Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 2. des. 1999 – 1. maí 2013 Sjá núgildandi

787/1999

Reglugerð um loftgæði

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum loftmengunar á heilsu manna og umhverfið, meta loftgæði á samræmdan hátt, afla upplýsinga um loftgæði og viðhalda þeim þar sem þau eru mikil eða bæta þau ella. Jafnframt er það markmið að draga úr mengun lofts.

2. gr. Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi gildir um loftgæði og varnir gegn loftmengun. Reglugerðin gildir hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin á við um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.

2.2. Um loftgæði á vinnustöðum gilda ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

3. gr. Skilgreiningar.

3.1 Andrúmsloft er í reglugerð þessari loft í veðrahvolfi að undanskildu lofti á vinnustöðum og innandyra.

3.2 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.3 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.4 Eftirlit er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

3.5 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.6 Gæðamarkmið er mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi (lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum) og/eða lýsing á ástandi, sem ákveðið er að gilda eigi fyrir svæði til þess að enn minni hætta sé á að áhrifa mengunar gæti en stefnt er að með umhverfismörkum og til að styðja tiltekna notkun umhverfisins og/eða viðhalda henni til lengri tíma.

3.7 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

3.8 Mat er aðferð til að mæla, reikna út, spá fyrir um eða meta stig mengunar í andrúmslofti.

3.9 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.10 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.11 Mæling á umhverfisgæðum er mæling og skráning á einstökum þáttum í umhverfinu, óháð atvinnurekstri og starfsleyfum, venjulega framkvæmd í stuttan tíma.

3.12 Stig mengunar er styrkur mengunarefna í andrúmslofti eða ákoma þess á yfirborð á ákveðnum tíma.

3.13 Svæði er hluti landsins sem afmarkaður hefur verið til að meta loftgæði.

3.14 Tilkynningarmörk eru mörk þar sem hætta er á tímabundnum áhrifum á heilsu manna sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir mengun ef farið er yfir þau. Senda verður út tilkynningar til almennings ef hætta er á að farið verði yfir mörkin.

3.15 Umhverfismörk er leyfilegt hámarksgildi mengunar í tilteknum viðtaka byggt á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk.)

3.16. Úttektarrannsókn er viðamikil rannsókn eða langtímamæling, venjulega bundin við stærra svæði, svo sem landsvæði, þéttbýli eða hluta af þéttbýli, eða rannsókn á yfirgripsmiklum þáttum mengunar, svo sem frá farartækjum, eða rannsókn á mengun er berst frá öðrum löndum.

3.17 Viðvörunarmörk eru mörk sem ákvörðuð eru þannig að ef farið er yfir þau stafar heilsu manna hætta af mengun þótt hún vari í stuttan tíma. Senda verður út viðvörun og grípa til viðeigandi ráðstafana ef hætta er á að farið verði yfir mörkin.

3.18 Vikmörk eru mörk sem sett eru á svæðum þar sem mengun fer yfir umhverfismörk. Vikmörk segja til um hve mikið og hve lengi heimilt er að fara yfir umhverfismörk.

3.19 Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.

3.20 Þéttbýlisstaður er svæði þar sem þéttleiki byggðar er slíkur að nauðsynlegt er að meta og stjórna gæðum andrúmslofts.

3.21 Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.

II. KAFLI Umsjón.

4. gr. Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

III. KAFLI Varnir gegn loftmengun.

5. gr. Meginreglur.

5.1 Halda skal loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.

5.2 Í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og beita skal til þess bestu fáanlegu tækni.

5.3 Hollustuvernd ríkisins eða heilbrigðisnefnd eftir því sem við á er heimilt að gera strangari kröfur en reglugerð þessi segir til um ef loftmengun á tilteknu svæði er sérstaklega mikil eða ef svæðið á að njóta sérstakrar verndar.

6. gr. Ráðstafanir til þess að draga úr loftmengun.

6.1 Fari loftmengun yfir umhverfismörk samkvæmt einstökum reglugerðum þar að lútandi eða ef hætta er á slíku skal Hollustuvernd ríkisins eða viðkomandi heilbrigðisnefnd eftir því sem við á gera ráðstafanir til að dregið verði úr loftmengun og umhverfismörkin virt.

