Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 1. sept. 2009 – 22. feb. 2018 Sjá lokaútgáfu

741/2009

Reglugerð um markaðsgreiningar á sviði fjarskipta.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðarinnar er að auka gagnsæi við framkvæmd markaðsgreininga á sviði fjarskipta.

Reglugerð þessi gildir um málsmeðferð og helstu viðmið sem byggja skal á við skilgreiningu fjarskiptamarkaða, greiningu á viðkomandi mörkuðum, ákvörðun um útnefningu fyrirtækis eða fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og ákvörðun um kvaðir, skv. lögum um fjarskipti nr. 81/2003. Tilgangur markaðsgreininga er að leiða í ljós hvort virk samkeppni ríki á fjarskiptamörkuðum og að ákvarða hvaða úrræðum þörf er á að beita ef samkeppni er ekki virk.

2. gr. Skilgreiningar.

Aðgangur: Að veita öðru fjarskiptafyrirtæki aðgang að fjarskiptaneti, aðstöðu eða fjarskiptaþjónustu samkvæmt fastsettum skilmálum í þeim tilgangi að veita fjarskiptaþjónustu.

Fast forval: Möguleiki sem áskrifendum í talsímaþjónustu er boðinn og gefur þeim kost á að velja að ákveðnum flokkum símtala sé beint til ákveðins þjónustuveitanda, sem valinn er fyrirfram, án þess að nota þurfi forskeyti viðkomandi þjónustuveitanda.

Fjarskiptafyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur tilkynnt Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirhugaðan rekstur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanets.

Landfræðilegur markaður: Svæði þar sem hlutaðeigandi fyrirtæki taka þátt í framboði og eftirspurn eftir viðkomandi vöru eða þjónustu og þar sem samkeppnisskilyrði eru hin sömu eða nægilega svipuð og unnt er að greina svæðið frá nærliggjandi svæðum sem búa að verulegu leyti við önnur samkeppnisskilyrði.

Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar eða sækir um að nota almenna fjarskiptaþjónustu.

Umtalsverður markaðsstyrkur: Fyrirtæki telst hafa umtalsverðan markaðsstyrk ef það eitt sér eða með öðrum hefur þann efnahagslega styrkleika á ákveðnum markaði að geta hindrað virka samkeppni og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.

Vöru- eða þjónustumarkaður: Samanstendur af öllum tegundum vöru eða þjónustu sem geta komið með fullnægjandi hætti hver í stað annarrar, ekki aðeins á grundvelli hlutlægra eiginleika, sem valda því að þær henta vel varanlegum þörfum neytenda, eða á grundvelli verðs eða tilætlaðra nota, heldur einnig vegna samkeppnisskilyrða og/eða þess hvernig framboði og eftirspurn á markaðnum er háttað.

3. gr. Markaðsgreining.

Markaðsgreining skal vera grundvöllur ákvörðunar um hvort Póst- og fjarskiptastofnun skuli leggja á, viðhalda, breyta eða fella niður kvaðir á fjarskiptafyrirtæki. Ef samkeppni telst virk á viðkomandi markaði skulu ekki lagðar kvaðir á fyrirtæki. Ef virk samkeppni ríkir ekki á viðkomandi markaði skal útnefna fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Leggja má á þau kvaðir samkvæmt lögum um fjarskipti og reglugerð þessari eða viðhalda eða breyta kvöðum sem þegar hafa verið lagðar á.

Markaðsgreining skal fara fram eftir að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út tilmæli um viðkomandi vöru- og þjónustumarkaði eða gert breytingar á gildandi tilmælum.

Gera skal nýja greiningu á markaði sem áður hefur verið greindur þegar áætlaður gildistími fyrri greiningar er liðinn, en hann er að jafnaði ekki lengri en þrjú ár. Ef Póst- og fjarskiptastofnun telur líklegt að umtalsverð breyting hafi orðið á stöðu á viðkomandi markaði áður en áætlaður gildistími fyrri greiningar er liðinn skal stofnunin framkvæma nýja greiningu.

Markaðir skulu greindir með tilliti til þróunar í nánustu framtíð, að því marki sem mögulegt er. Það tímabil sem tekið er mið af ætti að endurspegla sérkenni viðkomandi markaðar og áætlaðan tíma þar til næsta markaðsgreining á honum fer fram.

