Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Stofnreglugerð

812/1999

Reglugerð um eftirlitsreglur hins opinbera

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til reglna um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, þar með talinna reglna sem ætlað er að stuðla að öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, neytendavernd, samkeppni, eðlilegum viðskiptaháttum og getu fyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar.

Reglugerðin nær ekki til stjórnsýslueftirlits og innra eftirlits hins opinbera, þar með talins fjárhagslegs eftirlits, löggæslu, tollgæslu og eftirlits í tengslum við skatta og gjöld, sifjamál, vernd barna og ungmenna, reynslulausn og ákærufrestun.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að opinbert eftirlit stuðli að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd. Eftirlit á vegum hins opinbera má ekki leiða til mismununar né takmarka athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Eftirlitsreglur: Lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem kveða á um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja.

Eftirlitsstjórnvald: Stjórnvald sem hefur með höndum eftirlit samkvæmt 1. mgr. 1. gr.

Eftirlitshandbók: Skjal sem felur í sér leiðbeiningar og lýsingu á verklagsreglum, vinnuferlum, ábyrgðarsviði, vikmörkum og samræmda túlkun á ákvæðum reglna.

Greiningaraðferðir: Aðferðir við að meta áhrif reglna með tilliti til kostnaðar, árangurs, áhrifa og annarra þátta, svo sem kostnaðar- og nytjagreining (e. cost-benefit analysis) og kostnaðar- og áhrifagreining (e. cost-effectiveness analysis).

II. KAFLI Viðmiðanir við mat á eftirlitsreglum.

4. gr. Mat á æskilegu umfangi og fyrirkomulagi eftirlits.

Þegar ráðgert er að stofna til eftirlits eða endurskoða eftirlitsreglur skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.

Við mat stjórnvalds samkvæmt 1. mgr. skal höfð hliðsjón af ákvæðum II. til V. kafla reglugerðar þessarar.

5. gr. Greining á þörf fyrir eftirlit.

Við mat á þörf fyrir eftirlitsreglur skal stjórnvald skilgreina þau markmið sem ætlunin er að ná fram. Jafnframt skal stjórnvald framkvæma áhættumat á þeim valkosti að grípa ekki inn í athafnir einstaklinga og fyrirtækja, þ. á m. skal meta hvort þjóðfélagið geti orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þeim sökum. Áhætta skal metin á grundvelli viðurkenndra vísindalegra aðferða og nýjustu þekkingar á hverju sviði fyrir sig eftir því sem við verður komið.

Mat stjórnvalds ber að styðjast við könnun á því hvort til sé skýr lagalegur grunnur til að byggja eftirlit á. Jafnframt þarf að kanna hvort fyrir hendi eru alþjóðlegar skuldbindingar um eftirlit og að hve miklu leyti alþjóðlegt eftirlit dregur úr þörf fyrir sérstakt eftirlit hér á landi. Loks þarf stjórnvald að kanna hvort hjá öðrum stjórnvöldum er fyrir hendi eftirlit með sömu eða hliðstæðum þáttum og leitast við að samþætta hið nýja eftirlit því sem fyrir er.

6. gr. Mat á kostnaði við eftirlit.

Stjórnvald skal meta kostnað sem eftirlitsreglur hafa í för með sér. Með kostnaði er bæði átt við beinan kostnað hins opinbera og kostnað atvinnulífs og einstaklinga.

Jafnframt mati á beinum kostnaði skv. 1. mgr. skal meta óbeinan kostnað samfélagsins af framkvæmd eftirlitsreglna. Slíkur kostnaður getur m.a. orðið til ef eftirlitsstarfsemi dregur úr samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja, nýsköpun o.s.frv.

Til að koma í veg fyrir mismunun, röskun á samkeppnishæfni eða ójafna samkeppnisstöðu skal stjórnvald meta fjárhagsleg áhrif eftirlitsreglna á einstök svið þjóðfélagsins og atvinnugreinar.

7. gr. Mat á gildi og árangri eftirlits.

