Prentað þann 8. nóv. 2024
776/2019
Reglugerð um breytingu á reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 1277/2016.
1. gr.
Á eftir "lögreglu" í 3. málslið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: og sýslumanni.
2. gr.
39. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
39. gr.
Eftirlit með gististarfsemi.
Eftirlitsaðili með heimagistingu er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hann eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á heimagistingu í samræmi við ákvæði laga og reglugerð þessari. Beina skal athugasemdum vegna heimagistingar til hans.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast ákvarðanir um stjórnvaldssektir vegna leyfisskyldrar gististarfsemi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skal tilkynna álagðar stjórnvaldssektir vegna leyfisskyldrar gististarfsemi til sýslumanns þess umdæmis þar sem brot á sér stað. Við ákvörðun um stjórnvaldssektir vegna leyfisskyldrar gististarfsemi er sýslumanni heimilt að afla gagna með sjálfstæðri rannsókn.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skal m.a. fylgjast með þeim miðlum þar sem fasteignir eru auglýstar til skammtímaleigu ásamt því að yfirfara nýtingaryfirlit, tekjuupplýsingar og aðrar upplýsingar sem liggja fyrir um starfsemi.
Sé uppi rökstuddur grunur um að aðili sem stundar skráningar- eða leyfisskylda gististarfsemi hafi gerst brotlegur við ákvæði laganna eða reglugerðar þessarar er sýslumanni heimilt að kalla eftir nauðsynlegum gögnum frá aðilum, s.s. upplýsingum frá bókunarvefjum, m.a. í því skyni að meta umfang starfseminnar eða ganga úr skugga um að starfsemin fari ekki út fyrir mörk leyfilegrar nýtingar.
Sýslumaður skal einnig hafa eftirlit með því að skráningar- og leyfisskyldir aðilar noti úthlutað skráningar- eða leyfisnúmer í markaðssetningu sinni.
Í tengslum við eftirlit og beitingu viðurlaga vegna skráningar- eða leyfisskyldrar gististarfsemi er sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu heimilt:
- Að leita atbeina lögreglu við að kanna hvort skráningar- eða leyfisskyld gististarfsemi sé starfrækt á viðkomandi stað.
- Að fara fram á að lögreglustjóri, án fyrirvara eða aðvörunar, stöðvi skráningar- eða leyfisskylda gististarfsemi sem fer fram án skráningar eða leyfis.
- Að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur leyfisskylda gististarfsemi án tilskilins leyfis eða heimagistingu án skráningar. Sýslumanni er einnig heimilt að leggja stjórnvaldssektir á skráða aðila sem stunda útleigu lengur en 90 daga á ári eða hafa hærri tekjur af sölu gistingar en nemur viðmiðunarfjárhæð í lögum um virðisaukaskatt, sbr. 13. gr. reglugerðar þessarar. Þá er sýslumanni heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem ekki notar úthlutað leyfis- eða skráningarnúmer í markaðssetningu. Um stjórnvaldssektir er fjallað í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
3. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 21. ágúst 2019.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Sigrún Brynja Einarsdóttir.
Þórarinn Örn Þrándarson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.