Prentað þann 22. des. 2024
800/2004
Reglugerð um umskipun olíu á rúmsjó.
1. gr.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að umskipun olíu á rúmsjó fari fram með þeim hætti að umhverfi stafi ekki hætta af.
2. gr.
Reglugerð þessi gildir í landhelgi og í mengunarlögsögu Íslands.
3. gr.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu sem hér greinir:
Landhelgi Íslands: Hafsvæðið innan 12 sjómílna frá grunnlínupunktum, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
Mengunarlögsaga: Hafsvæðið frá ytri mörkum landhelginnar og að ytri mörkum efnahagslögsögunnar og landgrunnsins.
Olía: Jarðolía í hvaða formi sem er, þar með talin hráolía, eldsneytisolía, sori, smurolía, olíuúrgangur og unnin olía.
MARPOL-samningurinn: Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun sjávar frá skipum frá 1973 ásamt bókun frá 1978 (MARPOL 73/78).
Skip: Far af hvaða gerð sem er og fer um hafið, þar með talin skíðaskip, svifskip, kafbátar, fljótandi för og fastir eða fljótandi pallar.
Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
4. gr.
Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar með þeim undantekningum sem kveðið er á um í reglugerðinni.
Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland.
Siglingastofnun Íslands ber ábyrgð á eftirliti með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum. Umhverfisstofnun, í samstarfi við Siglingastofnun Íslands og í samráði við Samtök atvinnulífsins, semur leiðbeiningar um umskipun olíu á rúmsjó í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar.
5. gr.
Við umskipun olíu á rúmsjó skal gætt fyllsta öryggis og fylgja ákvæðum reglugerðar um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, og viðeigandi ákvæðum MARPOL-samningsins.
Skipstjórar hlutaðeigandi skipa bera ábyrgð á því að umskipun sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhafnir hafi verið þjálfaðar til þess að framkvæmd verði fumlaus.
Óheimilt er að umskipa olíu á rúmsjó ef hætta er á að umskipun geti misfarist eða óhöpp orðið vegna utanaðkomandi aðstæðna.
6. gr.
Umskipun olíu er óheimil allt árið á eftirtöldum svæðum, nema með leyfi Umhverfisstofnunar og að fenginni umsögn sjávarútvegsráðuneytisins:
- Innan svæðis sem afmarkast af neðangreindum hnitum:
1. | Frá Gerpi (65°00'N – 13°30'V) | |
2. | 64°30'N – 12°00'V | |
3. | 63°45'N – 14°00'V | |
4. | 63°00'N – 17°00'V | |
5. | 63°00'N – 24°00'V | |
6. | 65°30'N – 26°30'V | |
7. | 66°45'N – 24°00'V | |
8. | Að Straumnesi (66°28'N – 23°08'V) |
- Innan svæðis sem afmarkast af landhelgi Íslands frá Straumnesi austur að Gerpi, sbr. og fylgiskjal 1.
7. gr.
Tilkynna ber stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um sérhverja umskipun olíu á rúmsjó með minnst sex klst. fyrirvara. Í tilkynningu skal tiltaka staðsetningu, kallmerki og nöfn viðkomandi skipa, tímasetningu umskipunar og þann tíma sem áætlað er að umskipun taki. Landhelgisgæsla Íslands skal skrá slíkar tilkynningar og senda Umhverfisstofnun árlega. Telji Landhelgisgæsla Íslands að umskipun olíu geti stofnað lífríkinu í hættu vegna veðurs á svæðinu, ónógs búnaðar eða af öðrum ástæðum er henni í samráði við Umhverfisstofnun heimilt að banna eða stöðva umskipun.
Verði óhapp við umskipun olíu á rúmsjó skal tafarlaust tilkynna um það til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í samræmi við viðbragðsáætlun um olíuóhöpp.
8. gr.
Skipstjóri ber ábyrgð á að sérhver umskipun olíu á rúmsjó sé færð í olíudagbók skipsins í samræmi við ákvæði viðauka I við MARPOL-samninginn.
9. gr.
Einstaklingum og fyrirtækjum er annast dreifingu og sölu á olíu innan landhelgi Íslands er skylt að taka við olíuúrgangi frá skipum, einum eða í samvinnu við einstaklinga eða fyrirtæki er til þess hafa leyfi Umhverfisstofnunar og tryggja viðunandi eyðingu.
10. gr.
Umhverfisstofnun getur látið fara fram athugun á skipum án dómsúrskurðar ef talin er hætta á mengun sjávar eða mengun hefur orðið sem brýtur gegn reglum þessum. Umhverfisstofnun leitar aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands, hafnaryfirvalda, Siglingastofnunar Íslands og annarra opinberra aðila eftir því sem þörf krefur. Athugunin skal ekki valda ótilhlýðilegri röskun á starfsemi eða ónauðsynlegum útgjöldum fyrir viðkomandi.
Hver sá sem uppvís verður að því að valda mengun hafs og stranda ber fulla ábyrgð á því mengunartjóni sem mengunin veldur. Eigendum skipa er þó heimilt að takmarka fjárhagslega ábyrgð sína í samræmi við gildandi lagaákvæði.
11. gr.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau varða fangelsi allt að fjórum árum.
Sektir samkvæmt reglugerð þessari má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á reglugerð þessari má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á reglugerð þessari, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í x-lið 6. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004, og að höfðu samráði við sjávarútvegsráðuneytið vegna verndunar fiskistofna, sbr. afmörkun á svæðum í 6. gr. Ennfremur er reglugerðin sett að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið vegna þáttar Landhelgisgæslu Íslands og samgönguráðuneytið vegna þáttar Siglingastofnunar Íslands.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 28. september 2004.
F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.