Prentað þann 23. nóv. 2024
822/2021
Reglugerð um sjóðstýringu ríkisaðila og verkefna í A-hluta ríkissjóðs.
1. gr. Markmið og tilgangur.
Tilgangur reglugerðar þessarar er að skýra ábyrgð sem lítur að fjárvörslu og -stýringu, umsýslu bankareikninga og reikningsviðskiptum ríkisaðila og verkefna skv. 37. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
Markmið reglugerðarinnar er að treysta faglega stýringu veltufjármuna og lágmarka vaxta- og umsýslukostnað ríkisaðila í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.
I. Bankareikningar.
2. gr. Heimild til að halda bankareikninga.
Ríkisaðilum í A-hluta er heimilt að halda reikninga í bönkum og sparisjóðum til að sinna daglegum greiðslum að uppfylltum skilyrðum samkvæmt þessari grein. Óheimilt er að taka yfirdráttarlán í viðskiptabanka.
Forstöðumaður skal tilkynna Fjársýslu ríkisins alla bankareikninga og greiðslukort sem stofnun heldur og veita Fjársýslu ríkisins heimild til að hafa rafrænan aðgang að þeim til að skoða stöðu reikninga og hreyfingar á þeim. Jafnframt ber forstöðumaður ábyrgð á að meðhöndlun bankareikninga sé í samræmi við verklagsreglur Fjársýslu ríkisins.
Ríkisaðila og ábyrgðaraðila verkefna ber að endurgreiða ríkissjóði í lok hvers mánaðar, stöðu á bankareikningum sem er umfram 2% af fjárveitingu ársins.
Innlánsvextir og fjármagnstekjuskattur af bankareikningum ríkisaðila skulu færast hjá ríkissjóði í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.
II. Viðskiptaskilmálar.
3. gr. Kaup gegn greiðslufresti.
Ríkisaðilar og verkefni hafa heimild til að nýta sér greiðslufrest í allt að 90 daga, vegna kaupa á vöru og þjónustu, enda séu kaupin innan marka fjárheimilda. Reikningar skulu gefnir út með rafrænum hætti og birtir ábyrgðaraðila reiknings í fjárhagskerfi ríkisins fyrir gjalddaga. Um eindaga og frekari útfærslu skal fara eftir viðskiptaskilmálum ríkissjóðs varðandi kaup á vörum og þjónustu.
Allar skuldbindingar með lengri greiðslufrest en 90 daga ber að setja upp með formlegum hætti.
4. gr. Lánveitingar.
Ríkisaðilar og verkefni sem innheimta rekstrartekjur skulu almennt krefjast staðgreiðslu eða greiðslu með greiðslukorti, þar sem það er heimilt, samkvæmt viðskiptaskilmálum ríkissjóðs.
Ríkisaðilum og verkefnum sem selja vörur og þjónustu á almennum viðskiptaforsendum er heimilt að veita greiðslufrest vegna slíkrar sölu. Skal hann miðast við að eindagi greiðslu sé ekki síðar en 15. dag næsta mánaðar eftir að viðskiptin áttu sér stað.
Sölureikningar skulu skráðir í fjárhagskerfum ríkisins.
5. gr. Innheimta útistandandi krafna.
Sölureikninga ríkisaðila sem eru ógreiddir 30 dögum eftir eindaga, skal senda til innheimtu hjá innheimtuaðila. Skuldari ber allan innheimtukostnað.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er heimilt að vísa innheimtukröfum ríkisaðila til ákveðins innheimtuaðila, sem sér um innheimtur ríkisaðila og verkefna, sbr. 8. gr.
III. Sjóðstýring A-hluta stofnana.
6. gr. Greiðsla rekstrarframlags.
Fjárveitingum ríkisaðila og verkefna samkvæmt fylgiriti fjárlaga er dreift á mánuði í samræmi við áætlaða dreifingu útgjalda og tekna samkvæmt rekstraráætlunum.
Launagjöld ríkisaðila og verkefna eru greidd eins og þau falla til í fjárhagskerfi ríkisins.
Framlag ríkissjóðs til ríkisaðila skal greiða reglulega til þeirra á grundvelli greiðsluþarfar vegna samþykktra reikninga á eindaga skv. skráningum í fjárhagskerfi ríkisins.
Samþykktir reikningar ríkisaðila og verkefna sem eru í greiðsluþjónustu Fjársýslu ríkisins eru greiddir á eindaga skv. skráningum í fjárhagskerfi ríkisins.
Ef greiðslur vegna ríkisaðila eða verkefna eru umfram fjárveitingar tímabils og skuld myndast á viðskiptareikningi við ríkissjóð er heimilt að vaxtareikna skuldina í samræmi við verklagsreglur Fjársýslu ríkisins.
7. gr. Aðgreining starfa við bókhald og greiðslureikninga.
Ríkisaðilar skulu uppfylla kröfur um aðgreiningu starfa við bókhald og greiðslu reikninga. Uppfylli ríkisaðili ekki kröfur um aðgreiningu starfa skal hann vera í greiðsluþjónustu hjá Fjársýslu ríkisins.
8. gr. Framkvæmd.
Fjársýsla ríkisins mun setja verklagsreglur og leiðbeiningar um framkvæmd ofangreindra atriða í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og öðlast gildi 1. september 2021.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 25. júní 2021.
F. h. r.
Sigurður H. Helgason.
Viðar Helgason.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.