Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 13. maí 2021 – 3. júlí 2021 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 13. maí 2021 af rg.nr. 545/2021

918/2020

Reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um þátttöku atvinnuleitenda sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum sem og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum. Enn fremur gildir reglugerð þessi um greiðslu styrkja til atvinnuleitenda vegna búferlaflutninga þeirra innanlands í þeim tilvikum þegar þeir þiggja störf fjarri lögheimili sínu.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum sem og að auðvelda þeim að þiggja starf fjarri lögheimili sínu.

II. KAFLI Þátttaka atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum.

3. gr. Vinnustaðaþjálfun.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við fyrirtæki eða stofnun um vinnustaðaþjálfun atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, enda telst þjálfunin vinnumarkaðsúrræði skv. b- eða d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar auk þess sem líkur eru á að þjálfunin nýtist atvinnuleitandanum við atvinnuleit að mati ráðgjafa stofnunarinnar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að sinna þeim störfum sem honum eru falin á grundvelli samningsins undir leiðsögn leiðbeinanda. Þá skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig með undirritun sinni til að sjá til þess að atvinnuleitandinn sé slysatryggður við störf sín. Hafi atvinnuleitandinn áður lokið starfstengdu námi skal fyrirtækið sjá um að störf hans hjá fyrirtækinu séu innan menntunarsviðs hans. Við lok gildistíma samnings skal hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun veita Vinnumálastofnun umsögn um störf viðkomandi atvinnuleitanda hjá fyrirtækinu eða stofnuninni, eftir því sem við á. Markmið samningsins er að viðkomandi atvinnuleitandi fái tækifæri til að þjálfa sig og undirbúa fyrir frekari þátttöku á vinnumarkaði. Á gildistíma samningsins fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Við mat ráðgjafa skv. 1. mgr. skal meðal annars líta til eftirfarandi atriða:

  1. Starfsreynslu atvinnuleitanda.
  2. Þörf atvinnuleitanda fyrir leiðsögn í tengslum við þátttöku á vinnumarkaði.
  3. Þörf atvinnuleitanda fyrir stuðning þannig að hann geti að nýju orðið þátttakandi á vinnumarkaði.
  4. Þess tíma sem atvinnuleitandi hefur verið frá vinnumarkaði.
  5. Hættu á langtíma óvirkni atvinnuleitanda.
  6. Skorts á íslenskukunnáttu hjá atvinnuleitanda.

Gildistími samnings skv. 1. mgr. getur að hámarki verið þrettán vikur og óheimilt er að framlengja gildistíma samningsins vegna sama atvinnuleitanda.

Hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun skal tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera leiðbeinandi viðkomandi atvinnuleitanda á vinnustaðnum auk þess sem tengiliðurinn skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Vinnumálastofnun er heimilt að greiða hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun allt að 15.000 kr. styrk á viku sem hluta af umbun fyrirtækisins eða stofnunarinnar til viðkomandi tengiliðs fyrir störf hans í tengslum við samning skv. 1. mgr. Viðkomandi atvinnuleitandi skal einnig vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings. Enn fremur ber viðkomandi atvinnuleitanda að sækja námskeið sem skipulagt er sem hluti vinnustaðaþjálfunar á grundvelli samnings skv. 1. mgr. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem vinnustaðaþjálfun atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

4. gr. Námssamningur.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda ekki talið líklegt að viðkomandi atvinnuleitanda verði boðið starf á gildistíma samningsins að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Ákvæði þetta á ekki við um nám á háskólastigi og nám á framhaldsskólastigi, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda starfstengt nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Á gildistíma samningsins fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Skilyrði fyrir samningi skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði síðustu tólf mánuði áður en hann óskar eftir samningi skv. 1. mgr., en við mat á atvinnuþátttöku atvinnuleitanda er heimilt að taka tillit til þess tíma sem viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði,
  2. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. þrjá mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óskar eftir samningi skv. 1. mgr.
  3. að námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sbr. einnig reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði, með síðari breytingum,
  4. að námið kunni að nýtast viðkomandi atvinnuleitanda við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og
  5. að námið sé ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

Á gildistíma samnings skv. 1. mgr. skal viðkomandi atvinnuleitandi fullnægja skilyrðum um mætingu sem og öðrum skilyrðum sem sett eru í tengslum við námið af hlutaðeigandi skóla, svo sem hvað varðar reglulega ástundun þess. Auk þess ber viðkomandi atvinnuleitanda að vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings. Viðkomandi atvinnuleitandi skal vera í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings og vera reiðubúinn að taka starfi sem honum kann að bjóðast á gildistímanum.

