Prentað þann 3. jan. 2025
715/2001
Reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda.
I. KAFLI Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra aðila sem vinna að opinberum framkvæmdum, skýra áfangaskiptingu opinberra framkvæmda og ákvarðanatöku í tengslum við þær og treysta þannig faglega málsmeðferð, samræmd vinnubrögð og hagkvæmni í samræmi við lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin tekur til opinberra framkvæmda sem kostaðar eru að nokkru eða öllu leyti af ríkissjóði, enda nemi áætlaður kostnaður ríkissjóðs a.m.k. 5 milljónum króna. Við mat á áætluðum kostnaði skal telja með heildarkostnað að frátöldum virðisaukaskatti miðað við þann tíma sem ákvörðun um undirbúning framkvæmdarinnar er tekin. Óheimilt er að skipta framkvæmd eða nota sérstakar aðferðir við útreikning á kostnaði í því skyni að komast hjá þeirri málsmeðferð sem greinir í lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð þessari.
Opinber framkvæmd telst kostuð af ríkissjóði ef hún er fjármögnuð með framlögum á fjárlögum og ekki er um opinberan styrk að ræða. Framkvæmdir á vegum B- og C-hluta stofnana í ríkisreikningi falla undir ákvæði reglugerðarinnar enda sé ekki kveðið á um annað í lögum. Framkvæmdir sem eiga undir 4. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda falla ekki undir gildissvið reglugerðar þessarar.
Til opinberrar framkvæmdar telst gerð, viðhald eða breyting mannvirkis, þar á meðal endurbygging.
Við kaup og leigu á fasteignum skal fara fram frumathugun.
II. KAFLI Málsmeðferð.
3. gr. Áfangaskipting.
Meðferð máls varðandi opinbera framkvæmd frá upphafi, uns henni er lokið, fer eftir ákveðinni boðleið er skiptist í fjóra áfanga; frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat.
4. gr. Frumathugun.
Tilgangur frumathugunar er að kanna þær þarfir sem fyrirhugað er að leysa og þá kosti sem til greina koma við úrlausn þeirra, sbr. 3. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda. Fjármálaráðuneytið getur sett nánari reglur um verklag við gerð frumathugunar. Frumathugun telst lokið þegar samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur yfirfarið hvort hún uppfylli ofangreind skilyrði og fjármálaráðuneytið formlega fallist á hana.
Gerð frumathugunar er grundvöllur frekari ákvarðanatöku um framhald verksins. Óheimilt er að hefjast handa við áætlunargerð fyrr en frumathugun er lokið.
5. gr. Áætlunargerð.
Áætlunargerð felst í fullnaðarhönnun mannvirkis vegna nýbygginga eða breytinga og áætlun um heildarkostnað og rekstrarkostnað til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið, sbr. 7. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda. Með heildarkostnaði er átt við allan þann kostnað sem fellur á verkið á undirbúnings- og framkvæmdatíma þess, ásamt kostnaði vegna búnaðar og annars sem nauðsynlegt er til að hefja notkun mannvirkis.
Tilgangur áætlunargerðar er að fyrir liggi nákvæmar forsendur framkvæmdar áður en verkleg framkvæmd hefst. Fjármálaráðuneytið getur sett nánari reglur um verklag við áætlunargerð.
Áætlunargerð telst lokið þegar samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur, að fenginni umsögn Framkvæmdasýslu ríkisins, yfirfarið hvort áætlunin uppfylli ofangreind skilyrði og fjármálaráðuneytið formlega fallist á hana. Gera skal grein fyrir frávikum frá niðurstöðum frumathugunar þegar áætlunargerðin er lögð fyrir fjármálaráðuneytið.
Áætlunargerð er grundvöllur frekari ákvarðanatöku um framhald verksins. Óheimilt er að hefjast handa við verklega framkvæmd fyrr en áætlunargerð er lokið og skilyrðum 12. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda fullnægt.
6. gr. Verkleg framkvæmd.
Verkleg framkvæmd fer fram á grundvelli áætlunar. Samningar við verktaka og framkvæmd þeirra skulu vera innan ramma áætlunar.
Fjármálaráðuneytið getur sett nánari reglur um verklag sem viðhafa skal við verklegar framkvæmdir.
Verði röskun á kostnaði eða verkframvindu frá áætlun skal hún endurskoðuð af hlutaðeigandi ráðuneyti og fullnægjandi heimilda aflað. Að öðrum kosti skal framkvæmd stöðvuð.
Verklegri framkvæmd telst lokið þegar úttekt liggur fyrir og hægt er að hefja notkun mannvirkis.
7. gr. Skilamat.
Framkvæmdasýsla ríkisins sér um gerð skilamats. Skilamat skal gert að lokinni verklegri framkvæmd. Tilgangur skilamats er að gera grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist með tilliti til áætlunar og að taka saman reynslutölur og upplýsingar sem nýst geta við opinberar framkvæmdir.
