Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

870/2018

Reglugerð um þjónustuaðila skipsbúnaðar.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að fullnægjandi þjónustu skipsbúnaðar, að hún sé rekjanleg, framkvæmd af hæfum starfsmönnum og með þeim hætti að skipsbúnaður sé að fullu virkur á hverjum tíma.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi þjónustuaðila fyrir skipsbúnað.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

  1. Ábyrgðarmaður: Hæfur starfsmaður sem þjónustuaðili tilnefnir og ber faglega ábyrgð á að sú þjónusta sem veitt er uppfylli kröfur þessarar reglugerðar.
  2. Eftirlit: Skoðun og prófun á skipsbúnaði.
  3. Skipsbúnaður: Einstakir hlutar skipa, s.s. líf- og léttbátar og búnaður þeirra, áttavitar, björgunarbúningar, uppblásanleg björgunarvesti, og losunar- og sjósetningarbúnaður.
  4. Hæfur starfsmaður: Einstaklingur sem hefur þekkingu til að sinna þjónustu skipsbúnaðar og hefur hlotið vottorð sem Samgöngustofa viðurkennir til að vinna við nánar tilgreindan skipsbúnað.
  5. Viðhald: Allar aðgerðir sem stuðla að því að skipsbúnaður sé að fullu virkur.
  6. Starfsstöð: Staður þar sem eftirlit og viðhald skipsbúnaðar fer fram.
  7. Þjónustuaðili: Fyrirtæki eða einstaklingur sem skoðar, prófar og viðheldur skipsbúnaði.
  8. Þjónusta skipsbúnaðar: Eftirlit og viðhald skipsbúnaðar.

4. gr. Starfsleyfi þjónustuaðila skipsbúnaðar.

Samgöngustofa veitir starfsleyfi til rekstrar þjónustuaðila samkvæmt reglugerð þessari. Áður en starfsleyfi er gefið út skal Samgöngustofa gera heildarúttekt á búnaði og starfsemi þjónustuaðila og ganga úr skugga um að hann uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar.

Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis samkvæmt 1. mgr. eru:

  1. að viðkomandi þjónustuaðili hafi nægan fjölda hæfra starfsmanna í sinni þjónustu,
  2. tilnefndur hafi verið ábyrgðarmaður í samræmi við 2. mgr. 6. gr.,
  3. að þjónustuaðili hafi yfir að ráða fullnægjandi tækjabúnaði og varahluti til að geta innt þjónustuna af hendi með fullnægjandi og öruggum hætti, og
  4. að sett hafi verið upp fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi vegna starfseminnar í samræmi við leiðbeiningar Samgöngustofu.

Gæðastjórnunarkerfi sem vottað er samkvæmt ÍST EN ISO 9001 uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til gæðastjórnunarkerfis samkvæmt þessari grein. Önnur gæðastjórnunarkerfi skulu hljóta samþykki Samgöngustofu.

Samgöngustofa getur með samningi falið samþykki gæðastjórnunarkerfa til annarra faggiltra úttektaraðila.

5. gr. Reglur um starfsleyfi.

Starfsleyfi þjónustuaðila skal bundið við eitt eða fleiri eftirtalinna starfssviða:

  1. Líf- og léttbátar og búnaður þeirra.
  2. Áttavitar.
  3. Björgunarbúningar.
  4. Uppblásanleg björgunarvesti
  5. Losunar- og sjósetningarbúnaður.
  6. Annar skipsbúnaður samkvæmt ákvörðun Samgöngustofu.

Starfsleyfi er gefið út á nafn og kennitölu þjónustuaðila og fellur niður ef hann hættir starfsemi. Framsal starfsleyfis er óheimilt. Starfsleyfi er veitt til allt að fimm ára í senn. Skrá yfir útgefin starfsleyfi skulu birt á heimasíðu Samgöngustofu.

