Prentað þann 21. nóv. 2024
756/2011
Reglugerð um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
I. KAFLI Hlutverk.
1. gr.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir fjármálaráðherra.
2. gr.
Helstu verkefni ÁTVR eru þessi:
- Innkaup á áfengi til smásölu og tóbaki til heildsölu.
- Birgðahald og dreifing á áfengi til áfengisverslana.
- Rekstur áfengisverslana og þjónusta við viðskiptavini.
- Birgðahald, heildsala og dreifing á tóbaki.
- Að tryggja að allt tóbak sé merkt samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.
- Álagning og innheimta tóbaksgjalds.
- Önnur verkefni sem tengjast smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki.
3. gr.
ÁTVR skal sinna verkefnum sem versluninni eru falin í 2. gr. reglugerðarinnar, í samræmi við lög nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, áfengislög nr. 75/1998, með síðari breytingum, tóbaksvarnarlög, nr. 6/2002 með síðari breytingum, áfengisstefnu stjórnvalda og reglugerð þessa. Starfsemi ÁTVR skal miða við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna, sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila arði til ríkissjóðs sem telst hæfilegur, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri verslunarinnar.
4. gr. Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja og afhenda áfengi í smásölu, sbr. 10. gr. áfengislaga og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak. Um endursölu áfengis hjá vínveitingahúsum fer eftir ákvæðum sérlaga.
ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja tóbak innanlands í heildsölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.
5. gr.
Ráðherra skipar forstjóra ÁTVR. Forstjóri markar stefnu í samræmi við lög um verslun með áfengi og tóbak, áfengislög, tóbaksvarnarlög og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda um starfsemi fyrirtækisins. Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri. Hann ræður starfsfólk og ákveður starfssvið þess í samræmi við þarfir fyrirtækisins. Forstjóri gerir starfsáætlun og rekstraráætlun. Forstjóri ber ábyrgð á gerð ársskýrslu fyrir hvert ár og kynnir hana fyrir ráðherra.
II. KAFLI Innkaup og sala áfengis og tóbaks.
6. gr. Vöruval áfengis.
Ákvarðanir um innkaup áfengis skulu byggjast á reglugerð um vöruval sbr. 11. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak.
7. gr. Vöruval tóbaks.
Ákvarðanir um innkaup tóbaks skulu byggjast á reglum um vöruval sem ÁTVR setur. Reglur um innkaup, vöruval, heildsölu og dreifingu tóbaks skulu settar eftir sömu meginmarkmiðum og tilgreind eru í reglugerð um vöruval og sölu áfengis og skilmálum í viðskiptum við birgja eftir því sem við á.
8. gr. Birgðahald áfengis.
ÁTVR skal halda birgðir af áfengi eftir því sem eftirspurn gefur tilefni til. Birgðahald hverrar sölutegundar skal einnig miðað við það sem hagkvæmt er með tilliti til aðfangakostnaðar og geymslukostnaðar, þ.m.t. fjárbindingar í birgðum.
9. gr. Áfengisverslanir.
ÁTVR skal eiga og reka áfengisverslanir. ÁTVR skal sækja um leyfi til rekstrar áfengisverslunar til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi. ÁTVR ábyrgist fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað þess húsnæðis sem hýsir verslunina. Um afgreiðslutíma verslana fer eftir ákvæðum áfengislaga.
10. gr. Þjónusta og upplýsingar.
ÁTVR skal veita viðskiptavinum góða og vandaða þjónustu sem byggist á fagmennsku og hlutleysi.
ÁTVR skal veita viðskiptavinum sínum ítarlegar upplýsingar um þá vöru sem er á boðstólum, allt eftir því sem samrýmist lögum um verslun með áfengi og tóbak, áfengislögum og öðrum lagafyrirmælum og reglum á hverjum tíma. Upplýsingarnar eiga að fela í sér almenna fræðslu um áfengi, uppruna þess, meðferð og notkun. Einnig á ÁTVR að standa fyrir eða veita upplýsingar um mögulega skaðsemi vörunnar og þá áhættu sem getur fylgt neyslu áfengis og tóbaks.
Upplýsingar sem ÁTVR veitir skulu birtar á vef fyrirtækisins eða í prentuðu máli sem dreift er til viðskiptavina og almennings.
11. gr. Samfélagsleg ábyrgð.
ÁTVR starfar með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi og vinnur gegn skaðlegri neyslu áfengis.
Þegar ástæða er til að ætla að kaupandi hafi ekki náð aldri til að kaupa áfengi samkvæmt áfengislögum skal ÁTVR ávallt láta hlutaðeigandi sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
ÁTVR er heimilt að neita að selja eða afhenda áfengi ef viðkomandi er áberandi ölvaður.
12. gr.
Komi fram tillaga eða ósk um opnun vínbúðar frá sveitarstjórn, skal ÁTVR gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni og ráðherra síðan taka endanlega ákvörðun í málinu. ÁTVR getur einnig átt frumkvæði að tillögugerð til ráðherra um opnun vínbúða.
13. gr. Verðlagning áfengis og tóbaks.
Verð á einstökum sölutegundum áfengis og tóbaks skal vera hið sama í öllum vínbúðum ÁTVR.
14. gr.
Álagning ÁTVR á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Við ákvörðun á áfengisinnihaldi vísast til laga um gjald af áfengi og tóbaki.
Heildsöluálagning ÁTVR á tóbak skal vera 18%.
Álagning ÁTVR á áfengi og tóbak leggst á verð vöru að viðbættum öllum gjöldum nema virðisaukaskatti.
ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar áfengrar vöru til sölu. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu ÁTVR við að taka nýja vöru til sölu.
ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum sem leiðir af merkingu á tóbaksvörum. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna merkingarinnar. Um merkingar tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.
15. gr.
Við sölu á áfengi sem undanþegið er áfengisgjaldi eða ber lækkað áfengisgjald skv. 6. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, sbr. 8.-9. gr. reglugerðar nr. 505/1998, um áfengisgjald, skal álagning ÁTVR vera hin sama í krónum talin og við sölu á gjaldskyldu áfengi.
16. gr. Val á tóbaksvöru.
Við val á tóbaksvöru er ÁTVR óbundið af notkun framlegðarskrár, en getur þess í stað notað skrá um magn seldrar vöru, þyki það betur henta.
III. KAFLI Ýmis ákvæði.
17. gr.
Forstjóri og allir starfsmenn ÁTVR eru bundnir þagnarskyldu um öll þau atriði er þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
18. gr.
Reikningsár ÁTVR er almanaksárið. Um bókhald, gerð ársreiknings og endurskoðun gilda lög nr. 145/1994, um bókhald, og eftir því sem við geta átt lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og lög nr. 86/1997, um ríkisendurskoðun. Forstjóri ÁTVR staðfestir ársreikning að lokinni endurskoðun.
19. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 16. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 883/2005, um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, með síðari breytingum.
Fjármálaráðuneytinu, 8. júlí 2011.
F. h. r.
Guðrún Þorleifsdóttir.
Guðmundur Jóhann Árnason.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.