Gildistími samnings skv. 1. mgr. getur að hámarki verið ein námsönn. Heimilt er að framlengja gildistíma samningsins vegna sama atvinnuleitanda enda hafi hann sýnt viðunandi námsárangur að mati hlutaðeigandi skóla og uppfyllt þau skilyrði sem sett eru í tengslum við námið, sbr. 2. og 3. mgr.

Sá tími sem starfstengt nám atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

5. gr. Verkþjálfun.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við sérstök verkþjálfunarsetur sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni um þátttöku atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, í verkþjálfun hjá hlutaðeigandi verkþjálfunarsetri, enda telst verkþjálfunin vinnumarkaðsúrræði skv. d-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi verkþjálfunarsetur og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að taka þátt í þeirri verkþjálfun sem honum ber á grundvelli samningsins sem og til að uppfylla kröfur um ástundun og mætingu. Þá skuldbindur hlutaðeigandi verkþjálfunarsetur sig með undirritun sinni til að sjá til þess að atvinnuleitandinn sé slysatryggður á meðan verkþjálfun varir. Á gildistíma samningsins fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Gildistími samnings skv. 1. mgr. getur að hámarki verið tólf mánuðir en óheimilt er að framlengja gildistíma samnings vegna sama atvinnuleitanda nema nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Hlutaðeigandi verkþjálfunarsetur skal tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr., eftir því sem þörf krefur. Jafnframt ber viðkomandi atvinnuleitanda að vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem atvinnuleitandi er í verkþjálfun á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

6. gr. Þróun eigin viðskiptahugmyndar.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins um að hann starfi að þróun eigin viðskiptahugmyndar í allt að sex mánuði með það að markmiði að koma hugmyndinni í framkvæmd. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að skila framvinduskýrslu til Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. Á gildistíma samningsins fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Skilyrði samnings skv. 1. mgr. er að fyrir liggi viðskiptaáætlun og að viðkomandi atvinnuleitandi skili framvinduskýrslu til Vinnumálastofnunar eftir þrjá mánuði og aftur við lok verkefnisins. Vinnumálastofnun er enn fremur heimilt að óska eftir að þar til bær aðili, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, votti um gildi viðskiptaáætlunarinnar samkvæmt nánari reglum þar um. Jafnframt er það skilyrði að viðskiptahugmyndin verði talin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og líkleg til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa stofnunarinnar. Þá er það skilyrði fyrir samningi skv. 1. mgr. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi kynnt sér rekstur og stofnun fyrirtækja.

Á gildistíma samnings skv. 1. mgr. ber viðkomandi atvinnuleitanda að vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings en hann skal þó viðhalda skráningu sinni hjá Vinnumálastofnun mánaðarlega.

Vinnumálastofnun er heimilt að rifta samningi skv. 1. mgr. ef ljóst þykir að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar að sú viðskiptahugmynd sem um ræðir muni ekki skila þeim árangri sem vænst var þegar samningurinn var gerður. Áður en samningi er rift skal gefa atvinnuleitanda kost á að koma á framfæri við Vinnumálastofnun mati sínu á árangri verkefnisins sem um ræðir til lengri tíma litið.

Heimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda enda mjög miklar líkur taldar á að viðskiptahugmyndin skapi atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Í slíkum tilvikum er einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki enda liggi fyrir ný viðskiptaáætlun, sbr. 2. mgr., auk þess sem viðkomandi atvinnuleitanda ber að skila nýrri framvinduskýrslu, sbr. 2. mgr., til Vinnumálastofnunar í lok þess tímabils.

Sá tími sem atvinnuleitandi starfar að þróun eigin viðskiptahugmyndar á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

7. gr. Starfsendurhæfing.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan starfsendurhæfingarsamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins um starfsendurhæfingu skv. e- eða f-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum. Markmiðið með starfsendurhæfingarsamningi er að auka líkur á að viðkomandi atvinnuleitandi fái starf við hæfi á vinnumarkaði að lokinni starfsendurhæfingu. Skilyrði fyrir gerð samnings um starfsendurhæfingu er að viðkomandi atvinnuleitandi þurfi á slíkri starfsendurhæfingu að halda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og að gerð hafi verið endurhæfingaráætlun sem líkur eru á að nýtist atvinnuleitandanum við atvinnuleit.

Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur atvinnuleitandi sig til að taka fullan þátt í endurhæfingaráætlun sem hann hefur gert í samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og/eða aðra þjónustuaðila, eftir því sem við á, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Á gildistíma samningsins fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Á gildistíma samnings skv. 1. mgr. ber viðkomandi atvinnuleitanda að vera í reglulegum sam-skiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og/eða aðra þjónustuaðila eftir því sem við á. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í vikri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Gildistími samnings skv. 1. mgr. getur að hámarki verið þrír mánuðir. Óheimilt er að framlengja samning vegna sama atvinnuleitanda.

Sá tími sem starfsendurhæfing á grundvelli starfsendurhæfingarsamnings skv. 1. mgr. stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

8. gr. Sjálfboðaliðastarf.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um þátttöku atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins í sjálfboðaliðastarfi, þar með talin frjáls félagasamtök sem hafa milligöngu um sjálfboðaliðastörf í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, enda telst sjálfboðaliðastarfið vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi félagasamtök og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi sem hann hefur valið sér. Þá skuldbinda hlutaðeigandi félagasamtök sig með undirritun sinni til að sjá til þess að atvinnuleitandinn sé slysatryggður við sjálfboðaliðastarfið. Á gildistíma slíks samnings fær viðkomandi atvinnuleitandi greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Hlutaðeigandi félagasamtök skulu tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Viðkomandi atvinnuleitandi skal einnig vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings. Viðkomandi atvinnuleitandi skal vera í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings og vera reiðubúinn að taka starfi sem honum kann að bjóðast á gildistímanum.

Í þeim tilvikum þegar um er að ræða samning um sjálfboðaliðastarf atvinnuleitanda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gildir ákvæði um atvinnuleit í öðru aðildarríki samkvæmt VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar og gefur Vinnumálastofnun út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta meðan á sjálfboðaliðastarfinu stendur.

Sá tími sem þátttaka atvinnuleitanda í sjálfboðaliðastarfi stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

III. KAFLI Styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum.

9. gr. Ráðning með styrk.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, í starfsþjálfun hjá fyrirtækinu, stofnuninni eða félagasamtökunum, enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að taka þátt í þeirri starfsþjálfun sem honum ber á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. eða 3. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka. Þá skuldbinda hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfa innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.

Hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í sex mánuði eða lengur þegar samningur skv. 1. mgr. er gerður er Vinnumálastofnun heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi vinnuveitanda á grundvelli samningsins sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals skemur en í sex mánuði þegar samningur skv. 1. mgr. er gerður er Vinnumálastofnun heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi vinnuveitanda á grundvelli samningsins sem nemur 50% af fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkom-andi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. þrjá mánuði eftir atvinnumissi,
  2. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki sinnt sama starfi hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum á sl. 12 mánuðum,
  3. að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
  4. að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt starfsmönnum upp störfum sem gegnt höfðu því starfi sem fyrirhugað er að ráða viðkomandi atvinnuleitanda til að gegna,
  5. að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök séu í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök skulu tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem starfsþjálfun viðkomandi atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

10. gr. Nýsköpunarstyrkur til fyrirtækja og stofnana.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan frumkvöðlasamning við fyrirtæki eða stofnun um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, til að vinna að nýrri viðskiptahugmynd fyrirtækisins eða stofnunarinnar í tengslum við nýsköpunarverkefni eða vöruþróunarverkefni enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að sinna þeim verkefnum sem honum ber á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar. Þá skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Með undirritun sinni skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig jafnframt til að skila skýrslu um árangur og stöðu verkefnisins við lok gildistíma samningsins til Vinnumálastofnunar og þess aðila sem vottaði um nýnæmi verkefnisins við gerð samningsins, eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. Við lok gildistíma samnings skal hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun veita Vinnumálastofnun umsögn um störf viðkomandi atvinnuleitanda hjá fyrirtækinu eða stofnuninni, eftir því sem við á.

