Fara beint í efnið

Prentað þann 27. des. 2024

Stofnreglugerð

751/2024

Reglugerð um heimild grænlenskra skipa til veiða á makríl á árinu 2024.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við grænlensk stjórnvöld og um heimildir skipa frá Grænlandi til veiða á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands frá 1. janúar til og með 31. desember 2024.

2. gr. Veiðileyfi.

Veiðar, sbr. 1. gr., innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Um borð í veiðiskipi skal vera staðfesting þess að viðkomandi skip hafi leyfi til veiða á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og enn fremur reglur, sem um makrílveiðarnar gilda.

Grænlensk stjórnvöld skulu sækja um leyfi fyrir skip til veiða á makríl til Fiskistofu. Í umsókn skal tilgreina nafn skips, skrásetningarnúmer, stærð, tegund fjarskiptabúnaðar og kallmerki.

3. gr. Afladagbækur.

Fiskiskipum sem leyfi hafa fengið til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands skv. 2. gr., er skylt að halda afladagbækur sem uppfylla ákvæði í kafla III og viðauka IV í reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Senda skal Fiskistofu staðfestar löndunartölur sundurliðaðar eftir tegundum þegar að löndun lokinni.

4. gr. Búnaður.

Skipum sem hafa fengið heimild til veiða á makríl er óheimilt að vera með þannig útbúnað að mögulegt sé að dæla úr tönkum skips undir yfirborði sjávar.

Hámarksbil milli rimla í sjóskilju skal ekki vera meira 10 mm og skulu rimlarnir rafsoðnir fastir. Ef að gataplötur eru notaðar í stað rimla má hámarksþvermál gata ekki fara yfir 10 mm. Göt og rimlar í rennum framan við sjóskilju mega ekki fara yfir 15 mm í þvermál.

Veiðarfæri, sem ætluð eru til annarra veiða en leyfi miðast við, skulu geymd í sérstakri veiðarfærageymslu.

5. gr. Veiðitilhögun og meðafli.

Makrílveiðar í flottroll eru ekki heimilar nær landi en 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu. Makrílveiðar í net eru óheimilar.

Makrílveiðar í flottroll eru bannaðar á svæði sem afmarkast af línum sem dregnar eru á milli eftirfarandi hnita:

  1. 68°30 N - 17°00 V
  2. 65°30 N - 17°00 V
  3. 65°30 N - 26°00 V
  4. 66°00 N - 26°00 V
  5. 66°55 N - 24°13 V
  6. 67°40 N - 24°13 V
  7. 68°30 N - 19°04 V

Ef meðafli í hali/togi af öðrum tegundum er meiri en 10% skal fiskiskip færa sig um 20 sjómílur frá þeim stað er síðast var togað. Ekki er heimilt að fara á fyrri stað fyrr en að loknum tveimur sólarhringum.

Ef heildarmeðafli grænlenskra skipa fer yfir 5% af veiðiheimildum Grænlendinga í makríl í íslenskri lögsögu er Fiskistofu heimilt að stöðva veiðar skipa sem hafa leyfi skv. 2. gr.

6. gr. Sýnataka.

Sé makríll veiddur í flottroll eða nót, skulu tekin sýni úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera að minnsta kosti 50 stk. af makríl, sem valin eru af handahófi. Sýnin skulu fryst um borð, merkt skilmerkilega (veiðiskip, staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun, þegar að lokinni veiðiferð.

7. gr. Fjarskiptabúnaður.

Skip sem leyfi hafa fengið til makrílveiða, sbr. 2. gr., skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða með sjálfvirkum hætti á klukkustundar fresti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin.

Fiskiskip sem stunda veiðar á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundar fresti, með sjálfvirkum hætti, til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, sem miðlar gögnum til hlutaðeigandi stofnana.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga bilar skal gert við hann svo fljótt sem mögulegt er, þó eigi síðar en að 30 dögum liðnum. Þar til búnaðurinn verður kominn í lag skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á a.m.k. 4 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar.

8. gr. Tilkynningar.

Um siglingu skips, á leið til veiðisvæðis áður en veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilandhelgi Íslands, gilda ákvæði reglugerðar um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu, nr. 1133/2013, þar sem fram kemur staðsetning athugunarstaðanna. Heimilt er Landhelgisgæslu Íslands að ákveða að skipin skuli sigla inn og út úr fiskveiðilandhelgi á tilteknum athugunarstöðum og að þeim beri að tilkynna komu sína á þá með ákveðnum fyrirvara í samræmi við reglugerð um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu.