Framkvæmdasýsla ríkisins setur reglur um fyrirkomulag skilamats sem fjármálaráðherra staðfestir.
III. KAFLI Hlutverk og ábyrgð.
8. gr. Fjármálaráðuneyti.
Fjármálaráðuneytið fer með fjármálalega yfirstjórn opinberra framkvæmda og hefur eftirlit með því að málsmeðferð sé í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir. Fjármálaráðuneytið fjallar um frumathugun og áætlunargerð að fengnu áliti samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Sé frumathugun og áætlunargerð í samræmi við þær reglur sem um hana gilda heimilar fjármálaráðuneyti hlutaðeigandi ráðuneyti formlega að hefja næsta áfanga framkvæmdarinnar, enda séu fjárheimildir fyrir hendi.
Fjármálaráðuneytið tekur til umfjöllunar og ákvörðunar endurskoðaða áætlun frá hlutaðeigandi ráðuneyti verði röskun á kostnaði eða verkframvindu frá áætlun við verklega framkvæmd.
9. gr. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.
Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er fjármálaráðuneytinu til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laganna. Nefndin rannsakar og lætur fjármálaráðuneytinu í té álit um frumathugun og áætlunargerð.
10. gr. Hlutaðeigandi ráðuneyti.
Hlutaðeigandi ráðuneyti sér um frumathugun og áætlunargerð í samræmi við reglur sem um þær gilda en getur falið hlutaðeigandi stofnun, sérstökum ráðgjafanefndum, sveitarfélagi eða öðrum væntanlegum eignaraðilum vinnu við gerð þeirra. Hlutaðeigandi ráðuneyti ber þó ábyrgð á frumathugun og áætlunargerð og framlagningu þeirra.
Hlutaðeigandi ráðuneyti eða þeir aðilar sem ráðuneyti felur að vinna að áætlunargerð skulu hafa samráð við Framkvæmdasýslu ríkisins um tilhögun áætlunargerðarinnar.
Við lok áætlunargerðar sendir ráðuneyti hana til fjármálaráðuneytis ásamt greinargerð ef um frávik er að ræða frá frumathugun.
Verði röskun á kostnaði eða verkframvindu frá áætlun sem kallar á endurskoðun hennar skal hlutaðeigandi ráðuneyti senda fjármálaráðuneyti endurskoðaða áætlun og afla fullnægjandi heimilda, en að öðrum kosti stöðva framkvæmdir. Hlutaðeigandi ráðuneyti skal leita samþykkis fjármálaráðuneytisins um breytta greiðslutilhögun vegna verka.
Hlutaðeigandi ráðuneyti skal veita Framkvæmdasýslu ríkisins nauðsynlegar upplýsingar við gerð skilamats um framkvæmdina.
11. gr. Framkvæmdasýsla ríkisins.
Framkvæmdasýsla ríkisins veitir ráðgjöf um frumathugun og áætlunargerð við opinberar framkvæmdir sé eftir því leitað. Stofnunin veitir fjármálaráðuneytinu einnig umsögn um tæknileg atriði í áætlunargerð.
Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins við áætlunargerð hlutaðeigandi ráðuneyta felst í að samræma form og undirbúa samninga við ráðgjafa og aðra þá sem að áætlunargerðinni vinna.
Framkvæmdasýsla ríkisins stýrir verklegri framkvæmd og ber á henni ábyrgð. Hún undirbýr útboð, gerir samanburð á tilboðum, gerir tillögur um val á verktaka og annast samningsgerð við þann verktaka sem fyrir valinu verður. Stofnunin ber ábyrgð á að verkleg framkvæmd sé unnin á grundvelli samninga við verktaka og í samræmi við áætlanir. Framkvæmdasýsla ríkisins ber ábyrgð á framkvæmdaeftirliti á verktímanum og undirbýr og undirritar samninga við eftirlitsaðila ef hún felur öðrum eftirlit með verkinu.
Við upphaf verklegrar framkvæmdar skal gerður skriflegur samningur milli Framkvæmdasýslu ríkisins og hlutaðeigandi ráðuneytis þar sem nánar verði kveðið á um skipulag, samskipti og skyldur samningsaðila.
Framkvæmdasýsla ríkisins skal upplýsa viðkomandi ráðuneyti reglulega um framvindu verks og fjárhagslega stöðu. Stefni í röskun á kostnaðaráætlun eða verkframvindu sem kallar á endurskoðun áætlunar skal stofnunin þegar í stað upplýsa hlutaðeigandi ráðuneyti með formlegum hætti.
Skorti fullnægjandi heimildir er Framkvæmdasýslu ríkisins óheimilt að hefja verklega framkvæmd eða halda áfram framkvæmdum þar sem farið hefur verið út fyrir ramma áætlunar.
IV. KAFLI Gildistaka.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 23. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.