Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 14. maí 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 2. des. 1999 – 10. júlí 2001 Sjá núgildandi

796/1999

Reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir og draga úr mengun vatns og umhverfis þess af mannavöldum. Einnig er það markmið að takmarka afleiðingar mengunar sem þegar hefur orðið á vatni og að flokkun vatns lúti tilteknum reglum, sbr. ákvæði reglugerðarinnar.

1.2 Enn fremur er það markmið að stuðla að almennri verndun vatns.

2. gr. Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi gildir um varnir gegn mengun vatns, flokkun vatns, gæðamarkmið og umhverfismörk fyrir vatn. Einnig gildir hún um losunarmörk vegna losunar ýmissa hættulegra og óæskilegra efna og efnasambanda í vatn. Reglugerðin tekur til hvers konar atvinnurekstrar hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin tekur til athafna einstaklinga eftir því sem við á.

3. gr. Skilgreiningar.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.3 Eftirlit er athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

3.4 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.5 Ferskvatn (ósalt vatn) er vatn sem kemur fyrir á náttúrulegan hátt, hefur lítinn saltstyrk og er yfirleitt nýtanlegt til töku og vinnslu sem neysluvatn.

3.6 Flokkun vatns er kerfisbundin flokkun vatns, m.t.t. mengunar og annarra þátta sem skipta máli fyrir ástand þess. Markmið flokkunar er að segja til um ástand vatns og miðast við tilteknar forsendur.

3.7 Grunnvatn er vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.

3.8Gæðamarkmið eru mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi (lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum) og/eða lýsing á ástandi sem ákveðið er að gildi fyrir svæði í því skyni að draga enn frekar úr áhrifum mengunar, umfram umhverfismörk, og til að styðja tiltekna notkun og/eða viðhalda tiltekinni notkun umhverfisins til lengri tíma.

3.9 Losun er þegar efnum og efnasamböndum er veitt í fráveitur og viðtaka. Bein losun er losun efna í vatn, oftast frá stakri uppsprettu, án þess að þau síist í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

Óbein losun er þegar efni eða gerlar berast frá dreifðum uppsprettum, eða er hætt við að geti borist, í vatn eftir síun í gegnum jarðveg, þéttan jarðgrunn eða berggrunn.

3.10 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

3.11 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.12 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.13 Mæling á umhverfisgæðum er mæling og skráning á tilteknum þáttum í umhverfinu, óháð einstökum atvinnurekstri og starfsleyfum, venjulega framkvæmd í stuttan tíma.

3.14Strandsjór er sjór sem nær frá fjörumörkum og ferskvatnsmörkum í vatnsföllum að mengunarlögsögu.

3.15 Umhverfismörk eru mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess.

3.16 Úttektarrannsókn er viðamikil rannsókn eða mæling til að kanna breytileika þátta yfir tiltekið tímabil, venjulega bundin við stærra svæði, svo sem landsvæði, þéttbýli eða hluta af þéttbýli, eða rannsókn á yfirgripsmiklum þáttum mengunar, svo sem frá farartækjum, eða rannsókn á mengun er berst frá öðrum löndum.

3.17 Vatn er grunnvatn og yfirborðsvatn.

3.18 Vatnasvið eru aðrennslissvæði straumvatna, stöðuvatna, grunnvatnsstrauma eða vatnsbóla.

3.19 Viðkvæm vatnasvæði eru vatnasvæði sem gætu orðið fyrir áhrifum vegna mengunar sé ekki gripið til verndaraðgerða eða svæði hafa orðið fyrir áhrifum vegna mengunar og svæði sem hafa verið flokkuð samkvæmt 3. og 4. mgr. 10. gr.

3.20 Viðtaki er svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.

3.21 Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.

3.22 Yfirborðsvatn er kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór.

3.23 Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.

II. KAFLI Umsjón.

4. gr. Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

III. KAFLI Meginreglur.

5. gr. Verndun vatns.

5.1 Mengun vatns er óheimil. Losun efna og úrgangs í vatn, þ.m.t. efni á listum I og II í viðauka með reglugerðinni, er óheimil nema í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, viðaukum með henni og starfsleyfa.

5.2 Aðilum í atvinnurekstri sem hafa undir höndum, meðhöndla eða nota efni sem getið er á lista I og II í viðauka með reglugerð þessari eða eru á lista I og II í viðauka með reglugerð um grunnvatn, ber einnig að fara eftir skilyrðum sem Hollustuvernd ríkisins setur um rannsóknir og mat á áhrifum losunar og miða að því að draga úr mengun af völdum þessara efna í vatni.

5.3 Sérstakar reglur gilda um losun í grunnvatn, sbr. reglugerð þar að lútandi.

6. gr. Efni á lista I.

6.1 Losun efna í vatn sem talin eru upp á lista I í viðauka með reglugerðinni er óheimil nema í samræmi við ákvæði hennar og starfsleyfa.

7. gr. Efni á lista II.