II. KAFLI Skilgreining vöru- og þjónustumarkaða og landfræðilegra markaða.

4. gr. Skilgreining viðkomandi vöru- og þjónustumarkaða.

Þeir vöru- og þjónustumarkaðir sem Póst- og fjarskiptastofnun ber að taka til greiningar eru tilgreindir í viðauka með reglugerð þessari og eru þeir í samræmi við tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA frá 5. nóvember 2008 um viðkomandi vöru- og þjónustumarkaði á sviði fjarskipta sem ástæða kann að vera til að fella undir fyrirframkvaðir.

Póst- og fjarskiptastofnun skal skilgreina vöru- og þjónustumarkaði með tilliti til aðstæðna hér á landi í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Telji Póst- og fjarskiptastofnun þörf á að skilgreina markaði sem tilgreindir eru í viðaukanum með öðrum hætti en gert er í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA eða ef stofnunin telur þörf á að skilgreina og taka til greiningar aðra markaði en tilgreindir eru í viðaukanum ber að afla samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA. Markaðir sem Póst- og fjarskiptastofnun skilgreinir til að kanna hvort þörf sé á að leggja á kvaðir til eflingar samkeppni skulu uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

  1. að um sé að ræða miklar og viðvarandi aðgangshindranir,
  2. að markaður sé þannig uppbyggður að ekki sé að vænta virkrar samkeppni í nánustu framtíð,
  3. að beiting samkeppnisréttar myndi ekki nægja ein og sér til að bæta úr þar sem markaðurinn hefur brugðist.

Sé vöru- og þjónustumarkaður samkvæmt tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA um viðkomandi markaði felldur brott með nýjum tilmælum, skal Póst- og fjarskiptastofnun samt sem áður gera nýja greiningu á þeim markaði ef kvaðir hafa áður verið lagðar á. Leggja skal mat á það hvort markaðurinn uppfylli ennþá skilyrði 3. mgr. miðað við aðstæður hér á landi. Uppfylli markaðurinn ekki ofangreind skilyrði skal aflétta kvöðum með ákvörðun.

5. gr. Landfræðilegur markaður.

Póst- og fjarskiptastofnun skal skilgreina landfræðileg mörk viðkomandi vöru- eða þjónustumarkaða í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar og skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og geta þau miðast við ákveðið svæði hér á landi eða landið allt.

Ef Póst- og fjarskiptastofnun telur þörf á að skilgreina markað sem nær til fleiri landa, þarf að leita samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar ESB eftir því sem við á og skulu þá fjarskiptaeftirlitsstofnanir í þeim löndum sem markaðurinn nær til gera sameiginlega markaðsgreiningu og ákveða hvers kyns álagningu, viðhald, breytingu eða afturköllun eftirlitskyldna með samstilltum hætti.

III. KAFLI Mat á umtalsverðum markaðsstyrk.

6. gr. Þættir sem hafa áhrif á mat á markaðsstyrk.

Þegar markaður hefur verið skilgreindur skal Póst- og fjarskiptastofnun greina samkeppni á markaðnum með hliðsjón af þeim þáttum sem áhrif hafa á markaðsstyrk og komast að því hvort styrkur eins eða fleiri fyrirtækja sé umtalsverður.

Ákvörðun um umtalsverðan markaðsstyrk skal byggjast á samverkun nokkurra viðeigandi þátta, sem Póst- og fjarskiptastofnun metur viðeigandi í samræmi við sérkenni viðkomandi markaðar.

Póst- og fjarskiptastofnun skal að jafnaði styðjast við eftirfarandi þætti við greiningu á samkeppni og mat á markaðsstyrk:

