Prentað þann 22. des. 2024
798/1999
Reglugerð um fráveitur og skólp
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
- II. KAFLI
- III. KAFLI Meginreglur.
- IV. KAFLI Leyfisveitingar.
- V. KAFLI Fráveitur.
- VI. KAFLI Hreinsun skólps á þéttbýlissvæðum.
- VII. KAFLI
- VIII. KAFLI Mengunarvarnaeftirlit o.fl.
- IX. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.
- X. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.
- Fylgiskjal 1.
- Fylgiskjal 2.
- Fylgiskjal 3.
- I. viðauki
- II. viðauki
- III. viðauki
I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.
1. gr. Markmið.
1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að vernda almenning og umhverfið, einkum vatn og umhverfi þess, gegn mengun af völdum skólps. Einnig er það markmið að koma á samræmdri og kerfisbundinni söfnun, meðhöndlun og hreinsun skólps frá íbúðarbyggð, svo og hreinsun skólps frá tilteknum atvinnurekstri.
2. gr. Gildissvið.
2.1 Reglugerðin gildir um söfnun, hreinsun og losun skólps frá þéttbýli og tiltekinni atvinnustarfsemi og um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin gildir um athafnir einstaklinga eftir því sem við á.
2.2 Reglugerðin gildir ekki um losun skólps frá skipum.
3. gr. Skilgeiningar.
3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.
3.2 Ármynni eru árósar á mörkum ferskvatns og strandsjávar.
3.3 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
3.4 Efnafræðileg súrefnisþörf (COD) er mælikvarði á magn lífrænna efna í vatni, mælt með staðlaðri aðferð.
3.5 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
3.6 Ferskvatn (ósalt vatn) er vatn sem kemur fyrir á náttúrlegan hátt, hefur lítinn saltstyrk og er yfirleitt nýtanlegt til töku og vinnslu sem neysluvatn.
3.7 Ferskvatnsmörk er sá staður í á þar sem selta hækkar vegna nálægðar sjávar á fjöru enda sé miðað við lítið rennsli í ánni.
3.8 Fjöruborð er flæðarmál.
3.9 Fjörumörk er flóðhæð, mörk aðfalla og útfalla.
3.10 Fráveita er leiðslukerfi, þ.m.t. safnræsi, og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps.
3.11 Fráveituvatn er vatn (skólp, ofanvatn, vatn frá upphitunarkerfum húsa o.fl.) sem veitt er í fráveitur.
3.12 Grunnvatn er vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.
3.13 Gæðamarkmið eru mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi (lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum) og/eða lýsing á ástandi sem ákveðið er að gilda eigi fyrir svæði til þess að enn minni hætta sé á að áhrifa mengunar gæti en stefnt er að með umhverfismörkum og til að styðja tiltekna notkun umhverfisins og/eða viðhalda henni til lengri tíma.
3.14 Hreinsun skólps:
Eins þreps hreinsun er hreinsun skólps með aflfræðilegum og/eða efnafræðilegum aðferðum þar sem svifagnir eru botnfelldar eða önnur hreinsun þar sem BOD5-gildi skólps er lækkað um að minnsta kosti 20% áður en það er losað og heildarmagn svifagna í skólpi er lækkað um að minnsta kosti 50%.
Grófhreinsun er hreinsun fastra hluta úr fráveituvatni með rist, síu eða öðrum búnaði til að koma í veg fyrir sjónmengun.
Tveggja þrepa hreinsun er frekari hreinsun skólps en eins þreps með aðferð sem oftast felur í sér líffræðilega hreinsun sem fylgt er eftir með botnfellingu eða öðru ferli, sbr. kröfur í I. viðauka, 1. töflu. Rotþró með siturlögn eða sandsíu telst t.d. vera tveggja þrepa hreinsun.
Viðunandi hreinsun er hreinsun skólps með viðurkenndum hreinsibúnaði í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar svo að gæðamarkmiðum fyrir viðtaka sé náð, sbr. I.- V. viðauka.
