Fara beint í efnið

Prentað þann 4. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 13. ágúst 2019

771/2010

Reglugerð um veitingu veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja veitingu veðurþjónustu til að stuðla að öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falið að veita veðurþjónustu í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

3. gr. Orðskýringar.

Í texta þessara reglna er hugtakið "þjónusta" notað sem sértækt nafnorð er táknar starfsemi eða veitta þjónustu.

Þegar eftirfarandi hugtök eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Aðalveðurstofa (Meteorological watch office): Veðurstofa sem hefur það hlutverk að vakta veður og senda út viðvaranir þegar við á fyrir ákveðið flugupplýsingasvæði.

Aðflugsstjórnardeild (Approach control unit): Deild sem veitir stjórnuðu flugi, í að- og brottflugi til og frá einum eða fleiri flugvöllum, flugstjórnarþjónustu.

Alþjóðleg eldfjallavakt fyrir flug (International airways volcano watch (IAVW)): Alþjóðlegt fyrirkomulag vegna vöktunar á eldfjöllum og gjósku í andrúmslofti og viðvaranir þar að lútandi til loftfara. Alþjóðlega eldfjallavaktin byggir á samvinnu flugaðila og annarra, samhæfðri af Alþjóðaflugmálastofnuninni í samstarfi við aðrar hlutaðeigandi alþjóðlegar stofnanir.

AIRMET-upplýsingar (AIRMET information): Upplýsingar sem gefnar eru út af aðalveðurstofu vegna sérstakra veðurfyrirbrigða eða væntanlegra veðurfyrirbrigða sem haft geta áhrif á öryggi loftfara í lægri flughæðum og voru ekki þegar meðfylgjandi í spá fyrir flug í lægri flughæðum innan viðkomandi flugupplýsingasvæðis eða undirsvæðis þess.

Áætlanagerð flugrekstrar (Operational planning): Áætlanagerð flugrekanda um flugrekstur.

Blindflugsskilyrði (Instrument meteorological conditions (IMC)): Veðurskilyrði neðan við lægstu mörk sjónflugsskilyrða, tilgreind sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og skýjahæð.

Björgunarmiðstöð (Rescue coordination centre): Deild sem ber ábyrgð á að stuðla að skilvirkri skipulagningu leitar og björgunar og að samræma stjórnun við leit og björgun innan leitar- og björgunarsvæðis.

Eldfjallaeftirlitsstöð (Volcano observatory): Stofnun sem útnefnd er af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) til að viðhafa eftirlit með eldvirkni með tilliti til þarfa flugleiðsögu.

Farflugslag (Cruising level): Lag sem haldið er óbreyttu á verulegum hluta flugs.

Faststöðvanet flugfjarskipta (Aeronautical fixed telecommunication network (AFTN)): Samtengt alheimskerfi fastra flugfjarskiptarása, sem hluti af faststöðvaþjónustu fyrir flug (AFS), sem ber skilaboð og/eða stafræn gögn milli fastastöðva sem hafa sömu eða samrýmanlega eiginleika.

Faststöðvaþjónusta fyrir flug (Aeronautical fixed service (AFS)): Fjarskiptaþjónusta milli tilgreindra ákveðinna staða, veitt aðallega til að tryggja öryggi í flugleiðsögu og reglubundna, skilvirka og hagkvæma flugþjónustu.

Fjarflug (Extended range operation): Flug flugvélar með tvo hreyfla sem er fjær viðunandi flugvelli en það hámark sem Flugmálastjórn Íslands hefur samþykkt miðað við fartíma á farflugshraða með annan hreyfilinn óvirkan.

Flugbraut (Runway): Afmarkað, rétthyrnt svæði á flugvelli, gert til flugtaks og lendinga loftfara.

Flugbrautarskyggni (Runway visual range (RVR)): Sú fjarlægð sem flugmaður loftfars á miðlínu flugbrautar getur séð yfirborðsmerkingar á flugbraut eða ljósin sem afmarka hana eða sýna miðlínu hennar.

Flugfarstöðvaþjónusta (Aeronautical mobile service (RR S1.32)): Farstöðvaþjónusta milli landstöðva fyrir flugfjarskipti og flugfarstöðva, eða milli flugfarstöðva þar sem björgunarfarstöðvar geta tekið þátt, einnig getur neyðarbauja tekið þátt í þessari þjónustu á tilnefndum neyðartíðnum.

Flugfjarskiptastöð (Aeronautical telecommunication station):Stöð sem sinnir flugfjarskiptaþjónustu.

