Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. des. 2020

690/2020

Reglugerð um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna.

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Gildissvið.

Eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari skal á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem:

  1. byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað,
  2. eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess,
  3. byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess,
  4. eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess,
  5. eigendur eða leigjendur, þar á meðal húsfélög, hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis,
  6. einstaklingar hafa greitt af vinnu manna vegna bílaviðgerðar, bílamálunar eða bílaréttingar fólksbifreiða í þeirra eigu sem eru ekki að neinu leyti nýttar í atvinnurekstri þeirra eða sjálfstæðri starfsemi,
  7. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, heildarsamtök á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambönd, björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstaka félagseiningar þeirra, félög og félagasamtök sem sinna æskulýðsmálum og þjóðkirkjan, þjóðkirkjusöfnuðir og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra,
  8. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, heildarsamtök á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambönd, björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstaka félagseiningar þeirra, félög og félagasamtök sem sinna æskulýðsmálum og þjóðkirkjan, þjóðkirkjusöfnuðir og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög hafa greitt vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra,
  9. sveitarfélög eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur eða viðhald á öðru húsnæði sem alfarið er í eigu þeirra, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Vinna manna skv. 1. mgr. skal vera innt af hendi innan tímabilsins 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Gæta skal að ákvæðum um tímamörk útgáfu reiknings skv. 1. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

2. gr. Skilgreiningar/orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Annað húsnæði: Húsnæði í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, annað en íbúðar- og frístundahúsnæði. Um er að ræða hús, þ.e. byggingu með veggjum og þaki, eða hluta húss, sem er varanlega skeytt við land, er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og ætlað til nota í starfsemi aðila skv. 1. málsl., t.d. íþróttahús, áhaldahús eða vörugeymsla. Hér undir falla því ekki önnur mannvirki, s.s. skýli, umferðar- og göngubrýr, dreifi- og flutningskerfi veitufyrirtækja, útisvæði sundlauga og annarra íþróttamannvirkja, sem ekki teljast til húsnæðis.

Björgunarsveit: Félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 43/2003, um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn.

Byggingarframkvæmdir: Framkvæmdir samkvæmt lögum nr. 160/2010, um mannvirki, á byggingarstað við byggingu, viðhald og endurbætur íbúðar- og frístundahúsnæðis og annarra mannvirkja sem falla undir ákvæði reglugerðar þessarar og frágang á byggingarstað.

Byggingarstaður: Hver sá verkstaður, s.s. byggingarlóð, þar sem framkvæmdir fara fram við byggingu, viðhald eða endurbætur á íbúðar- og frístundahúsnæði eða öðrum mannvirkjum sem falla undir ákvæði reglugerðar þessarar.

Byggjandi: Aðili sem stendur fyrir byggingarframkvæmdum á eigin kostnað, þ.e. hefur með höndum byggingarframkvæmdir á eigin lóð eða leigulóð, hvort sem hann hyggst selja fasteignina, leigja hana eða taka til eigin nota.

Eftirlit: Eftirlit og skoðun sérfræðinga, t.a.m. byggingarstjóra, verkfræðinga, tæknifræðinga og annarra sambærilegra sérfræðinga, með byggingarframkvæmdum, endurbótum eða viðhaldi, jafnt við undirbúning framkvæmda, á verktíma þeirra eða við eftirfylgni.

Fólksbifreið:Bifreið sem aðallega er ætluð til fólksflutninga og gerð er fyrir 8 farþega eða færri, sbr. lið 01.11 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, og er skráð sem fólksbifreið (M1) í ökutækjaskrá. Hér undir fellur m.a. fólksbifreið sem er sérútbúin fyrir hreyfihamlaða og húsbifreið, sbr. liði 01.101 og 01.209 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004.

