Prentað þann 21. des. 2024
737/1997
Reglugerð um skipulagsgjald.
1. gr.
Greiða skal skipulagsgjald 0,3% af brunabótamati í eitt sinn af hverri nýbyggingu sem reist er. Nýbygging telst hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Skipulagsgjald af mannvirkjum, sem ekki eru virt til brunabóta, skal nema 0,3% af stofnverði þeirra.
Ekki skal greitt skipulagsgjald af þeim mannvirkjum sem ekki eru háð byggingarleyfi nema stofnkerfum rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta utan þéttbýlis. Með stofnkerfi er í reglugerð þessari átt við flutningskerfi, frá upptökum að dreifikerfi. Með þéttbýli er samkvæmt reglugerð þessari átt við þyrpingu húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fari að jafnaði ekki yfir 200 metra.
2. gr.
Sé um að ræða flutning húsa á nýja lóð skal greitt skipulagsgjald ef virðingarverð hinnar fluttu húseignar hækkar sem nemur a.m.k. 1/5 verðs á fyrri stað. Sama gildir verði heimilað að byggja ný hús eða endurbæta hús hafi fallið á þau snjóflóð eða skriður.
3. gr.
Eigendur nýrra stofnkerfa rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta utan þéttbýlis skulu tilkynna Fasteignamati ríkisins um stofnverð þegar mannvirkin hafa verið tekin í notkun. Eigendur skulu skila sundurliðaðri greinargerð um kostnað þ.á m. um hönnunar-og eftirlitskostnað.
4. gr.
Skipulagsgjald fellur í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir. Eindagi er mánuði síðar. Því fylgir lögveð í eigninni og gengur það fyrir öllum öðrum veðböndum er á henni hvíla. Innheimta má gjaldið með fjárnámi samkvæmt lögum nr. 90/1989.
5. gr.
Sýslumaður lögsagnarumdæmis sem húseign er í eða þar sem lögheimili eiganda stofnkerfis er annast innheimtu skipulagsgjalds, en í Reykjavík tollstjóri. Gera skal skil á gjaldinu til ríkisféhirðis með skilagrein sem og öðrum ríkissjóðstekjum.
6. gr.
Fasteignamat ríkisins skal tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverðs þar sem það á við, þegar eftir að virðing hefur farið fram eða tilkynnt hefur verið um stofnverð og veita þeim þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna innheimtu gjaldsins, þ.á m. skráða eigendur húseigna samkvæmt fasteignaskrá.
Skipulagsstofnun skal aðstoða Fasteignamat ríkisins við framkvæmd þessarar reglugerðar.
7. gr.
Úrskurðarnefnd skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sker úr ágreiningi sem upp kann að koma vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalda.
8. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er skv. 6. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 öðlast gildi frá og með 1. janúar 1998.
Frá þeim tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 676/1994 um gjald af nýreistum húsum til greiðslu skipulagsgjalds, með breytingu frá 21. september 1995.
Umhverfisráðuneytinu, 29. desember 1997.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.