Flughæð (Altitude): Lóðrétt fjarlægð lárétts lags, punkts eða hlutar, sem litið er á sem punkt, mæld frá meðalsjávarmáli (MSL).

Fluglag (Flight level): Flötur með jöfnum loftþrýstingi, sem miðaður er við ákveðið loftþrýstimið, 1013,2 hektópasköl (hPa) og aðgreindur er frá öðrum slíkum flötum af tilteknum loftþrýstingsmun.

Þrýstingshæðarmælir, sem kvarðaður er samkvæmt ICAO-reglum um meðalloft:

  1. sýnir flughæð þegar hann er stilltur á QNH,
  2. sýnir hæð yfir QFE-viðmiðun þegar hann er stilltur á QFE,
  3. sýnir fluglag, þegar hann er stillur á 1013,2 hektópasköl (hPa).

Flugleiðsöguþjónusta (Air navigation services): Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála.

Flugliði (Flight crew member): Áhafnarliði sem er handhafi flugliðaskírteinis og er falið starf sem er nauðsynlegt starfsemi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugrekstrarstjórn (Operational control): Stjórn á einstökum þáttum flugs, upphafi, áframhaldi, breytingum á framvindu þess eða lokum, með öryggi loftfars, reglufestu á áætlunum og hagkvæmni flugsins í huga.

Flugskjöl (Flight documentation): Skjöl sem innihalda veðurupplýsingar fyrir flug, ýmist á prentuðu máli eða sem myndir eða kort.

Flugstjóri (Pilot-in-command): Flugmaður sem tilnefndur er af flugrekanda eða eiganda loftfars til að fara með yfirstjórn um borð í loftfarinu og ber ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugstjórnarmiðstöð (Area control centre): Deild sem veitir stjórnuðu flugi í flugstjórnarsvæðum, sem undir hana heyra, flugstjórnarþjónustu.

Flugstjórnarsvæði (Control area): Flugstjórnarrými, sem nær upp á við frá tiltekinni hæð yfir jörðu.

Flugturn (Aerodrome control tower): Deild sem veitir flugvallarumferð flugstjórnar-þjónustu.

Flugumferðarþjónustudeild (Air traffic services unit): Almennt hugtak sem táknar ýmist flugstjórnardeild, flugupplýsingamiðstöð eða flugvarðstofu.

Flugupplýsingamiðstöð (Flight information centre): Deild sem veitir flugupplýsinga- og viðbúnaðarþjónustu.

Flugupplýsingasvæði (Flight information region): Loftrými af skilgreindri stærð þar sem veitt er flugupplýsingaþjónusta og viðbúnaðarþjónusta.

Flugvallarhæð (Aerodrome elevation): Hæð hæsta punkts á lendingarsvæði.

Flugvallarspá (Aerodrome forecast): Veðurspá á veðurskeytaformi fyrir flugvallarsvæði yfir tilgreint tímabil.

Flugveðurstöð (Aeronautical meteorological station): Athugunarstöð sem veitir veðurupplýsingar fyrir flugleiðsögu.

Flugvöllur (Aerodrome): Tiltekið svæði á láði eða legi (að meðtöldum byggingum og búnaði) sem ætlað er til afnota við komu, brottför og hreyfingar loftfara á jörðu niðri.

Gæðastjórnun (Quality management): Samhæfð starfsemi til að stýra og stjórna fyrirtæki með tilliti til gæða (ISO 9000).

Gæðastýring (Quality control): Sá hluti af gæðastjórnun, er beinist að því að uppfylla gæðakröfur (ISO 9000).

Gæðatrygging (Quality assurance): Sá hluti af gæðastjórnun, er beinist að því að veita þá tiltrú að gæðakröfur muni uppfylltar (ISO 9000).

Háloftakort (Upper-air chart): Veðurkort sem sýna ákveðinn flöt eða lag í efri hluta lofthjúpsins.

Hlutaðeigandi flugumferðarþjónustuveitandi (Appropriate ATS authority): Opinber aðili, stofnun eða fyrirtæki sem tilnefndur hefur verið til að veita flugumferðarþjónustu í tilteknu loftrými. Í Flugmálahandbók Íslands eru birtar upplýsingar um tilnefnda flugumferðarþjónustuveitendur.

Hnattræn spámiðstöð (World area forecast center, (WAFC)): Stofnun sem veitir þjónustu varðandi gerð og hnattræna dreifingu stafrænna veðurspáa vegna flugleiðsögu.

