Prentað þann 25. des. 2024
786/2024
Reglugerð um verkefnisstjórn vegna gerðar og eftirfylgni áætlana á sviði loftslagsmála.
1. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að kveða á um skipun og hlutverk verkefnisstjórnar í samræmi við 5. gr. og 5. gr. a. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til gerðar og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og áætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum í samræmi við 5. gr. og 5. gr. a. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari merkja orð og orðasambönd eftirfarandi:
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum: Áætlun stjórnvalda í loftslagsmálum þar sem fram koma aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi.
Aðlögunaráætlun: Stefnumótandi áætlun stjórnvalda um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, sbr. 5. gr. a. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál, sem tryggir heildræna og reglubundna stöðutöku.
Loftslagsaðgerðir: Samheiti yfir aðlögunaraðgerðir og mótvægisaðgerðir:
- Aðlögunaraðgerð: Loftslagsaðgerð sem miðar að því að draga úr loftslagstengdri áhættu með því að auka þol fólks, lífríkis, samfélaga og vistkerfa fyrir skamm- og langtímaáhrifum loftslagsbreytinga.
- Mótvægisaðgerð: Loftslagsaðgerð sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða auka kolefnisbindingu.
4. gr. Skipan verkefnisstjórnar loftslagsaðgerða.
Ráðherra skipar fulltrúa verkefnisstjórnar eftir tilnefningum frá öllum ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þriggja ára í senn. Tilnefningaraðilar bera kostnað hver af sínum fulltrúa í stjórninni.
Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar án tilnefningar.
Hlutverk Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Lands og skógar er ráðgefandi varðandi mótun og útfærslu loftslagsaðgerða. Í tilfelli mótvægisaðgerða er hlutverk Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Lands og skógar einnig að framkvæma mat á loftslagsávinningi af framkvæmd aðgerðanna sem þar eru lagðar til í samhengi við alþjóðlegar skuldbindingar og yfirlýst markmið stjórnvalda. Í tilfelli aðlögunaraðgerða er hlutverk Veðurstofu Íslands einnig að vera leiðbeinandi við gerð áhættu- og viðkvæmnimats vegna málaflokka aðlögunaráætlunar.
Umhverfisstofnun og Veðurstofa Íslands skulu tilnefna sérfræðinga sem, í samstarfi við starfsfólk ráðuneytis og, eftir atvikum, viðeigandi ráðuneyta, sinna faglegum undirbúningi funda verkefnisstjórnar og faglegri eftirfylgni aðgerða. Hlutverk og starfssvið ofangreindra sérfræðinga skulu útfærð nánar í starfsreglum verkefnisstjórnar, sbr. 8. mgr. 5. gr. Viðeigandi stofnanir og aðrir lögaðilar geta haft áheyrnarfulltrúa á fundum verkefnisstjórnar eftir atvikum og óskum fulltrúa verkefnisstjórnar.
5. gr. Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða.
Verkefnisstjórn vinnur að því að móta tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun skv. 6. gr. og aðlögunaráætlun skv. 7. gr. og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd.
Verkefnisstjórn tekur til umfjöllunar loftslagsaðgerðir sem skilgreindar hafa verið af viðeigandi ráðuneytum. Verkefnisstjórn skal raða niður aðgerðum í viðeigandi málaflokka og skal eitt ráðuneyti vera skilgreint sem ábyrgðarráðuneyti vegna hverrar aðgerðar.
Verkefnisstjórn skal taka saman upplýsingar um kostnað aðgerða í áætlunum sem hún leggur til á sviði loftslagsmála sem nýtist við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar.
Verkefnisstjórn skal skila skýrslu til ráðherra um framgang loftslagsaðgerða fyrir lok september ár hvert. Í skýrslunni skal farið yfir þróun losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis og hvort hún sé í samræmi við áætlanir, fjallað um framgang aðgerða og eftir atvikum settar fram ábendingar verkefnisstjórnar. Að minnsta kosti annað hvert ár skal verkefnisstjórn í skýrslu sinni fjalla um framgang og árangur aðlögunaraðgerða.
Verkefnisstjórn skal jafnframt vinna að endurskoðun aðgerðaáætlunar og aðlögunaráætlunar. Aðgerðir skulu byggja á vísindum, bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni og taka mið af öðrum stefnum og áætlunum stjórnvalda.
Verkefnisstjórn skal tryggja að loftslagsráði sé veittur kostur á að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál eigi sjaldnar en árlega. Verkefnisstjórn skal jafnframt taka mið af ráðgjöf loftslagsráðs og bregðast skriflega við umsögnum ráðsins um loftslagsaðgerðir stjórnvalda.
Verkefnisstjórn skal tryggja að við gerð áætlananna sé haft samráð við hagsmunaaðila um mótun aðgerða.
Verkefnisstjórn setur sér starfsreglur.
6. gr. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Ráðherra lætur gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem setja skal fram aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi.
Í aðgerðaáætlun skal koma fram mat á áætluðum kostnaði ásamt mati á loftslagsávinningi af framkvæmd aðgerðanna sem þar eru lagðar til.
Aðgerðaáætlunina skal endurskoða í heild eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda. Aðgerðum og framgangi þeirra skal fylgja eftir með reglubundnum hætti, a.m.k. árlega.
7. gr. Aðlögunaráætlun.
Ráðherra lætur vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum þar sem setja skal fram aðlögunaraðgerðir á ábyrgð stjórnvalda.
Í aðlögunaráætlun skal staðfesta stefnu með langtímasýn stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Í aðlögunaráætlun skal koma fram mat á áætluðum kostnaði af framkvæmd aðgerðanna sem þar eru lagðar til.
Verkefnisstjórn skal taka mið af áhættu og viðkvæmni vegna áhrifa loftslagsbreytinga fyrir málaflokka aðlögunaráætlunar með tilliti til þols innviða, hópa fólks, lífríkis og með hliðsjón af skýrslugjöf vísindanefnda um loftslagsbreytingar á Íslandi.
Aðlögunaráætlun skal vera til fimm ára og endurskoðuð í heild eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. og 5. gr. a. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og öðlast þegar gildi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 2. júlí 2024.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Stefán Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.