Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 16. des. 2014 – 21. jan. 2016 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 16. des. 2014 af rg.nr. 1076/2014

695/2010

Reglugerð um almannaflug þyrlna.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja flugöryggi við starfrækslu þyrlna í almannaflugi.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til almannaflugs með íslenskum og erlendum þyrlum sem fljúga um íslenska lofthelgi. Reglugerðin tekur einnig til almannaflugs íslenskra þyrlna í millilandaflugi nema öðruvísi sé fyrirmælt í lögum og reglum þeirra ríkja sem flogið er um.

3. gr. Orðskýringar.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau merkingu þá sem hér segir:

Aðflug og lending þar sem notaðar eru verklagsreglur um blindaðflug (Approach and landing operations using instrument approach procedures): Blindaðflug og lendingar eru flokkaðar sem hér segir:

Grunnaðflug og lending (Non-precision approach and landing operations): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi leiðsaga en ekki leiðsaga í lóðréttum fleti.

Aðflug og lending með leiðsögu í lóðréttum fleti (Approach and landing operations with vertical guidance): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi leiðsaga og leiðsaga í lóðréttum fleti sem þó uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til nákvæmnisaðflugs og lendingar.

Nákvæmnisaðflug og lending (Precision approach and landing operations): Blindaðflug og lending þar sem notuð er stefnubeinandi nákvæmnisleiðsaga og nákvæmnisleiðsaga í lóðréttum fleti með lágmörkum sem ákvarðast af flokki starfrækslunnar.

Flokkar nákvæmnisaðflugs og lendingar:

I. flokkur (CAT I). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:

  1. ákvörðunarhæð sem er ekki undir 60 m (200 fetum), og
  2. annaðhvort með skyggni sem ekki er minna en 800 m eða flugbrautarskyggni sem ekki er minna en 500 m.

II. flokkur (CAT II). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:

  1. ákvörðunarhæð, sem er undir 60 m (200 fetum) en ekki undir 30 m (100 fetum), og
  2. flugbrautarskyggni sem ekki er minna en 300 m.

III. flokkur A (CAT IIIA). Nákvæmnisblindaðflug og lending með:

  1. ákvörðunarhæð, sem er undir 30 m (100 fetum) eða án ákvörðunarhæðar, og
  2. flugbrautarskyggni sem er ekki minna en 200 m.

III. flokkur B (CAT IIIB). Nákvæmnisblindaðflug og -lending með:

  1. ákvörðunarhæð, sem er undir 15 m (50 fetum) eða án ákvörðunarhæðar, og
  2. flugbrautarskyggni sem er minna en 200 m en ekki minna en 75 m.

Aðflugs og lendingarstig - þyrlur (Approach and landing phase - helicopters): Sá hluti flugs sem miðast við 300 m (1.000 feta) hæð yfir lokaaðflugs- og flugtakssvæðinu (FATO) ef áætlað er að fljúga upp fyrir þessa hæð eða í hinu tilvikinu frá byrjun lækkunar í gegnum þessa hæð til lendingar eða þeirrar stöðu þar sem hætt er við lendingu.

Afkastagetuflokkar þyrlna (Performance classes for helicopters):

1. flokkur: Þyrla sem hefur þá afkastagetu að ef markhreyfill verður óvirkur þá geti hún lent á flugtaksstöðvunarsvæðinu eða haldið fluginu örugglega áfram til viðeigandi lendingarstaðar eftir því hvenær hreyfillinn verður óvirkur.

2. flokkur: Þyrla sem hefur þá afkastagetu að ef markhreyfill verður óvirkur þá geti hún haldið fluginu örugglega áfram nema ef að hreyfillinn verður óvirkur áður en að komið er í skilgreinda stöðu eftir flugtak eða eftir að komið er framhjá skilgreindri stöðu fyrir lendingu en í þeim tilvikum gæti þurft að nauðlenda.

3. flokkur: Þyrla sem hefur þannig afkastagetu að hún verður að nauðlenda hvenær sem er á flugi ef að hreyfill verður óvirkur.

Aflhæðarstýri (Collective pitch): Stjórntæki sem breytir afli og þar með hæð.

Almannaflug (General aviation operation): Flug loftfars, annað en flutningaflug eða verkflug.

