ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2016/2231
frá 12. desember 2016
breytingu á ákvörðun 2010/788/SSUÖ um þvingunaraðgerðir gegn Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 20. desember 2010 samþykkti ráðið ákvörðun 2010/788/SSUÖ (1).
2) Hinn 17. október 2016 samþykkti ráðið ályktanir þar sem það lét í ljós þungar áhyggjur af hinu pólitíska ástandi í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Einkum fordæmdi það hin miklu ofbeldisverk sem áttu sér stað 19. og 20. september í Kinshasa og veitti því athygli að þessar aðgerðir juku enn frekar á það þrátefli sem upp er komið í landinu vegna þess að ekki hefur verið boðað til forsetakosninga innan stjórnarskrárbundins frests, sem er 20. desember 2016.
3) Ráðið lagði áherslu á það að til þess að skapa andrúmsloft sem stuðlar að viðræðum og að kosningar verði haldnar verði ríkisstjórn Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó að skuldbinda sig með skýrum hætti til þess að tryggja að mannréttindi og réttarríkið séu virt og láta af allri notkun á dómskerfinu í pólitískum tilgangi. Einnig hvatti það alla hagsmunaaðila til að hafna beitingu ofbeldis.
4) Ráðið gaf einnig til kynna að það væri reiðubúið til þess að grípa til allra leiða sem það hefur, þ.m.t. þvingunaraðgerða gegn þeim sem bera ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum, þeim sem hvetja til ofbeldis og þeim sem reyna að standa í vegi fyrir því að á ástandinu finnist friðsamleg lausn sem samkomulag ríkir um og sem virðir vonir íbúa Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó um að fá að kjósa sína fulltrúa.
5) Því ætti að breyta ákvörðun 2010/788/SSUÖ til samræmis við það.
6) Frekari aðgerða er þörf af hálfu Sambandsins til þess að hrinda tilteknum aðgerðum í framkvæmd.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
Ákvörðun 2010/788/SSUÖ er breytt sem hér segir:
1) Í stað 3. gr. komi eftirfarandi:
„3. gr.
1. Beina skal þvingunaraðgerðum, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 5. gr., gegn aðilum og rekstrareiningum sem framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint að taki þátt í eða styðji við aðgerðir sem grafa undan friði, öryggi eða stöðugleika í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Til slíkra aðgerða skal telja:
a) brot gegn vopnasölubanninu og tengdum ráðstöfunum er um getur í 1. gr.,
b) að vera pólitískir leiðtogar og herforingjar erlendra vopnaðra hópa sem starfa innan Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó og koma í veg fyrir afvopnun og að stríðsmenn, sem tilheyra þeim hópum, séu sendir heim eða taki sér bólfestu á ný, ótilneyddir,
c) að vera pólitískir leiðtogar og herforingjar kongóskra hersveita óbreyttra borgara, þ.m.t. þeirra sem fá stuðning utan Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, sem koma í veg fyrir að stríðsmenn þeirra taki þátt í afvopnun, afléttingu hernaðarástands og enduraðlögun,
d) að taka börn í þjónustu sína eða nota þau í vopnuðum átökum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og brjóta þannig gegn gildandi reglum þjóðaréttar,
e) að eiga aðild að því að skipuleggja, stjórna eða fremja verknaði í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sem eru mannréttindabrot eða misbeiting eða brot á alþjóðlegum mannúðarrétti, eftir því sem við á, þ.m.t. verknaðir sem fela í sér árásir sem beinast gegn almennum borgurum, þ.m.t. manndráp og lemstrun, nauðgun og annað kynferðislegt ofbeldi, brottnám, nauðungarflutningar og árásir á skóla og sjúkrahús,
f) að hindra aðgang að mannúðaraðstoð eða dreifingu hennar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó,
g) að styðja aðila eða rekstrareiningar, þ.m.t. vopnaða hópa eða afbrotasamtök sem taka þátt í starfsemi sem grefur undan stöðugleika í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó með ólöglegri nýtingu eða verslun með náttúruauðlindir, þ.m.t. gull eða villt dýr auk afurða af villtum dýrum,
h) að koma fram fyrir hönd eða starfa eftir fyrirmælum tilgreinds aðila eða rekstrareiningar, eða koma fram fyrir hönd eða starfa eftir fyrirmælum rekstrareiningar sem er í eigu eða lýtur yfirráðum tilgreinds aðila eða rekstrareiningar,
i) að skipuleggja, stjórna, vera bakhjarl eða þátttakandi í árásum gegn friðargæsluliðum MONUSCO-sendisveitarinnar eða starfsfólki Sameinuðu þjóðanna,
j) að veita tilgreindum aðila eða rekstrareiningu fjárhagslegan, efnislegan eða tæknilegan stuðning, eða útvega honum vörur eða þjónustu.
