Prentað þann 26. des. 2024
799/1999
Reglugerð um meðhöndlun seyru
I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
Markmið.
1. gr.
1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að setja reglur um notkun seyru og koma í veg fyrir skaðleg áhrif vegna notkunar hennar á umhverfið og heilsu almennings.
Gildissvið.
2. gr.
2.1 Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun seyru. Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin á við um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.
Skilgreiningar.
3. gr.
3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
3.2 Eftirlit merkir athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
3.3 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
3.4 Færibreytur eru viðmið sem notuð eru til að gefa niðurstöður eða upplýsingar um losun eða umhverfisáhrif.
3.5 Grunnvatn er vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.
3.6 Hreinsun seyru er það þegar seyra er sigtuð, úrvötnuð og auk þess:
a) látin rotna við loftfirrð skilyrði, t.d. í upphituðum rottanki og/eða,
b) látin rotna við loftuð eða loftfirrð skilyrði í tanki eða við jarðgerð og/eða,
c) íblönduð kalki svo sýrustig nái pH = 11 enda sé hún ekki sóttmenguð.
3.7 Losun er þegar efnum og efnasamböndum er veitt í fráveitur og viðtaka.
Bein losun er losun efna í grunnvatn, oftast frá stakri uppsprettu, án þess að þau síist í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.
Óbein losun er þegar efni eða gerlar berast frá dreifðum uppsprettum, eða er hætta á að geti borist, í grunnvatn eftir síun í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.
3.8 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.
3.9 Meðhöndlun seyru er hreinsun, tæming hreinsivirkja, flutningur, og notkun seyru.
3.10 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
3.11 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
3.12 Notkun seyru er dreifing hennar á eða í jarðveg.
3.13 Persónueining (pe.) er magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein pe. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60 g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa lífefnafræðilegri súrefnisnotkun.
3.14 Rotþró er tankur til botnfellingar og hreinsunar á föstu sviflægu efni úr skólpi. Hollustuvernd ríkisins gefur út leiðbeiningar um stærð, gerð og frágang rotþróa.
3.15 Salernisúrgangur er allur úrgangur frá þurr- eða vatnssparandi salernum sem ekki eru tengd við fráveitu.
3.16 Seyra eru þau óhreinindi sem skilin eru frá fráveituvatni með botnfellingu, síun eða fleytingu án síu- eða ristarúrgangs, þ.e. eftir að forhreinsun hefur átt sér stað.
Tegundir seyru eru:
a) seyra frá skólphreinsistöðvum, þ.e. húsaskólp eða skólp með sambærilega samsetningu,
b) seyra frá rotþróm og sambærilegum mannvirkjum,
c) seyra frá skólpstöðvum öðrum en a) og b).
3.17 Síu- og ristarúrgangur er fastur úrgangur sem fellur til við grófhreinsun á skólpi.
3.18 Strandsjór er sjór sem nær frá fjörumörkum og ferskvatnsmörkum í vatnsföllum að mengunarlögsögu.
3.19 Umhverfismörk eru mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk).
3.20 Vatn er grunnvatn og yfirborðsvatn.
3.21 Viðtaki er svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
3.22 Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
3.23 Yfirborðsvatn er kyrrstætt eða rennandi yfirborðsvatn, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór.
II. KAFLI Umsjón.
Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.
4. gr.
4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar.
III. KAFLI Meginreglur.
Meðhöndlun og notkun - leyfisveitingar.
5. gr.
5.1 Hreinsa skal alla seyru sem er notuð samkvæmt reglugerð þessari nema annað sé heimilt samkvæmt reglugerðinni.
5.2 Meðhöndlun seyru er starfsleyfisskyld. Við vinnslu starfsleyfis skal heilbrigðisnefnd leita umsagnar landeiganda þess lands sem nota á seyruna á og aðfangaeftirlits ef við á.
Almennar reglur um seyru.
6. gr.
6.1 Óheimilt er að losa seyru í yfirborðsvatn.