Á gildistíma samnings skv. 1. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að greiða hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun styrk sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð. Þegar um er að ræða samning skv. 1. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að stöðva greiðslur til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar samkvæmt ákvæði þessu ef ljóst þykir að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar að það nýsköpunar- eða vöruþróunarverkefni sem um ræðir hverju sinni muni ekki skila þeim árangri sem vænst var þegar samningurinn var gerður. Áður en greiðslur eru stöðvaðar skal gefa fyrirtækinu eða stofnuninni kost á að koma á framfæri við Vinnumálastofnun mati sínu á árangri verkefnisins sem um ræðir hverju sinni til lengri tíma litið.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir að þar til bær aðili, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, votti um nýnæmi þess verkefnis sem um ræðir hverju sinni samkvæmt nánari reglum þar um. Við lok gildistíma samnings skv. 1. mgr. skal fyrirtækið eða stofnunin skila skýrslu um árangur og stöðu verkefnisins til Vinnumálastofnunar og þess aðila sem vottaði um nýnæmi verkefnisins við gerð samningsins, eftir því sem við á. Jafnframt er það skilyrði að verkefnið verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar.

Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Gildistími samnings skv. 1. mgr. skal ekki vera lengri en sex mánuðir. Heimilt er að framlengja gildistíma samningsins vegna sama atvinnuleitanda að hámarki í aðra sex mánuði að fenginni umsögn þess aðila er vottaði um nýnæmi verkefnisins við gerð samningsins, eftir því sem við á, enda liggi fyrir skýrsla um árangur og stöðu verkefnisins skv. 3. mgr. Hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun ber auk þess við lok gildistíma hins framlengda samnings að skila annarri skýrslu skv. 3. mgr.

Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

11. gr. Sérstök átaksverkefni.

Þegar atvinnuleysi á landsvísu eða á einstaka landsvæði, miðað við sömu svæðisskiptingu og höfð er til hliðsjónar svæðisbundnum vinnumarkaðsráðum skv. 6. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, er hærra en 6% er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, í starfsþjálfun hjá fyrirtækinu, stofnuninni eða félagasamtökunum, enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Skilyrði er að það starf sem um ræðir sé staðsett á landsvæði þar sem atvinnuleysi mælist hærra en 6% enda sé atvinnuleysi á landsvísu ekki hærra en 6%. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að taka þátt í þeirri starfsþjálfun sem honum ber á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. eða 3. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka. Þá skuldbinda hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfa innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi vinnuveitanda á grundvelli samnings skv. 1. mgr. sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. einn mánuð eftir atvinnumissi,
  2. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka,
  3. að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur.
  4. að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök séu í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök skulu tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem átaksverkefni varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

12. gr. Starfstengt nám og námskeið.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði til atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins vegna þátttöku hans í starfstengdu námi eða námskeiði sem viðurkennt er sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. a- eða d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sbr. einnig reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði, með síðari breytingum. Styrkurinn skal að hámarki nema 75% af námskeiðsgjaldi en skal þó aldrei vera hærri en 80.000 kr. á ári til hvers atvinnuleitanda. Einungis er heimilt að veita hverjum atvinnuleitanda styrk einu sinni vegna sama námskeiðs.

Skilyrði fyrir veitingu styrks skv. 1. mgr. er að líkur séu á að hið starfstengda nám eða námskeið komi til með að nýtast atvinnuleitandanum við atvinnuleit þar sem það sé til þess fallið að skila honum árangri við að finna sér starf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

IV. KAFLI Búferlastyrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

13. gr. Búferlastyrkir.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða sérstaka búferlastyrki vegna kostnaðar við búferlaflutning atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og fjölskyldu hans, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, eftir því sem við á. Í því sambandi er miðað við búferlaflutning innanlands frá því sveitarfélagi þar sem atvinnuleitandi hefur skráð lögheimili sitt til þess sveitarfélags þangað sem hann flytur lögheimilið í því skyni að sækja vinnu hjá nýjum vinnuveitanda sem hefur sannanlega ráðið hann til starfa. Búferlastyrkur samkvæmt ákvæði þessu getur jafnframt náð til kostnaðar við flutning á búslóð viðkomandi atvinnuleitanda og fjölskyldu hans, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, eftir því sem við á.

Þrátt fyrir 1. mgr. eru búferlastyrkir ekki greiddir vegna kostnaðar við búferlaflutning atvinnuleitanda og fjölskyldu hans, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, eftir því sem við á, innan höfuðborgarsvæðisins.

