Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 1. sept. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 9. sept. 2010 – 1. des. 2017 Sjá núgildandi

693/2010

Reglugerð um kröfur um samræmda úthlutun og notkun á spurnarkóðum kögunarsvarratsjár fyrir samevrópska loftrýmið.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um kröfur varðandi samræmda úthlutun og notkun spurnarkóða sem nota S-starfshátt svo starfrækja megi örugga og skilvirka kögun fyrir flugumferð.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um spyrjendur sem nota S-starfshátt og uppfylla viðeigandi skilyrði og tengd kögunarkerfi, kerfishluta þeirra og tengdar verklagsreglur þegar þær styðja samræmda úthlutun og notkun spurnarkóða sem uppfylla viðeigandi skilyrði.

3. gr. Orðskýringar.

Vísað er til frekari orða og orðskýringa en hér greinir í reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007, með síðari breytingum.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Rammareglugerðin (Framework Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði. Sjá fylgiskjal II með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Rekstrarsamhæfisreglugerðin (Interoperability Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar. Sjá fylgiskjal V með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

4. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 262/2009 frá 30. mars 2009 um kröfur um samræmda úthlutun og notkun á spurnarkóðum kögunarsvarratsjár (Mode S) fyrir samevrópska loftrýmið, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 108/2009 frá 22. október 2009. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 39, 15. júlí 2010, bls. 723.

5. gr. Lögbært yfirvald og framkvæmd.

Flugmálastjórn Íslands telst lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari og sér um framkvæmd hennar.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 57. gr. a, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 13. ágúst 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.