6.2 Heilbrigðisnefnd getur takmarkað umferð og aðra starfsemi á ákveðnum svæðum um skemmri tíma fari mengun verulega yfir gildandi umhverfismörk, t.d. vegna ófyrirséðra atvika eða ef óþæginda gætir af völdum annarra mengandi efna en þeirra sem sérstakar reglur gilda um. Heimild þessi gengur framar ákvæðum IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit.

7. gr. Brennsla.

7.1 Heilbrigðisnefnd getur sett reglur um brennslu sem getur haft skaðleg áhrif á umhverfið eða gefið frá sér lykt eða reyk sem veldur óþægindum þegar um er að ræða atvinnurekstur sem ekki er starfsleyfisskyldur samkvæmt fylgiskjali 1 og I. viðauka með reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

8. gr. Reykur frá kynditækum o.þ.h.

8.1 Húseigendur skulu sjá svo um eftir því sem frekast er unnt að reykur frá kynditækjum, o.þ.h. valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi. Óheimilt er að nota úrgangsolíu og önnur spilliefni, s.s. fúavarið timbur, á kynditæki nema hafa til þess tilskilin leyfi.

9. gr. Reykur frá atvinnurekstri o.þ.h.

9.1 Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu sjá um að reykur, ryk og lofttegundir, sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi.

10. gr. Skipulagsáætlanir.

10.1 Við gerð aðal- og deiliskipulags skulu skipulagsyfirvöld hafa hliðsjón af niðurstöðum vöktunar og loftgæðarannsóknum sem framkvæmdar eru samkvæmt reglugerð þessari, svo og áliti eftirlitsaðila, sbr. einnig skipulagsreglugerð.

IV. KAFLI Reglur um mat á loftgæðum o.fl.

11. gr. Skipting landsins í svæði.

11.1 Íslandi er skipt í tvö svæði, Þ og D. Svæði Þ, þéttbýlisstaður, er þéttbýli á eftirfarandi eftirlitssvæðum; Reykjavíkursvæði, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði og Kjósarsvæði. Aðrir hlutar landsins eru svæði D.

11.2 Hollustuvernd ríkisins er heimilt að skipta svæðunum upp í minni svæði hvað varðar einstök mengunarefni ef þörf krefur til þess að fá betra mat á gæði andrúmsloftsins. Hollustuvernd ríkisins skal tilkynna hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd um skiptingu svæðis, sbr. 1. ml.

12. gr. Bráðabirgðamat á loftgæðum.

12.1 Í þeim tilgangi að afla grunnupplýsinga um styrk mengunarefna í lofti ber Hollustuvernd ríkisins að sjá til þess að framkvæmdar séu mælingar á mengunarefnum, sbr. I. viðauka.

12.2 Heimilt er að styðjast við fyrirliggjandi mælingar enda uppfylli þær ákvæði þessarar reglugerðar og annarra reglna sem máli skipta og varða einstök mengunarefni í lofti.

13. gr. Mat á loftgæðum.

13.1 Þegar gildandi umhverfismörk fyrir einstök mengunarefni í lofti hafa verið endurskoðuð og ný sett, svo og viðvörunarmörk, skal heilbrigðisnefnd meta loftgæði á sínu svæði í samræmi við kröfur sem kveðið er á í reglugerðum um einstök mengunarefni í andrúmslofti. Jafnframt verða ákvörðuð stig mengunar þar sem krafist verður samfelldra mælinga á loftgæðum, stig x, og það stig mengunar þar sem heimilt er að nota saman líkön og mælingar, stig y. Stig x er hærra en stig y.

13.2 Hollustuvernd ríkisins skal gera mælingar fyrir mengunarefnin á svæði Þ, svæðum þar sem styrkur mengunarefnis liggur á milli umhverfismarka og stigs x, og á öðrum svæðum þar sem styrkur er yfir umhverfismörkum.

13.3 Auk þeirra mælinga sem mælt er fyrir um í 1. mgr. er heimilt að nota líkön til þess að veita nægilegar upplýsingar um loftgæði.