Ákvörðunarflughæð eða ákvörðunarhæð (Decision altitude (DA) or decision height (DH)): Ákveðin flughæð/hæð í nákvæmnisaðflugi eða aðflugi með leiðsögu í lóðréttum fleti þar sem ákvörðun er tekin um að hefja fráflug ef lágmarksviðmiðun um nauðsynlega sýn til kennileita, til þess að halda áfram aðflugi, hefur ekki verið náð.

Ákvörðunarstaða í flugtaki (Take-off decision point (TDP)): Sú staða sem miðað er við þegar afkastageta fyrir flugtak er ákvörðuð, ef hreyfill verður óvirkur í þessari stöðu á að vera hægt að hætta við flugtak eða halda flugtakinu örugglega áfram.

Ákvörðunarstaða í lendingu (Landing decision point (LDP)): Sú staða sem miðað er við þegar afkastageta við lendingu er ákvörðuð. Ef að hreyfill verður óvirkur í þessari stöðu á að vera hægt að lenda örugglega eða hætta við lendingu.

Blindflug (IFR flight): Flug samkvæmt blindflugsreglum.

Blindflugsskilyrði (Instrument meteorological conditions (IMC)): Veðurskilyrði neðan við lægstu mörk sjónflugsskilyrða, tilgreind sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og skýjahæð.

Bræðivar (Fuse): Veikur hluti rafrásar, gerður úr málmi með lágt bræðslumark sem bráðnar og rýfur rafrásina þegar of mikill straumur fer um hana.

Fartími (Flight time): Allur tíminn frá því að þyrilblöð byrja að snúast þar til þyrlan stöðvast að afloknu flugi og þyrilblöðin stöðvast.

Flugriti (Flight recorder): Hvers konar skráningarbúnaður sem er settur í loftfarið og getur nýst við rannsókn slysa eða óhappa, þar með talið ferðariti (flight data recorder) og hljóðriti (voice recorder).

Ferilstýri hliðarferils (Lateral cyclic pitch): Stýri sem breytir hliðarferli þyrlu.

Ferilstýri langsumferils (Longitudinal cyclic pitch): Stýri sem breytir langsumferli þyrlu.

Flugaðferðarhandbók (Aircraft Operating Manual): Handbók sem lýsir aðferðum við starfrækslu ákveðinnar tegundar loftfars við eðlilegar og afbrigðilegar aðstæður og í neyðartilvikum, skilgreinir kerfi þess og hefur að geyma þá gátlista sem nota skal.

Flugáætlun (Flight plan): Tilteknar upplýsingar um fyrirhugað flug eða hluta þess, sem látnar eru flugumferðarþjónustudeild í té.

Flugbrautarskyggni (Runway visual range (RVR)): Sú fjarlægð sem flugmaður loftfars á miðlínu flugbrautar getur séð yfirborðsmerkingar á flugbraut eða ljósin sem afmarka hana eða sýna miðlínu hennar.

Flughandbók (Flight manual): Handbók, sem tengd er lofthæfivottorðinu, þar sem tilgreint er innan hvaða marka loftfarið er talið lofthæft og gefnar eru nauðsynlegar leiðbeiningar og upplýsingar fyrir flugliða um örugga starfrækslu loftfarsins.

Flugliði (Flight crew member): Áhafnarmeðlimur sem er handhafi flugliðaskírteinis og er falið starf sem er nauðsynlegt starfsemi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugmálahandbók (AIP - Aeronautical Information Publication): Handbók sem gefin er út í umboði ríkis og inniheldur varanlegar flugmálaupplýsingar sem nauðsynlegar eru við flugleiðsögu.

Flugrekandaskírteini (Air operator certificate, AOC): Skírteini sem heimilar flugrekanda að starfrækja tiltekna tegund atvinnuflugs.

Flugstjóri (Pilot-in-command): Flugmaður sem tilnefndur er af flugrekanda eða eiganda loftfarsins til að fara með yfirstjórn um borð í loftfarinu og ber ábyrgð á ferðum og öryggi loftfars meðan á fartíma stendur.