6.2 Seyru sem fellur til við meðhöndlun og hreinsun skólps skal nýta ef kostur er.
6.3 Seyru skal fargað á þann hátt að umhverfið verði ekki fyrir skaða af völdum hennar og í samræmi við aðrar reglugerðir þar að lútandi. Förgun seyru frá skólphreinsistöðvum er starfsleyfisskyld og háð skráningu í samræmi við reglur þar að lútandi.
Notkun seyru.
7. gr.
7.1 Nota skal seyru á þann hátt að tekið sé tillit til næringarþarfar gróðurs og að gæði jarðvegs, yfirborðs- og grunnvatns rýrni ekki.
7.2 Ef seyra er notuð á jarðveg sem er með lægra pH-gildi en 6 skal, ef með þarf, taka tillit til aukinnar tilfærslu þungmálma í jarðavegi og aukinnar upptöku afurða á þungmálmum og skal heilbrigðisnefnd ef nauðsyn krefur lækka viðmiðunarmörk, sbr. I. viðauka A.
Notkun seyru í landbúnaði.
8. gr.
8.1 Í landbúnaði er einungis heimilt að nota hreinsaða seyru, sbr. a-lið 16. mgr. 3. gr. Hér er einkum átt við að seyran sé notuð í landbúnaði, t.d. borin á tún sem slegin eru til fóðurs, eru beitt eða sem eru nýtt á annan hátt, t.d. tún í þéttbýli eða svæði til útivistar. Seyran skal felld niður í jarðveginn eða plægð niður jafnóðum sé hún notuð á tún, akra og gróðurlendi sem nýtt er til beitar.
8.2 Í landbúnaði er heimilt að nota seyru til áburðar á gróðurlendi eða í jarðveg og má magnið sem notað er vera allt að 20 tonn á hektara á tíu árum miðað við þurrefni. Gæta skal að ákvæðum 11. gr.
8.3 Heilbrigðisnefnd er heimilt að leyfa notkun hreinsaðrar seyru, sbr. b- eða c-lið í 16. mgr. 3. gr., enda samræmist notkunin ákvæðum þessarar reglugerðar og brýtur ekki í bága við reglugerðir er varða úrgang.
Tímamörk.
9. gr.
9.1 Að minnsta kosti eitt ár verður að líða frá því hreinsuð seyra er notuð á tún þar til uppskera, nýting eða almennur umgangur er heimilaður.
9.2 Óheimilt er að nota seyru við framleiðslu hvers konar matjurta, s.s. kartaflna, káls og annars grænmetis. Að minnsta kosti þrjú ár verða að líða frá því hreinsuð seyra er notuð þangað til heimilt er að rækta matjurtir. Önnur nýting og almennur umgangur er heimill sextán mánuðum eftir að seyru var dreift. Sýni mælingar að ekki sé lengur hætta af dreifingunni er heimilt að stytta tímafresti en þó eigi skemur en í 10 mánuði.
9.3 Þeir sem hreinsa seyru bera ábyrgð á því að notendur geti reglulega fengið upplýsingar í samræmi við II. viðauka A. Þetta á þó ekki við um húsaskólp (a-liður 16. mgr. 3. gr.) enda sé magn sem fellur til við skólphreinsun seyru minna en 5000 pe.
Greining seyru.
10. gr.
10.1 Heilbrigðisnefnd getur sett skilyrði í starfsleyfi um greiningu á seyru og jarðvegi sem hún er borin á, sbr. II. viðauka A og B. Gæta skal að ákvæðum 3. mgr. 9. gr.
10.2 Tilvísunaraðferðir við söfnun og greiningu seyru eru tilgreindar í II. viðauka C.
10.3 Önnur greining á seyru skal vera í samræmi við skilyrði Hollustuverndar ríkisins.
Styrkur og uppsöfnun þungmálma og magn seyru.
11. gr.
11.1 Styrkur þungmálma í jarðvegi sem seyra er borin á skal vera í samræmi við mörk í I. viðauka A, styrkur þungmálma í seyru skal vera í samræmi við mörk í I. viðauka B, og hámarksmagn þungmálma sem heimilt er að dreifa á ári á ræktað land skal vera í samræmi við mörk í I. viðauka C.