Skilyrði búferlastyrks eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi sannanlega verið ráðinn til starfa í öðru sveitarfélagi en því sem hann hefur skráð lögheimili sitt í og hann geti ekki með auðveldum hætti sótt starfið frá lögheimili sínu,
  2. að viðkomandi atvinnuleitandi og fjölskylda hans, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, eftir því sem við á, hafi flutt lögheimili sitt til sveitarfélagsins þar sem hin nýja starfsstöð er, sbr. þó 2. mgr.,
  3. að starfið feli ekki í sér tímabundna ráðningu,
  4. að viðkomandi atvinnuleitandi eigi að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar ekki auðvelt með að fá starf í því sveitarfélagi þar sem hann hefur skráð lögheimili sitt,
  5. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi ekki áður fengið greiddan búferlastyrk á sama tímabili skv. 1. mgr. 29. gr. laganna og
  6. að viðkomandi atvinnuleitandi sýni fram á að hafa þegar lagt út fyrir kostnaði vegna búferlaflutninganna, svo sem með því að leggja fram kvittun fyrir greiðslu vegna leigu á stórri bifreið til flutninga, vegna kaupa á þjónustu á vegum flutningafyrirtækis hvort sem flutningarnir fara fram á landi, á sjó eða í lofti eða vegna fargjalda fyrir sig og fjölskyldu sína, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, með almenningssamgöngum hvort sem um er að ræða samgöngur á landi, á sjó eða í lofti.

Í sérstökum undantekningartilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að greiða búferlastyrk án þess að öll skilyrði 3. mgr. séu uppfyllt enda hafi stofnunin metið aðstæður viðkomandi atvinnuleitanda heildstætt, sbr. þó 2. mgr.

Búferlastyrkur skal nema að hámarki 80% af kostnaði við búferlaflutning viðkomandi atvinnuleitanda og fjölskyldu hans, sem hefur skráð lögheimili á sama stað og hann, eftir því sem við á, sem og/eða búslóð þeirra til þess sveitarfélags þar sem hin nýja starfsstöð er staðsett.

Þrátt fyrir 5. mgr. skal hámarksfjárhæð búferlastyrks aldrei vera hærri en sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 6. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

14. gr. Umsókn um gerð samnings.

Atvinnuleitendur, fyrirtæki, stofnanir eða frjáls félagasamtök skulu sækja um gerð samninga skv. II. kafla til Vinnumálastofnunar. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Umsókn skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skulu fylgja nauðsynleg fylgigögn eftir því sem við á hverju sinni, svo sem lýsing á þeirri vinnumarkaðsaðgerð sem um ræðir, lýsing á viðskiptahugmynd eða vottorð um námsþátttöku.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðilum en um getur í 1. mgr. vegna einstakra umsókna um gerð samnings skv. II. kafla þegar ástæða er til að mati ráðgjafa stofnunarinnar.

15. gr. Umsókn um styrk.

Atvinnuleitendur, fyrirtæki, stofnanir eða frjáls félagasamtök skulu sækja um gerð samninga skv. III. og IV. kafla til Vinnumálastofnunar. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skulu fylgja nauðsynleg fylgigögn eftir því sem við á hverju sinni, svo sem frumrit reikninga vegna kostnaðar atvinnuleitanda í tengslum við búferlaflutning, upplýsingar um laun og önnur starfskjör atvinnuleitanda eða vottorð um þátttöku atvinnuleitanda í námi eða námskeiði. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir staðfestingu fyrirtækis, stofnunar eða frjálsra félagasamtaka á því að atvinnuleitandi sé slysatryggður við störf sín á gildistíma samnings þegar ástæða er til að mati ráðgjafa stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðilum en um getur í 1. mgr. vegna einstakra umsókna um styrki skv. III. og IV. kafla þegar ástæða er til að mati ráðgjafa stofnunarinnar.

 15. gr. a. Sérstök skilyrði. 

 Vinnumálastofnun er óheimilt að gera samning á grundvelli reglugerðar þessarar við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök sem ekki eru í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald. Samningur sem gerður hefur verið á grundvelli reglugerðar þessarar við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök fellur úr gildi komi til þess á gildistíma samnings að fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök standi ekki skil á framangreindum gjöldum.