Frístundahúsnæði: Húsnæði eins og það er skilgreint í 2. tölul. 2. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, og skráð sem frístundahús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Heildarsamtök á sviði íþrótta: Yfirsamtök eða önnur heildarsamtök í skipulögðu íþróttastarfi, samkvæmt íþróttalögum nr. 64/1998, svo sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband fatlaðra. Hér undir fellur einnig Skáksamband Íslands og Bridgesamband Íslands.

Heimilisaðstoð: Öll þjónusta sem veitt er innan séreignar íbúðarhúsnæðis, svo sem ræsting, önnur þrif o.fl.

Hönnun:Undirbúningur fyrir eða samhliða byggingu, endurbótum eða viðhaldi á íbúðar- og frístundahúsnæði og mannvirki. Hér undir fellur t.a.m. kostnaður vegna hönnunar aðaluppdrátta eða séruppdrátta, sbr. 11. og 16. tölul. 3. gr., laga nr. 160/2010, um mannvirki, vinna arkitekta, verkfræðinga, tæknifræðinga og annarra sérfræðinga, þó ekki kostnaður við gerð deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010 eða önnur skipulagsvinna eða undirbúningur lands til byggingaframkvæmda.

Íbúðarhúsnæði: Húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði. Í því felst að húsnæðið sé ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tíma árs, það sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, nýtt sem íbúðarhúsnæði og geti gengið kaupum og sölum sem slíkt.

Íþróttafélag: Félag sem hefur með höndum íþróttastarfsemi í skilningi 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ver hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hefur það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Með íþróttastarfsemi er átt við hvers konar líkamlega þjálfun sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands, en er þó ekki bundin við að íþróttin sé stunduð á vegum þeirra samtaka.

Mannúðar- og líknarfélag: Félag sem hefur með höndum mannúðar- og líknarstarfsemi, hefur þann eina tilgang samkvæmt samþykktum sínum og hefur ekki hagnað að meginmarkmiði.

Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð sem fellur undir 12. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, þó ekki íbúðar- og frístundahúsnæði og er skráð sem sérstakur matshluti samkvæmt sérstöku fastanúmeri í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis: Þjónusta sem veitt er utan veggja séreignar íbúðareiganda eða leigjanda í eða við íbúðarhúsnæði, s.s. ræsting sameignar, garðsláttur, trjáklippingar eða önnur garðvinna og önnur regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis.

Trú- og lífsskoðunarfélag: Félag sem fellur undir lög nr. 108/1999, um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og á rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti skv. 1. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.

Æskulýðsmál: Æskulýðsstarf, þ.e. skipulögð félags- og tómstundastarfsemi félaga eða félagasamtaka samkvæmt æskulýðslögum nr. 70/2007 sem félög eða félagasamtök sinna á frjálsum áhugmannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjármögnun.

II. KAFLI Skilyrði fyrir endurgreiðslu o.fl.

3. gr. Almenn skilyrði.

Skilyrði endurgreiðslu skv. 1. mgr. 1. gr. eru eftirfarandi:

  1. Að umsækjandi hafi ekki heimild til að telja þann virðisaukaskatt, sem tilgreindur er á umsókn, til innskatts í virðisaukaskattsskyldri starfsemi sinni skv. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, þ.m.t. samkvæmt reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og reglugerð, nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.
  2. Að seljandi þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.

4. gr. Sérstök skilyrði.

  1. Skilyrði endurgreiðslu skv. f-lið 1. mgr. 1. gr. eru eftirfarandi:

    1. Að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda eða að umsækjandi sé skráður umráðamaður viðkomandi bifreiðar samkvæmt eignaleigusamningi.
    2. Að fjárhæð vinnuliðar á reikningi sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts.
    3. Að umsækjandi sé greiðandi fyrir veitta þjónustu og móttakandi hennar samkvæmt sölureikningi.
    4. Að bifreið sem sótt er um endurgreiðslu fyrir sé ekki að neinu leyti nýtt í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi umsækjanda.
  2. Skilyrði endurgreiðslu skv. g-h liðum 1. mgr. 1. gr. eru eftirfarandi:

