Prentað þann 22. des. 2024
759/2022
Reglugerð um framkvæmd úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið með reglugerð þessari er að kveða á um framkvæmd úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs.
Ráðherra fer með yfirstjórn ÍL-sjóðs og hefur yfirumsjón með úrvinnslu og uppgjöri eigna og skulda hans.
Verkefnisstjórn, skv. 2. gr. laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs, nr. 151/2019, er ráðherra til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Nánar er fjallað um hlutverk verkefnisstjórnar í IV. kafla.
II. KAFLI Áhættustefna og -stýring.
2. gr. Áhættustefna.
Markmið reksturs ÍL-sjóðs er að draga úr misvægi eigna og skulda í efnahagsreikningi eins og unnt er. Með því er dregið úr tjóni ríkssjóðs fyrir efnd ríkisábyrgðar á skuldum sjóðsins. Sjóðurinn hefur takmarkaðan líftíma sem eykur vægi lausafjárstýringar og ávöxtunar á eignasafni sjóðsins.
Sjóðurinn skal í starfsemi sinni og fjárfestingum leitast við að ná ásættanlegri arðsemi á eignir sínar án óhóflegrar áhættutöku og stefna þannig að markmiði sínu.
ÍL-sjóður fjárfestir almennt ekki í óskráðum eða flóknum fjármálagerningum, hann getur þó átt viðskipti með óskráð ríkisbréf og stundað önnur viðskipti samkvæmt þessari málsgrein að fengnu áliti verkefnisstjórnar. Sjóðurinn veitir ekki bein útlán til einstaklinga eða lögaðila.
Tryggja skal eins og unnt er að hætta ekki orðspori sjóðsins eða ríkissjóðs þegar kemur að fjárfestingum og öðrum þáttum í rekstri sjóðsins. Þá er mikilvægt í ljósi stærðar sjóðsins að gæta að áhrifum hans á fjármálastöðugleika.
3. gr. Áhættustýring.
Í starfsemi ÍL-sjóðs felast áhættuþættir er varða rekstur og samsetningu efnahags. Í þessari grein eru þeir helstu útlistaðir.
- Uppgreiðsluáhætta: Sjóðurinn stendur frammi fyrir uppgreiðsluáhættu af lánasafni sínu sem hann getur ekki nýtt til greiðslu skulda. Þessi áhættuþáttur er því viðvarandi í starfsemi sjóðsins og engar varnir gagnvart þessum áhættuþætti.
-
Útlánaáhætta lánasafns:Sjóðurinn útvistar reksti og umsýslu lánasafns síns til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt þjónustusamningi þar að lútandi. Ársfjórðungslega skulu teknar saman upplýsingar um þróun og stöðu lánasafns m.a. á grundvelli:
- Vanskila.
- Stærðar safnsins.
- Líftíma og áætlaðs líftíma.
- Endurgreiðslna síðastliðins tímabils.
- Innheimtuaðgerða og stöðu þeirra.
- Lausafjáráhætta: Sjóðurinn stendur frammi fyrir lausafjáráhættu. Sjóðurinn skal tryggja að rekstrarfé sé nægt á hverjum tíma til að standa straum af rekstri og skuldbindingum sínum.
- Gjaldmiðlatengd áhætta: Sjóðurinn stendur ekki frammi fyrir misvægi í myntsamsetningu eigna og skulda. Komi upp sú staða að sjóðurinn fjárfesti í eignum í erlendri mynt skal sjóðurinn setja sér markmið um hámark gjaldeyrismisvægis sem hlutfall af eignasafni. Sjóðurinn nýtir ekki gjaldeyrisvarnir nema að fengnu áliti verkefnisstjórnar.
- Verðtryggingaráhætta: Sjóðurinn stendur frammi fyrir verðtryggingarmisvægi þar sem verðtryggðar skuldir eru umtalsvert meiri en eignir. Leitast skal við í fjárfestingum sjóðsins að draga úr þessu misvægi að því marki sem er fjárhagslega hagkvæmt og í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins.
-
Rekstaráhætta:Sjóðurinn stendur frammi fyrir ýmis konar rekstaráhættu í starfsemi sinni. Helstu slíku áhættuþættir sem sjóðurinn þarf að stýra eru:
- Áhætta vegna útvistunar: Sjóðurinn útvistar stórum hluta af daglegum reksti. Til að tryggja að kröfur sjóðsins m.a. um markmið og upplýsingagjöf séu uppfylltar gerir sjóðurinn útvistunarsamninga við þjónustuaðila sína sem uppfylla fjárfestingar- og áhættustefnu sjóðsins.
- Orðsporsáhætta: Sjóðurinn skal við ákvarðanatöku gæta að orðspori sjóðsins.
III. KAFLI Eignastýring.
4. gr. Lausafjárstýring, fjárfestingastefna og heimild til útvistunar.
Lausafjárstýring ÍL-sjóðs og ríkissjóðs skal að meginstefnu vera sameiginleg að því marki sem það felur í sér gagnkvæman hag beggja aðila, sbr. þó 3. mgr.