  1. markaðshlutdeild,
  2. heildarstærð fyrirtækis,
  3. yfirráð yfir aðstöðu sem erfitt er að koma sér upp,
  4. tæknilegt forskot eða yfirburðir,
  5. enginn eða lítill mótvægiskaupmáttur (samningsstyrkur kaupenda),
  6. auðveldur aðgangur eða einkaaðgangur að fjármagnsmörkuðum eða öðrum tegundum fjármögnunar,
  7. fjölþætt framboð á vöru og þjónustu (t.d. vöru- eða þjónustutegundir sem eru seldar saman),
  8. stærðarhagkvæmni,
  9. breiddarhagkvæmni,
  10. lóðrétt samþætting,
  11. vel uppbyggt dreifi- og sölukerfi,
  12. hugsanlega keppinauta skortir,
  13. vaxtarhamlandi þættir.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að styðjast einnig við aðra viðeigandi þætti við mat á markaðsstyrk þ. á m. óafturkræfan kostnað, lagalegar hindranir, aðrar aðgangshindranir sem ekki eru nefndar í 2. mgr., samkeppni starfandi fyrirtækja, lárétta samþættingu, verðlagningu, arðsemi, valfrelsi kaupenda, skiptikostnað og aðgang notenda að upplýsingum.

7. gr. Yfirfærsla á markaðsstyrk.

Þegar fyrirtæki eitt sér eða með öðrum hefur umtalsverðan markaðsstyrk á tilteknum markaði getur það einnig talist hafa umtalsverðan markaðsstyrk á tengdum markaði ef tengsl milli markaðanna eru slík að fyrirtæki getur beitt markaðsstyrk sínum á öðrum markaðnum til að auka markaðsstyrk sinn á hinum.

8. gr. Sameiginlegur markaðsstyrkur.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að útnefna tvö eða fleiri fyrirtæki saman með umtalsverðan markaðsstyrk á fjarskiptamarkaði ef þau starfa á markaði sem er þannig uppbyggður að það er talið stuðla að samræmdum áhrifum, sem leiði til umtalsverðs markaðsstyrks, jafnvel þó ekki séu til staðar skipulagsleg tengsl eða önnur tengsl á milli þeirra.

Við mat á sameiginlegum markaðsstyrk skal Póst- og fjarskiptastofnun skoða þá þætti sem bent geta til þess að fyrirtæki njóti í sameiningu umtalsverðs markaðsstyrks, þar á meðal eftirfarandi atriði:

  1. mikil samþjöppun á markaði,
  2. gagnsær markaður,
  3. þroskaður markaður,
  4. stöðnun eða hóflegur vöxtur að því er varðar eftirspurn,
  5. lítill sveigjanleiki í eftirspurn,
  6. einsleitar vörur,
  7. svipuð kostnaðarsamsetning,
  8. svipuð markaðshlutdeild,
  9. skortur á tækninýjungum, þróuð tækni,
  10. umframafkastageta ekki til staðar,
  11. miklar aðgangshindranir,
  12. skortur á samningsstyrk kaupenda,
  13. skortur á mögulegri samkeppni,
  14. ýmiss konar óformleg og annars konar tengsl milli hlutaðeigandi fyrirtækja,
  15. mótvægisaðgerðir (refsikerfi),
  16. skortur á eða takmarkað svigrúm fyrir verðsamkeppni.

Listi yfir atriði sem ber að skoða skv. 2. mgr. er ekki tæmandi. Ekki þurfa öll atriðin að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að komast að niðurstöðu um sameiginlegan umtalsverðan markaðsstyrk.

IV. KAFLI Kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk.

9. gr. Kvaðir á fjarskiptafyrirtæki.

Reynist fjarskiptafyrirtæki hafa umtalsverðan markaðsstyrk að lokinni markaðsgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunar er stofnuninni heimilt að leggja á það kvaðir eins og til þarf í þeim tilgangi að efla samkeppni.

