Fara beint í efnið

Prentað þann 8. nóv. 2024

Breytingareglugerð

905/2017

Reglugerð um (6.) breytingu á reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti.

1. gr.

Við 1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður, 6. tölul., sem orðast svo:

  1. Heimilt er eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða, svo sem matsölustaða og kaffihúsa, að leyfa að komið sé með hunda og ketti inn á veitingastað að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

    a) Ætíð skal taka mið af hagsmunum gesta og velferð dýranna.
    b) Til að upplýsingar um að hundar og kettir séu leyfð á veitingastað séu vel sýnilegar gestum áður en gengið er inn á veitingastað skulu þeir eigendur eða rekstraraðilar sem leyfa að hundar og kettir komi inn á veitingastaði auglýsa það á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu utan dyra sem innan, og á vef hlutaðeigandi fyrirtækis að heimilt sé að koma með hunda og ketti inn á staðinn.
    c) Tryggja skal að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd. Geymsla, undirbúningur og framleiðsla matvæla fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli.
    d) Heilbrigðisnefnd getur sett ítarlegri ákvæði í starfsleyfi, m.a. um mat á áhættu.

    Heimild skv. 1. mgr. gildir hvorki um mötuneyti né veitingastaði þar sem mæting er ekki valfrjáls og á stöðum þar sem fólki er gert að sækja þjónustu. Þá gildir heimild þessi ekki sé aðstaða veitingastaðar að einhverju leyti sameiginleg með annarri starfsemi eða á stað þar sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.
    Eigendur eða rekstraraðilar veitingastaða sem nýta sér heimild skv. 1. mgr. skulu, með sannarlegum hætti, tilkynna það til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
    Eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða er jafnframt heimilt að vísa frá viðskiptavinum með gæludýr.

2. gr.

Fylgiskjal 3 með reglugerðinni breytist og er birt með reglugerð þessari.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 26. október 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.