13.4 Heimilt er að nota samsetningu mælinga, sbr. 1. mgr., og líkana, sbr. 3. mgr., til þess að meta loftgæði þar sem styrkur á dæmigerðu tímabili er undir öðrum tilteknum styrk sem er hlutfall af umhverfismörkum.

13.5 Þegar styrkur mengunarefnis er undir stigi y, er heimilt að nota aðeins líkön eða hlutlægar aðferðir til áætlunar til að meta styrk. Þetta á þó ekki við um þéttbýlisstaði ef um er að ræða mengunarefni sem sett hafa verið viðvörunarmörk fyrir.

13.6 Ef mæla þarf mengunarefni skal gera mælingar á föstum stöðum annað hvort samfellt eða með slembisýnatöku. Fjöldi mælinga skal vera nægilega mikill til að unnt sé að reikna út mældan styrk og ákomu.

13.7 Við mat heilbrigðisnefndar á loftgæðum, sbr. 1. mgr., skal nefndin styðjast við niðurstöður vöktunarmælinga Hollustuverndar ríkisins, mælingar á umhverfisgæðum og niðurstöðum eftirlitsmælinga eftir því sem við á.

14. gr. Bætt loftgæði.

14.1 Viðkomandi heilbrigðisnefnd eða Hollustuvernd ríkisins, eftir því sem við á, skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að gildandi umhverfismörk séu virt. Þessar ráðstafanir skulu tryggja að tekið sé tillit til samþættrar stefnu er varðar verndun lofts, vatns og jarðvegs.

15. gr. Aðgerðaráætlanir.

15.1 Viðkomandi heilbrigðisnefndir skulu semja aðgerðaráætlanir sem gilda skulu um skammtímaráðstafanir sem fylgja skal ef hætta er á að farið verði yfir umhverfismörk og/eða viðvörunarmörk og til að draga úr þeirri hættu sem slík atvik skapa og stytta tímann sem þau vara.

15.2 Áætlanir samkvæmt 1. mgr. geta tekið til ráðstafana um aukið mengunarvarnaeftirlit, varnir og um stöðvun atvinnurekstrar og stöðvun eða takmörkun umferðar bifreiða ef mengun frá þessum uppsprettum á þátt í því að farið hefur verið yfir mengunarmörkin.

16. gr. Ráðstafanir sem gilda á svæðum þar sem styrkur er yfir viðmiðunarmörkum.

16.1 Hollustuvernd ríkisins skal gera skrá yfir svæði og hluta svæða þar sem styrkur eins eða fleiri mengunarefna er hærri en umhverfismörkin að viðbættum vikmörkum.

16.2 Ef vikmörk hafa ekki verið ákveðin fyrir tiltekið mengunarefni skal skrásetja upplýsingar um svæði, þar sem styrkur þessa mengunarefnis fer yfir umhverfismörkin, á sama hátt og svæði sem fjallað er um í 1. mgr. og skal 13. gr. reglugerðarinnar gilda um þau.

16.3 Á sama hátt og um getur í 1. mgr. skal gera skrá yfir svæði þar sem styrkur eins eða fleiri mengunarefna er á milli umhverfismarka og umhverfismarka að viðbættum vikmörkum.

16.4 Viðkomandi heilbrigðisnefnd eða Hollustuvernd ríkisins, eftir því sem við á, ber ábyrgð á að gera viðeigandi ráðstafanir á svæðum, sbr. 1. mgr., svo að tryggja megi undirbúning eða framkvæmd fyrirhugaðra aðgerða eða áætlana í þeim tilgangi að ná umhverfismörkunum innan tiltekinna tímamarka.

16.5 Aðgerðir eða áætlanir, sbr. 4. mgr., skulu vera aðgengilegar almenningi og skulu þær a.m.k. innihalda þær upplýsingar sem koma fram í IV. viðauka með reglugerðinni.

17. gr. Samþættar áætlanir.

17.1 Hafi styrkur eins eða fleiri mengunarefna verið hærri á svæðum en gildandi umhverfismörk skal Hollustuvernd ríkisins semja samþætta áætlun sem tekur til allra viðkomandi. Hollustuvernd ríkisins skal senda áætlunina til heilbrigðisnefnda.