7.1 Með aðgerðum skal draga úr losun annarra efna, sbr. lista II í viðauka með reglugerðinni.

7.2 Öll losun úrgangs í vatn, hvort sem um er að ræða beina eða óbeina losun, sem kann að innihalda þau efni sem eru á lista II er háð starfsleyfi. Í þeim skulu vera losunarmörk sem byggjast á þeim markmiðum sem stefnt er að, sbr. ákvæði 12. gr.

IV. KAFLI Flokkun vatns o.fl.

8. gr. Skylda sveitarstjórna.

8.1 Til þess að viðhalda náttúrulegu ástandi vatns og til þess að vernda það gegn mengun frá mannlegri starfsemi skulu heilbrigðisnefndir flokka vatn í samræmi við 9. og 10. gr. og með hliðsjón af fylgiskjali með reglugerðinni. Heilbrigðisnefndir skulu skilgreina langtímamarkmið fyrir vatn og miða þau við flokka A og B, sbr. 9. gr.

8.2 Flokkun vatns gildir um yfirborðsvatn og grunnvatn hvarvetna á landinu. Á skipulagsuppdrætti svæðis- og aðalskipulags skulu koma fram langtímamarkmið, sbr. 1. mgr. Við deiliskipulagsgerð skal gera skýringaruppdrátt sem sýnir ástand vatns, sbr. 9. gr.

8.3 Sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skulu grípa til aðgerða sem miða að því að viðhalda náttúrulegu ástandi vatns. Jafnframt skal grípa til úrbóta ef ástand vatns hrakar eða ef það er lakara en ástandsflokkun, sbr. 1. mgr. 9. gr. gerir ráð fyrir.

9. gr. Flokkar vatns.

9.1 Flokkun vatns skal vera sem hér segir:

Flokkur Ástand Litamerking á skýringar uppdráttum
Flokkur A Ósnortið vatn Blátt
Flokkur B Lítið snortið vatn Grænt
Flokkur C Nokkuð snortið vatn Gult
Flokkur D Verulega snortið vatn Appelsínugult
Flokkur E Ófullnægjandi vatn Rautt

10. gr. Forsendur flokkunar.

10.1 Flokkun vatns skal byggjast á eftirfarandi forsendum:
a. engar eða litlar vísbendingar eru um áhrif frá mannlegri starfsemi á lífríki eða á efna- og eðlisfræðilegt umhverfi þess. Lífríki og efna- og eðlisfræðilegar breytur eru í samræmi við náttúrulegt ástand eða skilgreind bakgrunnsgildi.
b. lítil og ekki skaðleg áhrif eru greinanleg á lífríki og efna- og eðlisfræðilegt umhverfi þess vegna mannlegrar starfsemi. Efna- og eðlisfræðilegar breytur víkja lítillega frá skilgreindu bakgrunnsgildi, sbr. umhverfismörk í fylgiskjali með reglugerðinni.
c. marktæk áhrif eru á lífríki og efna- og eðlisfræðilegt umhverfi þess vegna mannlegrar starfsemi. Lífríki víkur nokkuð frá þeirri gerð sem við mætti búast ef umhverfi væri óraskað. Efna- og eðlisfræðilegar breytur víkja nokkuð frá skilgreindu bakgrunnsgildi, sbr. umhverfismörk í fylgiskjali með reglugerðinni.
d. veruleg og skaðleg áhrif á líffræðileg samfélög og efna- og eðlisfræðilegt umhverfi þeirra vegna mannlegrar starfsemi. Efna- og eðlisfræðilegar breytur víkja verulega frá skilgreindu bakgrunnsgildi, sbr. umhverfismörk í fylgiskjali með reglugerðinni.
e. ófullnægjandi ástand vatns utan þynningarsvæða fyrir losun efna frá mengandi starfsemi.

10.2 Meta má náttúrulegt ástand vatns út frá upprunalegri efna- og eðlis- eða vistfræðilegu ástandi þess eða annarra sambærilegra vatna.

10.3 Leiði eftirlit eða mælingar á umhverfisgæðum í ljós að ástand vatns fari hrakandi vegna mannlegrar starfsemi og hætta er á að það falli niður um flokk eða hafi fallið niður um flokk, sbr. 9. gr., skal skilgreina svæðið sem viðkvæmt vatnasvæði.

10.4 Leiði mælingar á umhverfisgæðum í ljós að efni, af náttúrulegum orsökum, séu í eða yfir þeim styrk þar sem áhrifa er að vænta á viðkvæmt lífríki hefur það ekki áhrif á flokkun í flokka A eða B. Hins vegar skal skilgreina viðkomandi vatn sem viðkvæmt fyrir losun þessara tilteknu efna.

11. gr. Viðhald náttúrulegs ástands vatns.

