Prentað þann 22. des. 2024
796/2024
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 812/2021, um Ferðatryggingasjóð.
1. gr.
2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Við mat á fjárhæð tryggingar skal fundin grunntala (G) sem er meðaltal tryggingaskyldrar veltu tveggja tekjuhæstu mánaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs. Að auki skal fundinn veginn meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu til upphafs ferða (N). Ef greitt er fyrir pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun í tveimur eða fleiri greiðslum að frátalinni staðfestingargreiðslu skal reikna N-gildið á grundvelli hlutfalls af heildarverði sem móttekið er á hverjum tíma. Einnig skal fundið meðalhlutfall staðfestingargreiðslu af heildargreiðslu (h) og vegna meðallengdar ferða í dögum (d). Gildi skv. 2. mgr. skulu fundin fyrir síðasta og yfirstandandi rekstrarár.
2. gr.
4. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Einnig er fundin tryggingaskyld velta (V) síðasta rekstrarárs og hlutfallið a(V). Hlutfallið a(V) skal vera:
12% ef ársvelta er minni en 300 m. kr.,
12% - 6% * (V - 300 m.kr.) / 700 m. kr. ef V er milli 300 m. kr. og 1 ma. kr.,
6% - 2% * (V - 1 ma.kr.) / 1 ma. kr. ef V er milli 1 og 2 ma. kr.
Max (4% - 2% *(V - 2 ma kr.) / 3 ma kr., 2%) ef V er stærra en 2 ma. kr.
Tryggingafjárhæð verður T = a (V) * GT.
3. gr.
10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Tilkynningarskylda vegna aukinnar veltu og hækkun tryggingafjárhæðar.
Skylt er að tilkynna Ferðamálastofu verði tryggingaskyld velta fyrirsjáanlega mun meiri en þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun um tryggingafjárhæð gáfu til kynna. Í slíkum tilfellum er Ferðamálastofu heimilt að krefjast hærri trygginga. Við beitingu hækkunarheimildar vegna aukinnar veltu skal Ferðamálastofa fylgja reiknireglu 7. gr.
Ferðamálastofu er heimilt að krefjast hærri trygginga en leiðir af 7. gr. þegar talið er að sérstök áhætta sé af rekstri seljenda vegna fjárhagsstöðu. Við beitingu hækkunarheimildar skal Ferðamálastofa fylgja þeim álagsviðmiðum sem stofnunin gefur út árlega og eru undirrituð af ráðherra.
Heimilt er að krefjast hærri trygginga en leiðir af 7. gr., á grundvelli framlagðra gagna, allt að útreiknaðri grunntryggingafjárhæð ef tilefni er til að ætla að framlögð gögn leiði til þess að tryggingaþörf sé vanmetin og líkur séu á að Ferðatryggingasjóður verði fyrir tjóni komi til útgreiðslu úr sjóðnum.
4. gr.
2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Komi til gjaldþrots seljanda er Ferðatryggingasjóði heimilt að gera kröfu í þrotabú seljanda um greiðslu kostnaðar sem sjóðurinn hefur orðið fyrir vegna gjaldþrotsins. Kostnaður sem til fellur við uppgjör í kjölfar gjaldþrots, ógjaldfærni eða niðurfellingar leyfis seljanda samkvæmt 27. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018, greiðist af tryggingu hans.
5. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 25. gr. a laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, og 10. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, öðlast þegar gildi.
Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 5. júlí 2024.
F. h. r.
Ingvi Már Pálsson.
Guðný Hrafnkelsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.