Fara beint í efnið

Prentað þann 18. okt. 2024

Stofnreglugerð

871/2024

Reglugerð um fangavarðanám.

1. gr. Hlutverk.

Fangelsismálastofnun fer með umsjón og eftirlit með námi fangavarða og skal sjá til þess að fangaverðir hljóti viðhlítandi menntun og þjálfun í fangavarðafræðum.

2. gr. Val á nemendum.

Fangelsismálastofnun metur hvort umsækjendur um nám í fangavarðafræðum fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til starfa í fangelsum. Nemendur í fangavarðafræðum skulu standast bakgrunnsskoðun skv. 10. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 enda fer hluti námsins fram með starfsnámi í fangelsum ríkisins.

Við heildstætt mat á því hvort óhætt sé að veita umsækjanda aðgang að fangelsum ríkisins skal horfa til breiðra þátta á borð við samskiptafærni umsækjanda, niðurstöðu úr bakgrunnsskoðun og aldurs umsækjanda.

Fangelsismálastofnun skal leitast við að velja til námsins hæfustu einstaklingana úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Við val í námið er einnig heimilt að taka mið af samsetningu hópsins með tilliti til þarfa fangelsanna hverju sinni.

Fangelsismálastofnun getur látið hæfa umsækjendur undirgangast inntökupróf og önnur próf sem rétt þykir að framkvæma. Auk þess sem Fangelsismálastofnun getur óskað eftir frekari gögnum frá umsækjendum eða óskað eftir að þeir sæti sértækri læknisskoðun.

3. gr. Fyrirkomulag grunn- og starfsnáms.

Grunnnám í fangavarðafræðum er tvær skólaannir ásamt starfsnámi í fangelsum undir handleiðslu leiðbeinenda og eftirliti Fangelsismálastofnunar. Heimilt er að styðjast við fjölbreytt kennslufyrirkomulag við framkvæmd grunnnámsins.

Leiðbeinendur í starfsnámi skulu vera fangaverðir sem hafa haldbæra reynslu og þekkingu á fangavarðastarfinu og hafa hlotið viðeigandi þjálfun áður en starfsþjálfun fer fram. Við lok starfsnáms skila leiðbeinendur skýrslu um frammistöðu nemenda til Fangelsismálastofnunar í samræmi við þau viðmið sem stofnunin leggur til grundvallar. Standist nemandi ekki hæfismatið metur stofnunin hvort vankantar séu þannig að þeir kalli á frekari þjálfun nemanda í þeim þáttum sem hann stóðst ekki, hvort nemandi þurfi að endurtaka allt starfsnámið eða hvort hæfi nemanda sé svo ábótavant að hann standist ekki grunnskilyrði námsins.

4. gr. Innihald grunnnáms.

Fangelsismálastofnun ákveður námsgreinar og námskrá í grunnnámi í fangavarðafræðum. Námið skal veita haldgóða þekkingu í fangavarðafræðum og skal námskrá endurskoðuð á tveggja ára fresti. Sérstaka hliðsjón skal hafa af markmiðum Fangelsismálastofnunar varðandi tilgang fullnustu refsinga og rekstur fangelsa sem eru þessi helst:

  1. Að fullnusta í fangelsum fari fram með öruggum hætti þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt.
  2. Að draga úr líkum á endurkomu í fangelsi.
  3. Að tryggja föngum örugga og vel skipulagða fullnustu, að mannleg samskipti séu höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetja til endurhæfingar.

Leggja skal áherslu á fræðslu um lög um fullnustu refsinga, reglugerðir sem settar eru með stoð í lögunum, stjórnsýslulög, evrópskar fangelsisreglur auk almennrar fræðslu um mannréttindi, menningarlæsi og þjálfun við að annast fólk af virðingu. Einnig skal veita nauðsynlega þjálfun í tæknilegum atriðum sem tengjast starfinu, s.s. leit í klefum, leit á fólki og valdbeitingu.

5. gr. Samningar við menntastofnun.

Fangelsismálastofnun er heimilt að semja við menntastofnun um að annast menntun fangavarða.

Sé samningur milli Fangelsismálastofnunar og menntastofnunar um menntun fangavarða er Fangelsismálastofnun heimilt að hafa samráð við menntastofnunina við val á nemendum, sbr. 2. gr. og að meta hæfi nemenda, sbr. 3. gr. Fangelsismálastofnun er sömuleiðis heimilt að veita þeirri stofnun sem samið hefur verið við að meta hæfi nemenda, sbr. 3. gr.

Fangelsismálastofnun er heimilt að hafa samráð við menntastofnun sem samningar eru við um gerð námskár og val á námsgreinum, sbr. 4. gr.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 347/2007.

Dómsmálaráðuneytinu, 2. júlí 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.