Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 15. maí 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 20. okt. 2005 – 28. apríl 2023 Sjá núgildandi

907/2005

Reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið. Skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til gæslu barna fram að grunnskólaaldri í heimahúsum sem rekin er í atvinnuskyni.

2. gr. Skilgreiningar.

  1. Daggæsla. Með daggæslu er átt við gæslu barna á tímabilinu frá kl. 7.00 til 19.00 á virkum dögum.
  2. Heimahús. Með heimahúsi er átt við íbúðarhúsnæði dagforeldra. Íbúðarhúsnæði er varanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar þeirra sem þar búa. Í undantekningartilvikum getur félagsmálanefnd/félagsmálaráð samþykkt að íbúðarhúsnæði sem sérstaklega er tekið á leigu undir daggæslu teljist heimahús enda aðbúnaður ekki lakari en ef um einkaheimili væri að ræða og að húsnæðið henti vel undir daggæslu.

II. KAFLI Stjórn og skipulag.

3. gr. Yfirstjórn.

Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.

4. gr. Sveitarfélög.

Sveitarfélög bera ábyrgð á því að höfð sé umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra.

5. gr. Félagsmálanefnd.

Félagsmálanefnd/félagsmálaráð í hverju sveitarfélagi ber almenna ábyrgð á velferð barna í sveitarfélaginu og skal sjá til þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Félagsmálanefnd/félagsmálaráð, eða önnur sú nefnd sem sveitarstjórn ákveður, hér eftir í reglugerð þessari nefnd félagsmálanefnd, veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsum.

6. gr. Samstarf félagsmálanefndar við barnaverndarnefnd og heilbrigðisnefnd.

Félagsmálanefnd skal eiga samstarf við heilbrigðisnefnd og barnaverndarnefnd varðandi aðbúnað barna hjá dagforeldrum eftir því sem þurfa þykir.

7. gr. Leyfisskyld starfsemi.

Starfsemi dagforeldra er háð:

  1. leyfisveitingu félagsmálanefndar sveitarfélags um þau atriði sem falla undir reglugerð þessa og
  2. starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri.

III. KAFLI Fjöldi barna í daggæslu og aldur þeirra. Dvalartími.

8. gr. Fjöldi barna og aldur.

Leyfi félagsmálanefndar tekur til allt að fjögurra barna, samtímis, að meðtöldum þeim sem fyrir eru á heimilinu yngri en sex ára, þó þannig að eigi skulu vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri að jafnaði.

Eftir a.m.k. eins árs samfelldan starfstíma er félagsmálanefnd heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar, enda hafi dagforeldri sýnt fram á hæfni til starfsins og veitt börnum góðan aðbúnað í hvívetna.

Skipulagður dvalartími barna getur skarast í hádeginu á milli kl. 12.00 og 13.00 þannig að umframfjöldi barna í hádeginu getur verið allt að tveimur fleiri en leyfilegur fjöldi barna skv. 1. og 2. mgr. Á öðrum tíma dagsins má fjöldi barna aldrei fara yfir þann leyfilegan hámarksfjölda sem dagforeldri hefur hverju sinni skv. 1. og 2. mgr.

9. gr. Dvalartími.

Dvalartími barna í daggæslu getur verið allt að níu tímar á dag, alla virka daga vikunnar.

10. gr. Tveir dagforeldrar geta starfað saman í heimahúsi.

Tveir dagforeldrar geta starfað saman að daggæslu í heimahúsi. Fjöldi barna getur þá verið allt að tíu börn samtímis. Að öðru leyti gildir ákvæði 8. gr.

IV. KAFLI Leyfisveiting félagsmálanefndar.

11. gr. Leyfisveitingar.

Leyfi félagsmálanefndar skal fyrst veitt til eins árs reynslutíma, en eftir það til allt að fjögurra ára í senn.

Félagsmálanefnd sendir Hagstofu Íslands og félagsmálaráðuneytinu árlega upplýsingar um fjölda leyfa og fjölda og aldur barna í daggæslu í heimahúsum í sveitarfélaginu.

12. gr. Tveir starfa saman að daggæslu.

Starfi tveir einstaklingar saman að daggæslu skal leyfi félagsmálanefndar veitt hvorum aðila um sig.

13. gr. Skilyrði leyfisveitinga.

Leyfi félagsmálanefndar má aðeins veita að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Aldur.

    Dagforeldri skal ekki vera yngra en 20 ára þegar leyfi er veitt í fyrsta sinn. Sé dagforeldri orðið 65 ára skal leyfi aðeins veitt til eins árs í senn.
  2. Námskeið.