3.15 Húsaskólp er skólp frá íbúðarhúsnæði og þjónustustarfsemi sem einkum á rætur að rekja til efnaskipta mannslíkamans og heimilisstarfa.
3.16 Iðnaðarskólp er skólp annað en húsaskólp og ofanvatn sem losað er frá húsnæði eða annarri aðstöðu sem notuð er til atvinnurekstrar.
3.17 Köfnunarefnissamband er efni sem inniheldur köfnunarefni, þó ekki köfnunarefnissameindir í loftkenndu formi.
3.18 Líffræðileg súrefnisþörf (BOD5) er mælikvarði fyrir magn lífrænna efna í vatni mælt með staðlaðri aðferð.
3.19 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.
3.20 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
3.21 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.
3.22 Næringarefnaauðgun er röskun á búsvæðum og jafnvægi í vistkerfi vatns sem má rekja til ofauðgunar næringarsalta í vatni, einkum efnasambanda köfnunarefnis og fosfórs. Ofauðgun lýsir sér oft sem aukning í frumframleiðni.
3.23 Ofanvatn er regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði.
3.24 Persónueining (pe.) er magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein pe. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60 g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa lífefnafræðilegri súrefnisnotkun.
3.25 Rotþró er tankur til botnfellingar og hreinsunar á föstu sviflægu efni úr skólpi. Hollustuvernd ríkisins gefur út leiðbeiningar um stærð, gerð og frágang rotþróa.
3.26 Safnræsi er kerfi sem ætlað er að safna og veita burt skólpi frá þéttbýli.
3.27 Seyra eru þau óhreinindi sem skilin eru frá fráveituvatni með botnfellingu, síun eða fleytingu án síu- eða ristarúrgangs, þ.e. eftir að forhreinsun hefur átt sér stað.
Tegundir seyru eru:
a) seyra frá skólphreinsistöðvum, þ.e. húsaskólp eða skólp með sambærilega samsetningu,
b) seyra frá rotþróm og sambærilegum mannvirkjum,
c) seyra frá skólpstöðvum öðrum en a) og b).
3.28 Siturleiðsla er götuð leiðsla sem lögð er í jörðu og dreifir fráveituvatni út í jarðveg.
3.29 Síður viðkvæmur viðtaki eru ármynni og strandsjór þar sem endurnýjun vatns er mikil og losun tiltekinnar mengunar er ekki talin hafa skaðleg áhrif á umhverfið.
3.30 Síu- og ristarúrgangur er fastur úrgangur sem fellur til við grófhreinsun á skólpi.
3.31 Skólp er húsaskólp og iðnaðarskólp eða blanda húsaskólps eða iðnaðarskólps og/eða ofanvatns.
3.32 Strandsjór er sjór sem nær frá fjörumörkum og ferskvatnsmörkum í vatnsföllum að mengunarlögsögu.
3.33 Umhverfismörk eru leyfilegt hámarksgildi mengunar í tilteknum viðtaka byggð á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið í heild. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk).
3.34 Vatn er grunnvatn og yfirborðsvatn.
3.35 Viðkvæmur viðtaki er viðtaki sem gæti orðið fyrir áhrifum vegna mengunar sé ekki gripið til verndaraðgerða eða viðtaki sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna mengunar.
3.36 Viðtaki er svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.
3.37 Yfirborðsvatn er kyrrstætt eða rennandi yfirborðsvatn, straumvötn, stöðuvötn, jöklar, svo og strandsjór.
3.38 Þéttbýlissvæði er svæði þar sem þéttbýli er nægilegt og/eða atvinnustarfsemi nægilega mikil til að hægt sé að safna og veita skólpi til hreinsistöðva eða til staða þar sem það er endanlega losað.
3.39 Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.
II. KAFLI
4. gr. Umsjón.Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.
4.1 Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að skólp verði hreinsað eftir því sem við á samkvæmt þessari reglugerð.
III. KAFLI Meginreglur.
5. gr. Almennt.
5.1 Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með öllum fráveitum.
