Prentað þann 21. nóv. 2024
763/2000
Reglugerð um vátryggingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
1. gr.
Eftirfarandi aðilum, sem veita heilbrigðisþjónustu, er skylt að hafa í gildi vátryggingu (sjúklingatryggingu) hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna tjóna sem bótaskyld eru samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu:
1. | Heilbrigðisstarfsmenn sem eru sjálfstætt starfandi og hafa hlotið löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans, án tillits til þess hvort þeir veita heilbrigðisþjónustu sem sjúklingur greiðir að fullu sjálfur eða sem greidd er af sjúkratryggingum samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Löggiltar heilbrigðisstéttir eru: |
læknar tannlæknar sjúkraþjálfarar hjúkrunarfræðingar hnykkir lyfjafræðingar sálfræðingar fótaaðgerðafræðingar sjúkranuddarar tannfræðingar félagsráðgjafar iðjuþjálfar ljósmæður aðstoðarlyfjafræðingar lyfjatæknar | meinatæknar sjóntækjafræðingar sjúkraliðar þroskaþjálfar læknaritarar matarfræðingar matartæknar matvælafræðingar náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu næringarfræðingar næringarráðgjafar röntgentæknar sjúkraflutningamenn talmeinafræðingar tanntæknar |
2. | Sjúkrahús sem ekki eru í eigu ríkisins. |
3. | Heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. lyfsölur og rannsókna- og röntgenstofur, sem ekki eru í eigu ríkisins. |
4. | Heilsugæslustöðvar sem ekki eru í eigu ríkisins. |
5. | Þeir sem annast sjúkraflutninga aðrir en ríkið. |
6. | Hjúkrunarheimili og dvalarheimili með hjúkrunardeild sem ekki eru í eigu ríkisins. |
Heilbrigðisstarfsmaður skv. 1. tölul. 1. mgr., sem vinnur ferliverk samkvæmt samningi við sjúkrahús í eigu ríkisins, er skylt að hafa í gildi vátryggingu (sjúklingatryggingu) skv. 1. mgr. nema kveðið sé á um ábyrgð sjúkrahúss í samningi starfsmannsins við sjúkrahúsið.
Leiki vafi á um það hvort heilbrigðisstarfsmaður skv. 1. tölul. 1. mgr. er vátryggingarskyldur skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skera úr um það.
Hætti heilbrigðisstarfsmaður skv. 1. tölul. 1. mgr. að starfa sjálfstætt eða hætti aðili skv. 2.-6. tölul. 1. mgr. rekstri fellur vátryggingarskylda niður.
2. gr.
Vátrygging heilbrigðisstarfsmanns skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal nema minnst 5.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð vátryggingabóta innan hvers árs skal nema minnst 15.000.000 kr.
Vátrygging aðila skv. 2.-5. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal nema minnst 5.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð vátryggingabóta innan hvers árs skal nema minnst 25.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 1-5 heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni, 30.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 6-15 heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni, 35.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 16-30 heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni og 40.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 31 eða fleiri heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni.
Vátrygging aðila skv. 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal nema minnst 5.000.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð vátryggingabóta innan hvers árs skal nema minnst 15.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 1-20 heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni, 20.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 21-40 heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni og 25.000.000 kr. hjá aðila sem hefur 41 eða fleiri heilbrigðisstarfsmenn í þjónustu sinni.
Fjárhæðir samkvæmt þessari grein skulu miðast við vísitölu neysluverðs 202,1 og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni.
3. gr.
Bætur greiðast sjúklingi ef höfuðstóll virts tjóns nemur 50.000 kr. eða hærri fjárhæð allt að 5.000.000 kr. fyrir hvert einstakt tjónsatvik. Um fjárhæðir þessar gilda ákvæði 4. mgr. 2. gr.
Heimilt er að áskilja sjálfsáhættu vátryggingataka í vátryggingaskilmálum, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi vátryggingafélags. Tilhögun eigin áhættu skal getið í vátryggingaskilmálum, vátryggingaskírteini eða iðgjaldskvittun.
4. gr.
Falli vátrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingataka og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu þegar í stað. Vátryggingatímabili telst ekki lokið fyrr en liðnar eru átta vikur frá því að vátryggingafélagið tilkynnti vátryggingatakanum og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sannanlega um vátryggingaslit, nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið tekin.
Falli vátrygging úr gildi af öðrum ástæðum en greindar eru í 4. mgr. 1. gr. og ekki hefur verið tekin önnur fullnægjandi vátrygging innan þeirra tímamarka sem greind eru í 1. mgr. fellur niður heimild heilbrigðisstarfsmanns skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. til að starfa sjálfstætt og heimilt er að stöðva greiðslur til hans frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef um er að ræða aðila skv. 2.-6. tölul. 1. mgr. 1. gr. er ráðherra heimilt að fella starfsleyfi niður og stöðva greiðslur ríkisins til hans.
Í tengslum við gerð ársskýrslu sjúklingatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins ber vátryggingafélagi árlega að taka saman yfirlit yfir bótakröfur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og reglugerð þessari og afgreiðslu þeirra. Yfirlitið skal vera á samræmdu formi sem Tryggingastofnun ríkisins og samtök vátryggingafélaga koma sér saman um.
5. gr.
Þar sem tveir eða fleiri heilbrigðisstarfsmenn skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. starfa saman með sameiginlega starfsstofu og bera óskipta bótaábyrgð á störfum hvors/hvers annars, geta þeir fullnægt vátryggingarskyldu sinni með því að leggja fram sameiginlega vátryggingu enda komi nöfn þeirra beggja/allra fram í vátryggingaskjali. Skal þá lágmarksfjárhæð vátryggingabóta innan hvers árs skv. 2. gr. hækka um a.m.k. 10% fyrir hvern heilbrigðisstarfsmann umfram einn.
6. gr.
Allir vátryggingaskilmálar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og reglugerð þessari skulu látnir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu í té áður en þeir eru boðnir aðilum skv. 1. mgr. 1. gr.
7. gr.
Sé vátryggingarskyldu samkvæmt reglugerð þessari ekki fullnægt fellur niður heimild heilbrigðisstarfsmanns skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. til að starfa sjálfstætt og heimilt er að stöðva greiðslur til hans frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef um aðila er að ræða skv. 2.-6. tölul. 1. mgr. 1. gr. er ráðherra heimilt að fella starfsleyfi niður og stöðva greiðslur ríkisins til hans.
8. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 10. gr., sbr. 21. gr., laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, öðlast gildi 1. janúar 2001.
Ákvæði til bráðabirgða.
Eigi síðar en 31. desember 2000 skulu vátryggingarskyldir heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu staðfestingu um að þeir hafi í gildi vátryggingu, sem uppfyllir skilyrði laga um sjúklingatryggingu og reglugerðar þessarar.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.