Stjórnvald skal meta þjóðhagslegt gildi eftirlitsreglna. Við slíkt mat skal tekið tillit til gildis eftirlits og einnig jákvæðra áhrifa þess á aðra þætti en þá sem meginmarkmið þess snýr að. Jafnframt skal leitast við að meta fjárhagslegt gildi eftirlitsreglna með því að bera saman kostnað við framkvæmd þeirra og áætlaðan árangur. Ef heildarumfang eftirlits er mikið skal beita viðameiri greiningaraðferðum svo sem kostnaðar- og nytjagreiningu eða kostnaðar- og áhrifagreiningu.

Stjórnvald skal þróa aðferðir til að meta hvort árangur eftirlits á starfssviði þess sé í samræmi við markmið viðkomandi eftirlitsreglna.

III. KAFLI Skipulag eftirlits.

8. gr. Mat á skipulagi eftirlits.

Ef niðurstaða mats á gildi eftirlits er sú að það sé til þess fallið að ná fram markmiðum sínum og að heildargildi eftirlitsins sé til ávinnings fyrir þjóðfélagið skal meta hvaða eftirlitsaðferð hentar best. Leitast skal við að samþætta framkvæmd eftirlitsins milli einstakra eftirlitsstjórnvalda.

9. gr. Meginsjónarmið við val á eftirlitsaðferð.

Við val á eftirlitsaðferð skal stjórnvald meta hversu mikil hætta er á óæskilegum frávikum og hversu auðvelt er að setja skilgreindar reglur um framkvæmd eftirlits. Jafnan skal miðað við að valin sé sú eftirlitsaðferð sem hefur mestan þjóðfélagslegan ávinning í för með sér að teknu tilliti til heildarkostnaðar.

Ávallt skal gera ákveðnar hæfiskröfur til þeirra stofnana, fyrirtækja og einstakra eftirlitsmanna sem framkvæma eiga eftirlitið. Staðfesta skal hæfi með faggildingu þar sem við á.

Við val á eftirlitsaðferð skal jafnan miða við að opinber afskipti verði eins takmörkuð og unnt er og dregið verði úr beinni ábyrgð hins opinbera á eftirliti en þess í stað lögð áhersla á ábyrgð þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem eftirlit beinist að. Við eftirlit skal leitast við að beita almennum viðmiðunum og sértækar kröfur ekki gerðar nema nauðsyn beri til.

Val á aðferð skal miða við að unnt sé að velja á milli fleiri en einnar aðferðar til að uppfylla settar reglur og fleiri en eins aðila til að annast eftirlit þar sem unnt er. Jafnframt skal leitast við að sveigjanleiki eftirlitskerfisins verði sem mestur, að samþætta eftirlitsþætti og að gera þeim sem eftirlit beinist að kleift að nota heildstæðar aðferðir við að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru. Sérstaklega skal leitast við að samþætta eftirlit sem beinist að sams konar eða svipuðum atriðum þannig að allar kröfur einstakra eftirlitsstjórnvalda verði samhæfðar og eftirlit megi í sem mestum mæli framkvæma af einum og sama eftirlitsaðila.

10. gr. Eftirlitsaðferðir.

Stjórnvald skal meta hvaða eftirlitsaðferð hentar best í hverju tilviki um sig í samræmi við meginsjónarmið skv. 9. gr. Eftirtaldar aðferðir koma til greina:

Upplýsingaskylda einstaklinga og fyrirtækja til eftirlitsstjórnvalda.

Innra eftirlit fyrirtækja í samræmi við skilgreindar reglur og aðferðir með upplýsingaskyldu til eftirlitsstjórnvalda.

Vottun faggilds aðila um að vara, gæðakerfi og/eða starfsmenn uppfylli skilgreindar reglur. Vottorði skal framvísað til eftirlitsstjórnvalds.

Eftirlit opinberra aðila framkvæmt af sjálfstæðum aðilum er uppfylla hæfiskröfur eftirlitsstjórnvalds og skilyrði laga um vog, mál og faggildingu.

Beint eftirlit framkvæmt af eftirlitsstjórnvaldi.

IV. KAFLI Eftirlitsstjórnvöld.

11. gr. Skipan stjórnsýslu.