Flugtaks- og frumklifursstig (Take off and initial climb phase): Sá hluti flugs sem er frá flugtaki og upp í 300 m (1.000 feta) hæð yfir lokaaðflugs- og flugtakssvæðinu (FATO) ef flugið er áætlað yfir þessari hæð eða í öðrum tilvikum upp í þá hæð þar sem klifri lýkur.

Flugvallarlágmörk / þyrluvallarlágmörk (Aerodrome /Heliport operating minima): Nothæfismörk flugvallar /þyrluvallar við:

  1. flugtak, gefin upp sem flugbrautarskyggni og/eða skyggni og, ef nauðsynlegt er, skýjafar,
  2. lendingu, þegar um er að ræða nákvæmnisaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/hæð (DA/H) eftir því sem við á fyrir starfrækslu samkvæmt viðkomandi flokki,
  3. lendingu, þegar um er að ræða aðflug og lendingu með leiðsögu í lóðréttum fleti, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og ákvörðunarflughæð/-hæð (DA/H), og
  4. lendingu, þegar um er að ræða grunnaðflug og lendingu, gefin upp sem skyggni og/eða flugbrautarskyggni og lágmarkslækkunarflughæð/-hæð (MDA/H) og, ef nauðsynlegt er, skýjafar.

Flugverji (Crew member): Áhafnarliði sem gegnir starfi um borð í loftfari meðan á fartíma stendur.

Flugvöllur (Aerodrome): Tiltekið svæði á láði eða legi, að meðtöldum byggingum og búnaði sem að nokkru eða öllu leyti er ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar loftfara á jörðu niðri.

Flugþjálfi (Synthetic flight trainer): Sameiginlegt heiti yfir tæki á jörðu þar sem líkt er eftir flugaðstæðum. Til þeirra teljast:

Flughermir (Flight simulator) sem gefur svo nákvæma mynd af stjórnrými tiltekinnar tegundar loftfars að stjórn vélrænna kerfa, rafmagns- og rafeindakerfa, svo og annarra kerfa, líkjast í raun því sem er í þessari tegund loftfars. Enn fremur líkjast umhverfi flugliða, getumörk loftfarsins og flugeiginleikar á sama hátt.

Flugaðferðarþjálfi (Flight procedures trainer) sem gefur raunhæfa mynd af stjórnrýmiþar sem líkja má eftir viðbrögðum mælitækja og stjórn á vélrænum kerfum, rafmagns- og rafeindakerfum, svo og öðrum kerfum, ásamt getumörkum og flugeiginleikum loftfars af tilteknum flokki.

Blindflugsþjálfi (Basic instrument flight trainer) sem búinn er viðeigandi mælitækjum til að líkja eftir aðstæðum í stjórnrými loftfars á flugi í blindflugsskilyrðum.

Flutningaflug (Commercial air transport operation): Starfræksla loftfars sem felur í sér flutninga á farþegum, vörum eða pósti gegn endurgjaldi.

Geðvirk efni (Psychoactive substances): Alkóhól, ópíumefni, kannabisefni, róandi lyf og svefnlyf, kókaín, önnur geðörvandi lyf, ofskynjunarlyf, rokgjörn leysiefni. Undanskilin eru kaffi og tóbak.

Hámarksmassi (Maximum mass): Leyfður hámarksflugtaksmassi loftfars.

Hámarksflugtaksmassi miðað við burðarþol (Maximum structural take off mass): Mesti leyfilegi heildarmassi flugvélar við upphaf flugtaksbruns.

Hættulegur varningur (Dangerous goods): Hlutir eða efni sem geta stofnað heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í hættu og sem er að finna í skránni yfir hættulegan varning í tæknilegu fyrirmælunum eða eru flokkuð í samræmi við þessi fyrirmæli.

Lágmarksflughæð yfir hindrun eða lágmarkshæð yfir hindrun (Obstacle clearance altitude (OCA) or Obstacle clearance height (OCH)): Minnsta flughæð eða minnsta hæð fyrir ofan landhæð viðkomandi þröskulds flugbrautar eða landhæð flugvallar eftir því sem við á, sem ákveðin er til að ná tilskildum aðskilnaði frá hindrunum

Lágmarkslækkunarflughæð eða lágmarkslækkunarhæð (Minimum descent altitude (MDA) or Minimum descent height (MDH)): Tiltekin flughæð/hæð sem ekki má fljúga niður fyrir í hringaðflugi eða grunnaðflugi nema nauðsynleg sýn sé til kennileita.