11.1 Aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ná megi markmiðum um að viðhalda náttúrulegu ástandi vatns, sbr. 3. mgr. 8. gr. eru:

1. kortlagning viðkvæmra svæða og mengaðra svæða,
2. kortlagning svæða sem skulu njóta sérstakrar verndar vegna sérstöðu eða nytja af ýmsu tagi, svo og vegna lífríkis, jarðmyndana eða útivistar,
3. að gera aðgerðaáætlanir fyrir vernduð og viðkvæm svæði og m.a. með því að framfylgja starfsreglum um góða búskaparhætti og góða starfshætti við aðra starfsemi, svo og með almennum takmörkunum í skipulagsáætlunum,
4. með því að beita frekari hreinsun skólps og frekari hreinsun við aðra losun í vatn.

V. KAFLI Leyfisveitingar.

12. gr. Starfsleyfi.

12.1 Öll losun mengandi efna og skólps í vatn er óheimil án starfsleyfis. Í starfsleyfum skal þess krafist að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, m.a. með því að beita bestu fáanlegri tækni, til að koma í veg fyrir vatnsmengun. Jafnframt skal leitast við að nota þau efni sem skaða umhverfið sem minnst.

12.2 Í starfsleyfi skal setja losunarmörk um leyfilegan hámarksstyrk mengandi efna í fráveituvatni og/eða leyfilegt hámarksmagn yfir tilgreind tímabil eða á framleiðslueiningu.

12.3 Í starfsleyfum fyrirtækja sem losa mengandi efni í vatn sem talin eru upp í viðauka skulu losunarmörk vera í samræmi við það sem segir í A-lið í II. viðauka ef þau liggja fyrir. Gæta skal að reglugerðum sem gilda um tiltekinn atvinnurekstur sem losar efni í vatn og losunarmörk fyrir þau. Jafnframt skal miða við flokkun í 9. gr.

12.4 Undir eðlilegum kringumstæðum gilda losunarmörkin á þeim stað þar sem fráveituvatn sem inniheldur efnin er losað frá atvinnurekstrinum. Þó er heimilt í þeim tilvikum þar sem fráveituvatn er meðhöndlað í hreinsivirki á öðrum stað en við atvinnureksturinn að láta losunarmörkin gilda þar.

12.5 Tilvísunaraðferðir við greiningu tiltekinna efna í tengslum við tiltekinn atvinnurekstur eru í C-lið í II. viðauka. Heimilt er að nota aðrar aðferðir svo fremi að greiningarmörk, nákvæmni og hittni slíkra aðferða sé ekki lakari en í C-lið II. viðauka.

12.6 Í undantekningartilvikum er heimilt í stað ákvæða um losunarmörk að setja í starfsleyfi ákvæði um umhverfismörk eða gæðamarkmið í samræmi við ákvæði í B-liðum viðauka I og II og samkvæmt skilyrðum sem Hollustuvernd ríkisins setur.

13. gr. Þynningarsvæði.

13.1 Þegar stærð þynningarsvæðis er ákvörðuð skal taka mið af landfræðilegum aðstæðum og hæfni viðtaka til þess að þynna mengun.

13.2 Gæta skal að því að vistkerfi eða flokkun viðtakans í heild raskist ekki þegar þynningarsvæðið er ákvarðað.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

14. gr. Áætlanir.

14.1 Með það að markmiði að draga úr mengun vatns af völdum efna á lista II í viðauka skulu heilbrigðisnefndir, í samráði við Hollustuvernd ríkisins, gera tímasettar áætlanir þar að lútandi sem fela í sér tiltekin ákvæði um verndun vatns.

15. gr. Vatnsrannsóknir.

15.1 Hollustuvernd ríkisins skipuleggur, hefur umsjón með og sér um að framkvæmd sé vöktun og úttektarrannsóknir á vatnsmengun, þar með töldum grunnvatnsrannsóknum.

16. gr. Yfirlitsskýrsla.

16.1 Hollustuvernd ríkisins gefur á fjögurra ára fresti út yfirlitsskýrslu um stöðu og ástand mála hvað ástand vatns varðar, þ.m.t. næringarefnaauðgun í ferskvatni, árósum og strandsjó. Skýrslur þessar skulu vera samræmdar og m.a. byggðar á spurningareyðublöðum sem notuð eru á EES-svæðinu.

17. gr. Handbók.

17.1 Hollustuvernd ríkisins skal gefa út handbók fyrir sveitarfélög um aðgerðaráætlanir og flokkun vatns, sbr. ákvæði þessarar reglugerðar og aðrar reglugerðir er varða vatn.

VII. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

18. gr. Aðgangur að upplýsingum.

18.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

19. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

19.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

19.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

20. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

20.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

21. gr. Viðurlög.

21.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

21.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

VIII. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

22. gr.

22.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

22.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 4, 12 og 2a og 13b XX. viðauka EES-samningsins, (tilskipun ráðsins 76/464/EBE og tilskipun ráðsins 86/280/EBE, sbr. 88/347/EBE og 90/415/EBE, tilskipun 91/692/EBE og ákvörðun 92/446/EBE, sbr. 95/337/EB).

22.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Flokkun vatns í samræmi við 8. gr., sbr. 9. og 10. gr. reglugerðarinnar, skal vera lokið innan 4 ára frá gildistöku reglugerðarinnar. Þar til skal miða við gildandi flokkun.

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.