Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. des. 2016

851/2012

Reglugerð um mjólkurvörur.

1. gr.

Reglugerð þessi fjallar um eftirlit með frumframleiðendum og skilgreiningar á mjólk og ákveðnum mjólkurvörum og merkingu þeirra.

2. gr.

Mjólk er samkvæmt reglugerð þessari kúamjólk sem fengin er við reglubundnar mjaltir og ætluð til manneldis. Úr mjólk, sem lögð er inn í mjólkurstöð, má ekkert taka og engu í bæta. Um kapla-, geita- og sauðamjólk skulu gilda sömu reglur og um mjólk í reglugerð þessari, sbr. þó 3. gr. Þessar vörur eru ásamt broddmjólk og geldmjólk nánar skilgreindar í viðauka I með reglugerðinni.

Mjólkurvara er hver sú matvælategund sem eingöngu er unnin úr mjólk þar sem viðurkennt er að bæta megi við efnum sem nauðsynleg eru við framleiðslu þeirra, að því tilskildu að þessi efni séu ekki notuð að hluta til eða alfarið í stað innihaldsefna mjólkur. Samsett mjólkurvara er hver sú matvælategund þar sem mjólk eða mjólkurvörur eru mikilvægur hluti annaðhvort að því er varðar magn eða einkenni vörunnar. Ákveðnar mjólkurvörur og vöruheiti eru nánar skilgreind í viðauka I með reglugerð þessari. Framleiðsla og dreifing á mjólkurvörum með öðrum efnum, tegundum eða tegundaafbrigðum örvera er ekki heimil nema að fengnu samþykki Matvælastofnunar.

Hitun mjólkur og mjólkurvöru skal gerð í þeim tilgangi að sneyða vöruna að nokkru eða öllu leyti lifandi örverum og fer fram með eftirfarandi hætti:

  1. Gerilskerðing (forhitun) er hitun upp í 63-68°C í 15 sek. án þess að fosfatasahvatinn í mjólkinni verði óvirkur.
  2. Gerilsneyðing er hitun upp í 62-65°C í 30 mín. eða 72-78°C í 15-20 sek. Eftir gerilsneyðingu er fosfatasahvatinn í mjólkinni óvirkur en peroxydasahvatinn virkur. Við aðra samsetningu tíma og hitastigs skulu sömu áhrif koma fram.
  3. Hágerilsneyðing er hitun upp í 81-95°C í 15-20 sek. Eftir hágerilsneyðingu eru fosfatasa- og peroxydasahvatarnir í mjólkinni óvirkir. Við aðra samsetningu tíma og hitastigs skulu sömu áhrif koma fram.
  4. Leifturhitun (UHT) er hitun upp í 135-150°C í 2-6 sek. Mysupróteinin skulu haldast eðlileg (Aschaffenburg-próf jákvætt).
  5. Niðursuða er hitun undir þrýstingi sem jafngildir 121°C í 2,5 mín. Við aðra samsetningu tíma og hitastigs skulu sömu áhrif koma fram. Mysupróteinið verður eðlissvipt.

Fituskert mjólk er mjólk þar sem frá mjólkinni hefur verið skilinn nokkur hluti fitunnar eða í mjólkina hefur verið blandað undanrennu sem svarar til skerðingarinnar.

3. gr.

Skylt er að taka sýni úr allri mjólk áður en að úrvinnslu hennar kemur.

Sýni til rannsókna úr kúamjólk skulu vera af kældri mjólk, sem tekin hafa verið úr kæligeymi mjólkurframleiðanda. Séð skal til þess að sýnin berist rannsóknastofu eins fljótt og kostur er, að þau séu óskemmd og í þannig ástandi að gæðum mjólkurinnar sé rétt lýst.

Skylt er að taka sýni af kapla-, geita- og sauðamjólk í hvert skipti sem mjólkað er, merkja það með dagsetningu og auðkennisnúmeri framleiðanda og heimilt er að frysta það síðan við -18°C í sérstökum frysti á framleiðslustað. Sýni þessi skulu rannsökuð á viðurkenndri rannsóknastofu áður en mjólk frá viðkomandi dögum er notuð til framleiðslu á mjólkurvörum. Heimilt er að rannsaka öll sýni frá viðkomandi dögum, sem eitt sýni.

Heimilt er að safna kapla-, geita- og sauðamjólk í ný einnota ílát til frystingar við -18°C hjá frumframleiðanda strax að mjöltum loknum til ostagerðar eða annarrar matvælaframleiðslu síðar meir. Merkja skal hvert ílát með dagsetningu og auðkennisnúmeri framleiðanda. Við úrvinnslu kapla-, geita- og sauðamjólkur gilda að öðru leyti sömu reglur og um kúamjólk.

Matvælastofnun hefur eftirlit með hrámjólk frá frumframleiðendum og tekur reglulega sýni til skoðunar.

Ef mjólk frá frumframleiðanda er lögð beint inn í vinnslustöð skulu sýni tekin þegar mjólkin er sótt frá frumframleiðanda að því tilskildu að gerðar séu ráðstafanir til að koma í veg fyrir misferli við flutning, eða áður en lagt er inn í vinnslustöðina ef bóndinn sjálfur leggur mjólkina þangað inn.

Ef niðurstöður eftirlits leiða til grunsemda um að vatni hafi verið bætt út í mjólkina skulu tekin löggilt sýni frá frumframleiðanda. Með löggiltu sýni er átt við sýni úr mjólk sem tekið er við morgun- og kvöldmjaltir undir eftirliti og hefjast minnst 11 klst. eða mest 13 klst. eftir síðustu mjaltir.

Ef mjólk er lögð inn frá nokkrum frumframleiðendum er heimilt að taka sýni þegar hrámjólkin kemur inn í vinnslustöðina eða söfnunar- eða stöðlunarstöðina, að því tilskildu þó að sýni hafi verið tekið hjá frumframleiðanda.

Ef niðurstöður sýna að farið sé yfir staðla skulu sýni tekin hjá öllum frumframleiðendum sem eiga hlut í hrámjólkinni sem um ræðir.

Ef niðurstöður eftirlits hrekja allan grun um að vatni hafi verið bætt út í mjólkina má nota hrámjólkina við framleiðslu á hitameðhöndlaðri mjólk.

4. gr.

Við sýnatöku og rannsóknir (prófanir) á niðurseyddum mjólkurvörum og mjólkurdufti, sbr. D- og E-lið viðauka I, skal nota þær aðferðir sem fram koma í tilskipunum 79/1067/EBE og 87/524/EBE.

5. gr.

Með mál út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum. Einnig voru höfð til hliðsjónar ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í, 23. tl. XII. kafla, II viðauka (tilskipun 79/1067/EBE um greiningaraðferðir til prófunar á þessum vörum), 42. tl., (tilskipun 87/524/EBE um aðferðir við sýnatöku vegna prófana og eftirlits með þessum vörum), tilskipun nr. 89/384/EBE og tilskipun 2001/114/EB um tilteknar niðurseyddar mjólkurvörur og mjólkurduft.

Reglugerðin tekur gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 919/2002 um mjólk og mjólkurvörur, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.