Þegar eftirlitsreglur eru settar skal leitast við að samþætta stjórnsýslu eftirlitsmála eftir því sem unnt er í því skyni að auka hagkvæmni og einfalda samskipti einstaklinga og fyrirtækja við stjórnvöld. Leitast skal við að tryggja að það séu ekki sömu aðilar sem setji reglur og annist framkvæmd eftirlits. Sérstaklega skal leitast við að skilja á milli framkvæmdar eftirlits og annarra þátta og að tryggja að til séu skilgreindar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar.

12. gr. Fjármögnun.

Leita skal hagkvæmra leiða til að fjármagna eftirlitsstarfsemi. Stefnt skal að því að kostnaðurinn verði sem mest borinn af þeim aðilum sem eftirlit beinist að.

13. gr. Ábyrgð eftirlitsstjórnvalda.

Skipulag eftirlits skal vera með þeim hætti að ljóst sé hvaða aðilar bera ábyrgð á hverjum þætti þess. Eftirlitið skal vera gegnsætt, þannig að ljóst sé í hverju það er fólgið og hvort því sé sinnt með þeim hætti sem reglur segja til um.

V. KAFLI Framsetning og kynning eftirlitsreglna.

14. gr. Framsetning.

Eftirlitsreglur skulu vera eins einfaldar, skýrar og auðskiljanlegar og unnt er. Í reglunum skal koma skýrt fram með hvaða þáttum haft er eftirlit, á hvern hátt eftirlitið er framkvæmt og af hverjum.

Eftirlitsreglur skulu settar fram á aðgengilegan hátt í eftirlitshandbókum og skal efni þeirra vera aðgengilegt þeim sem eftirlit beinist að. Eftirlitsstjórnvald skal veita fullnægjandi upplýsingar um eftirlitsreglur og eftirlitsstarfsemi á starfssviði sínu og tryggja að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar almenningi.

15. gr. Kynning.

Áður en nýjar eftirlitsreglur eru settar eða reglum breytt skal stjórnvald hafa samráð við ráðuneyti, stofnanir og önnur stjórnvöld sem málið varðar eða halda uppi eftirlitsstarfsemi sem beinist að einhverju leyti að sömu viðfangsefnum. Jafnframt skal hafa samráð við þá sem eftirlit beinist að. Þeim skal gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri og gera tillögur um fyrirkomulag eftirlits.

VI. KAFLI Vinnubrögð við mat á eftirlitsreglum.

16. gr. Mat fyrir setningu eftirlitsreglna.

Stjórnvald skal leggja mat á eftirlitsreglur í samræmi við ákvæði II. til V. kafla áður en þær eru settar. Ef um er að ræða stjórnarfrumvarp skal matið liggja fyrir áður en frumvarpið er lagt fyrir ríkisstjórn. Þegar um er að ræða reglugerðir, reglur eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli skal mat liggja fyrir áður en þau eru borin upp til staðfestingar.

17. gr. Mat á gildandi eftirlitsreglum.

Stjórnvald skal reglulega endurskoða eftirlitsreglur á starfssviði þess og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Eftirlitsreglur sem settar eru eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu hafa takmarkaðan gildistíma eða endurskoðunarákvæði og skal hámarksgildistími eða tímabil endurskoðunarákvæða vera fimm ár. Endurskoðun eftirlitsreglna skal ávallt fara fram áður en gildistími er útrunninn eða þegar komið er að endurskoðun samkvæmt ákvæðum reglnanna.

Endurskoðun eftirlitsreglna skv. 1. mgr. skal miða við ákvæði II. til V. kafla reglugerðarinnar.

18. gr. Skrá yfir gildandi eftirlitsreglur.

Stjórnvald skal halda tæmandi skrá yfir þær eftirlitsreglur sem það setur. Skrár og tilkynningar um breytingar á þeim skulu sendar forsætisráðuneyti. Skrárnar skulu vera aðgengilegar almenningi og unnt að nálgast þær á rafrænu formi. Forsætisráðherra skal hafa forgöngu um að skrárnar séu settar fram með samræmdum hætti.

19. gr. Skýrsla um endurskoðun eftirlitsreglna.