Hnattrænt spákerfi (World area forecast system (WAFS)): Alþjóðlegt kerfi notað af hnattrænum spámiðstöðvum til að veita veðurspár fyrir leiðarflug á samræmdan og staðlaðan máta.

Hæð (Height): Lóðrétt fjarlægð lárétts lags, punkts eða hlutar, sem litið er á sem punkt, mæld frá tilteknu viðmiði.

Jafnþrýstiflötur í mállofti (Standard isobaric surface): Jafnþrýstiflötur sem notaður er um allan heim til viðmiðunar og greiningar á ástandi andrúmsloftsins.

Lag (Level): Almennt hugtak sem varðar lóðrétta stöðu loftfars á flugi og á ýmist við hæð, flughæð eða fluglag.

Landhæð (Elevation): Lóðrétt fjarlægð punkts á yfirborði jarðar, mæld frá meðalsjávarmáli.

Lágmarksflughæð í geira (Minimum sector altitude): Lægsta nothæfa flughæð sem tryggir lágmarks lausn (1.000 fet/300 m) yfir öllum hlutum sem staðsettir eru í svæði sem afmarkast af geira hrings með 25 sjómílna/46 km radíus umhverfis leiðsöguvirki.

Leiðarflugáætlun (Operational flight plan): Áætlun rekstraraðila/flugrekanda um öruggan framgang flugsins, gerð með hliðsjón af getumörkum loftfarsins, öðrum starfrækslumörkum og þeim skilyrðum sem skipta máli og búast má við á fyrirhugaðri flugleið og á viðkomandi flugvöllum.

Leiðsögubúnaðarháð kögun (Automatic dependent surveillance (ADS)): Kögun sem notast við gagnasamband, þar sem loftför láta sjálfvirkt af hendi gögn frá leiðsögu- og staðsetningartækjum um borð, svo sem kallmerki, fjórvíddar staðarákvörðun og viðeigandi viðbótargögn.

Leitar- og björgunardeild (Search and rescue services unit): Almennt hugtak sem táknar ýmist samhæfingarstöð leitar og björgunar, björgunarstöð eða viðbúnaðarstöð.

Loftfar (Aircraft): Sérhvert það tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Markveður (Significant weather): Veður sem ógnað getur öryggi flugs, s.s. kvika, ísing, eldingar o.fl.

Markvert ský (Cloud of operational significance): Ský með skýjaþekjuhæð lægri en 1.500 metra (5.000 fet) eða lægri en lágmarksflughæð í geira (minimum sector altitude) hvort sem er hærri, eða skúra- eða éljaský (cumulonimbus cloud) eða háreistir bólstrar (towering cumulus) í hvaða hæð sem er.

Málloft (International standard atmosphere): Alþjóðlega skilgreint meðalástand lofthjúps jarðar.

Meginreglur mannþáttafræði (Human factors principles): Meginreglur sem gilda um hönnun, vottun, þjálfun, rekstur og viðhald kerfa og miða að öruggri tengingu milli mannsins og annarra kerfisþátta með því að taka viðeigandi tillit til mannlegrar getu.

METAR (METeorological Aerodrome Reports): Regluleg veðurskeyti frá flugvelli þar sem veðurlýsing er skráð á veðurskeytaformi.

Ráðfærsla (Consultation): Að fá ráðgjöf hjá veðurfræðingi eða öðrum hæfum aðila um veðurskilyrði og þróun þeirra í tengslum við starfrækslu flugs.

Ráðgjafarmiðstöð um fellibylji (Tropical cyclone advisory centre; TCAC): Stofnun sem veitir þjónustu varðandi fellibylji, staðsetningu, styrkleika og þróun þeirra fram í tímann.

Ráðgjafarmiðstöð um gjóskudreifingu (Volcanic ash advisory centre; VAAC): Stofnun sem veitir þjónustu varðandi útreikninga og dreifingu á gjósku frá eldfjallasvæðum.

Rekstraraðili (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem starfrækir eða býðst til að starfrækja loftfar. Í flutningaflugi nefnist rekstraraðili flugrekandi enda byggist heimild hans til rekstursins á flugrekandaskírteini.

Ríkjandi skyggni (Prevailing visibility): Mesta skyggni, skv. almennri skilgreiningu á skyggni, innan a.m.k. helmings sjóndeildarhringsins eða innan a.m.k. helmings yfirborðs flugvallar. Þessi svæði geta verið samfelld eða ósamfelld. Skyggnið getur verið metið ýmist með sjónrænni athugun eða með til þess gerðum tækjabúnaði. Þegar tækjabúnaði er komið fyrir skal hann notaður til að ná sem bestu mati á ríkjandi skyggni.

