávaða í lágmarki.
11. gr. Samráð við starfsmenn.
Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsmenn og/eða fulltrúa þeirra um þau málefni sem reglugerð þessi tekur til, sbr. II. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og gildandi reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
Samráð skv. 1. mgr. skal einkum varða:
- áhættumat og þær aðferðir og mælitæki sem notuð eru við gerð áhættumats, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar,
- áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar,
- val á heyrnarhlífum, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar þessarar.
Við störf sín skulu starfsmenn draga úr hávaða eins og kostur er og stuðla að því að þær ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hávaða komi að notum.
III. KAFLI Heilsufarsskoðanir.
12. gr. Framkvæmd heilsufarsskoðana.
Þegar áhættumat skv. 6. gr. reglugerðar þessarar gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi sjá til þess að umræddum starfsmönnum sé boðin heilsufarsskoðun, sbr. 67. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Starfsmenn sem verða fyrir álagi vegna hávaða yfir efri viðbragðsmörkum skv. b-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar, þrátt fyrir ráðstafanir sem atvinnurekandi gerir til að koma í veg fyrir slíkt álag, skulu eiga rétt á heyrnarmælingu sem læknir eða annar aðili með tilskilin réttindi annast. Starfsmenn sem verða fyrir álagi vegna hávaða yfir neðri viðbragðsmörkum skv. c-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar skulu eiga kost á heyrnarmælingum þegar áhættumat skv. 6. gr. reglugerðarinnar gefur til kynna að heilsu og öryggi þeirra sé hætta búin. Heyrnarmælingu skal gera á tíðnistigum 500, 1000, 2000, 3000, 4000, 6000 og 8000 rið.
Markmið heyrnarmælinga skv. 2. mgr. er að greina sem fyrst heyrnartap vegna hávaða og koma í veg fyrir frekari heyrnarskaða.
Heilsufarsskoðanir samkvæmt ákvæði þessu skulu vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna.
Sá sem annast heilsufarsskoðanir starfsmanna skal varðveita skrá um heilsufar hvers starfsmanns sem gengst undir heilsufarsskoðun samkvæmt ákvæði þessu og skal skráin uppfærð við hverja skoðun. Í skrá um heilsufar skulu teknar saman niðurstöður úr heilsufarsskoðun ásamt atvinnusögu hlutaðeigandi starfsmanns síðustu árin. Um frágang og meðferð heilsufarsskrár fer samkvæmt gildandi reglugerð um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál. Hlutaðeigandi starfsmaður skal hafa aðgang að skrá um heilsufar sitt óski hann eftir því.
Atvinnurekandi skal bera kostnað vegna heilsufarsskoðana starfsmanna samkvæmt ákvæði þessu.
13. gr. Niðurstöður heilsufarsskoðana.
Leiði heilsufarsskoðun skv. 12. gr. í ljós heyrnarskaða eða önnur skaðleg áhrif á heilsu starfsmanns skal læknir eða annar sérfræðingur, telji læknir það nauðsynlegt, meta hvort líkur eru á að rekja megi heyrnarskaðann eða hin skaðlegu áhrif til álags vegna hávaða við vinnu. Megi rekja heyrnarskaðann eða hin skaðlegu áhrif til álags vegna hávaða við vinnu skal sá sem annast skoðunina:
- greina viðkomandi starfsmanni frá niðurstöðum sem varða hann sjálfan, og
- gefa hlutaðeigandi atvinnurekanda upplýsingar um niðurstöðu heilsufarsskoðunarinnar, að teknu tilliti til þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna.
Komi upp tilvik skv. 1. mgr. skal atvinnurekandi:
- endurskoða áhættumat, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar,
- endurskoða áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar,
- taka til greina ráðleggingar viðurkenndra þjónustuaðila, sbr. 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, þar á meðal þess sem annaðist umrædda heilsufarsskoðun, eða Vinnueftirlits ríkisins við framkvæmd hvers konar nauðsynlegra ráðstafana til að útiloka eða draga úr áhættu, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar, þar á meðal hvort unnt sé að fá viðkomandi starfsmanni annað starf þar sem ekki er hætta á frekara álagi vegna hávaða, og
- sjá til þess að heilsufarsskoðanir fari áfram fram og að aðrir starfsmenn sem hafa starfað við sambærilegar aðstæður gangist undir heilsufarsskoðun.
Sá sem annast heilsufarsskoðun skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um niðurstöðuna þegar um er að ræða atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða ef viðkomandi starfsmaður hefur orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, sbr. 3. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
14. gr. Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Vinnueftirlitið getur meðal annars krafist þess að gerðar séu mælingar á hávaða, sbr. 18. gr. sömu laga.
15. gr. Samstarfsnefnd.
Samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Vinnueftirlits ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og tveir fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem stjórn Vinnueftirlitsins tilnefnir skal fjalla um framkvæmd heyrnarmælinga og stuðla að nauðsynlegu samstarfi stofnana og samtaka sem þessi mál varða.
16. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til félagsmálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
17. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
18. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 37. gr., a-lið 38. gr., 65. gr. a, 66. gr., 2. mgr. 67. gr. og 5. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og landlæknis, til innleiðingar á tilskipun nr. 2003/10/EB, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu að því er varðar váhrif sem starfsmenn verða fyrir af völdum eðlisfræðilegra áhrifavalda (hávaða), öðlast þegar gildi.
Reglur nr. 500/1994, um hávaðavarnir á vinnustöðum og heyrnareftirlit starfsmanna, falla jafnframt úr gildi.
Félagsmálaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.
Magnús Stefánsson.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.