Viðkomandi aðilar og rekstrareiningar, sem falla undir þessa málsgrein, eru tilgreind í I. viðauka.
2. Beina skal þvingunaraðgerðum, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 5. gr., gegn aðilum og rekstrareiningum sem:
a) koma í veg fyrir friðsamlega lausn sem samkomulag ríkir um vegna kosninga í lýðveldinu Kongó, þ.m.t. með ofbeldisverkum, bælingu eða með því að hvetja til ofbeldis eða með því að grafa undan réttarríkinu,
b) eiga aðild að því að skipuleggja, stjórna eða fremja verknaði sem teljast vera alvarleg mannréttindabrot eða misbeiting í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó,
c) tengjast þeim sem um getur í a- og b-lið,
sbr. skrána í II. viðauka.“
2) Í stað 4. gr. komi eftirfarandi:
„4. gr.
1. Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hindra að inn á yfirráðasvæði þeirra komi eða um þau fari þeir aðilar sem um getur í 3. gr.
2. Ákvæði 1. mgr. skuldbinda aðildarríki ekki til að meina eigin ríkisborgurum komu inn á yfirráðasvæði þess.
3. Að því er varðar aðila, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., gildir 1. mgr. þessarar greinar ekki:
a) ef framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir ákveður, fyrir fram og í hverju tilviki fyrir sig, að slík koma eða gegnumferð sé réttlætanleg af mannúðarástæðum, þ.m.t. trúarlegar skyldur,
b) ef framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir telur að undanþága myndi stuðla að því að ná markmiðum viðkomandi ályktana öryggisráðs SÞ, þ.e. um frið og þjóðarsátt í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og stöðugleika á svæðinu,
c) ef framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir heimilar, fyrir fram og í hverju tilviki fyrir sig, gegnumferð aðila, sem eru á leið aftur inn á yfirráðasvæði þess ríkis þar sem þeir hafa ríkisfang eða sem taka þátt í viðleitni til að leiða fyrir rétt þá sem brjóta gróflega gegn mannréttindum eða reglum alþjóðlegs mannúðarréttar eða
d) ef koma eða gegnumferð af því tagi er nauðsynleg til þess að meðferð dómstóla geti farið fram.
Í þeim tilvikum, samkvæmt þessari málsgrein, þegar aðildarríki heimilar komu aðila, sem framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint, inn á yfirráðasvæði sitt eða ferð þeirra um það skal heimildin takmarkast við þann tilgang sem hún var veitt í og við þá aðila sem málið varðar.
4. Að því er varðar aðila sem um getur í 2. mgr. 3. gr. skal 1. mgr. þessarar greinar ekki hafa áhrif á þau tilvik þegar aðildarríki er skuldbundið að þjóðarétti, nánar tiltekið:
a) sem gistiland alþjóðlegrar milliríkjastofnunar,
b) sem gistiland alþjóðlegrar ráðstefnu sem Sameinuðu þjóðirnar boða til eða fram fer á þeirra vegum,
c) samkvæmt marghliða samningi þar sem kveðið er á um forréttindi og friðhelgi eða
d) samkvæmt Sáttasamningnum frá 1929 (Lateran-samningnum) sem Páfagarður (Vatíkanborgríkið) og Ítalía gerðu sín í milli.
5. Ákvæði 4. mgr. teljast einnig gilda þegar aðildarríki er gistiland Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).
6. Þegar aðildarríki veitir undanþágu skv. 4. eða 5. mgr. skal það tilkynna ráðinu um það með viðeigandi hætti.