    Skilyrði fyrir veitingu leyfis í upphafi er að umsækjandi hafi sótt námskeið, sbr. 20. gr. Heimilt er að veita undanþágu frá því skilyrði ef umsækjandi hefur menntun á sviði uppeldismála sem félagsmálanefnd metur fullnægjandi.
  3. Læknisvottorð.
    Vottorðið skal staðfesta að ekki hafi fundist merki um sjúkdóm sem hindrað geti að umsækjandi geti tekið að sér barnagæslu. Einnig skal koma fram að aðrir heimilismenn hafi verið skoðaðir og ekkert athugavert fundist við heilsufar þeirra sem hindri samvistir við börn.
  4. Umsögn síðasta vinnuveitanda eða umsögn tveggja ábyrgra aðila ef atvinnurekanda er ekki til að dreifa. Umsögnin skal bera með sér að umsækjandi teljist hæfur til að taka að sér barn í daggæslu.
  5. Sakavottorð.

    Umsækjandi skal í öllum tilvikum leggja fram sakavottorð. Sama á við um aðra heimilismenn 18 ára og eldri. Komi fram á sakavottorði að umsækjandi, eða annar heimilismaður, 18 ára og eldri, hafi hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og brotið beinst að einstaklingi undir 18 ára aldri, verður í engum tilvikum veitt leyfi til daggæslu barna. Um önnur brot sem fram koma á sakavottorði umsækjanda eða annars á heimilinu skal félagsmálanefnd meta hvort þau hafi áhrif á hæfni umsækjanda til að hafa barn í umsjá sinni.
  6. Húsakynni.

    Húsakynnin skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002. Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal að lágmarki vera 3 fm á gólffleti fyrir hvert barn. Bæði leikrými og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Baðherbergi, eldhús og svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna. Heimilt er að leita umsagnar heilbrigðisnefndar, hvað húsnæði varðar, ef ástæða þykir til. Sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri þarf að liggja fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002.
  7. Brunavarnir.

    Fyrir liggi skoðun eldvarnaeftirlits hvers sveitarfélags á brunavörnum á heimili umsækjanda. Reykskynjarar, eldvarnateppi og slökkvitæki skulu vera í íbúðinni. Við skoðun eldvarnaeftirlits skal farið yfir hversu margir reykskynjarar þurfi að vera í íbúðinni og staðsetningu þeirra.
  8. Lóð, leiktæki og leikföng.

    Lóð, leiktæki og leikföng skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, nr. 942/2002, og reglugerðar um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar, nr. 408/1994, eftir því sem við á. Útivistarsvæði barnanna skal vera afgirt.

Auk framangreindra skilyrða skal dagforeldri kaupa slysatryggingu vegna barnanna innan mánaðar frá því leyfi var veitt og framvísa staðfestingu þar að lútandi til umsjónaraðila.

Tóbaksreykingar svo og neysla hvers kyns vímugjafa eru með öllu óheimilaðar á heimilinu meðan á dagvistun barna stendur.

14. gr. Endurnýjun leyfa.

Við endurnýjun leyfa skal umsækjandi ávallt framvísa læknisvottorði og sakavottorði. Enn fremur skal heilbrigðisvottorði skilað ef um daggæslu með sex börn eða fleiri er að ræða.

Ef skipt er um húsnæði skal sækja um endurnýjun leyfis til félagsmálanefndar um að húsakynni og lóð uppfylli skilyrði 6.–8. tölul. 13. gr.

Flytjist nýr fullorðinn einstaklingur inn á heimili dagforeldris skal hann afhenda félagsmálanefnd/félagsmálaráði sakavottorð, sbr. 5. tölul. 13. gr.

15. gr. Bráðabirgðaleyfi.

Heimilt er félagsmálanefnd að veita bráðabirgðaleyfi til sex mánaða í senn, þó aldrei lengur en í eitt ár samfellt, þar til væntanlegt dagforeldri hefur sótt námskeið. Standi námskeið umsækjanda ekki til boða skal heimilt að veita honum bráðabirgðaleyfi þar til hann hafi átt þess kost að ljúka námskeiði, sbr. 20. gr. Þó skal slíkt leyfi ekki veitt án undangenginnar kynningar á undirstöðuatriðum þess hvað í því felst að taka að sér barn á einkaheimili til gæslu.

Fari dagforeldri ekki á námskeið þegar það býðst má svipta það leyfi.

V. KAFLI Daggæsla rekin í fjöleignarhúsi eða leiguhúsnæði.

16. gr. Fjöleignarhús.