5.2 Heilbrigðisnefnd skal vinna að því að koma í veg fyrir og draga úr óhreinkun vatns, sjávar og stranda af völdum hvers konar fráveituvatns í umdæminu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir óhollustu, náttúruspjöll og óþægindi.
5.3 Nefndin getur krafist þess að aðilar í atvinnurekstri sem valdið getur mengun í fráveitu komi fyrir viðunandi hreinsibúnaði á eigið fráveituvatn. Þetta getur átt við almenningsskólpveitur en þó einkum fráveituvatn sem er mengað af olíu eða eiturefnum eða mjög próteinríkt eða fituríkt fráveituvatn frá verksmiðjum eða hvers konar öðrum atvinnurekstri.
5.4 Óheimilt er að láta hvers kyns olíur, bensín, lífræn leysiefni eða önnur mengandi efni í fráveitur íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Með slíkan úrgang fer samkvæmt reglugerð um spilliefni.
5.5 Þegar skólp, önnur fljótandi óhreinindi eða yfirborðsvatn er leitt brott, sem og við hvers konar hreinsun fráveituvatns, skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengun eða óhollustu. Heilbrigðisnefnd getur gert kröfu um að yfirborðsvatn og afrennsli hitaveitu sé leitt í sérstakar fráveitulagnir.
6. gr. Losun skólps.
6.1 Skólpi skal farga á þann hátt að heilsu manna stafi ekki hætta af og með þeim hætti að lífríki og umhverfi raskist sem minnst. Eigandi fráveitu ber ábyrgð á því að fráveituvatni sé fargað í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Velja skal losunarstaði skólps með það í huga að viðtaki spillist sem minnst. Að öðru leyti skal förgunin vera í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og annarra reglugerða um varnir gegn vatnsmengun.
6.2 Virkni hreinsibúnaðar á skólpi og dreifing þess í umhverfinu skal á hverjum tíma vera þannig að mengun í yfirborðsvatni utan þynningarsvæða sé innan þeirra viðmiðunarmarka sem fram koma í fylgiskjali með reglugerð þessari og í samræmi við aðrar reglugerðir sem gilda um verndun vatns.
7. gr. Hreinsun skólps.
7.1 Skólp skal hreinsa með tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun áður en því er veitt í viðtaka nema kveðið sé á um annað í reglugerð þessari.
7.2 Skólp skal hreinsa með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða, sbr. II. viðauka A.
7.3 Skólp skal hreinsa með a.m.k. eins þreps hreinsun eða sambærilegri hreinsun verði viðtaki skilgreindur sem síður viðkvæmur, sbr. viðmiðanir í II. viðauka B.
7.4 Hreinsað skólp skal endurnýtt ef kostur er.
7.5 Að öðru leyti er vísað til VI. kafla reglugerðarinnar og fylgiskjals 3 með reglugerðinni hvað varðar hreinsun skólps.
8. gr. Fráveituvatn frá heilbrigðisstofnunum.
8.1 Hollustuvernd ríkisins skal setja sérstakar reglur um meðferð fráveituvatns frá sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Skal þar sérstaklega kveðið á um takmarkanir og hvernig hreinsun fráveituvatns frá þessum stofnunum skuli hagað.
9. gr. Lagnir.
9.1 Fráveitulögnum skal vera þannig fyrir komið og þær þannig gerðar og viðhaldið að óhollusta eða óþægindi hljótist ekki af.
9.2 Öllu skólpi sem veitt er til sjávar skal veitt minnst 5 metra niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 metra út frá meðalstórstraumsfjörumörkum enda séu skilyrðin í 6. og 10. gr. uppfyllt. Óheimilt er að leiða skólp þannig að frárennslisop opnist til hafna.
9.3 Vatn sem fer um yfirfallsleiðslur vegna ofanvatns í einföldu kerfi skal veita út fyrir stórstraumsfjörumörk í sjó og niður fyrir meðal lágmarkshæð í ferskvatni ef mögulegt er. Við hönnun á fráveitum með einfalt kerfi er heimilt að miða við að ofanvatn fari um yfirföll allt að 5% af tímanum eða þegar uppblandað skólp með hitaveitu- og/eða ofanvatni er í hlutföllunum 1:5 a.m.k.