Allar álagðar kvaðir skulu taka mið af eðli hins skilgreinda samkeppnisvandamáls sem greint var í markaðsgreiningunni og vera sniðnar að því að leysa það. Kvaðirnar skulu vera gagnsæjar, réttlætanlegar, rökstuddar og í samræmi við þau markmið sem þeim er ætlað að ná, þ.e. að efla samkeppni, stuðla að uppbyggingu innri markaðar á Evrópska efnahagssvæðinu og standa vörð um hagsmuni notenda. Kvaðir mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að ná tilætluðum markmiðum.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á fjarskiptafyrirtæki á heildsölumarkaði kvaðir um opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu, gagnsæi, jafnræði, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald, sbr. 10.-14. gr. og 16.-17. gr. reglugerðar þessarar. Við álagningu heildsölukvaða skal áhersla lögð á eflingu samkeppni í gerð fjarskiptaneta þar sem það er talið vænlegt. Þegar slík samkeppni er ekki talin vænleg, t.d. vegna verulegra og stöðugra aðgangshindrana, þarf að tryggja fullnægjandi aðgang að fjarskiptanetum á heildsölustigi og hvetja þannig til þjónustusamkeppni en jafnframt þarf að tryggja nægjanlegt endurgjald fyrir aðgang að þeim fjarskiptanetum sem fyrir eru og hvetja þannig til frekari fjárfestinga, endurnýjunar og viðhalds á þeim.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á fjarskiptafyrirtæki á smásölumarkaði þær kvaðir sem getið er um í 15. gr. reglugerðar þessarar, ásamt kvöðum um aðgang að leigulínum, sbr. 16. gr. og forval og fast forval, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar.

Ákvarðanir sem Póst- og fjarskiptastofnun tekur í kjölfar markaðsgreiningar skulu gilda þar til stofnunin hefur endurtekið greiningu á viðkomandi markaði og tekið nýja ákvörðun í kjölfar nýrrar markaðsgreiningar.

Taki Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um að fella niður kvaðir sem verið hafa í gildi, skal það tilkynnt þeim sem ákvörðunin hefur áhrif á með hæfilegum fyrirvara áður en viðkomandi ákvörðun kemur til framkvæmdar.

10. gr. Aðgangur að netum og þjónustu.

Póst- og fjarskiptastofnun getur mælt fyrir um að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk verði við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um opinn aðgang að almennum fjarskiptanetum, nethlutum og tengdri aðstöðu með ákveðnum skilmálum sem stofnunin setur, sbr. þó 3. mgr.

Meðal annars má krefjast af fjarskiptafyrirtækjum að þau:

  1. veiti aðgang að einstökum hlutum neta eða aðstöðu, þ.m.t. aðgreindan aðgang að heimtaugum,
  2. bjóði ákveðna þjónustu í heildsölu sem þriðji aðili endurselur,
  3. heimili opinn aðgang að tæknisniðflötum, samskiptareglum eða annarri tækni sem er nauðsynleg til að tryggja gagnvirka þjónustu eða sýndarnetþjónustu,
  4. bjóði samhýsingu eða samnýtingu, þ.m.t. samnýtingu kapalstokka, bygginga eða mastra,
  5. bjóði þjónustu sem tryggir samvirkni þjónustu við notendur, þar á meðal greindarnetsþjónustu eða reiki í farsímanetum,
  6. bjóði aðgang að rekstrarkerfum eða hliðstæðum hugbúnaði til þess að tryggja samkeppni í framboði þjónustu,
  7. samtengi net eða netaðstöðu,
  8. veiti aðgang fyrir sýndarnet,
  9. veiti aðgang að annarri ómissandi aðstöðu.

Við ákvörðun um að leggja á skyldur skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun taka mið af því hvort það sé:

  1. tæknilega og fjárhagslega raunhæft að nota eða setja upp eigin aðstöðu í samkeppni með hliðsjón af markaðsþróun og eðli og gerð samtengingar og aðgangs sem um ræðir,
  2. framkvæmanlegt að veita þann aðgang sem tillaga er um,
  3. forsvaranlegt með hliðsjón af upphaflegri fjárfestingu eiganda aðstöðunnar og áhættu sem tekin var með fjárfestingunni,
  4. í þágu samkeppni til lengri tíma litið,
  5. óheppilegt með hliðsjón af vernd hugverkaréttinda,
  6. til þess fallið að auka framboð þjónustu.

11. gr. Gagnsæi.

Til þess að auka gagnsæi samtengingar eða aðgangs að aðstöðu fjarskiptafyrirtækis getur Póst- og fjarskiptastofnun skyldað fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk til að birta opinberlega ákveðnar upplýsingar, t.d. bókhaldsupplýsingar, tæknilýsingar, upplýsingar um einkenni neta, skilmála og skilyrði fyrir afhendingu og notkun og verðskrá. Heimilt er að veita undanþágu frá birtingu upplýsinga ef fjarskiptafyrirtæki getur sýnt fram á að þær varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt.