Fari daggæslan fram í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga um fjöleignarhús um samþykki annarra eigenda.

17. gr. Leiguhúsnæði.

Fari daggæslan fram í leiguhúsnæði gilda ákvæði húsaleigulaga um samþykki leigusala.

VI. KAFLI Málsmeðferð við leyfisveitingar.

18. gr. Umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði.

Telji félagsmálanefnd að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði 13. gr., og geti því ekki mælt með honum til starfsins, skal gera honum grein fyrir því.

Sætti umsækjandi sig ekki við þá niðurstöðu getur hann krafist skriflegs rökstuðnings af hálfu félagsmálanefndar. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal henni svarað innan 14 daga frá því að hún barst. Leggi umsækjandi fram ný gögn eftir að ákvörðun hefur verið tekin á hann rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný, enda sé fullnægt skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls.

19. gr. Stjórnsýslulög.

Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð við leyfisveitingar samkvæmt reglugerð þessari.

VII. KAFLI Námskeið.

20. gr. Ábyrgð, námsgögn og gjaldtaka.

Sveitarfélög bera ábyrgð á því að umsækjendur eigi aðgang að námskeiðum ýmist á vegum sveitarfélaganna eða annarra hæfra aðila. Skulu sveitarfélög leitast við að hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um námskeið.

Félagsmálaráðuneytið leggur til námsgögn og samræmda námskrá fyrir landið allt.

Heimilt er sveitarfélagi að taka gjald fyrir námskeiðahaldið. Gjald má aldrei vera hærra en sem nemur kostnaði við námskeiðahaldið.

21. gr. Markmið og námsefni.

Markmiðið með námskeiðum er að veita hnitmiðaða og vel uppbyggða fræðslu einkum um uppeldi og umönnun barna, þarfir þeirra og þroska og hvernig koma megi til móts við þær þarfir.

Námsefni skal taka til a.m.k. eftirfarandi efnisflokka:

  1. Uppeldis og umönnunar barna.
  2. Þarfa barna og þroska og hvernig koma eigi til móts við þær þarfir.
  3. Barnasjúkdóma.
  4. Slysa í heimahúsum og fyrstu hjálpar.
  5. Eldvarna og öryggis barna.

Jafnframt skal frætt um skyldur og réttindi dagforeldra svo og samvinnu þeirra við foreldra.

22. gr. Framhaldsnámskeið.

Sveitarfélög skulu leitast við að gefa dagforeldrum kost á framhaldsnámskeiðum eða öðrum tækifærum til símenntunar.

VIII. KAFLI Ábyrgð og skyldur foreldra.

23. gr. Vistun hjá dagforeldri á ábyrgð foreldra.

Ákvörðun um vistun barns hjá dagforeldri er ætíð á ábyrgð foreldra.

24. gr. Skyldur foreldra við upphaf daggæslu.

Foreldrar skulu í upphafi kynna sér aðstæður hjá dagforeldri og hvernig daggæslunni verði háttað. Þeir skulu upplýsa dagforeldri hverjar séu daglegar venjur barnsins. Foreldrar eiga rétt á upplýsingum um hvernig deginum verði varið, þar á meðal um svefntíma barns, svo og um mataræði, leikföng og svefnaðstöðu.

Aðlögun að vist hjá dagforeldri skal miðast við þarfir barnsins og skal foreldri dvelja hjá barni sínu í upphafi vistunar í a.m.k. eina klukkustund daglega í byrjun vistunar.

Foreldrar skulu upplýsa dagforeldri um hvaða dvalartíma er óskað eftir, hvenær barnið verði sótt og hver sæki það.

Foreldrar skulu kynna sér fjölda barna hjá dagforeldri.

Foreldrar skulu kynna sér sérstaklega hvort dagforeldri hyggst nota þjónustu gæsluvalla og ef svo er þarf skriflegt samþykki foreldra til þess.

Foreldrar skulu tilkynna dagforeldri ef barn er með sérþarfir, svo sem vegna fötlunar eða langvinnra veikinda.

25. gr. Skyldur foreldra gagnvart dagforeldri meðan á daggæslu stendur.

Foreldrar skulu tilkynna dagforeldri um tilfallandi veikindi barns. Óheimilt er að koma með veikt barn í daggæslu.

Foreldar skulu leitast við að upplýsa dagforeldri verði breytingar á högum barns sem geta haft áhrif á líðan þess að mati foreldra.

Geti dagforeldri af sérstökum ástæðum ekki sinnt starfi sínu er barnið á ábyrgð foreldra.

26. gr. Samskipti foreldra við dagforeldri.