Lendingarþilfar (Helideck): Fljótandi þyrluvöllur eða þyrluvöllur staðsettur á mannvirki undan landi.

Loftfar (Aircraft): Sérhvert tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Lokaaðflugs- og flugtakssvæði (Final approach and take off area (FATO)): Tilgreint svæði þar sem aðflugi er lokið til að voka eða lenda og þaðan sem flugtak er hafið. Þar sem nota á þetta svæði fyrir þyrlur með afkastagetu samkvæmt 1. flokki innifelur tilgreinda svæðið tiltæka stöðvunarvegalengd.

Lóðrétt heildarskekkja (Total vertical error (TVE)): Lóðréttur rúmfræðilegur munur milli raunverulegrar málþrýstingshæðar, sem loftfar flýgur í, og heimilaðrar málþrýstingshæðar (fluglags).

Mannleg geta (Human performance): Mannleg geta og takmarkanir sem hafa áhrif á öryggi og skilvirkni í starfrækslu flugs.

Markhreyfill (Critical engine): Sá hreyfill sem hefði óhagstæðust áhrif á afkastagetu og stjórn loftfars ef hann yrði óvirkur.

Marköryggisstig (Target level of safety (TLS)): Almennt hugtak sem segir til um áhættustig sem telst viðunandi við tilteknar aðstæður.

Meginreglur mannþáttafræði (Human Factors principles): Meginreglur sem gilda um hönnun, vottun, þjálfun, rekstur og viðhald kerfa og miða að öruggri tengingu milli mannsins og annarra kerfisþátta með því að taka viðeigandi tillit til mannlegrar getu.

Nefstefnuvísir (Heading indicator): Flugmælir með snúðu sem sýnir breytingar á nefstefnu sem stillt var á, miðað við áttarhorn.

Neyðarsendir (ELT - Emergency locator transmitter): Almennt heiti á búnaði sem sendir greinileg merki á tíðnisviðum 406 MHz og 121,5 MHz og fer í gang sjálfvirkt við árekstur eða er settur handvirkt í gang eftir notkunargildi. Neyðarsendir getur verið af eftirfarandi gerðum:

Sjálfvirkur, fastur neyðarsendir (Automatic Fixed ELT (ELT(AF))): Sjálfvirkur neyðarsendir sem er festur á varanlegan hátt við loftfar.

Sjálfvirkur, beranlegur neyðarsendir (Automatic Portable ELT (ELT(AP))): Sjálfvirkur neyðarsendir sem er tryggilega festur við loftfar en hægt er að losa auðveldlega frá því.

Sjálfvirkur, sjálflosandi neyðarsendir (Automatic Deployable ELT (ELT(AD))): Neyðarsendir sem er tryggilega festur við loftfar og sem losnar sjálfvirkt frá loftfari og fer í gang við árekstur og í sumum tilvikum við snertingu við vatn. Einnig er hægt að setja hann í gang handvirkt.

Neyðarsendir fyrir þá sem komast af (Survival ELT (ELT(S))): Neyðarsendir sem hægt er að losa úr loftfari og er þannig fyrirkomið að hann er auðveldlega tiltækur í neyð og þeir sem komast lífs af geta notað hann handvirkt.

Nótt (Night): Tíminn á milli loka ljósaskipta að kvöldi og að upphafi ljósaskipta að morgni. Ljósaskipti enda að kvöldi þegar miðpunktur sólar er 6° fyrir neðan sjóndeildarhring og hefjast að morgni þegar miðpunktur sólar er 6° fyrir neðan sjóndeildarhring eða annað slíkt tímabil milli sólseturs og sólarupprásar sem Flugmálastjórn Íslands kann að mæla fyrir um.

Ótryggt umhverfi (Hostile environment):

  1. Umhverfi þar sem ekki er hægt að nauðlenda með öruggum hætti vegna þess að aðstæður á yfirborði og í næsta nágrenni eru ófullnægjandi eða
  2. ekki er hægt að verja þá sem um borð eru í þyrlunni gegn náttúruöflunum eða
  3. leitar- og björgunarþjónusta getur ekki látið í té nauðsynlega þjónustu fyrir þær neyðaraðstæður sem búast má við eða
  4. það er óásættanleg áhætta á að stofna fólki eða eignum á jörðu niðri í hættu.

