Prentað þann 4. des. 2024
700/2010
Reglugerð um mat og eftirlit í framhaldsskólum.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til innra og ytra mats í framhaldsskólum, bæði opinberum framhaldsskólum og þeim sem reknir eru af öðrum aðilum.
2. gr. Markmið mats og eftirlits með skólastarfi.
Markmið mats og eftirlits með skólastarfi er að:
- tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá framhaldsskóla,
- tryggja að réttindi nemenda séu virt og þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum,
- veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
- auka gæði skólastarfs, stuðla að umbótum og aukinni ábyrgð skóla á eigin starfi.
3. gr. Innra mat framhaldsskóla.
Hver framhaldsskóli skal með kerfisbundnum hætti meta árangur og gæði skólastarfsins. Virkt innra mat skal samofið annarri starfsemi skóla og skal skapa forsendur fyrir markvissu mati á árangri og leiðum að markmiðum skóla. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins. Það skal stuðla að aukinni vitund um mikilvægi gæða í öllu starfi.
Tryggja skal virka þátttöku starfsmanna, foreldra, nemenda og skólaráðs í innra mati, eftir því sem við á. Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni.
Framhaldsskólar skulu birta opinberlega og á aðgengilegan hátt, á heimasíðu sinni eða með öðrum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun. Einnig skal gera grein fyrir tengslum matsins við skólanámskrá og stefnu skólans.
Nánari viðmið um innra mat eru sett í aðalnámskrá framhaldsskóla.
4. gr. Eftirlit og ytra mat mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti annast reglubundið eftirlit og ytra mat á gæðum skólastarfs í framhaldsskólum. Eftirlitið og matið fara fram með öflun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald, úttektum, könnunum og rannsóknum.
Ytra mat getur náð til einstakra framhaldsskóla, nokkurra framhaldsskóla í senn, framhaldsskóla í heild, skilgreindra þátta í starfsemi framhaldsskóla, þ.m.t. aðferða við innra mat. Skulu framhaldsskólar veita þá aðstoð og þau gögn sem matið útheimtir. Skýrslur um ytra mat skulu birtar opinberlega á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Eftir að ytra mat liggur fyrir skal framhaldsskóli innan tiltekins tímafrests gera mennta- og menningarmálaráðuneyti grein fyrir með hvaða hætti brugðist verður við niðurstöðum matsins. Til þess að mat leiði til umbóta í starfi skóla skal mennta- og menningarmálaráðuneyti, eftir því sem aðstæður leyfa, veita framhaldsskólum stuðning, fræðslu og ráðgjöf í kjölfar ytra mats.
Mennta- og menningarmálaráðherra setur fram áætlun til þriggja ára í senn um ytra mat á framhaldsskólum. Áætlunin skal birt á heimasíðu ráðuneytisins. Í áætluninni skulu koma fram fyrirhugaðar úttektir og kannanir, svo og eftirfylgni eftir því sem kostur er. Úttekt á framhaldsskóla eða á tiltekinni starfsemi framhaldsskóla skal gerð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Við hverja úttekt skal ráðuneytið gera grein fyrir tilgangi úttektar, úttektaraðferð, helstu viðmiðum og áherslum. Ráðuneytið fær óháða sérfræðinga með menntun og/eða reynslu á sviði menntamála til að sjá um framkvæmd úttekta í samræmi við verklagsreglur ráðuneytisins.
Ytra mat samkvæmt reglugerð þessari nær eingöngu til framhaldsskóla sem njóta fjárveitinga í fjárlögum og gerður hefur verið samningur við skv. 44. gr. laga nr. 92/2008.
Nánari viðmið um ytra mat eru sett í aðalnámskrá framhaldsskóla.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og öðlast þegar gildi.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 24. ágúst 2010.
Katrín Jakobsdóttir.
Ásta Magnúsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.