9.4 Ofanvatn skal ef kostur er leiða í aðskilið kerfi til næsta viðtaka sem heilbrigðisnefnd metur að verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum. Gæta skal að ákvæðum fylgiskjals 1.
9.5 Heilbrigðisnefnd skal með fræðslu- og kynningarstarfsemi koma í veg fyrir að mengandi efni berist í kerfin á svæðum þar sem ofanvatn fer í sérstakt kerfi og endar í viðkvæmum viðtaka.
9.6 Heilbrigðisnefnd getur krafist hreinsunar á ofanvatni áður en því er hleypt í viðkvæman viðtaka. Gæta skal að kröfum þeim sem koma fram í I. viðauka reglugerðarinnar og reglugerð um varnir gegn mengun vatns.
9.7 Nú reynist ómögulegt vegna landfræðilegra aðstæðna að uppfylla ákvæði 2. mgr. og er þá heimilt að leggja til aðrar lausnir sem viðkomandi heilbrigðisnefnd metur fullnægjandi. Áður en heilbrigðisnefnd tekur ákvörðun sína skal hún leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins.
10. gr. Saurmengun - strandsjór.
10.1 Saurmengun í strandsjó sem er utan þynningarsvæða skal vera undir umhverfismörkum sem fram koma í fylgiskjali 2 með reglugerð þessari.
11. gr. Saurmengun - ár og vötn.
11.1 Saurmengun í ám og vötnum utan þynningarsvæða skal vera undir umhverfismörkum sem fram koma í fylgiskjali 2 með reglugerðinni.
12. gr. Seyra.
12.1 Óheimilt er að losa seyru í yfirborðsvatn.
12.2 Seyru sem fellur til við meðhöndlun og hreinsun skólps skal nýta ef kostur er.
12.3 Seyru skal fargað á þann hátt að umhverfið verði ekki fyrir skaða af völdum hennar og í samræmi við reglugerð um seyru. Förgun seyru frá skólphreinsistöðvum er starfsleyfisskyld og háð skráningu í samræmi við reglur þar að lútandi.
13. gr. Fráveitur.
13.1 Á öllum þéttbýlisstöðum, þéttbýlisvæðum, og eftir atvikum þyrpingu frístundahúsa, skóla og ferðaþjónustumiðstöðva, skal vera fráveita. Þegar fráveita er lögð skal fara eftir kröfum sem gilda um hreinsun skólps. Hönnun, lagning og viðhald fráveitu skal samræmast bestu tækniþekkingu sem völ er á og ekki hafa í för með sér óhóflegan kostnað. Við hönnun skal einkum taka tillit til eðlis viðtaka, magns og eðlis skólps, lekavarna og yfirfalls vegna ofanvatns.
13.2 Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun ófullnægjandi fráveitulagna og krafist endurbóta og endurnýjunar þeirra.
13.3 Fráveituvatn einstakra húsa, þ.m.t. íbúðarhús lögbýla, frístundahúsa og fjallaskála sem ekki verður veitt í fráveitur, skal veitt um rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum sem Hollustuvernd ríkisins gefur út og fyrirmælum heilbrigðisnefndar eða annan sambærilegan búnað.
13.4 Þar sem skólpi og öðru fráveituvatni verður ekki veitt í almenna fráveitu, t.d. frá frístundahúsum, skal veita því eftir vatnsheldum holræsum í rotþrær og skal afla fyrirmæla og leyfis heilbrigðisnefnda hverju sinni.
13.5 Þar sem fráveitum verður ekki við komið eða þar sem landfræðilegar aðstæður valda því að rotþró og siturlögn eru ekki álitlegur kostur er heimilt að nota þurrsalerni. Búnaður fyrir þurrsalerni skal vera af viðurkenndri gerð og samþykktur af heilbrigðisnefnd.
IV. KAFLI Leyfisveitingar.
14. gr. Þéttbýli.
