Fara beint í efnið

Prentað þann 30. nóv. 2021

Stofnreglugerð

808/2020

Reglugerð um bakgrunnsathuganir vegna aðgangs að upplýsingum um siglingavernd og haftasvæðum.

I. KAFLI Markmið og gildissvið.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að auknu öryggi vegna aðgangs að viðkvæmum upplýsingum um siglingavernd og vegna aðgangs að haftasvæðum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um bakgrunnsathuganir vegna einstaklinga sem hyggjast gegna störfum á sviði siglingaverndar, svo sem starfi verndarfulltrúa, viðurkennds verndaraðila eða öryggisvottaðs ráðgjafa, þar sem starfið krefst aðgangs að viðkvæmum upplýsingum um siglingavernd eða heimildar til að sækja námskeið í siglingavernd eða aðgangs að haftasvæðum.

II. KAFLI Bakgrunnsathuganir.

3. gr. Almennt um bakgrunnsathuganir.

Ríkislögreglustjóri skal tilgreina hvaða lögregluembætti fer með framkvæmd bakgrunnsathugana.

Áður en einstaklingur fær aðgang að viðkvæmum upplýsingum um siglingavernd, er heimilt að sækja námskeið í siglingavernd eða fær aðgang að haftasvæðum, vegna umsóknar um starf í þágu ríkisins á sviði siglingaverndar, svo sem starf verndarfulltrúa, viðurkennds verndaraðila eða öryggisvottaðs ráðgjafa, skal Samgöngustofa, viðkomandi hafnaryfirvöld, skipafélag, útgerð eða annar sá aðili sem krafist er að hafi slíkan starfsmann í starfi, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, óska eftir bakgrunnsathugun lögreglu í þeim tilgangi að meta öryggishæfi viðkomandi til aðgangs að viðkvæmum upplýsingum og/eða haftasvæðum.

Beiðni um bakgrunnsathugun skal senda lögreglu, á þar til gerðu eyðublaði sem ríkislögreglustjóri gerir, til að unnt verði að framkvæma bakgrunnsathugun á einstaklingi í samræmi við 2. gr. Lögreglan getur óskað eftir frekari upplýsingum ef nauðsyn krefur.

Hafi viðkomandi einstaklingur verið búsettur erlendis á síðastliðnum 5 árum skal hann leggja fram þau gögn sem óskað er eftir til þess að unnt sé að leggja mat á umsókn hans, svo sem sakavottorð eða sambærileg vottorð frá erlendu stjórnvaldi. Erlendur ríkisborgari skal leggja fram viðurkennt sakavottorð frá heimaríki eða því ríki eða þeim ríkjum sem viðkomandi hefur haft búsetu í, síðastliðin 5 ár áður en hann fluttist til Íslands. Sakavottorð skal dagsett innan þriggja mánaða frá dagsetningu umsóknar um bakgrunnsathugun.

Bakgrunnsathugun lögreglu í öðru ríki skal viðurkennd hér á landi ef einstaklingur sýnir fram á hana með viðeigandi gögnum. Lögregla getur þó ákveðið að einstaklingur sem hefur fengið bakgrunnsathugun lögreglu í öðru ríki skuli engu að síður gangast undir bakgrunnsathugun hér á landi.

Umsækjanda um bakgrunnsathugun er óheimilt að veita einstaklingi, sem hefur fengið neikvæða umsögn við bakgrunnsathugun hjá lögreglu, aðgang að haftasvæði og aðgang að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit siglingaverndar.

4. gr. Framkvæmd bakgrunnsathugana.

Bakgrunnsathugun skal framkvæmd þannig að bakgrunnur hvers einstaklings sem þarf starfa sinna vegna að hafa aðgang að viðkvæmum upplýsingum um siglingavernd og haftasvæðum er athugaður að minnsta kosti 5 ár aftur í tímann, frá dagsetningu umsóknar, til að unnt sé að leggja mat á hvort heimila eigi aðgang. Í bakgrunnsathugun skal skoða viðkomandi í skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu, skoða sakavottorð, upplýsingakerfi Interpol, upplýsingar úr Þjóðskrá, eftir atvikum spyrjast fyrir hjá erlendum yfirvöldum og framkvæma skoðun hjá tollyfirvöldum, héraðsdómstólum og í öðrum opinberum skrám.