Þegar fjarskiptafyrirtæki er gert að gæta jafnræðis getur Póst- og fjarskiptastofnun skyldað það til að gefa út viðmiðunartilboð sem skal innihalda sundurliðaða lýsingu á samtengingu eða aðgangi, ásamt skilmálum og skilyrðum, þar á meðal gjaldskrám. Stofnunin getur mælt fyrir um breytingar á viðmiðunartilboði.

12. gr. Jafnræði.

Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt þær kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk að það skuli gæta jafnræðis þegar það samþykkir samtengingu eða aðgang. Slíkar kvaðir skulu einkum tryggja að fjarskiptafyrirtæki setji öðrum félögum sem veita fjarskiptaþjónustu sömu skilmála í sams konar viðskiptum og veiti þjónustu og upplýsingar með sömu skilmálum og sömu gæðum og það veitir eigin þjónustudeildum, dótturfyrirtækjum eða samstarfsaðilum.

13. gr. Bókhaldslegur aðskilnaður.

Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt skyldur á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk um bókhaldslegan aðskilnað milli starfsemi sem tengist samtengingu eða aðgangi og annarrar starfsemi þannig að hægt verði að skipta öllum tekjum og kostnaði niður á rekstrareiningar sem tengja má mismunandi þjónustu. Að auki getur stofnunin krafist þess af fyrirtæki sem rekur bæði fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu að heildsöluverð þess og verð innan fyrirtækisins sé gagnsætt, m.a. til að koma í veg fyrir óréttmætar niðurgreiðslur. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið hvaða bókhaldsaðferðir nota skal.

Til að tryggja gagnsæi og jafnræði getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að fá afhent bókhaldsgögn, þ.m.t. upplýsingar um tekjur frá þriðja aðila.

14. gr. Eftirlit með gjaldskrá.

Þegar markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk krefjist of hárra gjalda eða að óeðlilega lítill munur sé á heildsölu- og smásöluverði getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs. Taka skal tillit til fjárfestinga fjarskiptafyrirtækisins og hæfilegrar arðsemi af bundnu fjármagni með hliðsjón af áhættu við fjárfestinguna.

Þegar lögð er kvöð á fjarskiptafyrirtæki um að gjaldskrá miðist við kostnað ásamt hæfilegum hagnaði hvílir sönnunarbyrðin á fyrirtækinu.

Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði.

Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst hagkvæmlega rekin, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins.

15. gr. Stjórn á smásöluþjónustu.

Telji Póst- og fjarskiptastofnun í kjölfar markaðsgreiningar að heildsölukvaðir eða ráðstafanir varðandi forval eða fast forval muni ekki skila tilætluðum árangri við að efla virka samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu er stofnuninni heimilt að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Slíkar kvaðir geta m.a. falist í að leggja skyldur á fyrirtæki um þak á smásöluverð, kostnaðartengda gjaldskrá og kostnaðarbókhald, að verð miðist við verð á sambærilegum mörkuðum, banni við mismunun milli notenda og banni við að binda mismunandi tegundir fjarskiptaþjónustu í einn heildarpakka skaði það samkeppni.

16. gr. Aðgangur að leigulínum.

Ríki ekki virk samkeppni á markaði fyrir leigulínur eða ákveðnar tegundir þeirra skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að a.m.k. eitt fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk bjóði fram leigulínur í heildsölu eða smásölu af þeirri tegund sem stofnunin telur að þörf sé fyrir á fjarskiptamarkaði.

17. gr. Aðgangur að heimtaugum.

Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í almennum fjarskiptanetum og talsímaþjónustu skulu verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu er slíkum aðgangi tengist. Gjöld fyrir aðgang og aðstöðu skulu byggjast á kostnaði, m.t.t. hæfilegrar álagningar. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skulu birta viðmiðunartilboð um aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist breytinga á viðmiðunartilboði, þ.m.t. verði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um hvert skuli vera efni viðmiðunartilboðs.

Beiðnum um aðgang að heimtaugum skal aðeins hafnað á grundvelli hlutlægra viðmiðana, nauðsynjar að viðhalda heildstæði neta eða af tæknilegum ástæðum. Náist ekki samkomulag um aðgang getur aðili vísað málinu til Póst- og fjarskiptastofnunar.