14.1 Heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi vegna fráveitu- og hreinsibúnaðar sem notaður er við meðhöndlun og hreinsun og losun á skólpi frá þéttbýli í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar, einkum ákvæði B-hluta I. viðauka og í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Sjá að öðru leyti ákvæði III. og V. kafla reglugerðarinnar.
15. gr. Aðrir staðir.
15.1 Heilbrigðisnefnd samþykkir nýjar og endurbættar fráveitur og veitir einnig leyfi fyrir búnaði sem notaður er við meðhöndlun og hreinsun og losun á skólpi sem ekki fellur undir 14. gr. Heilbrigðisnefnd skal hafa náið samráð við Hollustuvernd ríkisins áður en samþykki er veitt fyrir fráveitu- og hreinsibúnaði samkvæmt ákvæði þessu.
V. KAFLI Fráveitur.
16. gr. Fráveitukerfi.
16.1 Í hverfi íbúðarhúsa, frístundahúsa, atvinnuhúsnæðis og þar sem fram fer umfangsmikið tómstundastarf skal komið á sameiginlegu fráveitukerfi, sbr. þó 3. mgr. 18. gr. Þar sem skólpi frá einstökum húsum eða frístundahúsum verður ekki veitt í sameiginlega fráveitu skal veita því eftir vatnsheldum lögnum í rotþrær og siturlögn eða sandsíu eða annan sambærilegan búnað. Afla skal fyrirmæla og leyfis hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar hverju sinni. Aðeins er heimilt að nota rotþrær eða annan búnað sem er í samræmi við leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins. Rotþró skal sýnd á holræsateikningu hússins.
17. gr. Fráveitur á þéttbýlissvæðum.
17.1 Sveitarstjórn skal senda áætlun um nýjar og endurbættar fráveitur til heilbrigðisnefndar. Í áætlun skulu koma fram upplýsingar um þá þætti sem fjallað er um í I., II. og III. viðauka og um önnur atriði reglugerðar þessarar eins og við á hverju sinni. Jafnframt skulu m.a. koma fram upplýsingar um:
- Svæðið sem fráveituvatni er veitt frá og að hve miklu leyti fráveitan kemur í stað eldri fráveitna.
- Fyrirhugað magn fráveituvatns og mengunarefna annars vegar frá íbúðabyggð og hins vegar frá iðnaðarsvæðum, svo og um hvers konar iðnað er að ræða.
- Fyrirhugaða hreinsun fráveituvatns, þ.ám. sérstaka hreinsun á fráveituvatni frá iðnaði.
- Fyrirhugaðan viðtaka fráveituvatnsins og með hvaða hætti fyrirhugað er að leiða út í viðtakann.
- Áætluð áhrif á viðtaka af völdum fráveituvatnsins.
- Fyrirhugaða meðhöndlun ristarúrgangs og seyru frá hreinsivirkjum og fyrirhugaðan móttökustað.
- Hvenær áætlað er að fráveitan verði tekin í notkun og framkvæmdaáætlun fyrir einstaka áfanga.
18. gr. Áætlun og tímamörk.
18.1 Safnræsi skal komið á sem hér segir:
Tímamark - ár | Magn pe. | Viðtaki | |
a. | fyrir 31. des. 2000 | >15.000 | allir |
b. | fyrir 31. des. 2005 | 2.000 til 15.000 | allir |
c. | frá og með gildistöku reglugerðarinnar | > 10.000 | viðkvæmur |
18.2 Safnræsi skulu uppfylla þær kröfur sem fram koma í I. viðauka, A-hluta.
18.3 Þar sem lagning safnræsa þykir ekki álitlegur kostur annaðhvort vegna þess að það hefur ekki umhverfisbætandi áhrif eða það hefur í för með sér óhóflegan kostnað skal nýta önnur kerfi sem vernda umhverfið jafn vel. Gæta skal ákvæða 9. gr.
VI. KAFLI Hreinsun skólps á þéttbýlissvæðum.
19. gr. Hönnun skólphreinsi- og dælustöðva.