Rekstraraðili (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem starfrækir eða býðst til að starfrækja loftfar. Í flutningaflugi nefnist rekstraraðili flugrekandi enda byggist heimild hans til rekstursins á flugrekandaskírteini.

RNP-flokkur (RNP type): Afmörkunargildi, gefið upp sem fjarlægð í sjómílum frá áætluðum ferli þar sem loftfarið er innan þeirra marka a.m.k. 95% af heildarflugtímanum. Dæmi: RNP-4 sýnir nákvæmni í leiðsögu sem er plús eða mínus 4 sjómílur (7,4 km) með 95% öryggi.

Sjónflug (VFR flight): Flug samkvæmt sjónflugsreglum.

Sjónflugsskilyrði (Visual meteorological conditions (VMC)): Veðurskilyrði sem eru tilgreind sem skyggni, fjarlægð frá skýjum og sem skýjaþekjuhæð og eru jafngóð eða betri en tilgreind lágmörk.

Skilgreind öryggismörk eftir flugtak (Defined point after take off (DPATO)): Þau mörk á flugtaki og frumklifurstigi sem þyrla þarf að hafa náð til að geta haldið áfram öruggu flugi með markhreyfil óvirkan. Fyrir þau mörk er öruggt flug ekki tryggt í slíku tilfelli og nauðlending gæti reynst nauðsynleg.

Skilgreind öryggismörk fyrir lendingu (Defined point before landing (DPBL)): Þau mörk á aðflugi og lendingarstigi þar sem ekki er tryggt að þyrla sem er komin niður fyrir þau mörk geti haldið áfram öruggu flugi með markhreyfil óvirkan og nauðlending gæti reynst nauðsynleg.

Skekkja í hæðarmælingarkerfi (Altimetry system error (ASE)): Munurinn á milli flughæðar sem hæðarmælir sýnir, að því gefnu að loftþrýstingsstillingin á hæðarmælinum sé rétt, og þeirrar málþrýstingshæðar sem svarar til ótruflaðs umhverfisþrýstings.

Skráningarríki (State of registry): Ríkið sem hefur hlutaðeigandi loftfar á loftfaraskrá sinni.

Skýjaþekjuhæð (Cloud base height): Hæð lægstu skýjabotna (sem þekja 4/8 hluta himins eða meira) sem sýnilegir eru eða sem spáð er nálægt flugvöllum eða þyrluvöllum eða á sérstökum starfrækslusvæðum. Skýjaþekjuhæð er venjulega mæld frá hæð flugvallar en í starfrækslu undan landi er hún mæld frá meðalsjávarmáli. Skýjaþekjuhæð er einnig notað um skýjahæð þ.e. hæð lægstu skýjabotna óháð magni (Veðurstofa).

Tilskildar kröfur um nákvæmni í leiðsögu (Required navigation performance (RNP) specification): Lýsing á þeirri nákvæmni leiðsögu sem er nauðsynleg fyrir starfrækslu í skilgreindu loftrými.

Upplýstur flugvöllur: Flugvöllur með föst brautarljós sem loga.

Varaþyrluvöllur (Alternate heliport): Þyrluvöllur sem fljúga má þyrlu til þegar ógerlegt eða óráðlagt er að lenda á ákvörðunarstað.

Veðurupplýsingar (Meterological information): Veðurskeyti, veðurgreiningar, veðurspár og hvers konar lýsing um ríkjandi eða væntanleg veðurskilyrði.

Veðurfræðilegt stjórnvald (Meterological Authority): Í skilningi reglugerðar þessarar er Flugmálastjórn Íslands veðurfræðilegt stjórnvald sem tryggir, fyrir hönd Íslands, að veðurþjónusta sé veitt fyrir flugleiðsögu.

Vendimörk (PNR, point of no return): Síðasta staða á flugleið áður en það eldsneyti þrýtur sem þyrfti til að komast til baka með lágmarksvaraeldsneyti.