Samningur um svæðisbundna flugleiðsögu (Regional air navigation agreement): Þegar vísað er í samning um svæðisbundna flugleiðsögu í þessari reglugerð þá er átt við samning um skipulag flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (NAT ANP, ICAO Doc 9634) og samning um búnað og þjónustu vegna flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (NAT FASID, ICAO Doc 9635). Í samningi þessum er m.a. kveðið á um fyrirkomulag veðurþjónustu og hvernig dreifingu veðurupplýsinga milli landa skal háttað.

SIGMET (SIGMET information): Viðvaranir gefnar út af aðalveðurstofu um hættuleg veðurfyrirbæri í lofti, raunveruleg eða spáð, sem ógnað geta öryggi loftfara.

Sjónflugsskilyrði (Visual meteorological conditions; VMC): Veðurskilyrði sem tilgreind eru sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og skýjahæð en eru jöfn eða betri en tilgreind lágmörk.

Skyggni (Visibility): Skyggni sem notað er í flugi er lengri vegalengdin af þessum tveimur:

  1. hámarksfjarlægð sem hægt er að greina dökkt fyrirbæri eins og hús eða fjall sem ber við himinn eða ljósan bakgrunn,
  2. hámarksfjarlægð sem hægt er að greina um 1.000 kerta ljós í myrkri.

Snertisvæði (Touchdown zone): Sá hluti flugbrautar, eftir þröskuld, þar sem fyrirhugað er að loftfar í lendingu snerti flugbrautina fyrst.

Spá (Forecast): Lýsing á ákveðnum veðurþáttum og væntanlegri þróun þeirra yfir tilgreint tímabil og svæði eða skilgreindan hluta loftrýmis.

Spákort (Prognostic chart): Spá um tilgreinda veðurþætti, sem nær til ákveðins tíma eða tímabils og tilgreinds yfirborðs eða hluta loftrýmis, sýnt myndrænt á korti.

SPECI: Sérstök veðurbrigðaskeyti frá flugvelli, sem send eru út þegar veður breytist skyndilega marktækt og eru skráð á sama hátt og METAR.

Stafræn punktgögn (Grid point data in digital form): Tölvuunnar veðurupplýsingar settar fram í reglulegu hnitakerfi á korti, til sendingar frá veðurtölvum yfir í aðrar tölvur, á kóða sem hentar fyrir sjálfvirka framsetningu og birtingu.

Stöðumið (Reporting point): Ákveðin landfræðileg staðsetning sem flugmaður miðar við er hann tilkynnir staðsetningu loftfars.

Stöðutilkynning (Air report): Tilkynning frá loftfari á flugi (þegar komið er yfir tiltekið stöðumið) sem útbúin er í samræmi við kröfur um stöðu og rekstrarlega skýrslugjöf og/eða veðurskeyti.

Upplýsingaþjónusta flugmála (Aeronautical information service): Þjónusta sem stofnuð er innan skilgreinds rýmis og sem er ábyrg fyrir að miðla flugmálaupplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að tryggja öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu.

Varaflugvöllur (Alternate aerodrome): Flugvöllur sem fljúga má loftfari til þegar ógerlegt eða óráðlegt er að halda áfram til eða lenda á þeim flugvelli þar sem áætlað var að lenda. Til varaflugvalla teljast eftirfarandi:

Varaflugvöllur við flugtak (Take-off alternate): Varaflugvöllur sem unnt er að lenda loftfari á ef nauðsyn krefur skömmu eftir flugtak, ef ekki er gerlegt að nota brottfararflugvöllinn.

Varaflugvöllur á flugleið (En-route alternate): Flugvöllur sem loftfar gæti lent á ef upp kæmi óvenjulegt ástand eða neyðarástand á flugleið.
ETOPS-varaflugvöllur á flugleið (ETOPS en-route alternate): Hentugur og viðeigandi varaflugvöllur, sem flugvél gæti lent á í kjölfar vélarbilunar eða annars óeðlilegs ástands eða neyðarástands á meðan á flugi, í samræmi við ETOPS, stendur.
Varaflugvöllur ákvörðunarstaðar (Destination alternate): Varaflugvöllur sem fljúga má loftfari til ef ógerlegt eða óráðlegt reynist að lenda á ákvörðunarflugvelli.