19.1 Skólphreinsi- og dælustöðvar skulu byggðar, starfræktar og haldið við þannig að nægilega tryggt sé að þær starfi sem skyldi við öll veðurskilyrði á staðnum. Við hönnun stöðvanna skal taka tillit til árstíðabundinna magnsveiflna. Í starfsleyfi skólphreinsistöðva og útrásadælustöðva skal taka mið af þeim kröfum sem getið er í B-hluta I. viðauka eftir því sem við á hverju sinni auk annarra ákvæða reglugerðar þessarar. Við eftirlit og mat á mengunarmælingum skal taka mið af D-hluta I. viðauka. Magn pe. í skólpi skal reiknað út á grundvelli mesta meðalmagns á viku sem fer um hreinsistöðina á ári að frádregnu því sem fellur til við óvenjulegar aðstæður, t.d. við stórrigningar.
20. gr. Eins þreps hreinsun. Áætlun og tímamörk.
20.1 Eins þreps hreinsun skólps, eða sambærilegri hreinsun, skal komið á sem hér segir:
Tímamark - ár | Magn pe. | Viðtaki | |
a. | fyrir 31. des. 2000 | 15.000 til 150.000 | síður viðkvæmur/strandsjór |
b. | fyrir 31. des. 2005 | 10.000 til 15.000 | síður viðkvæmur/strandsjór |
c. | fyrir 31. des. 2005 | 2.000 til 10.000 | síður viðkvæmur/ármynni |
20.2 Hreinsun skólps, sbr. a - c, skal a.m.k. uppfylla kröfur sem gerðar eru til eins þreps hreinsunar, sbr. skilgreiningu í 3. gr. Notkun síubúnaðar til hreinsunar skólps er sambærileg eins þreps hreinsun á síður viðkvæmum svæðum.
20.3 Sveitarstjórnir skulu senda tillögur að skilgreiningu viðtaka sem er síður viðkvæmur ásamt fullnægjandi gögnum til Hollustuverndar ríkisins. Stofnunin metur hvort gögnin sýna góða hæfni viðtaka til að taka við og eyða skólpi og eru í samræmi við fylgiskjal 2 og staðfestir skilgreininguna.
20.4 Áður en eins þreps hreinsun er heimiluð skal eigandi fráveitu í samráði við heilbrigðisnefnd rannsaka ítarlega áhrif skólps á umhverfið. Viðkomandi heilbrigðisnefnd skal hafa samráð við Hollustuvernd ríkisins við gerð rannsóknarinnar. Þegar skólp er losað á svæðum sem skilgreind hafa verið sem síður viðkvæm skal heilbrigðisnefnd hafa eftirlit með og hlutast til um allar þær rannsóknir sem staðfesta að losun hafi ekki óæskileg áhrif. Við eftirlit og mat á mengunarmælingum skal taka mið af D-hluta I. viðauka.
20.5 Fráveituvatn sem veitt er frá einstökum húsum, sbr. 3. mgr. 13. gr., er undanþegið rannsóknarskyldu enda sé því veitt um rotþró og siturleiðslu eða annan sambærilegan búnað samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar. Undanþágan gildir ekki um þyrpingu frístundahúsa.
20.6 Skilgreining síður viðkvæmra svæða skal endurskoðuð á a.m.k. fjögurra ára fresti og skal við skilgreiningu fara eftir þeim viðmiðunum sem koma fram í II. viðauka með reglugerðinni.
20.7 Verði viðtaki ekki lengur skilgreindur sem síður viðkvæmt vatnasvæði skal tveggja þrepa hreinsun komið á innan 7 ára frá því skilgreiningu var breytt.
20.8 Í undantekningartilvikum þegar hægt er að sýna fram á að þróaðri hreinsiaðferðir hafi engin umhverfisbætandi áhrif má hreinsa skólp með meira en 150.000 pe. sem veitt er í síður viðkvæm svæði með eins þreps hreinsun.
Tveggja þrepa hreinsun.
21. gr. Áætlun og tímamörk.