Viðgerð (Repair): Lagfæring á framleiðsluvöru til flugs, eftir að hún hefur skemmst eða slitnað, til að koma henni aftur í lofthæft ástand í því skyni að tryggja að loftfarið uppfylli áfram hönnunarþætti viðeigandi lofthæfikrafna sem lagðar voru til grundvallar útgáfu tegundarvottorðs fyrir viðkomandi tegund loftfars.

Viðhald (Maintenance): Framkvæmd verka sem nauðsynleg eru til að tryggja áframhaldandi lofthæfi loftfars, þ.m.t. hvert eftirfarandi atriða eitt sér eða sambland þeirra: grannskoðun, skoðun, endurnýjun, lagfæring galla og framkvæmd á breytingum eða viðgerðum.

Viðhaldsáætlun (Maintenance programme): Skjal þar sem lýst er tiltekinni, reglubundinni viðhaldsvinnu, hversu oft hún er unnin og tengdum verklagsreglum, t.d. áreiðanleikaáætlun, sem þarf fyrir örugga starfrækslu þeirra loftfara sem skjalið gildir um.

Viðhaldsvottorð (Maintenance release): Skjal sem inniheldur vottun sem staðfestir að viðhaldsvinnunni, sem það vísar til, hafi verið lokið á fullnægjandi hátt, annaðhvort í samræmi við samþykkt gögn og verklagsreglur, sem lýst er í handbók um verklagsreglur viðhaldsfyrirtækisins, eða samkvæmt sambærilegu kerfi.

Þéttbýlt svæði (Congested area): Sérhvert svæði sem tengist borg, bæ eða byggð sem er einkanlega notað til íbúðar, viðskipta eða frístunda.

Þyrla (Helicopter): Loftfar þyngra en loft sem helst á flugi aðallega vegna verkana loftsins á einn eða fleiri hreyfilknúinna þyrla er snúast um ása sem haldast nokkurn veginn lóðréttir í láréttu flugi.

Þyrluvöllur (Heliport): Flugvöllur eða afmarkað svæði á mannvirki eingöngu eða að hluta til ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar þyrlu á jörðu niðri.

Þyrluvöllur á upphækkun (Elevated heliport): Þyrluvöllur sem er a.m.k. 3 metrum yfir umhverfinu.

Þyrluþilfar (Helideck): Þyrluþilfar á mannvirki undan landi (tilgreint svæði útbúið fyrir flugtak og lendingu þyrlna á mannvirki undan landi).

Þyrluþilfar á skipi (Shipboard helideck (shipboard heliport)): Þyrluþilfar um borð í skipi (tilgreint svæði á þilfari skips sem er útbúið og ætlað fyrir lendingu og flugtak þyrlna).

Örugg nauðlending (Safe forced landing): Nauðlending á landi eða sjó þar sem með sæmilegri vissu má reikna með að engin slys verði á mönnum í loftfarinu eða á jörðu niðri.

Öryggishraði (VTOSS): Öryggishraði í flugtaki fyrir þyrlur sem eru vottaðar í A-flokki, sjá fylgiskjal A í viðauka II við reglugerð þessa.

Öryggismörk, sjá skilgreind öryggismörk.

Öryggistygi (Safety harness): Axla- og sætisólar sem nota má hvorar í sínu lagi, til þess að festa flugáhöfn eða farþega í sæti sínu.

4. gr. Sérstök starfræksla þyrlna.

Sérstök starfræksla þyrlna, t.d. flug í skertu skyggni (CAT II/III) og flutningur á hættulegum varningi er háð leyfi Flugmálastjórnar Íslands.

5. gr. Undanþáguheimild.

Flugmálastjórn Íslands getur veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar reglugerðar, enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar.

6. gr. Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

7. gr. Viðaukar.

Viðaukar I og II fylgja reglugerðinni og eru hluti hennar.

8. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi sá hluti viðauka nr. 6 við Chicago-samninginn um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) er snýr að almannaflugi þyrlna. Viðauki I við reglugerð þessa, um kröfur til þyrlna í almannaflugi byggir að miklu leyti á köflum 1 til 7 í þætti III, í III. hluta viðauka 6 (International Operations - Helecopters) við Chicago-samninginn.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 28. gr. ee., sbr. og 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi að undanskilinni grein 6.4 í viðauka I við reglugerðina sem tekur gildi 1. janúar 20152016.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.