Prentað þann 27. des. 2024
845/2022
Reglugerð um undanþágu frá banni við veiðum vegna fjarskiptastrengsins ÍRIS.
Efnisyfirlit
1. gr. Markmið og tilgangur.
Markmið þessarar reglugerðar er að veita undanþágu frá bannákvæði 4. mgr. 86. gr. laga nr. 70/2022, um fjarskipti, við veiðum á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó, í þeim tilgangi að draga úr líkum á að lagning fjarskiptastrengsins ÍRIS takmarki óhóflega og að óþörfu möguleika á fiskveiðum við lendingarstað strengsins.
2. gr. Gildissvið og lagaskil.
Reglugerð þessi gildir um þau svæði þar sem fjarskiptastrengurinn ÍRIS liggur í sjó. Á þeim svæðum sem skilgreind eru í viðaukum I-III gildir undanþága frá banni við veiðum að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Undanþága samkvæmt reglugerð þessari gildir aðeins gagnvart banni skv. 4. mgr. 86. gr. laga nr. 70/2022 um fjarskipti en ekki gagnvart öðrum lögum eða reglugerðum.
3. gr. Bann við veiðum.
Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Bannað er að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum og þess háttar, á svæðum þar sem fjarskiptastrengir liggja, nema þar sem það er sérstaklega heimilað. Svæði þetta skal vera mílufjórðungs belti hvoru megin við fjarskiptastrenginn. Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri innan sömu fjarlægða frá fjarskiptastrengjum.
4. gr. Undanþága frá banni við veiðum á tilteknum svæðum þar sem fjarskiptastrengurinn ÍRIS liggur.
Þrátt fyrir 3. gr. skulu eftirfarandi veiðar heimilar:
- heimilt skal að stunda veiðar með línu á svæðum sem skilgreind eru í viðauka I, II og III.
- netaveiðar og veiðar með dragnót eða snurvoð skulu heimilar á svæðum sem skilgreind eru í viðauka I og III.
5. gr. Tilkynningarskylda.
Ef tjón verður á fjarskiptastreng í sjó, skal það tilkynnt tafarlaust til Fjarskiptastofu.
6. gr. Gildistaka og reglugerðarheimild.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. mgr. 86. gr., sbr. 2. mgr. 109. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og öðlast þegar gildi.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. júlí 2022.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.