21.1 Tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun skólps skal komið á sem hér segir:
Tímamark - ár | Magn pe. | Viðtaki | |
a. | fyrir 31. des. 2000 | >15.000 | yfirborðsvatn |
b. | fyrir 31. des. 2005 | 10.000 til 15.000 | yfirborðsvatn |
c. | fyrir 31. des. 2005 | 2.000 til 10.000 | ármynni/ferskvatn |
Hreinsun skal uppfylla kröfur I. viðauka, B-hluta.
21.2 Koma skal á tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun fyrir skólp, þegar skólpi er veitt í viðtaka og viðtaki hefur hvorki verið skilgreindur sem viðkvæmt né síður viðkvæmt svæði.
21.3 Við eftirlit og mat á mengunarmælingum skal taka mið af I. viðauka, D-hluta.
22. gr. Frekari hreinsun.
22.1 Á hálendum og/eða köldum svæðum þar sem skólp frá þéttbýli er losað í yfirborðsvatn og örðugt reynist að beita líffræðilegri hreinsun að gagni vegna lágs hitastigs er heimilt að beita aðferðum þar sem ekki eru gerðar eins strangar kröfur um hreinsun og getið er í 1. mgr. 21. gr. Sérstök rannsókn skal þó fara fram áður en slík losun er heimiluð. Gæta skal ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum.
23. gr. Áætlun og tímamörk.
23.1 Frekari hreinsun skólps en tveggja þrepa skal komið á sem hér segir:
Tímamark - ár | Magn pe. | Viðtaki | |
a. | frá og með gildistöku | ≥ 10.000 | viðkvæmur |
b. | fyrir 31. des. 2000 | < 10.000 | viðkvæmur |
23.2 Hreinsun skólphreinsistöðva fyrir þéttbýli sem staðsettar eru á vatnasviði viðkvæmra svæða og valda mengun á þessum svæðum skulu uppfylla kröfur I. viðauka, B-hluta og 2. töflu. Að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins er heimilt að setja mismunandi kröfur til skólphreinsistöðva á sama vatnasvæðinu ef markmiði um 75% heildarlækkun á köfnunarefni og fosfór er náð. Við eftirlit og mat á mengunarmælingum skal taka mið af D-hluta, I. viðauka.
24. gr. Viðunandi hreinsun.
24.1 Skylt er að koma á viðunandi hreinsun skólps, sbr. skilgreiningu í 14. mgr. 3. gr. og í samræmi við meginreglur í 7. gr. og eftirfarandi tímamörk:
Tímamark - ár | Magn pe. | Viðtaki | |
a. | fyrir 31. des. 2005 | < 2.000 | yfirborðsvatn/ármynni |
b. | fyrir 31. des. 2005 | < 10.000 | strandsjór |
VII. KAFLI
25. gr. Iðnaðarstarfsemi.Skólp frá iðnaðarstarfsemi sem losar lífrænan úrgang í eigin fráveitu.
25.1 Iðnaðarstarfsemi samkvæmt III. viðauka sem losar skólp sem ekki er leitt í fráveitu fyrir þéttbýli og inniheldur lífræn efni sem brotna auðveldlega niður í umhverfinu er háð ákvæðum um hreinsibúnað í starfsleyfi. Hreinsibúnaður skal vera í samræmi við leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins.
25.2 Heilbrigðisnefnd skal fyrir 31. desember árið 2000 tilkynna Hollustuvernd ríkisins um fyrirtæki, sbr. III. viðauka, sem losa meira en 4.000 pe. af skólpi sem ekki er veitt í fráveitu fyrir þéttbýli og inniheldur efni sem eyðast auðveldlega í umhverfinu. Jafnframt skal senda stofnuninni upplýsingar um kröfur þær sem gerðar eru í starfsleyfum.
25.3 Öðrum atvinnurekstri en greinir í 1. mgr. ber að fara eftir sérstökum reglugerðum sem gilda um losun tiltekinna efna í vatn.
26. gr. Iðnaðarskólp sem losað er í safnræsiog fráveitur fyrir þéttbýli.