Sá sem óskar eftir bakgrunnsathugun fyrir einstakling skal tryggja að bakgrunnsathugun sé endurtekin með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á 5 ára fresti. Að auki er lögreglu heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni umsækjanda, að framkvæma úrtaksathugun á þeim aðilum sem staðist hafa bakgrunnsathugun, meðan þeir gegna starfinu.

Lögreglu er heimilt að hafa eftirlit með skráningum bakgrunnsathugaðra einstaklinga í málaskrá lögreglu, meðan þeir gegna starfinu.

Tilkynna skal lögreglu um starfslok einstaklings sem sætt hefur bakgrunnsathugun hjá embættinu svo eftirliti með honum í málaskrá lögreglu ljúki.

Ef skoðun lögreglu gefur vísbendingar um að nauðsynlegt sé að kanna feril einstaklings frekar og lengra aftur í tímann hefur lögregla heimild til að kanna feril viðkomandi 10 ár aftur í tímann. Vísbendingar geta verið færslur í málaskrá lögreglu, sakavottorð, óvissa um heimili eða dvalarstað o.fl. Lögregla skal skrá einstakling sem hefur fengið bakgrunnsathugun í málaskrá lögreglu.

Komi í ljós að einstaklingur sem sætt hefur bakgrunnsathugun, brýtur af sér eftir að athugun átti sér stað, skal lögregla þegar í stað upplýsa viðkomandi umsækjanda um bakgrunnsathugun um það, ef um alvarlegt brot er að ræða og eftir atvikum afturkalla jákvæða umsögn sem veitt hefur verið vegna bakgrunnsathugunar. Umsækjandi um bakgrunnsathugun skal þegar í stað, gera ráðstafanir til að afturkalla heimild viðkomandi einstaklings til aðgangs að haftasvæði og til aðgangs að viðkvæmum upplýsingum.

Umsækjandi um bakgrunnsathugun getur afturkallað heimild viðkomandi einstaklings til aðgangs að haftasvæði tímabundið á meðan meðferð máls fer fram samkvæmt 11. mgr.

Með bakgrunnsathugun skal meðal annars kanna og staðfesta:

  1. deili á viðkomandi, t.d. með vegabréfi;
  2. heimili eða dvalarstað 5 ár aftur í tímann;
  3. sakaferil viðkomandi 5 ár aftur í tímann;
  4. þá hættu sem kann að stafa af viðkomandi innan haftasvæðis.

Lögregla skal upplýsa þann sem sækir um bakgrunnsathugun um niðurstöður úr bakgrunnsathugun með jákvæðri eða neikvæðri umsögn um viðkomandi einstakling. Komist lögregla að þeirri niðurstöðu að umsögn einstaklings sé neikvæð skal lögreglan upplýsa viðkomandi einstakling um fyrirhugaða neikvæða umsögn og gefa honum kost á að óska eftir rökstuðningi lögreglu. Komi slík ósk fram skal lögregla rökstyðja niðurstöðu sína og gefa viðkomandi einstaklingi kost á andmælarétti í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Komist lögregla að þeirri niðurstöðu, eftir atvikum eftir að einstaklingur hefur andmælt, að umsögnin sé enn neikvæð, skal sú ákvörðun tilkynnt einstaklingnum sem og umsækjanda um bakgrunnsathugun. Í ákvörðun lögreglu skal leiðbeint um kæruheimild til ráðherra samkvæmt 7. gr.

Rökstuðningur lögreglu skal sendur einstaklingi með sannanlegum hætti. Í rökstuðningnum skal lýsa í meginatriðum þeim atvikum sem talin eru leiða til neikvæðrar umsagnar. Lögregla skal veita einstaklingi a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningardegi rökstuðnings, til að tjá sig skriflega um efni máls og, eftir atvikum, leggja fram gögn, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

5. gr. Mat á afbrotaferli.

Við ákvörðun um hvort veita beri einstaklingi heimild til að sækja námskeið í siglingavernd og aðgang að haftasvæði eða aðgang að trúnaðarupplýsingum um siglingavernd skal athuga brotaferil hans sérstaklega. Leggja skal til grundvallar upplýsingar úr sakaskrá og eftir atvikum málaskrá eða öðrum skrám löggæsluaðila um viðkomandi einstakling.

Hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, sbr. A-lið viðauka við reglugerð þessa, eða lögum um ávana- og fíkniefni, skal synja honum um aðgang að haftasvæði, trúnaðarupplýsingum um siglingavernd og að sækja námskeið í siglingaverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 6. gr., enda gefi brotið vísbendingar um að öryggi ríkisins, siglingastarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af.