18. gr. Forval og fast forval.

Fyrirtæki sem hafa umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skulu gera áskrifendum sínum mögulegt að fá aðgang að þjónustu allra samtengdra fyrirtækja sem veita almenna talsímaþjónustu. Fyrirkomulag þessa aðgangs getur verið annaðhvort þannig að notandi velji forskeyti á undan hverju símtali eða með föstu forvali sem hægt er að fara fram hjá í einstökum símtölum með því að velja forskeyti.

Þörf notenda fyrir forval eða fast forval í öðrum netum eða á annan hátt en skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun meta á grundvelli markaðsgreiningar.

Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld fyrir aðgang og samtengingu sem tengjast framboði á forvali og föstu forvali taki mið af kostnaði ásamt hæfilegri álagningu.

V. KAFLI Málsmeðferð við markaðsgreiningar og gildistaka.

19. gr. Gagnaöflun.

Póst- og fjarskiptastofnun getur krafið fjarskiptafyrirtæki um allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna markaðsgreiningar. Jafnframt getur stofnunin aflað upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum. Póst- og fjarskiptastofnun er ennfremur heimilt að nota við markaðsgreiningar allar upplýsingar sem stofnunin hefur undir höndum hvort sem þeirra hefur verið aflað við athugun á einstökum málum, almennt eftirlit eða almenna tölfræðisöfnun.

20. gr. Opinber birting.

Póst- og fjarskiptastofnun skal birta á vefsíðu sinni www.pfs.is upplýsingar og gögn um markaðsgreiningar og ákvarðanir byggðar á niðurstöðum markaðsgreiningar, að undanskyldum upplýsingum sem varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt.

21. gr. Umsögn hagsmunaaðila.

Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun í kjölfar markaðsgreiningar skal stofnunin veita hagsmunaaðilum sanngjarnan frest til umsagnar. Birta skal á vefsíðu stofnunarinnar frumdrög markaðsgreiningar sem inniheldur skilgreiningu viðkomandi markaðar, greiningu á stöðu á markaðnum og ef við á, frumniðurstöðu varðandi útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og lýsingu á þeim kvöðum sem stofnunin hefur í hyggju að leggja á, ásamt tilheyrandi rökstuðningi.

Tilkynna skal þeim fyrirtækjum sem starfa á viðkomandi markaði bréflega að frumdrög markaðsgreiningar hafi verið birt til umsagnar.

22. gr. Samráð við Samkeppniseftirlitið.

Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun í kjölfar markaðsgreiningar, skal stofnunin leita eftir umsögn Samkeppniseftirlitsins um skilgreiningu á viðkomandi markaði og greiningu á honum.

23. gr. Samskipti við eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.

Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun, sem hefur áhrif á viðskipti milli ríkja og varðar skilgreiningu fjarskiptamarkaða og greiningu þeirra, kvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk eða aðgang og samtengingu og skyldur á smásölumarkaði skal stofnunin hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í einstökum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á og skal þá tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnunum í einstökum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins tafarlaust um ákvörðunina.

24. gr. Skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Við meðferð mála samkvæmt þessari reglugerð skal Póst- og fjarskiptastofnun taka ýtrasta tillit til eftirfarandi leiðbeininga og tilmæla Eftirlitsstofnunar EFTA:

  1. Leiðbeiningar Eftirlitsstofnunar EFTA frá 14. júlí 2004 um markaðsgreiningu og mat á verulegum markaðsstyrk samkvæmt rammaákvæðum um rafræn fjarskiptanet og -þjónustu sem um getur í XI. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
  2. Tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA frá 5. nóvember 2008 um viðkomandi vöru- og þjónustumarkaði á sviði fjarskipta sem ástæða kann að vera til að fella undir fyrirframkvaðir í samræmi við gerð sem vísað er til í lið 5cl í viðauka XI við EES-samninginn (Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB um sameiginlegan regluramma um rafræn fjarskiptanet og þjónustu).
  3. Tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA nr. 193/04/COL frá 14. júlí 2004 um tilkynningar, fresti og samráð sem kveðið er á um í 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB um sameiginlegan regluramma um rafræn fjarskiptanet og -þjónustu.

25. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 18. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, sbr. 75. gr. sömu laga, og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 10. ágúst 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.