Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 5. jan. 2025

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 5. ágúst 2020 – 1. sept. 2022 Sjá núgildandi

765/2020

Reglugerð um veiðar á ígulkerum.

1. gr. Almennt um veiðar á ígulkerum.

Allar veiðar á ígulkerum í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. Fiskistofu er þó heimilt að veita leyfi til veiða skv. 3. gr. á þeim svæðum sem skilgreind eru í 2. gr.

Leyfi til veiða á ígulkerum skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til ígulkeraveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

Veiðar á ígulkerum til manneldis eru einungis heimilar á svæðum sem hafa verið heilnæmiskönnuð af Matvælastofnun (MAST).

2. gr. Veiðar á grundvelli veiðileyfis.

Eingöngu skipum sem fengið hafa leyfi til veiða á ígulkerum er heimilt að veiða á eftirfarandi svæðum við Breiðafjörð:

Svæði A Svæði B Svæði C
65°30,00 N - 24°30,00 V
65°35,00 N - 23°30,00 V
65°40,00 N - 21°45,00 V
65°13,00 N - 21°35,00 V
65°13,00 N - 22°40,00 V
64°53,12 N - 22°40,00 V
64°53,12 N - 24°02,45 V
65°13,00 N - 22°40,00 V
65°13,00 N - 22°31,00 V
65°08,00 N - 22°31,00 V
65°04,00 N - 22°25,00 V
65°00,00 N - 22°40,00 V
Hvammsfjörður innan línu sem dregin er milli eftirfarandi hnita:
65°08,00 N - 22°31,00 V
65°04,00 N - 22°25,00 V

3. gr. Úthlutun leyfa.

Fiskistofa skal úthluta leyfi til veiða á ígulkerum að fenginni umsókn. Veiðileyfum skal úthluta á veiðisvæði A, B og C og gildir eitt leyfi fyrir öll svæðin. Fiskistofa skal úthluta leyfi til ígulkeraveiða til skipa sem stundað hafa veiðar á ígulkerum á síðustu þremur fiskveiðiárum. Alls verða leyfin fjögur. Ef fleiri en fjórir aðilar hafa stundað veiðarnar, þá skulu þau skip sem mestan afla hafa ganga fyrir öðrum við úthlutun. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum fyrir 15. ágúst ár hvert og skal umsóknafrestur vera ein vika.

Ef færri en fjórir aðilar hafa stundað veiðarnar, sbr. 1. gr., þá skal hlutkesti ráða hverjir fá úthlutað þeim leyfum sem ekki verður úthlutað á grundvelli 1. mgr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfis til að veiða ígulker er að skip hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Með umsókn skal fylgja samningur um vinnslu á ígulkerum í landi eða jafngild yfirlýsing þegar um eigin vinnslu er að ræða. Í báðum tilfellum þarf staðfesting frá MAST að fylgja um að viðkomandi vinnsla hafi gilt vinnsluleyfi frá MAST.

Þegar ígulkeraleyfum sem til ráðstöfunar eru hefur ekki verið úthlutað við upphaf fiskveiðiárs skal afstaða tekin til umsókna eftir því sem þær berast Fiskistofu. Berist tvær eða fleiri umsóknir sama dag skal byggja á veiðireynslu við úthlutun leyfa.

Krókaaflamarksbátum sem fá leyfi til veiða á ígulkerum samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að veiða ígulker með plóg.

4. gr. Stjórn veiðanna.

Fiskistofa annast eftirlit með veiðunum og skal tryggja að afli á hverju veiðisvæði A, B og C sé ekki skaðlega mikill og veiðarnar í samræmi við varúðarsjónarmið. Veiðar teljast skaðlegar ef afli fer fram yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir hvert veiðisvæði.

5. gr. Tilraunaveiðileyfi.

Ráðherra er heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á ígulkerum utan veiðisvæðis sem skilgreint er í 2. gr. í samræmi við 13. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í umsókn um tilraunaveiðar skal umsækjandi tilgreina meðal annars heiti skips, veiðitímabil og á hvaða svæði hann hyggst veiða. Leyfi til tilraunaveiða eru veitt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. Sama skip getur einungis haft eitt virkt tilraunaveiðileyfi til að veiða ígulker og skal gildistími þess ekki vera lengri en þrír mánuðir. Sé sótt um nýtt tilraunaveiðileyfi fellur hið fyrra úr gildi við útgáfu þess nýja.

Heimilt er að binda leyfi til tilraunaveiða tilteknum skilyrðum, svo sem um hámarksafla, eftirlit Hafrannsóknastofnunar eða Fiskistofu með veiðunum, gerð plógs, greiningu afla og skýrsluskil til Hafrannsóknastofnunar.

Ráðherra er heimilt að afturkalla tímabundið leyfi til tilraunaveiða sé ekki farið að skilyrðum leyfisins.

6. gr. Almennt.

Aðeins er heimilt að veiða ígulker með einum plógi á hverjum báti samtímis og skal breidd plógs ekki vera meiri en 2,5 m og hámarksþyngd 700 kg. Aðeins er heimilt að veiða með einum plógi á hverjum báti samtímis.

Möskvastærð í poka má ekki vera minni en 80 mm (innanmál).

Ekki er heimilt að landa ígulkerum sem eru undir 45 mm í þvermál. Veiðist ígulker undir þeim stærðarmörkum skal sleppa þeim aftur.

Ekki er heimilt að veiða á fleiri en einu veiðisvæði í hverri veiðiferð.

7. gr. Vigtun.

Við vigtun og skráningu á ígulkerum gilda ákvæði reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla. Skipstjóri skal gefa upp veiðisvæði, sbr. 2. og 3. gr. við vigtun afla á hafnarvog.

8. gr. Svipting veiðileyfis sem Fiskistofa gefur út.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna brota á ákvæðum leyfisbréfa og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytjastofna, sbr. lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Fiskistofu er jafnframt heimilt að svipta skip leyfi til ígulkeraveiða fyrir brot á ákvæðum leyfisbréfa og ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og reglugerð þessari.

9. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, IV. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er gefin út með stoð í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð nr. 742/2019 um veiðar á ígulkerum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 21. júlí 2020.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Arnór Snæbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.