Prentað þann 15. jan. 2025
728/2018
Reglugerð um gerð persónuhlífa.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um gerð persónuhlífa.
2. gr. Lögbært yfirvald/markaðseftirlitsyfirvald.
Vinnueftirlit ríkisins gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds/markaðeftirlitsyfirvalds í skilningi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE vegna persónuhlífa sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um.
Neytendastofa gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds/markaðeftirlitsyfirvalds í skilningi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE vegna persónuhlífa sem ætlaðar eru til einkanota.
Vinnueftirlit ríkisins og Neytendastofa skulu gera með sér samstarfssamning sem kveður nánar á um mörkin á milli markaðseftirlits stofnananna með persónuhlífum sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum og persónuhlífa sem ætlaðar eru til einkanota og hvernig leysa ber úr tilvikum þegar mörkin eru ekki ljós.
3. gr. Tilkynningaryfirvald.
Velferðarráðuneytið gegnir hlutverki tilkynningaryfirvalds í skilningi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE.
4. gr. Faggildingarstofa.
Faggildingarsvið Einkaleyfastofu gegnir hlutverki faggildingarstofu í skilningi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE.
5. gr. Skyldur framleiðanda, innflytjenda og dreifingaraðila.
Leiðbeiningar og upplýsingar sem framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum ber að tryggja skv. 6. og 7. mgr. 8. gr., 3. og 4. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE skulu vera á íslensku. Leiðbeiningar og upplýsingar sem framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum ber að tryggja skv. 10. mgr. 8. gr., 9. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/425, um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE skulu vera á íslensku eða ensku.
6. gr. Eftirlit.
Um eftirlit með reglugerð þessari fer skv. 75. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum og 14. og 15. gr. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
7. gr. Viðurlög.
Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum og 28. gr. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
8. gr. Innleiðing EES-gerðar.
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 frá 9. mars 2016 um persónuhlífar og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/686/EBE sem vísað er til í XXII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2018 frá 9. febrúar 2018 með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, II. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans, skal öðlast gildi hér á landi. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, nr. 42 frá 2018, bls. 237.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr., 34., 35., 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og 27. gr. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna þáttar Neytendastofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna faggildingarsviðs Einkaleyfastofu hvað varðar þátt faggildingarsviðs Einkaleyfastofu, sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., öðlast þegar gildi.
Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa og reglugerð nr. 635/1999 um persónuhlífar til einkanota.
Velferðarráðuneytinu, 5. júlí 2018.
Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.