Veðurathugun (Observation (Meteorological)): Mat eða mæling á einum eða fleiri veðurþáttum.

Veðurathugun loftfars (Aircraft observation): Mat eða mæling á einum eða fleiri veðurþáttum gerð frá loftfari á flugi.

Veðurathugunarmaður (Weather observer): Aðili sem gerir veðurathuganir og skráir þær samkvæmt reglugerð þessari.

Veðurfarssamantekt fyrir flugvöll (Aerodrome climatological summary): Hnitmiðuð samantekt á ákveðnum veðurþáttum á flugvelli, byggð á tölfræðilegum gögnum.

Veðurfarstafla fyrir flugvöll (Aerodrome climatological table): Tafla sem veitir tölfræðilegar upplýsingar um veðurfar á flugvelli.

Veðurfræðingur (Meteorologist): Aðili sem hefur lokið BS-prófi í veðurfræði eða sambærilegri menntun.

Veðurfræðilegt stjórnvald (Meteorological authority): Í skilningi reglugerðar þessarar er Flugmálastjórn Íslands veðurfræðilegt stjórnvald sem tryggir, fyrir hönd Íslands, að veðurþjónusta sé veitt fyrir flugleiðsögu.

Veðurkynning (Briefing): Munnleg greinargerð um veðurskilyrði og/eða væntanlegar breytingar á þeim.

Veðursjá (Weather radar): Tæki sem sendir út stuttbylgjugeisla og nemur síðan endurvarp þeirra frá úrkomu en einnig frá öðrum hlutum sem verða á vegi hans, t.d. fjöllum.

Veðurskeyti (Meteorological report/MET-report): Lýsing, byggð á veðurathugunum, á veðurskilyrðum frá ákveðnum stað og tíma.

Veðurspá (Meteorological forecast): Lýsing á ákveðnum veðurþáttum og þróun þeirra á tilteknum tíma eða yfir tilgreint tímabil og tilgreint svæði eða skilgreindan hluta loftrýmis.

Veðurstofa (Meteorological office): Veðurstofa sem tilnefnd er til að veita veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu.

Veðurstofa á flugvelli (Aerodrome meteorological office): Veðurstofa sem er staðsett á flugvelli og veitir veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu.

Veðurtilkynning (Meterological bulletin): Veðurupplýsingar sem eru settar fram með orðum eða tölum og hafa viðeigandi yfirskrift.

Veðurtungl (Meteorological satellite): Gervitungl sem gerir sjálfvirkar veðurathuganir og sendir niðurstöður þeirra til jarðar.

Veðurupplýsingar (Meterological information): Veðurskeyti, veðurgreiningar, veðurspár og hvers konar lýsing um ríkjandi eða væntanleg veðurskilyrði.

Veðurþjónusta (Meteorological services): Þjónusta sem felst í því að afla veðurupplýsinga og miðla þeim til notenda, t.d. flugmanna, flugumsjónar og flugumferðarþjónustu.

Viðauki 3 (ICAO Annex 3, Meteorological Service for International Air Navigation): Þegar vísað er í viðauka 3 í reglugerð þessari þá er átt við viðauka 3 við stofnskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO (Chicago-samninginn).

Viðmiðunarpunktur flugvallar (Aerodrome reference point): Tilgreind landfræðileg staðsetning flugvallar.

VOLMET: Veðurupplýsingar fyrir loftför á flugi.

VOLMET-útvörpun (VOLMET broadcast): Sífelld útvörpun á gildandi veðurupplýsingum frá flugvöllum (METAR, SPECI, TAF), ásamt viðvörunum um markveður (SIGMET) á viðkomandi svæði.
VOLMET um gagnatengingu (D-VOLMET): Sífelld gagnasending á gildandi veðurupplýsingum frá flugvöllum (METAR, SPECI og TAF), og flugleiðum (AIRMET) ásamt viðvörunum um markveður (SIGMET) á viðkomandi svæði.

Þröskuldur (Threshold): Upphaf þess hluta flugbrautar sem er nothæfur til lendingar.

4. gr. Tilvísun í aðrar kröfur og leiðbeiningarefni um veðurþjónustu.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðauka 3. Einnig er vísað í annað leiðbeinandi efni útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO og Alþjóðaveðurfræðistofnuninni, WMO. Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja þeim skilyrðum sem í reglugerðinni er lýst og veitir einnig aðrar ráðleggingar í sama tilgangi. Leiðbeiningarefninu skal fylgt, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar Íslands.