Hafi einstaklingi, hérlendis eða erlendis, verið ákvörðuð sekt fyrir brot á þeim lögum sem tilgreind eru í 2. mgr. hvort sem er fyrir dómstólum eða stjórnvaldi eða hann á ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi er lýtur að brotum á þeim lögum sem tilgreind eru 2. mgr. er heimilt að synja honum um jákvæða umsögn um bakgrunnsathugun. Sama gildir ef einstaklingur hefur ítrekað gerst brotlegur gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga en þeim sem getið er í A-lið viðauka eða öðrum lögum sem getið er í C-lið viðauka við reglugerð þessa eða ef brotið er stórfellt. Sama gildir hafi einstaklingur, verið dæmdur í fangelsi, hérlendis eða erlendis, dæmdur til greiðslu sektar eða gert að greiða sekt af hálfu stjórnvalds, fyrir tilraun eða hlutdeild í broti skv. 2. mgr. eða þessari málsgrein eða verið sýknaður af brotum og gert að vistast á viðeigandi stofnun með vísan til 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við mat á brotaferli einstaklings í þeim tilvikum þar sem ekki er skylt að synja um jákvæða bakgrunnsathugun skal leggja heildstætt mat á það hvort öryggi siglinga eða almannahagsmunum geti stafað hætta af einstaklingnum. Sérstaklega skal meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kann að stafa gagnvart íslenska ríkinu eða erlendum ríkjum, öryggi þeirra, siglingastarfsemi og öðrum almannahagsmunum. Komi í ljós við bakgrunnsathugun samkvæmt þessum kafla að einstaklingur hefur ítrekað gengist undir sektargreiðslur vegna fíkniefnalagabrota eða lögregla hafi rökstuddan grun um að viðkomandi neyti ólöglegra ávana- og fíkniefna, getur lögregla ákveðið að skilyrða umsögn bakgrunnsathugunar því, að hann gangist undir fíkniefnapróf, þar á meðal blóð- og þvagrannsókn. Neiti einstaklingur að undirgangast slíka rannsókn eða komi í ljós við rannsóknina að hann neyti eða hafi neytt ólöglegra ávana- og fíkniefna, er lögreglu heimilt að veita neikvæða umsögn um viðkomandi. Fíkniefnapróf skal framkvæmt af heilbrigðisstarfsmanni og skal kostnaður vegna framkvæmdar þess greiðast af umsækjanda. Þeim sem sætir bakgrunnsathugun er skylt að hlíta nauðsynlegri meðferð af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Komi í ljós við bakgrunnsathugun að lögregla hefur þurft að hafa endurtekin afskipti af einstaklingi vegna meintra brota af hans hálfu, getur lögregla ákveðið að veita honum neikvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar.

6. gr. Tímafrestir.

Þegar einstaklingur hefur lokið afplánun og/eða innt sektargreiðslur af hendi vegna brota samkvæmt 5. gr. er heimilt að taka tillit til þess í eftirfarandi tilvikum:

  1. þegar 5 ár eru liðin frá lokum afplánunar eða dæmdri skilorðsbundinni fangelsisvist eða lokum reynslulausnar;
  2. þegar 3 ár eru liðin frá því aðili var dæmdur til eða gekkst undir greiðslu sektar; eða
  3. þegar 3 ár eru liðin frá síðustu færslu í málaskrá eða aðra skrá lögreglu varðandi málefni sem gefa vísbendingu um að öryggi siglingastarfsemi eða almannahagsmunum stafi hætta af,

enda hafi viðkomandi ekki gerst sekur um ítrekuð brot og sýnt þyki að af honum stafi ekki lengur hætta fyrir íslenska ríkið eða erlend ríki, öryggi þeirra, siglingastarfsemi eða almannahagsmuni.

7. gr. Kæruheimild.

Sé niðurstaða bakgrunnsathugunar vegna siglingaverndar neikvæð getur aðili óskað eftir rökstuðningi lögreglu. Ef niðurstaðan er enn neikvæð er aðila heimilt að kæra þá ákvörðun til ráðherra siglingamála í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

8. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 11. mgr. 8. gr. a. laga um siglingavernd nr. 50/2004 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 4. ágúst 2020.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hermann Sæmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.