Í starfsleyfi skal tilgreina nafn og kennitölu þjónustuaðila, á hvaða starfssviði þjónustuaðila er heimilt að starfa, sérákvæði ef einhver eru, sbr. 10.-11. gr., og hver er ábyrgðarmaður skv. 2. mgr. 6. gr.

6. gr. Skyldur starfsleyfishafa.

Einungis þeim sem uppfylla ákvæði 10.-11. gr. er heimilt að inna af hendi störf þjónustuaðila samkvæmt þessari reglugerð. Starfsmönnum í starfsþjálfun er þó heimilt að starfa á ábyrgð og undir leiðsögn hæfra starfsmanna. Þjónustuaðili skal gæta þess að hafa á hverjum tíma í þjónustu sinni hæfa starfsmenn til að vinna þau störf sem starfsleyfið nær til og fullnægjandi búnað sbr. 2. mgr. 4. gr.

Þjónustuaðili skal tilnefna ábyrgðarmann úr hópi hæfra starfsmanna í hans þjónustu. Ábyrgðarmaður ber faglega ábyrgð á allri vinnu þjónustuaðila við skipsbúnað sem fellur undir reglugerð þessa. Láti ábyrgðarmaður af störfum skal þjónustuaðili án tafar tilnefna nýjan ábyrgðarmann og tilkynna það Samgöngustofu. Þjónustuaðila er óheimilt að veita þjónustu við skipsbúnað án þess að hafa tilnefndan ábyrgðarmann.

Á starfsstöð skulu vera leiðbeiningar frá framleiðanda skipsbúnaðar um það hvernig og hversu oft viðkomandi skipsbúnaður skal yfirfarinn sem og annað sem máli skiptir um þjónustu skipsbúnaðarins. Þjónustuaðili skipsbúnaðar skal ávallt fylgja leiðbeiningum framleiðanda um þjónustu skipsbúnaðar.

7. gr. Staðfesting vinnu.

Hæfur starfsmaður skal við þjónustu skipsbúnaðar staðfesta vinnu sína með því að fylla út skoðunarvottorð og skoðunarskýrslu þar sem fram kemur:

  1. Nafn og heimilisfang þjónustuaðila,
  2. dagsetning skoðunar,
  3. hvað var gert,
  4. hvenær næsta skoðun skal fara fram.

Skoðunarvottorð skal undirritað af hæfum starfsmanni og geymt um borð í skipi og afrit hjá þjónustuaðila. Með undirrituninni staðfestir hæfur starfsmaður að unnið hafi verið í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda og þessa reglugerð.

Samgöngustofa getur hvenær sem er farið fram á að fá afrit af skoðunarvottorði. Þá getur Samgöngustofa farið fram á að upplýsingar um skoðun séu færðar í gagnagrunn hjá stofnuninni.

Þjónustuaðili skal varðveita hjá sér afrit af skoðunarvottorði í tíu ár.

8. gr. Kvörðun voga og mælitækja.

Öll mælitæki, svo sem vogir, þrýstimælar og herslumælar á starfsstöð, skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, með síðari breytingum og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

9. gr. Þrýstiprófanir.

Um þrýstiprófanir gilda þær reglur Vinnueftirlits ríkisins sem eiga við hverju sinni.

10. gr. Kröfur um menntun og starfshæfni.

Þeir starfsmenn sem annast þjónustu skipsbúnaðar skulu geta sýnt fram á fræðilega og verklega kunnáttu sína. Þeir skulu hafa sótt námskeið og þjálfun um þjónustu á viðeigandi gerð skipsbúnaðar sem Samgöngustofa samþykkir og fengið vottorð þar að lútandi.

Þeir starfsmenn sem annast þrýstiprófun skulu hafa sótt námskeið þess efnis á vegum Vinnueftirlits ríkisins og hafa fengið í hendur vottorð þar að lútandi.

Ábyrgðarmaður skal, auk þess sem segir í 1. mgr., hafa minnst þriggja mánaða staðfesta starfsreynslu hjá þjónustuaðila með starfsleyfi.