Stjórnvald skal árlega senda forsætisráðuneyti skýrslu um breytingar á eftirlitsreglum sem undir það heyra og stöðu endurskoðunar skv. 17. gr. Þar skal jafnframt koma fram áætlun um framhald endurskoðunarinnar.

VII. KAFLI Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur.

20. gr. Skipan ráðgjafarnefndar.

Forsætisráðherra skipar nefnd til ráðgjafar um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laga um opinberar eftirlitsreglur og reglugerðar þessarar. Nefndin skal skipuð fimm mönnum sem hafa þekkingu á opinberu eftirliti eða viðfangsefnum þess. Heimilt er að skipa tvo varamenn, sem hafa seturétt á nefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

Skipunartími nefndarinnar skal vera þrjú ár í senn.

21. gr. Hlutverk ráðgjafarnefndar.

Hlutverk ráðgjafarnefndar er að vinna að framgangi laga um opinberar eftirlitsreglur og reglugerðar þessarar. Nefndin skal jafnframt vinna að því að auka hagkvæmni og skilvirkni í opinberu eftirliti með það fyrir augum að opinbert eftirlit nái markmiðum sínum um velferð, öryggi, heilbrigði og eðlilega viðskiptahætti, en íþyngi einstaklingum og fyrirtækjum eins lítið og kostur er, leiði ekki til mismununar eða takmarki athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist.

22. gr. Verkefni ráðgjafarnefndar.

Ráðgjafarnefnd skal sinna hlutverki sínu með eftirfarandi hætti:

  1. Taka eftirlitsreglur eða framkvæmd tiltekinnar eftirlitsstarfsemi til athugunar í heild eða að hluta. Athuganir nefndarinnar skulu vera almenns eðlis og mega ekki grípa inn í meðferð einstakra mála, sem eftirlitsstjórnvöld hafa til úrlausnar.
  2. Veita umsagnir um lagafrumvörp og drög að stjórnvaldsfyrirmælum um eftirlitsreglur.
  3. Fylgjast með að endurskoðun eftirlitsreglna sé í samræmi við lög nr. 27/1999 og setja fram ábendingar um endurskoðun eftir því sem við á.
  4. Veita stjórnvöldum ráðgjöf um endurskoðun eftirlitsreglna og framkvæmd eftirlits í samræmi við markmið laga nr. 27/1999.

23. gr. Málsmeðferð.

Ráðgjafarnefnd tekur mál til athugunar skv. 1. tölul. 22. gr. að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum. Nefndin ákveður sjálf hvort ábending gefur tilefni til athugunar af hennar hálfu.

Nefndin beinir niðurstöðum athugana sinna til viðkomandi stjórnvalds og eftir atvikum til þess ráðherra er stjórnvald heyrir stjórnfarslega undir.

Sinni stjórnvald ekki ábendingum nefndarinnar eða virðir ráðgjöf hennar að vettugi skal nefndin gera viðkomandi ráðherra og forsætiráðherra kunnugt um það.

Nefndin skal í störfum sínum gæta vandaðra stjórnsýsluhátta og fara að meginreglum stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt.

VIII. KAFLI Skýrsla forsætisráðherra o.fl.

24. gr. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd laganna.

Forsætisráðherra skal að jafnaði á þriggja ára fresti gefa Alþingi skýrslu um áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur, störf ráðgjafarnefndar og önnur tengd atriði, svo sem um breytingar á eftirlitsreglum og endurskoðun gildandi reglna. Forsætisráðherra getur falið ráðgjafarnefnd að undirbúa einstaka hluta skýrslunnar.

25. gr. Gildistaka og lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3., 6. og 7. gr. laga nr. 27/1999 um opinberar eftirlitsreglur og öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ráðuneyti ber að skila forsætisráðuneyti skrá samkvæmt 18. gr. fyrir 1. mars árið 2000 ásamt áætlun um endurskoðun gildandi lagaákvæða og reglna um opinbert eftirlit á starfssviði þess í samræmi við ákvæði 19. gr. Skal áætlunin miðast við að endurskoðun gildandi eftirlitsreglna verði lokið fyrir 1. janúar 2005.

Forsætisráðuneytinu, 1. desember 1999.

Ólafur Davíðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.