Prentað þann 16. jan. 2025
697/1997
Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu, með breytingu skv. reglugerð nr. 180/1993.
1. gr.
Við 1. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
Yfirlýsingu og skuldbindingu skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr. skal þinglýst á viðkomandi fasteign.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:
1. Í stað orðanna sem fullnægjandi er að mati skattstjóra í 2. málsl. 1. mgr. kemur: í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka.
2. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður sem verður c-liður og orðast svo: Taki byggingaraðili fasteign undir eigin skattskyldan rekstur.
3. Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
Tryggingu skv. 1. mgr. er ætlað að tryggja endurheimtu á endurgreiddum innskatti ásamt reiknuðum útskatti að teknu tilliti til framreiknings samkvæmt byggingarvísitölu, ef skilyrði fyrir skráningu eru ekki lengur fyrir hendi.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:
1. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður er verður 3. tölul. og orðast svo: Vottorð um að leigusamningi hafi verið þinglýst.
2. Við bætist ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
Ef eign sem skráð hefur verið frjálsri skráningu er seld og hinn nýi eigandi hefur sótt um frjálsa skráningu vegna eignarinnar er ekki nauðsynlegt að gögn skv. 2. mgr. fylgi umsókn enda varði umsóknin sama leigusamning og eldri skráning tók til. Við eigendaskipti samkvæmt þessari málsgrein skal þó leggja fram gögn til sönnunar á aðilaskiptum að leigusamningi.
4. gr.
5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Frjáls skráning getur aldrei verið til skemmri tíma en tveggja ára.
Upphafsdagur frjálsrar skráningar skal að jafnaði vera sá dagur þegar leigutaki tekur eign í notkun. Ef um er að ræða nýbyggingu eða verulegar endurbætur á eign fyrir þann tíma getur leigutaki sótt um skráningu skv. I. kafla þessarar reglugerðar vegna þeirra framkvæmda. Sé leigusamningi rift áður en tveggja ára fresturinn skv. 1. mgr. er liðinn og eign því ekki í notkun í sex mánuði eða lengur reiknast sá tími ekki til leiðréttingartímabils skv. IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Sama gildir ef eign sem skráð hefur verið frjálsri skráningu er ekki í notkun þar sem ekki hefur tekist að leigja hana að nýju að uppfylltum skilyrðum 1.-3. tölul. 2. mgr. 4. gr.
5. gr.
Orðið "nýbyggingar," í 7. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
6. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 1998.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 2. gr. heldur trygging fyrir útskatti og innskatti sem skattstjóri hefur samþykkt fyrir gildistöku reglugerðar þessarar gildi sínu.
Fjármálaráðuneytinu, 12. desember 1997.
F. h. r.
Jón Guðmundsson.
Hermann Jónasson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.