 Vinnumálastofnun er óheimilt að gera samning á grundvelli reglugerðar þessarar við fyrirtæki sem rekið er á kennitölu einstaklings, hafi viðkomandi einstaklingur á síðustu þremur mánuðum fyrir umsókn um gerð samnings staðið mánaðarlega skil á greiðslu staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi sem nemur minna en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Samningur sem gerður hefur verið á grundvelli reglugerðar þessarar við fyrirtæki sem rekið er á kennitölu einstaklings fellur úr gildi komi til þess á gildistíma samnings að sá einstaklingur sem rekur fyrirtækið á kennitölu sinni fái greiddar atvinnuleysisbætur eða standi mánaðarlega skil á greiðslu staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi sem nemur minna en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

 Fyrirtæki, stofnun eða frjálsum félagasamtökum, sem Vinnumálastofnun hefur gert samning við á grundvelli reglugerðar þessarar, er óheimilt á gildistíma samnings að leigja hlutaðeigandi atvinnuleitanda til að gegna störfum á vinnustað annars aðila.

16. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til úrskurðanefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

17. gr. Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum skv. X. eða XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

18. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1224/2015, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Ákvæði til bráðabirgða I.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að gegna því starfi sem hann er ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis. Þá skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að auka hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi fyrirtækis, á grundvelli samnings skv. 1. mgr., sem nemur launum viðkomandi atvinnuleitanda en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta á mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. einn mánuð eftir atvinnumissi,
  2. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis,
  3. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í a.m.k. 12 mánuði á yfirstandandi bótatímabili, skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar,
  4. að hjá hlutaðeigandi fyrirtæki starfi 70 starfsmenn eða færri óháð stöðugildi og að meðtöldum þeim atvinnuleitendum sem ráðnir eru til starfa á grundvelli samnings skv. 1. mgr.,
  5. að hlutaðeigandi fyrirtæki hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
  6. að hlutaðeigandi fyrirtæki sé í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi fyrirtækis og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi fyrirtækis til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi fyrirtæki skal tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

Ákvæði þetta gildir frá gildistöku reglugerðar þessarar til og með 31. desember 2021.

Ákvæði til bráðabirgða II.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, vegna tímabundinna átaksverkefna, svo sem við landvernd, landhreinsun, gróðursetningu, íþrótta- og afþreyingarstarf fyrir börn o.s.frv., enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Með frjálsum félagasamtökum er í þessu sambandi átt við félagasamtök sem starfa að góðgerðar- og/eða mannúðarmálum í þágu almannahagsmuna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi félagasamtök og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að gegna því starfi sem hann er ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi félagasamtaka. Þá skuldbinda hlutaðeigandi félagasamtök sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að auka hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi félagasamtökum, á grundvelli samnings skv. 1. mgr., sem nemur launum viðkomandi atvinnuleitanda en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta á mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði. Auk þess er Vinnumálastofnun heimilt að greiða hlutaðeigandi félagasamtökum sérstakan styrk sem nemur allt að 25% af fjárhæð þess styrks sem greiddur er á grundvelli samnings skv. 1. mgr. vegna kostnaðar hlutaðeigandi félagasamtaka í tengslum við þau tímabundnu átaksverkefni sem um ræðir.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. einn mánuð eftir atvinnumissi,
  2. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi félagasamtaka,
  3. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í a.m.k. 12 mánuði á yfirstandandi bótatímabili, skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar,
  4. að hlutaðeigandi félagasamtök hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
  5. að hlutaðeigandi félagasamtök séu í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi félagasamtaka og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi félagasamtaka til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi félagasamtök skulu tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

Ákvæði þetta gildir frá gildistöku reglugerðar þessarar til og með 31. desember 2021.

Ákvæði til bráðabirgða III.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við stofnun um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að gegna því starfi sem hann er ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi stofnunar. Þá skuldbindur hlutaðeigandi stofnun sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að auka hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi stofnun, á grundvelli samnings skv. 1. mgr., sem nemur launum viðkomandi atvinnuleitanda en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta á mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. einn mánuð eftir atvinnumissi,
  2. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi stofnunar,
  3. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í a.m.k. 24 mánuði á yfirstandandi bótatímabili, skv. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar,
  4. að hlutaðeigandi stofnun hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
  5. að hlutaðeigandi stofnun sé í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi stofnunar og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi stofnunar til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi stofnun skal tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit á gildistíma samnings skv. 1. mgr.

Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

Ákvæði þetta gildir frá gildistöku reglugerðar þessarar til og með 31. desember 2021.