Um tímafresti tilkynninga gilda ákvæði reglugerðar um rafrænar skeytasendingar, upplýsingagjöf og rafræn afladagbókaskil erlendra fiskiskipa í efnahagslögsögu Íslands, nr. 1170/2013.

9. gr.

Tilkynna skal Eftirlitsstöðinni um siglingu skipsins inn í íslenska fiskveiðilandhelgi og komutíma á athugunarstað með minnst 2 klukkustunda fyrirvara og mest 6 klukkustunda fyrirvara.

Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "komutilkynning" (COE report).
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
  5. Heildarafli um borð, í tonnum.
  6. Athugunarstaður sem siglt verður um, sbr. 8. gr. og fyrirhugaður komutími á staðinn.

Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni á sama hátt og greint er í 1. og 2. mgr.

10. gr. Tilkynning um veiðar.

Skip sem stundar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 00.00 til 08.00 að íslenskum tíma, senda Eftirlitsstöðinni tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram í þessari röð:

  1. Orðið "aflatilkynning" (CAT report).
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
  5. Heildarafli um borð, í tonnum.
  6. Afli síðasta sólarhrings, miðað við kl. 24.00, eða afli frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands sé um skemmri tíma að ræða.

11. gr. Tilkynning um lok veiða.

Þegar skip lýkur veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "lokatilkynning" (COX report).
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
  5. Heildarafli um borð, í tonnum.
  6. Afli síðan síðasta aflatilkynning var send.

12. gr. Tilkynning um siglingu út úr fiskveiðilandhelgi.

Áður en skip heldur út úr fiskveiðilandhelgi Íslands skal senda Eftirlitsstöðinni tilkynningu um það og komutíma í athugunarstað með minnst 2 klukkustunda fyrirvara og mest 6 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "athugunartilkynning" (CON report).
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
  5. Heildarafli um borð, í tonnum.
  6. Athugunarstaður sem siglt verður um, sbr. 8. gr. og fyrirhugaður komutími á staðinn.

Landi skip afla sínum í íslenskri höfn skal tilkynna það Eftirlitsstöðinni á sama hátt og greint er frá í 1. mgr. en í stað athugunarstaðar í síðasta lið verði greint frá löndunarhöfn.

13. gr. Tilkynning vegna óslitinnar siglingar.

Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er skipum sem ekki hafa staðfestingu Landhelgisgæslunnar, sbr. 3. og 4. mgr. 5. gr. heimil óslitin sigling um fiskveiðilandhelgina, enda tilkynni þau til Landhelgisgæslunnar um komu sína í fiskveiðilandhelgina, eða brottför úr íslenskri höfn, með minnst 2 klukkustunda fyrirvara og mest 6 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "In".
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
  5. Heildarafli um borð, í tonnum.
  6. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar sigling út úr lögsögunni er áætluð.

Á 12 klukkustunda fresti skal síðan senda tilkynningu um staðsetningu skipsins til Landhelgisgæslunnar. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "Staðsetningartilkynning" (POS report).
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími, stefna, hraði og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.

Þegar skip siglir út úr íslenskri fiskveiðilandhelgi skal það tilkynnt til Landhelgisgæslunnar. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:

  1. Orðið "Out".
  2. Nafn skips.
  3. Kallmerki.
  4. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
  5. Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar skip siglir út úr lögsögunni.

14. gr. Veiðar og vinnsla erlendra skipa.

Skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta ákvæðum laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998, nema annað sé sérstaklega ákveðið í reglugerð þessari og sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibönn, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.

Skip sem hafa leyfi skv. 2. gr. er heimil frysting á allt að 10.000 tonnum af afla um borð á meðan skipið er í fiskveiðilandhelgi Íslands.

15. gr. Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Landhelgisgæslu Íslands, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu.

Grænlensk fiskiskip er stunda veiðar á makríl samkvæmt 1. gr. skulu hafa eftirlitsmann Fiskistofu um borð. Skal útgerð skips sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru um borð í veiðiskipi og enn fremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.

Telji Landhelgisgæslan eða Fiskistofa að eftirlit samkvæmt reglugerð þessari geti ekki farið fram á sjó, skal hlutaðeigandi skipi skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem eftirlit getur farið fram.

16. gr. Svipting leyfis.

Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, brjóti útgerð, áhöfn skipsins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um hlutaðeigandi veiðar gilda, reglugerðum eða ákvæðum milliríkjasamninga.

17. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.

18. gr. Lagaheimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 9. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Matvælaráðuneytinu, 24. júní 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.