Til að fá aðrar aðferðir samþykktar þarf viðkomandi að sýna fram á með fullnægjandi hætti, að flugöryggi skerðist ekki og því til staðfestingar að leggja fram sérfræðiálit sem Flugmálastjórn Íslands metur viðunandi.

Helsta leiðbeiningarefni sem vísað er til:

  1. Handbók um veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu (Manual of Aeronautical Meteorological Practice, ICAO Doc 8896);
  2. Handbók um samræmingu milli flugumferðarþjónustu, upplýsingaþjónustu flugmála og veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu (Manual on Coordination between Air Traffic Services, Aeronautical Information Services and Aeronautical Meteorological Services, ICAO Doc 9377);
  3. Handbók um sjálfvirk veðurathugunarkerfi á flugvöllum (Manual on Automatic Meteorological Observing Systems at Aerodromes, ICAO Doc 9837);
  4. Handbók um athuganir á flugbrautarskyggni og verklag við tilkynningar (Manual on Runway Visual Range Observing and Reporting Practices, ICAO Doc 9328);
  5. Veðurfræðilegir staðlar og notkun þeirra (Technical Regulations, Volume II: Meteorological Service for International Air Navigation, WMO No. 49);
  6. Þjálfun og hæfniskröfur fyrir starfsfólk í flugveðurþjónustu (Supplement No. 1, Training and qualification requirements for aeronautical meteorological personell, WMO No. 258);
  7. Handbók um vindhvörf í lægri hæðum (Manual on Low-level Wind Shear, ICAO Doc 9817);
  8. Samningur um skipulag flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (North Atlantic Air Navigation Plan, ICAO Doc 9634);
  9. Samningur um búnað og þjónustu vegna flugleiðsögu í Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (North Atlantic facilities and service implementation document, FASID, ICAO Doc 9635);
  10. Svæðisbundnar verklagsreglur (Regional Supplementary Procedures, ICAO Doc 7030).

II. KAFLI Almennar kröfur fyrir veitingu veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu.

5. gr. Veðurfræðilegt stjórnvald.

Flugmálastjórn Íslands er veðurfræðilegt stjórnvald skv. reglugerð þessari. Veðurfræðilegt stjórnvald skal sjá til þess að veðurþjónusta fyrir flugleiðsögu sé veitt.

6. gr. Tilnefning og starfsleyfisskylda þjónustuveitanda.

Um tilnefningu og starfsleyfisskyldu veitanda veðurþjónustu auk almennra og sérstakra krafna til starfsemi hans vísast til reglugerðar um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, reglugerðar um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu og ákvæða reglugerðar þessarar.

Flugmálastjórn Íslands fer með eftirlit með veitendum veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og annast tilnefningu þeirra í samráði við ráðherra, sbr. reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska flugrýminu.

7. gr. Skipulag, stjórnun og rekstrarleg hæfni veitanda veðurþjónustu.

Um skipulag og stjórnun, tæknilega og rekstrarlega hæfni og getu veitanda veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu, sem og starfsreglur og kröfur um gæða- og verndarstjórnunarkerfi er fjallað í reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu og reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu. Einnig vísast í reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu hvað varðar hæfni, menntun og þjálfun starfsmanna veitanda veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu annarra en veðurfræðinga og veðurathugunarmanna. Grein 1.1.5 í viðauka við reglugerð þessa setur kröfur um hæfni og þjálfun starfsmanna sem sinna veðurþjónustu.

III. KAFLI Lokaákvæði.

8. gr. Eftirlit.

Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með veitingu veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu í samræmi við ákvæði í reglugerð þessari og reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu.

9. gr. Afturköllun.

Flugmálastjórn Íslands getur afturkallað eða breytt tilnefningu sem veitt er skv. II. kafla, ef skilyrði fyrir tilnefningunni eru ekki lengur uppfyllt og ekki eru gerðar úrbætur innan þess frests sem ákveðinn er af Flugmálastjórn Íslands.

10. gr. Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

11. gr. Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

12. gr. Viðauki.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

13. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi viðauki 3 um veðurþjónustu fyrir alþjóðlega flugleiðsögu (Meteorological Service for International Air Navigation) við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) (Chicago-samningurinn).

Viðauki við reglugerð þessa byggir að miklu leyti á köflum 2 til 11 í II. hluta viðauka 3 við Chicago-samninginn.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 56. gr. og 6. mgr. 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 24. september 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI (sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.