11.2 Fari styrkur eins eða fleiri þungmálma í jarðvegi yfir umhverfismörkin í I. viðauka A er óheimilt að nota seyru á hann.
11.3 Tryggja skal, m.a. með því að fara eftir ákvæðum 2. mgr. eða með eftirliti, að uppsöfnun þungmálma í jarðvegi valdi því ekki að styrkur þeirra sé hærri en umhverfismörkin í I. viðauka A.
Óhreinsuð seyra.
12. gr.
12.1 Óhreinsaða seyru, sbr. a- og b-liði 16. mgr. 3. gr., má einungis nota til uppgræðslu og skógræktar fjarri mannabústöðum og utan alfaraleiða enda hafi sýnilegir hlutir verið skildir frá henni. Skylt er að plægja óhreinsaða seyru a.m.k. 10 sentímetra niður í jarðveginn. Tryggt skal að ekki sé hætta á mengun grunnvatns eða yfirborðsvatns vegna notkunar seyru í þessum tilgangi, sbr. reglugerðir þar að lútandi.
Ónýtanleg seyra.
13. gr.
13.1 Salernisúrgang, síu- eða ristarúrgang og seyru sem ekki verður notuð skal flytja til móttökustöðvar sem hefur til þess starfsleyfi.
Tæming og flutningur.
14. gr.
14.1 Sveitarstjórnir skulu sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.
14.2 Rekstraraðilar húsnæðis eða svæða þar sem salernisúrgangur, ristarúrgangur eða seyra fellur til bera ábyrgð á allri meðferð og flutningi úrgangsins, svo fremi ekki sé í gildi sérstök heilbrigðissamþykkt sem kveður á um annað.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
Skráning.
15. gr.
15.1 Heilbrigðisnefndir skulu halda saman upplýsingum um:
1. magn framleiddrar seyru og magn sem látið er í té til landbúnaðarþarfa,
2. samsetningu og eiginleikum seyrunnar m.t.t. færibreytnanna í II. viðauka A,
3. tegund hreinsunar, sbr. 6. mgr. 3. gr.,
4. nöfn og heimilisföng viðtakenda seyrunnar og notkunarstað.
15.2 Liðir 2 til 4 í 1. mgr. eiga ekki við vegna seyru, sbr. a-lið 16. mgr. 3. gr., enda sé magnið minna en 5.000 pe.
15.3 Hollustuvernd ríkisins ber ábyrgð á heildarskráningu á magni meðhöndlaðrar seyru, magni sem látið er í té o.fl. sem tengist notkun seyru samkvæmt reglugerð þessari og einkum þeim upplýsingum sem 1. mgr. fjallar um. Stofnunin byggir skráningu sína á upplýsingum frá heilbrigðisnefndum.
15.4 Skráning heilbrigðisnefndar skal gerð á sérstakt eyðublað sem Hollustuvernd ríkisins lætur útbúa.
Yfirlitsskýrsla.
16. gr.
16.1 Hollustuvernd ríkisins semur og gefur út skýrslu byggða m.a. á upplýsingum samkvæmt 15. gr. um notkun seyru hér á landi, sbr. og ákvæði um skýrslugerð um meðhöndlun úrgangs í reglugerð um úrgang. Gæta skal að ákvæðum reglugerðar um úrgang hvað varðar upplýsingasöfnun.
16.2 Skýrsluna skal gefa út á a.m.k. fjögurra ára fresti.
V. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.
Aðgangur að upplýsingum.
17. gr.
17.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
Þagnarskylda eftirlitsaðila.
18. gr.
18.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
18.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
Valdsvið og þvingunarúrræði.
19. gr.
19.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.
Viðurlög.
20. gr.
20.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
20.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.
VI. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.
21. gr.
21.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.
21.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af 32. tölul. XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 86/278/EBE).
21.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.
Siv Friðleifsdóttir.
Magnús Jóhannesson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.