Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

739/2009

Reglugerð um hreinsun og förgun PCB og staðgengilsefna þess.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfið af völdum úrgangs sem fellur til vegna hluta sem innihalda PCB og staðgengilsefni þess.

2. gr. Skilgreiningar.

PCB-efni: eftirfarandi efni, nema að annað sé tekið fram í reglugerðinni:

Fjölklóruð bífenýlsambönd (PCB, polychlorinated biphenyls), CAS-nr. 1336-36-3,
fjölklóruð terfenýlsambönd (PCT, polychlorinated terphenyls), CAS-nr. 61788-33-8,
mónómetýltetraklórdífenýlmetan (Ugilec 141), CAS-nr. 76253-60-6,
mónómetýldíklórdífenýlmetan (Ugilec 121 eða Ugilec 21), EB-nr. 400-140-6,
mónómetýldíbrómdífenýlmetan (DBBT), CAS-nr. 99688-47-8 og
efnablöndur sem innihalda 0,005% eða meira af einhverju ofantalinna efna miðað við þyngd.

Búnaður sem inniheldur PCB-efni: Öll tæki, vélar eða varningur sem innihalda PCB-efni eða innihéldu áður slík efni (s.s. spennubreytar, þéttar og ílát sem innihalda afgangsefni). Búnaður sem gæti innihaldið PCB-efni skal meðhöndlaður eins og hann innihaldi slík efni.

Notuð PCB-efni: PCB-efni sem teljast vera úrgangur í skilningi reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.

Hreinsun: Allar aðgerðir sem gera það kleift að endurnota eða farga á öruggan hátt búnaði eða olíu sem eru menguð af PCB-efnum, þar með talið þegar slíkum efnum er skipt út í staðinn fyrir olíu sem er án PCB-efna.

Förgun: Förgun skv. IV. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Um skilgreiningar á hugtökunum meðhöndlun, móttökustöð og úrgangur er vísað til skilgreininga á þeim í lögum um meðhöndlun úrgangs.

3. gr. Notkun.

Notkun PCB-efna í skráðum búnaði, sbr. 4. gr., skal hætt fyrir árslok 2010.

4. gr. Skrá yfir búnað.

Þeir sem ábyrgir eru fyrir búnaði sem inniheldur 5 lítra eða meira af PCB-efnum skulu tilkynna það Vinnueftirliti ríkisins.

Vinnueftirlit ríkisins skal halda sérstaka skrá yfir búnað sem inniheldur meira en 5 lítra af PCB-efnum. Í spennustöðvum er átt við heildarmagn PCB-efna í stöðinni. Í skránni skal koma fram:

  1. Nafn og heimili eiganda eða umráðamanns.
  2. Staðsetning og lýsing á búnaði.
  3. Magn PCB-efna.
  4. Hvenær og hvernig viðhald á viðkomandi búnaði fer fram.
  5. Dagsetning skráningar.

Skráin skal uppfærð árlega. Sé magn PCB-efna á milli 0,005% og 0,05% er einungis nauðsynlegt að skrá upplýsingar skv. 1., 2. og 5. tölul. 2. mgr.

5. gr. Förgun.

Niðurrif og förgun búnaðar sem innihaldið hefur PCB-efni eru óheimil áður en búnaðurinn hefur að fullu verið hreinsaður af PCB-efnum. Öll PCB-efni skulu afhent til förgunar til viðurkenndra móttökustöðva spilliefna. Hreinsun PCB-efna úr skráningarskyldum búnaði, sbr. 4. gr., skal lokið í síðasta lagi fyrir árslok 2010.

Öllum notuðum PCB-efnum, þó ekki staðgengilsefnum PCB, skal fargað á þann hátt sem kveðið er á um í reglugerð um þrávirk lífræn efni.

Öllum notuðum staðgengilsefnum PCB skal fargað með eftirfarandi aðferðum sem fram koma í IV. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang:

D8 Líffræðileg meðhöndlun, sem ekki er tilgreind annars staðar í þessum viðauka, þar sem til verða efnasambönd eða blöndur sem er fargað með einhverjum þeim aðgerðum sem um getur í liðum D 1 til D 12.
D9 Eðlis- og efnafræðileg meðhöndlun, sem ekki er tilgreind annars staðar í þessum viðauka, þar sem til verða efnasambönd eða blöndur sem er fargað með einhverjum þeim aðgerðum sem um getur í liðum D 1 til D 12 (t.d. uppgufun, þurrkun, glæðingu).
D10 Brennsla á landi.
D12 Varanleg geymsla (aðeins í öruggum geymslum sem grafnar eru djúpt í þurr berglög og aðeins fyrir búnað sem inniheldur staðgengilsefni PCB og olíur sem ekki er unnt að hreinsa staðgengilsefni PCB úr).
D15 Geymsla þangað til gripið er til einhverra þeirra aðgerða sem um getur í liðum D 1 til D 14 (að undanskilinni geymslu úrgangsins til bráðabirgða á framleiðslustað þar til honum er safnað).