Í samskiptum sínum við dagforeldri skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.

Foreldrar skulu fylgjast reglubundið með aðbúnaði barns hjá dagforeldri og bregðast við verði þeir varir við breytingar á aðbúnaði sem þeir telja að skipti máli með tilliti til líðan barnsins.

27. gr. Skyldur foreldra gagnvart umsjónaraðila.

Verði foreldrar varir við að umönnum og aðbúnaði barnsins sé ábótavant hjá dagforeldri er þeim skylt að tilkynna það umsjónaraðila.

IX. KAFLI Ábyrgð og skyldur dagforeldra.

28. gr. Ábyrgð dagforeldra gagnvart barni meðan á dvöl stendur.

Dagforeldri ber ábyrgð á barni meðan á dvöl hjá því stendur og skal hlúa að andlegri og líkamlegri velferð þess í sem víðtækustum skilningi. Þetta á jafnt við um fæðuval, leiki, leikföng, hreyfingu, útiveru, tilfinningalíf og félagslega líðan barns. Dagforeldri skal sjá til þess að foreldrar hafi vitneskju um dagskipulag, þar með talið mataræði, svefntíma o.fl.

Dagforeldri ber að fara að ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfisskilyrða sem um starfsemina gilda.

29. gr. Öryggi barna.

Dagforeldri er skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna, svo sem með því að hafa sjúkrakassa á heimilinu og barnalæsingu á skápum með hættulegum efnum. Nota skal beisli í barnavögnum og í háum barnastólum. Um öruggt húsnæði vísast til starfsleyfis heilbrigðisnefndar og 6. tölul. 13. gr. og um eldvarnir til 7. tölul. 13. gr.

Börn í daggæslu skulu aldrei vera skilin eftir eftirlitslaus.

30. gr. Samskipti dagforeldris við foreldri við upphaf gæslu.

Áður en gæsla hefst skal dagforeldri fara yfir með foreldri hver sé ábyrgð hvors aðila um sig meðan á dvöl barnsins í gæslunni stendur. Dagforeldri skal fara fram á að fá greinargóðar upplýsingar um barnið og ákveða aðlögunartíma og gæslutíma í samráði við foreldri. Dagforeldri skal sýna foreldrum heimili, aðstæður inni sem úti og skýra frá því hvernig það hagar starfi sínu. Skal dagforeldri gera foreldrum grein fyrir aðstæðum á heimilinu sem geta haft áhrif á líðan barns, til dæmis ef gæludýr er á heimilinu.

31. gr. Skyldur dagforeldris gagnvart umsjónaraðila.

Dagforeldri skal sjá um að umsjónaraðili fái jafnóðum upplýsingar um börn sem hefja dvöl eða ljúka dvöl hjá því. Skal dagforeldri skila umsjónaraðila mánaðarlegu yfirliti yfir þau börn sem voru í gæslu í mánuðinum, ásamt staðfestingu foreldra.

32. gr. Forföll dagforeldris.

Geti dagforeldri af einhverjum ástæðum ekki unnið að daggæslunni skal það tilkynnt foreldrum þegar í stað. Foreldrar bera ábyrgð á barni þann tíma sem dagforeldri getur ekki sinnt starfi sínu.

33. gr. Reglur sveitarfélags.

Að öðru leyti setja sveitarfélög leiðbeiningar um skyldur dagforeldra gagnvart börnunum og um samskipti dagforeldra við foreldra barnanna.

X. KAFLI Umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra.

34. gr. Umsjón.

Félagsmálanefnd getur ráðið sérstakan umsjónaraðila sem hefur með höndum ráðgjöf og umsjón með daggæslu í heimahúsum.

Við ráðningu í starf umsjónaraðila skal leitast við að ráða fólk með sérþekkingu á uppeldi barna, svo sem leikskólakennara og annað uppeldismenntað fólk.

Meginverkefni umsjónaraðila er að hafa umsjón með starfsemi dagforeldra og annast stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Skal það gert með því að:

  1. fara reglulega í heimsókn til dagforeldra í þeim tilgangi að veita ráðgjöf og stuðning. Skulu heimsóknir vera tíðar fyrsta árið eftir að leyfi er veitt,
  2. halda fræðslufundi fyrir nýja umsækjendur,
  3. halda reglulega fræðslufundi fyrir starfandi dagforeldra,
  4. halda fundi með dagforeldrum og foreldrum barna þegar þess er óskað eða þörf er talin á, og
  5. leita sérstaklega eftir ráðgjöf ef barn er fatlað, en ætíð í samráði við foreldra.