Ákvæði til bráðabirgða IV.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við stofnun um ráðningu atvinnuleitanda, sem fullnýtt hefur rétt sinn til atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tilteknu tímabili, sbr. b-lið 4. mgr., enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að gegna því starfi sem hann er ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi stofnunar. Þá skuldbindur hlutaðeigandi stofnun sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tilteknu tímabili, sbr. b-lið 4. mgr., fái tækifæri til að auka hæfni sína til þátttöku að nýju á vinnumarkaði þannig að komið verði í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi hjá þessum hópi leiði til óvinnufærni til frambúðar.

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi stofnun, á grundvelli samnings skv. 1. mgr., sem nemur launum viðkomandi atvinnuleitanda en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta á mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings skv. 1. mgr. vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsgetu og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1. að ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi stofnunar,
  2. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021,
  3. að hlutaðeigandi stofnun hafi a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitanda kemur,
  4. að hlutaðeigandi stofnun sé í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald.

Samningur skv. 1. mgr. fellur úr gildi komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi stofnunar og viðkomandi atvinnuleitanda á gildistíma samningsins. Fellur þá jafnframt niður heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi atvinnuleitanda hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi stofnunar til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings skv. 1. mgr.

Hlutaðeigandi stofnun skal tilnefna sérstakan tengilið sem skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samnings skv. 1. mgr. eftir því sem þörf krefur.

Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst ekki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

Ákvæði þetta gildir frá gildistöku reglugerðar þessarar til og með 31. desember 2021.

 Ákvæði til bráðabirgða V.

 Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til fyrirtækis sem semur við launamann, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er þegar í minnkuðu starfshlutfalli hjá viðkomandi fyrirtæki, um hækkun starfshlutfalls. Heimilt er að sækja um greiðslu styrks á grundvelli ákvæðis þessa til og með 30. júní 2021.

 Vinnumálastofnun er heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi fyrirtæki, á grundvelli umsóknar um styrk skv. 1. mgr., sem nemur hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta á mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi launamanns auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði á tímabilinu 1. júní 2021 til og með 30. september 2021.

 Óheimilt er að framlengja það tímabil sem greiðslur samkvæmt ákvæði þessu vara umfram þá fjóra mánuði sem kveðið er á um í 2. mgr. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi launamaður sé í virkri atvinnuleit á því tímabili sem greiðslur samkvæmt ákvæði þessu vara.

 Skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 1. mgr. eru meðal annars:

  1.  að viðkomandi launamaður hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar í apríl og maí 2021,
  2.  að viðkomandi launamaður og hlutaðeigandi fyrirtæki hafi samið um a.m.k. sama starfshlutfall og launamaðurinn hafði verið ráðinn í hjá fyrirtækinu áður en starfshlutfall hans var minnkað,
  3.  að hlutaðeigandi fyrirtæki sé í skilum hvað varðar launatengd gjöld og opinber gjöld, svo sem iðgjöld og mótframlag í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld og tryggingagjald,
  4.  að í ráðningarsamningi eða í viðauka við ráðningarsamning milli hlutaðeigandi fyrirtækis og viðkomandi launamanns sé kveðið á um að viðkomandi launamaður fái greidd laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings og njóti óskertra orlofsréttinda á yfirstandandi orlofsári í samræmi við fyrra starfshlutfall hans þrátt fyrir að viðkomandi hafi verið í minnkuðu starfshlutfalli hjá hlutaðeigandi fyrirtæki á ávinnslutíma orlofsréttinda fyrir yfirstandandi orlofsár, og
  5.  að Vinnumálastofnun hafi borist staðfesting launamanns um breytt starfshlutfall og samkomulag um orlofsréttindi, sbr. b- og d-lið.

 Heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu fellur niður komi til slita á ráðningarsambandi milli hlutaðeigandi fyrirtækis og viðkomandi launamanns eða ef starfshlutfall viðkomandi launamanns er minnkað á ný á því tímabili sem greiðsla styrks samkvæmt ákvæði þessu varir. Hið sama gildir séu skilyrði fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu ekki lengur uppfyllt að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar eða ef staðfesting á launagreiðslu til viðkomandi launamanns hefur ekki fylgt með reikningi hlutaðeigandi fyrirtækis til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli ákvæðisins.

 Það tímabil sem greiðsla styrks samkvæmt ákvæði þessu varir telst til ávinnslutímabils viðkomandi launamanns skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, en ekki til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.

 Ákvæði þetta gildir frá gildistöku reglugerðar þessarar til og með 30. september 2021.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.