6. gr. Hreinsun spennubreyta.

Eigandi eða umráðamaður spennubreyta skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að í spennubreytum sem innihalda vökva með PCB-efni að styrkleika 0,05% eða hærra, séu PCB-efni hreinsuð úr þeim samkvæmt eftirfarandi:

  1. Magn PCB-efna fari niður fyrir 0,05% og ef mögulegt er niður fyrir 0,005%.
  2. Tryggja skal að olían sem sett er í staðinn sé mun minna skaðleg fyrir umhverfi og heilsu manna en PCB-efni.
  3. PCB-efnum sem voru í spennubreytunum verði fargað.
  4. Merking spennubreytanna eftir að PCB-efni hafa verið hreinsuð úr þeim sé í samræmi við viðauka.

Eigandi eða umráðamaður spennubreyta skal sjá til þess að PCB-efni séu hreinsuð úr spennubreytum sem innihalda vökva með PCB-efni í styrkleikanum 0,005% til 0,05% þegar hætt er að nota þá.

Eftirlitsaðili skal sannreyna að ráðstafanir hafi verið gerðar í samræmi við ákvæði 4. og 5. mgr. og gefa út um það vottorð. Ef ekki finnst eigandi eða umráðamaður yfir slíkum búnaði skal eftirlitsaðili sjá til þess að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við 4. og 5. mgr.

7. gr. Endurnotkun.

Óheimilt er að skilja PCB-efni frá öðrum efnum í þeim tilgangi að nota PCB-efni aftur. Einnig er óheimilt að bæta olíu á spennubreyta sem innihalda PCB-efni.

8. gr. Merking.

Búnaður sem inniheldur PCB-efni skal vera sérstaklega merktur. Sé áætlað magn PCB-efna á milli 0,005% og 0,05% skal búnaðurinn merktur "PCB-mengun < 0,05%". Hliðstæð merking skal vera á dyrum húsnæðis og rýma sem slíkur búnaður er í. Að auki skulu vera merkingar með upplýsingum um það hvernig farga skuli búnaðinum þegar að förgun kemur og hvernig standa skuli að viðhaldi og notkun búnaðarins. Merkingin skal vera á íslensku með greinilegu og auðlæsilegu letri.

9. gr. Móttökustöðvar og starfsleyfi.

Móttökustöðvar fyrir PCB-efni, notuð PCB-efni og búnað sem inniheldur PCB-efni, skulu hafa til þess starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fari förgun staðgengilsefna PCB fram með brennslu gildir um það reglugerð um brennslu úrgangs.

Móttökustöðvar sem taka við PCB-efnum, notuðum PCB-efnum og búnaði sem inniheldur PCB-efni skulu skrá magn, uppruna og tegund allra þeirra PCB-efna sem tekið er á móti. Móttökuaðilar skulu afhenda þeim sem skilar PCB-efnum kvittun þar sem fram kemur tegund PCB-efna og magn. Móttökuaðilar skulu halda sérstaka skrá sem eftirlitsaðili á greiðan aðgang að. Móttökuaðili skal senda fyrir 1. maí ár hvert yfirlit úr skránni fyrir undangengið ár til Umhverfisstofnunar. Í skránni skal koma fram uppruni, magn og tegund PCB-efna og hvað móttökuaðili hafi gert við efnin.

PCB-efni sem bíða förgunar skulu geymd með þeim hætti að eldhætta sé ekki til staðar og ávallt fjarri eldfimum efnum.

10. gr. Þvingunarúrræði.

Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.

Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag.

Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 2. mgr. má innheimta með fjárnámi.

Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

11. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á reglugerð þessari fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brots gegn reglugerð þessari varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í broti.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.

12. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 13. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 96/59/EB um förgun fjölklóraðra bífenýla og fjölklóraðra terfenýla (PCB/PCT), sem vísað er til í 22. tölul., XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/1997, þann 1. maí 1997.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 14. ágúst 2009.

F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Kristín R. Snorradóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.