Þjónustuaðili skal halda skrá yfir alla hæfa starfsmenn og skal skráin vistuð í gæðakerfi þjónustuaðilans.

11. gr. Sérákvæði vegna áttavita.

Starfsmenn þjónustuaðila áttavita skulu, auk ákvæða 10. gr., uppfylla eftirfarandi:

  1. Hafa lokið skipstjórnunarnámi, námsstigi D frá Tækniskólanum ehf. eða sambærilegu námi eða, staðist sérstakt raunfærnimat í kompásleiðréttingu hjá Tækniskólanum ehf. Samgöngustofa getur samþykkt annars konar raunfærnimat.
  2. Hafa hlotið þjálfun hjá þjónustuaðila sem hefur starfsleyfi til þjónustu áttavita og hlotið umsögn þaðan.

12. gr. Eftirlit með þjónustuaðilum skipsbúnaðar.

Samgöngustofa hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessar. Rekstur og búnaður þjónustuaðila er háður eftirliti Samgöngustofu. Samgöngustofa getur gefið þjónustuaðilum skipsbúnaðar fyrirmæli um framkvæmd starfsemi sinnar.

Auk heildarúttektar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal á gildistíma starfsleyfis þjónustuaðila skipsbúnaðar fara fram ein heildarúttekt. Samgöngustofa getur ákveðið að framkvæma fleiri úttektir ef þörf er á.

Þjónustuaðilum ber að veita Samgöngustofu allar upplýsingar sem skilyrtar eru í starfsleyfi og fullnægjandi lýsingu á þeim skipsbúnaði sem þjónustaður er svo og efnum og viðhaldsbúnaði sem notaður er. Skal Samgöngustofa í því sambandi hafa aðgang að húsnæði, starfsstöðvum, tækjum og gögnum sem notuð eru við þjónustu skipsbúnaðar.

Samgöngustofa setur nánari verklagsreglur um eftirlitið í skoðunarhandbók.

Fylgi starfsmaður þjónustuaðila skipsbúnaðar ekki leiðbeiningum framleiðanda um þjónustu skipsbúnaðarins eða fyrirmælum Samgöngustofu getur Samgöngustofa krafist þess að viðkomandi skipsbúnaður sé þjónustaður að nýju. Samgöngustofa getur jafnframt krafist viðeigandi úrbóta, til dæmis með þjálfun starfsmanna og að viðkomandi starfsmaður sinni ekki skoðunum á skipsbúnaði fyrr en bætt hefur verið úr annmarka með fullnægjandi hætti að mati Samgöngustofu.

13. gr. Svipting starfsleyfis og viðurlög við brotum.

Samgöngustofa getur svipt þjónustuaðila starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu að mati Samgöngustofu, svo sem ef hann hefur ekki í þjónustu sinni starfsmenn sem uppfylla hæfnisskilyrði reglugerðar þessarar, hefur ekki tilnefnt ábyrgðarmann eða hefur ekki yfir að ráða fullnægjandi búnaði. Sama á við þegar þjónustuaðili hlítir ekki fyrirmælum Samgöngustofu eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga um eftirlit með skipum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samgöngustofu er heimilt að veita þjónustuaðila áminningu fyrir brot á reglugerð þessari.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt VII. kafla laga um eftirlit með skipum.

14. gr. Þjónustugjöld.

Samgöngustofu er heimilt að innheimta þjónustugjöld fyrir útgáfu starfsleyfis og eftirlits samkvæmt reglugerð þessari. Um þjónustugjöldin fer skv. 2. og 8. tölul. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum.

15. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. og 3. og 6. mgr. 12. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, og 17. gr., sbr. 5. mgr. 2. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Skoðunaraðilar sem hafa gild leyfi til skoðunar búnaðar frá Samgöngustofu við gildistöku þessarar reglugerðar halda leyfum sínum meðan þau gilda.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. kemur ákvæði 4. mgr. 4. gr. til framkvæmda 12 mánuðum eftir birtingu þessarar reglugerðar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. september 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.