7. Að því er varðar aðila sem um getur í 2. mgr. 3. gr. geta aðildarríki veitt undanþágur frá þeim ráðstöfunum sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar ef ferð er réttlætt af knýjandi mannúðarástæðum eða með þátttöku í ríkjafundum og fundum sem Evrópusambandið styður eða heldur eða sem haldnir eru af því aðildarríki sem fer með formennsku í ÖSE hverju sinni, þar sem fram fara pólitísk skoðanaskipti sem efla með beinum hætti stefnumarkmið þvingunaraðgerða, þ.m.t. lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
8. Aðildarríki, sem óskar eftir að veita undanþágur, sem um getur í 7. mgr., skal tilkynna ráðinu það skriflega. Undanþágan telst veitt nema einn eða fleiri fulltrúar ráðsins andmæli því skriflega innan tveggja virkra daga frá því að tilkynning berst um fyrirhugaða undanþágu. Ef einn fulltrúi í ráðinu eða fleiri hreyfa andmælum getur ráðið tekið ákvörðun um að veita fyrirhugaða undanþágu með auknum meirihluta.
9. Heimili aðildarríki, skv. 4., 5., 6., 7. eða 8. mgr. a, að aðilar, sem eru á skrá í II. viðauka, komi inn á yfirráðasvæði sitt eða fari þar um, skal heimildin einskorðast við þann tilgang sem hún er veitt í og við þá aðila sem málið varðar beint.“
3) Í stað 5. gr. komi eftirfarandi:
„5. gr.
1. Frysta skal alla fjármuni, aðrar fjáreignir og efnahagslegan auð sem með beinum eða óbeinum hætti er í eigu eða undir stjórn aðila eða rekstrareininga, er um getur í 3. gr., eða er í vörslu rekstrareininga sem eru með beinum eða óbeinum hætti í eigu eða undir stjórn þeirra eða aðila eða rekstrareininga sem koma fram fyrir þeirra hönd eða starfa eftir fyrirmælum þeirra, sbr. þá aðila sem tilgreindir eru í I. og II. viðauka.
2. Engir fjármunir, aðrar fjáreignir eða efnahagslegur auður skal gerður aðgengilegur þeim aðilum eða rekstrareiningum, sem um getur í 1. mgr., með beinum eða óbeinum hætti eða koma þeim til góða.
3. Að því er varðar aðila og rekstrareiningar sem um getur í 1. mgr. 3. gr. geta aðildarríki geta veitt undanþágur frá þeim ráðstöfunum er um getur í 1. og 2. mgr., að því er varðar fjármuni, aðrar fjáreignir og efnahagslegan auð sem eru:
a) nauðsynleg vegna grunnútgjalda, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, tryggingariðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
b) eingöngu ætluð til að greiða hæfilega sérfræðiþóknun og til endurgreiðslu kostnaðar vegna lögfræðiþjónustu,
c) einungis ætluð til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld, í samræmi við landslög, fyrir venjubundna vörslu eða umsýslu frystra fjármuna, annarra fjáreigna og efnahagslegs auðs,
d) nauðsynleg vegna óvenjulegra útgjalda, að fram kominni tilkynningu hlutaðeigandi aðildarríkis til framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir og að fengnu samþykki hennar eða
e) andlag veðs eða niðurstöðu dómstóls, stjórnsýslustofnunar eða gerðardóms, en í því tilviki má nota fjármunina, aðrar fjáreignir og hinn efnahagslega auð til þess að uppfylla skilyrði veðsins eða niðurstöðunnar, að því tilskildu að veðið eða niðurstaðan hafi verið skráð áður en framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir tilgreindi viðkomandi aðila eða rekstrareiningu og sé ekki til hagsbóta fyrir aðila eða rekstrareiningu er um getur í 3. gr., eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur sent framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir tilkynningu þessu viðvíkjandi.
4. Þær undanþágur, er um getur í a-, b- og c-lið 3. mgr., má gera eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um þá fyrirætlan að heimila, eftir því sem við á, aðgang að fyrrnefndum fjármunum, öðrum fjáreignum eða efnahagslegum auði og framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafnar því ekki innan fjögurra virkra daga frá tilkynningunni.
5. Að því er varðar aðila og rekstrareiningar sem um getur í 2. mgr. 3. gr., getur lögbært stjórnvald aðildarríkis heimilað að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur eða að tilteknir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur, samkvæmt þeim skilyrðum sem það telur viðeigandi, eftir að hafa gengið úr skugga um að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður, sem um er að ræða, sé:
a) nauðsynlegur til að uppfylla grunnþarfir þeirra aðila og rekstrareininga og aðstandenda á framfæri einstaklinganna, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, tryggingariðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
b) einungis ætlaður til að greiða hæfilega sérfræðiþóknun og til endurgreiðslu kostnaðar vegna lögfræðiþjónustu,
c) einungis ætlaður til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld fyrir venjubundna vörslu eða umsýslu frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs eða
d) nauðsynlegur vegna óvenjulegra útgjalda, að því tilskildu að lögbært stjórnvald hafi tilkynnt lögbærum stjórnvöldum hinna aðildarríkjanna og framkvæmdastjórninni forsendurnar fyrir því að það telji að veita ætti sérstaka heimild, a.m.k. tveimur vikum áður en hún er veitt.
Hlutaðeigandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem er veitt samkvæmt þessari málsgrein.
6. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geta lögbær stjórnvöld í aðildarríki heimilað að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur fyrir aðila og rekstrareiningar sem eru á skrá í II. viðauka, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
a) að fjármunirnir eða hinn efnahagslegur auður sé andlag ákvörðunar gerðardóms, sem fyrir liggur fyrir þann dag þegar viðkomandi aðili eða rekstrareining voru færð á skrá í II. viðauka, eða andlag ákvörðunar dómstóls eða stjórnsýslustofnunar sem tekin er innan Evrópusambandsins eða ákvörðunar dómstóls sem er aðfararhæf í viðkomandi aðildarríki fyrir eða eftir þann dag,
b) að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður verði einungis notaður til að uppfylla kröfur, sem fyrrnefnd ákvörðun tryggir eða sem viðurkennt er að séu gildar samkvæmt henni, innan þeirra marka sem gildandi lög og reglur um réttindi þeirra aðila, sem eiga slíkar kröfur, kveða á um,
c) að ákvörðunin sé ekki í þágu aðila eða rekstrareiningar sem er á skrá í I. eða II. viðauka og
d) að viðurkenning ákvörðunarinnar stríði ekki gegn allsherjarreglu í viðkomandi aðildarríki.
Hlutaðeigandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem er veitt samkvæmt þessari málsgrein.
7. Að því er varðar aðila og rekstrareiningar sem skráð eru í II. viðauka má einnig gera undanþágur vegna fjármuna og efnahagslegs auðs sem eru nauðsynleg í mannúðarskyni, t.d. til þess að veita eða greiða fyrir því að veitt sé aðstoð, þ.m.t. sjúkragögn og matvæli, eða vegna flutnings starfsmanna hjálparstofnana og tengdrar aðstoðar eða vegna brottflutnings frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
8. Ákvæði 1. og 2. mgr. koma ekki í veg fyrir að aðili eða rekstrareining á skrá í II. viðauka geti innt af hendi greiðslu samkvæmt samningi sem var gerður áður en slíkur aðili eða rekstrareining var færð á skrá, að því tilskildu að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gengið úr skugga um að aðilinn eða rekstrareiningin, sem er á skrá í I. eða II. viðauka, fái ekki greiðsluna í hendur með beinum eða óbeinum hætti.
9. Ákvæði 2. mgr. gilda ekki þegar eftirtaldir fjármunir eru lagðir inn á frysta reikninga:
a) vextir eða aðrar tekjur af fyrrnefndum reikningum,
b) greiðslur sem ber að inna af hendi samkvæmt samningum, samkomulagi eða skuldbindingum sem gengið var frá eða urðu til fyrir þann dag þegar fyrrnefndir reikningar urðu viðfang þvingunaraðgerða eða
c) greiðslur sem greiða ber aðilum og rekstrareiningum, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., samkvæmt ákvörðunum dómstóls, stjórnsýslustofnunar eða gerðardóms sem teknar eru innan ESB eða eru aðfararhæfar í viðkomandi aðildarríki,
að því tilskildu að slíkir vextir, aðrar tekjur og greiðslur falli áfram undir 1. mgr.“
4) Í stað 6. gr. komi eftirfarandi:
„6. gr.
1. Ráðið skal breyta skránni í I. viðauka á grundvelli ákvarðana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir.
2. Ráðið skal, að fenginni tillögu frá aðildarríki eða æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum, stofna og gera breytingar á skránni í II. viðauka.“
5) Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:
„7. gr.