35. gr. Eftirlit.

Félagsmálanefnd getur falið sérstökum starfsmanni að fara með eftirlitið eða falið það verkefni umsjónaraðila.

Eftirlitið skal vera reglubundið og er þríþætt:

  1. Mánaðarleg skil dagforeldra á yfirliti yfir skráð börn í gæslu, staðfest af eftirlitsaðila og foreldri barns.
  2. Að minnsta kosti þrjár óboðaðar eftirlitsheimsóknir á ári.
  3. Upplýsingar frá foreldri barns einu sinni á ári um viðhorf þeirra til daggæslunnar.

Auk reglubundins eftirlits skal eftirlit vera tilfallandi þegar aðstæður krefjast, svo sem vegna eftirfylgni eða kvartana.

Sveitarfélag skal setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.

XI. KAFLI Aðbúnaði barna ábótavant – leiðbeiningar, leyfissvipting.

36. gr. Aðbúnaði barna ábótavant – leiðbeiningar og stuðningur.

Ef umsjónaraðili, eða annar sá starfsmaður sem fer með eftirlitið, verður þess var að aðbúnaði barns hjá dagforeldri sé ábótavant, skilyrði til leyfisveitingar ekki lengur fyrir hendi eða önnur þau atriði sem bendi til að ekki fari nægilega vel um barn hjá dagforeldri, án þess þó að barn teljist í hættu statt, skal hann gera dagforeldri það ljóst, tilkynna foreldrum þegar í stað og veita frest til úrbóta/andsvara áður en málinu er vísað til félagsmálanefndar til meðferðar.

Félagsmálanefnd skal bregðast strax við og vinna að því með leiðbeiningum og á annan hátt að dagforeldri bæti úr því sem áfátt er. Skal dagforeldri veittur til þess tiltekinn frestur, enda sé ekki talið að sá frestur stofni velferð barns í hættu.

Ef ekki er farið að leiðbeiningum umsjónaraðila skal félagsmálanefnd svipta dagforeldri leyfi, sbr. 41. gr.

37. gr. Barn telst í hættu statt – viðeigandi ráðstafanir.

Ef umsjónaraðili telur að barn sé í hættu statt hjá dagforeldri, svo sem vegna lélegs aðbúnaðar eða of mikils fjölda barna, skal hann gera dagforeldri það ljóst, tilkynna foreldrum það þegar í stað og vísa málinu til félagsmálanefndar. Skal félagsmálanefnd bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum þegar í stað.

Tilkynna skal barnaverndarnefnd og heilbrigðisnefnd um mál skv. 1. mgr.

38. gr. Tímabundin leyfissvipting.

Ef talið er brýnt með hag barnanna í huga, sbr. 39. gr., að þau séu tekin tafarlaust úr gæslu skal félagsmálanefnd svipta dagforeldri leyfi, tímabundið, á meðan málið er kannað nánar.

39. gr. Leyfissvipting.

Félagsmálanefnd skal svipta dagforeldri leyfi ef börn eru í hættu stödd, sbr. 37. gr., eða ef tímabundin leyfissvipting, sbr. 38. gr., hefur ekki borið árangur.

40. gr. Stjórnsýslulög.

Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög um málsmeðferð við leyfissviptingar samkvæmt reglugerð þessari.

XII. KAFLI Ýmis atriði.

41. gr. Daggæsla barna starfrækt án leyfis.

Ef félagsmálanefnd fær upplýsingar um að börn séu tekin í gæslu í atvinnuskyni án leyfis skal hún stöðva starfsemina þegar í stað.

42. gr. Þátttaka sveitarfélags í greiðslu kostnaðar.

Heimilt er sveitarstjórn að greiða niður kostnað við daggæslu í heimahúsum. Skal þá sveitarstjórn setja reglur þar um.

XIII. KAFLI Lagastoð og gildistaka.

43. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæði 34. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, öðlast gildi þann 1. nóvember 2005 og gildir um leyfi sem dagforeldri eru veitt frá og með gildistöku reglugerðar þessarar, svo og um endurnýjun á leyfum.

Ákvæði í III. og IV. kafla reglugerðar þessarar taka ekki til leyfa sem veitt hafa verið samkvæmt reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 198/1992. Áður útgefin leyfi til daggæslu gilda til loka gildistíma leyfanna. Að öðru leyti gildir reglugerð þessi einnig um starfsemi dagforeldra sem fengið hafa leyfi samkvæmt reglugerð nr. 198/1992.

Félagsmálaráðuneytinu, 5. október 2005.

Árni Magnússon.

Óskar Páll Óskarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.