Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Breytingareglugerð

910/2021

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 466/2012, um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma.

1. gr.

Í stað "reglugerð nr. 785/2007, um heilbrigðisumdæmi, með síðari breytingum" í 1. gr. reglugerðarinnar kemur: reglugerð nr. 1111/2020, um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa.

2. gr.

Í stað "velferðarráðherra" í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur: heilbrigðisráðherra.

3. gr.

Í stað "heimaþjónusta" í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar kemur: stuðningsþjónusta.

4. gr.

Í stað "lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga" í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar kemur: lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

5. gr.

9. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Ef einstaklingur hefur lokið meðferð á sjúkrahúsi en getur ekki útskrifast til dvalar í heimahúsi vegna færniskerðingar skal meta þörf hans fyrir dvöl á öldrunarstofnun eða í öðru úrræði.

6. gr.

1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Þegar færni- og heilsumatsnefnd hefur borist umsókn um færni- og heilsumat, sbr. 8. gr., skal nefndin afla skriflegra upplýsinga frá heimahjúkrun og félagsþjónustu um aðstæður viðkomandi einstaklings og kanna gaumgæfilega hvort öll raunhæf félagsleg og heilsufarsleg úrræði og aðstoð til dvalar í heimahúsi hafi verið fullreynd. Færni- og heilsumatsnefnd skal nýta upplýsingar úr InterRAI-matskerfinu eftir því sem kostur er auk þess að afla lækna- og hjúkrunarbréfa eða sambærilegra upplýsinga um viðkomandi einstakling, eftir því sem við á, frá hlutaðeigandi fagfólki og sjúkrastofnunum. Þá skal nefndin ganga úr skugga um það eins og kostur er að viðeigandi greiningarvinna, meðferð, þjónusta og endurhæfing hafi verið reynd til fullnustu með bætta heilsu og sjálfsbjargargetu að leiðarljósi. Hafi einstaklingur orðið bráðveikur skal þá fyrst meta hann þegar veikindin eru um garð gengin og eftir atvikum endurhæfingu lokið.

7. gr.

14. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:

Stjórn eða matsteymi stofnana tekur ákvörðun um dvöl einstaklings í dvalar- eða hjúkrunarrými í samræmi við niðurstöður færni- og heilsumatsnefndar í sínu heilbrigðisumdæmi nema sérstakir þjónustusamningar kveði á um annað. Þegar dvalar- eða hjúkrunarrými losnar á stofnun skal færni- og heilsumatsnefnd veita stofnuninni aðgang að upplýsingum um tvo einstaklinga sem óskað hafa eftir að dvelja þar og eru metnir í mestri þörf umsækjenda fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými samkvæmt niðurstöðum færni- og heilsumatsnefndar. Ákvörðun um þessa tvo einstaklinga skal byggð á stigafjölda samkvæmt færni- og heilsumati. Einnig skal höfð hliðsjón af því hvort viðkomandi hafi beðið lengi í mikilli þörf fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými.

Heimilt er að flytja innritaðan einstakling af sjúkrahúsi sem lokið hefur meðferð og bíður rýmis á dvalar- eða hjúkrunarheimili, á aðra stofnun sem fullnægt getur þjónustuþörfum viðkomandi. Skal hann teljast þar á vegum viðkomandi sjúkrahúss þar til varanlegt dvalarúrræði býðst. Slík dvöl kemur ekki niður á möguleikum einstaklingsins á rými á því dvalar- eða hjúkrunarheimili sem hann hefur óskað eftir.

Hafi sami einstaklingur verið tilnefndur af færni- og heilsumatsnefnd sem annar tveggja í dvalar- eða hjúkrunarrými á stofnun en ekki verið úthlutað rými, skal viðkomandi sjálfkrafa vera úthlutað rými á þeirri stofnun í þriðja sinn sem hann er tilnefndur.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 15. gr. laga, nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og 31. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 5. ágúst 2021.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðlín Steinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.