1. Færi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir aðila eða rekstrareiningu á skrá skal ráðið fella aðilann eða rekstrareininguna inn í I. viðauka. Ráðið skal tilkynna ákvörðun sína, m.a. ástæðu þess að viðkomandi er færður á skrá, hlutaðeigandi aðila eða rekstrareiningu, annaðhvort milliliðalaust, ef heimilisfang viðkomandi er þekkt, eða með útgáfu tilkynningar, þar sem fyrrnefndum aðila eða rekstrareiningu býðst að leggja fram athugasemdir sínar.
2. Ráðið skal tilkynna ákvörðunina, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., m.a. ástæðu þess að viðkomandi er færður á skrá, hlutaðeigandi aðila eða rekstrareiningu, annaðhvort milliliðalaust, ef heimilisfang viðkomandi er þekkt, eða með útgáfu tilkynningar, þar sem fyrrnefndum einstaklingi eða rekstrareiningu býðst að leggja fram athugasemdir sínar.
3. Ef athugasemdir eru gerðar eða traust, ný gögn lögð fram skal ráðið endurskoða ákvörðun sína og upplýsa viðkomandi aðila eða rekstrareiningu um niðurstöðuna.“
6) Í stað 8. gr. komi eftirfarandi:
„8. gr.
1. Í I. viðauka skulu koma fram ástæður öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndarinna um þvingunaraðgerðir fyrir því að færa aðila og rekstrareiningar á skrá.
2. Í I. viðauka skulu og einnig koma fram upplýsingar, þar sem þær liggja fyrir, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir láta í té og nauðsynlegar eru til þess að bera kennsl á viðkomandi aðila eða rekstrareiningar. Að því er aðila varðar geta slíkar upplýsingar verið nöfn þeirra, m.a. tökuheiti, fæðingardagur, -ár og -staður, ríkisfang, númer vegabréfs og kennivottorðs, kyn, heimilisfang, ef það er þekkt, og hlutverk eða starf. Að því er rekstrareiningar varðar geta þessar upplýsingar m.a. verið nöfn, skráningarstaður og -dagsetning, skráningarnúmer og starfsstöð. Í I. viðauka skal einnig koma fram hvaða dag öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir tilgreinir viðkomandi.
3. Í II. viðauka skulu koma fram ástæður þess að þeir aðilar og rekstrareiningar, sem um getur þar, eru færð á skrá.
4. Í II. viðauka skulu einnig koma fram nauðsynlegar upplýsingar, ef þær liggja fyrir, til að bera kennsl á viðkomandi aðila eða rekstrareiningar. Að því er einstaklinga varðar geta slíkar upplýsingar verið nöfn þeirra, m.a. tökuheiti, fæðingardagur, -ár og -staður, ríkisfang, númer vegabréfs og kennivottorðs, kyn, heimilisfang, ef það er þekkt, og hlutverk eða starf. Að því er rekstrareiningar varðar geta þessar upplýsingar m.a. verið nöfn, skráningarstaður og -dagsetning, skráningarnúmer og starfsstöð.“
7) Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
„9. gr.
1. Endurskoða ber ákvörðun þessa, breyta henni eða fella hana úr gildi, eftir því sem við á, einkum samkvæmt viðeigandi ákvörðunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
2. Aðgerðirnar, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., gilda til 12. desember 2017. Þær skal framlengja eða þeim breyta, eftir því sem við á, telji ráðið að markmiðum þeirra hafi ekki verið náð.“
8) Viðaukinn við ákvörðun 2010/788/SSUÖ fær heitið I. viðauki og í stað fyrirsagna í þeim viðauka komi eftirfarandi „a) Skrá yfir aðila sem um getur í 1. mgr. 3. gr.“ og „b) Skrá yfir rekstrareiningar sem um getur í 1. mgr. 3. gr.“
2. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 12. desember 2016.
Fyrir hönd ráðsins,
forseti.
F. MOGHERINI
(1) Ákvörðun ráðsins 2010/788/SSUÖ frá 20. desember 2010 um þvingunaraðgerðir gegn Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og niðurfellingu sameiginlegrar afstöðu 2008/369/SSUÖ (Stjtíð ESB L 336, 21.12.2010, bls. 30).
VIÐAUKI
Eftirfarandi viðauka er bætist við:
II. VIÐAUKI
Listi einstaklinga og aðila sem vísað er til í 2. mgr. 3. gr.
II. viðauki er birtur á vef Stjórnartíðinda ESB:
http://data.europa.eu/eli/dec/2016/2231/oj.
Síðari breytingar og uppfærslur listans öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda ESB (http://eur-lex.europa.eu), sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.