18. gr. Kröfur á svæðum þar sem styrkur er undir viðmiðunarmörkum.

18.1 Hollustuvernd ríkisins skal gera skrá yfir svæði þar sem styrkur eins eða fleiri mengunarefna er undir umhverfismörkum.

18.2 Á þeim svæðum sem getur í 1. mgr. skal halda styrk mengunarefna undir umhverfismörkum og leitast við að varðveita eftir föngum loftgæði sem samrýmast sjálfbærri þróun.

19. gr. Ráðstafanir sem gilda ef farið er yfir viðvörunarmörk.

19.1 Ef farið er yfir viðvörunarmörk skal viðkomandi heilbrigðisnefnd upplýsa almenning um það, t.d. með auglýsingum í fjölmiðlum. Jafnframt skal senda Hollustuvernd ríkisins upplýsingar um þann styrk sem mælist og upplýsingar um lengd þess tíma sem mengun var yfir viðvörunarmörkum eigi síðar en þremur mánuðum eftir að atvikið átti sér stað.

V. KAFLI. Ýmis ákvæði.

20. gr. Handbók.

20.1 Hollustuvernd ríkisins skal gefa út handbók fyrir sveitarfélög um aðgerðaráætlanir og framkvæmd á þeirra vegum, sbr. ákvæði þessarar reglugerðar og annarra reglugerða er varða einstök mengunarefni í lofti.

21. gr. Efni starfsleyfis.

21.1 Í starfsleyfum sem gefin eru út til atvinnurekstrar sem veldur loftmengun skal tilgreina í hvaða fjarlægð frá verksmiðjuvegg ákvæði um umhverfismörk og/eða gæðamarkmið skuli uppfyllt.

21.2 Dreifing útblásturslofts í umhverfinu og virkni hreinsibúnaðar skal ávallt vera slík að mengun sé innan umhverfismarka.

22. gr. Þynningarsvæði.

22.1 Þegar stærð þynningarsvæðis er ákvörðuð skal taka mið af landfræðilegum og veðurfræðilegum aðstæðum og hæfni viðtaka til þess að dreifa mengun.

22.2 Gæta skal að því að vistkerfi viðtakans í heild raskist ekki þegar þynningarsvæði er ákvarðað.

23. gr. Loftgæðarannsóknir og vöktun.

23.1 Hollustuvernd ríkisins sér um að úttektarrannsóknir og vöktun á loftgæðum séu framkvæmdar.

23.2 Í einstökum reglugerðum er varða mengunarefni í andrúmslofti eru birtar aðferðir sem beita skal við mælingar á loftgæðum. Heimilt er að beita jafngildum aðferðum enda hafi Hollustuvernd ríkisins staðfest að þær uppfylli ákvæði alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að.

23.3 Hollustuvernd ríkisins skal sjá um vöktun og samræmingu mælinga á umhverfisgæðum hvað varðar loftgæði og skal sjá til þess að beitt sé tilvísunaraðferðum samkvæmt 2. mgr. Stofnunin skal sjá um að settar verði upp mælistöðvar vegna vöktunar til að afla nauðsynlegra gagna um loftgæði.

23.4 Heilbrigðisnefnd ber að skila upplýsingum um niðurstöður mengunarvarnaeftirlits og mælinga á umhverfisgæðum hvað varðar loftgæði, ef slíkar mælingar hafa verið framkvæmdar, til Hollustuverndar ríkisins.

23.5 Á sama hátt ber Hollustuvernd ríkisins að skila viðkomandi heilbrigðisnefnd mælingarniðurstöðum stofnunarinnar um loftgæði.

23.6 Hollustuvernd ríkisins skal með reglulegu millibili birta niðurstöður um loftgæði á Íslandi.

VI. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

24. gr. Aðgangur að upplýsingum.

24.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

25. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

25.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

25.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

26. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

26.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

27. gr. Viðurlög.

27.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

27.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

VII. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

28. gr.

28.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og samkvæmt lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þátt sveitarfélaga varðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

28.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af XX. viðauka EES-samningsins, (tilskipun 96/62/EB).

28.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.