ÍL-sjóður skal setja sér fjárfestingarstefnu er stuðlar að því að markmið sjóðsins náist með hliðsjón af samsetningu eignasafns á hverjum tíma. Eigna- og lausafjárstýring sjóðsins skal á hverjum tíma samræmast fjárfestingar- og áhættustefnu.
Sjóðurinn hefur heimild til að útvista eigna- og lausafjárstýringu til þriðja aðila svo fremi sem hún byggi á fjárfestingarstefnu sem er í samræmi við áhættuvilja sjóðsins.
IV. KAFLI Verkefnisstjórn.
5. gr. Hlutverk verkefnisstjórnar.
Verkefnisstjórn er ráðherra til ráðgjafar um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs og skal hún veita álit á ráðstöfunum í tengslum við úrvinnsluna. Hlutverk verkefnisstjórnar er jafnframt að koma með tillögur að ráðstöfunum vegna úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Verkefnisstjórn skal auk þess hafa eftirlit með tilteknum þáttum í starfsemi sjóðsins í samræmi við 6. gr.
Ráðherra getur falið verkefnisstjórn eða einstökum aðilum hennar afmörkuð verkefni sem varða úrvinnslu eigna og skulda.
Árlega skal verkefnisstjórn gefa skýrslu til ráðherra um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs og stöðu hans, þ.m.t. framgang markmiða og áhættuþætti.
ÍL-sjóður skal veita verkefnisstjórn allar nauðsynlegar upplýsingar svo hún geti sinnt hlutverki sínu.
Verkefnisstjórn skal setja sér starfsreglur þar sem m.a. er kveðið á um boðun og tíðni funda.
6. gr. Eftirlitshlutverk verkefnisstjórnar.
Verkefnisstjórn hefur eftirlit með framkvæmd fjárfestingar- og áhættustefnu ÍL-sjóðs.
Ársfjórðungslega skal ÍL-sjóður útbúa skýrslu fyrir verkefnisstjórn um áhættustöður og þróun þeirra. Skýrslan skal m.a. innihalda upplýsingar um:
-
Verðbréfaeign.
- Breytingar á eignasafni.
- Ávöxtun eignasafns m.v. stöðu og þróun.
- Nýjar fjárfestingar.
- Dreifing eignasafns og þróun.
-
Útlánasafn.
- Stærð.
- Meðallíftími.
- Uppgreiðslur.
- Vanskil.
- Innheimtuaðgerðir.
-
Lausafjárstöðu.
- Ávöxtun lausafjár.
- Breytingar á stýringu lausafjár frá fyrra tímabili.
- Atvik sem komið hafa upp í rekstri ef einhver eru.
Komi upp frávik í framkvæmd fjárfestingar- eða áhættustefnu ÍL-sjóðs skal verkefnisstjórn tilkynna ráðherra skriflega þar um og leggja til úrlausn við fyrsta tækifæri, en þó eigi síðar en tveimur vikum eftir að verkefnisstjórn var tilkynnt um frávikið. Verkefnisstjórn skal fylgja eftir úrlausnaraðgerðum og halda ráðherra upplýstum þar til þær hafa borið árangur eða fyrirséð er að þær muni ekki leysa frávikið.
V. KAFLI Upplýsingagjöf og meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.
7. gr. Birting árshluta- og ársreikninga og skýrslugjöf til Alþingis.
ÍL-sjóður skal birta árshlutareikning fyrir fyrstu sex mánuði hvers árs ásamt ársreikningi fyrir hvert ár í samræmi við II. kafla laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021. Í skýrslu stjórnenda skal leitast við að gefa glögga mynd af þróun sjóðsins og helstu áhættuþáttum.
Ráðherra skal árlega gefa Alþingi skýrslu um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs og stöðu hans. Í skýrslunni skal m.a. fjallað um áhættu- og eignastýringarstefnu sjóðsins og hvernig til hafi tekist um ávöxtun eigna hans.
8. gr. Meðferð trúnaðarupplýsinga, persónuvernd og viðskipti innherja.
Á þeim aðilum sem koma að málefnum sjóðsins, þ.m.t. útvistunaraðilar og verkefnisstjórn, hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kemur fram sem ábyrgðaraðili, í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, við vinnslu persónuupplýsinga sem tengjast lánasafni ÍL-sjóðs.
ÍL-sjóður skal í starfsemi sinni fylgja reglum Seðlabanka Íslands um um hlutverk og stöðu regluvarðar og skráningu samskipta sem fara fram á grundvelli reglnanna skv. 3. mgr. 4. gr. laga um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021. Regluvörður ráðuneytisins fer með regluvörslu ÍL-sjóðs.
VI. KAFLI Lagastoð og gildistaka.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. og 6. gr. laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs, nr. 151/2019, öðlast þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 22. júní 2022.
Bjarni Benediktsson.
Guðmundur Árnason.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.