26.1 Iðnaðarskólp sem veitt er í safnræsi og fráveitur fyrir þéttbýli skal uppfylla þær kröfur sem koma fram í I. viðauka, C-hluta. Í starfsleyfi starfsleyfisskylds atvinnurekstrar skal setja kröfur um hreinsun skólps sem uppfylla skilyrði ákvæðis þessa, svo og einstakra sérreglugerða sem varða viðkomandi iðnaðarstarfsemi og við eiga hverju sinni.
26.2 Iðnaðarskólp sem inniheldur önnur efni en lífræn er háð ákvæðum um hreinsibúnað í starfsleyfi og viðeigandi reglu þar að lútandi.
26.3 Að öðru leyti fer um iðnaðarstarfsemi samkvæmt reglugerð um megnunarvarnaeftirlit og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
VIII. KAFLI Mengunarvarnaeftirlit o.fl.
27. gr. Framkvæmd.
27.1 Eftirlitsaðili gerir eða lætur gera eftirlitsmælingar:
a. á fráveituvatni og losun frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli til að staðfesta að farið sé að þeim kröfum sem settar eru fram í B-hluta, I. viðauka, í samræmi við eftirlitstilhögun þá sem mælt er fyrir um í D-hluta, I. viðauka,
b. á viðtaka sem skólpi frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli er veitt í eða losað af iðnfyrirtækjum, sbr. VII. kafla, ef hætta er á að það valdi merkjanlegum áhrifum á viðtaka,
c. á viðtaka þar sem losað er skólp sem hreinsað hefur verið með eins þreps hreinsun og losað í síður viðkvæman viðtaka og sem staðfesta að losunin hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.
27.2 Hollustuvernd ríkisins gefur út leiðbeiningar um sýnatöku og rannsóknir miðað við magn fráveituvatns og mismunandi aðstæður.
27.3 Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit um eftirlit og verkaskiptingu.
28. gr. Stöðuskýrsla.
28.1 Heilbrigðisnefnd skal sjá um að annað hvert ár verði gefin út stöðuskýrsla um förgun skólps á svæði nefndarinnar. Skýrslan skal byggjast á gögnum sveitarstjórnar um núverandi fráveitukerfi og framtíðaráform þeirra. Að auki skal hún byggjast á niðurstöðum úr eftirlitsmælingum heilbrigðiseftirlitsins. Skýrsluna skal senda til Hollustuverndar ríkisins sem dregur efni þeirra saman í sameiginlega stöðuskýrslu yfir landið.
28.2 Í upplýsingum samkvæmt 1. mgr. komi a.m.k. fram:
1. Hvar og með hvaða hætti fráveituvatni er veitt út í umhverfið.
2. Magn fráveituvatns frá íbúðabyggð og iðnaðarsvæðum, svo og tegund iðnaðar sem veitir fráveituvatni í fráveitukerfið.
3. Hreinsun fráveituvatns, þ.á m. sérstök hreinsun á fráveituvatni frá iðnaði.
4. Meðhöndlun og förgun á ristarúrgangi og seyru frá hreinsibúnaði.
5. Dreifing gerlamengunar í viðtaka.
6. Niðurstöður eftirlitsmælinga.
28.3 Telji Hollustuvernd ríkisins, þegar leitað hefur verið eftir áliti umsagnaraðila, að úrbóta sé þörf skal stofnunin leita eftir tillögum sveitarstjórnar um þær.
IX. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.
29. gr. Aðgangur að upplýsingum.
29.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
30. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.
30.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
30.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.
31. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.
31.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.
32. gr. Viðurlög.
32.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
32.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.
X. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.
33. gr.
33.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, einkum 5. gr. laganna og samkvæmt lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.
33.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af 13. tölul. XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 91/271/EBE, tilskipun 98/15/EB).
33.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi 31. - 34. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Iðnaðarstarfsemi sem fellur undir 25. gr. skal uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar eigi síðar en 31. desember 2000.
Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.
Siv Friðleifsdóttir.
Magnús Jóhannesson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.