    1. Að mannvirki, eða sérgreindur matshluti þess, sem umsókn tekur til sé samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands alfarið í eigu eins eða fleiri umsækjenda sem uppfylla skilyrði til endurgreiðslu skv. g-h liðum 1. mgr. 1. gr. Þrátt fyrir 1. málsl. er endurgreiðsla heimil ef fyrir liggur fullgildur kaupsamningur um viðkomandi mannvirki, eða sérgreindan matshluta þess, og umsækjandi hefur fengið það afhent á grundvelli hans.
    2. Að mannvirki, eða sérgreindur matshluti þess, sem umsókn tekur til sé að yfirgnæfandi hluta nýtt í þágu skilgreindrar meginstarfsemi umsækjanda sem falla undir g-h liði 1. mgr. 1. gr. samkvæmt samþykktum þeirra. Tilfallandi sala á aðstöðu til samkomu-, ráðstefnu- eða sýningarhalds girðir þó ekki fyrir rétt til endurgreiðslu.
    3. Að umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
    4. Að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til stafi ekki af kostnaði vegna lögbundinna skyldna opinberra aðila, svo sem lögmæltra verkefna ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
    5. Að samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar sé ekki hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
    6. Að umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðisaukaskattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu.
    7. Að umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda.

5. gr. Virðisaukaskattur sem telst ekki endurgreiðsluhæfur.

Virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af eftirtöldu:

  1. Vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá íbúðar- og frístundahúsnæði eða mannvirki.
  2. Vinnu við sameiginlegar framkvæmdir á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð, s.s. vegaframkvæmdir, lagningu girðingar umhverfis frístundabyggð o.fl. hliðstæðar framkvæmdir.
  3. Vinnu stjórnenda skráningarskyldra ökutækja, stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað.
  4. Vinnu sem unnin er á verkstæði, þó ekki vinnu á verkstæði skv. f-lið 1. mgr. 1. gr.
  5. Vinnu sem unnin er með vélum sem settar eru upp á byggingarstað til aðvinnslu á vöru eða efni til byggingar, viðhalds eða endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði eða mannvirki ef þessi vinna er að jafnaði unnin á verkstæði eða í verksmiðju.
  6. Reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, s.s. ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.
  7. Ástandsskoðun fasteigna, matsgerðum og gerð útboðsgagna.
  8. Gerð deiliskipulags.

6. gr. Leiðrétting endurgreiðslna vegna mannvirkja.

Verði breyting á forsendum endurgreiðslu vegna mannvirkja, sbr. g-h liði 1. mgr. 1. gr., innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt og/eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans, skal umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endurgreiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis.

Við leiðréttingu skv. 1. mgr. skal framreikna þá fjárhæð sem endurgreidd var miðað við annars vegar byggingarvísitölu við lok þess endurgreiðslutímabils sem umsókn tók til og hins vegar byggingarvísitölu við lok þess endurgreiðslutímabils þegar forsendubreyting á sér stað.

Framreiknaða fjárhæð endurgreiðslu skv. 2. mgr., skal leiðrétta um 90% á næsta ári á eftir því ári sem framkvæmd fór fram, um 80% á þar næsta ári og lækka svo um 10% árlega eftir það. Verði forsendubreyting á fyrsta almanaksári skal leiðrétta fjárhæð endurgreiðslu um 98,33% á næsta endurgreiðslutímabili á eftir því endurgreiðslutímabili sem framkvæmd fór fram og lækkar fjárhæð leiðréttingar um 1,67% á hverju endurgreiðslutímabili eftir það.

Við kaup mannvirkis getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva tímabils skv. 1. mgr. falli hann undir þá starfsemi sem talin er upp í g-lið, sbr. h-lið, 1. mgr. 1. gr. þegar kaupin eiga sér stað. Yfirtaki kaupandi leiðréttingarskyldu skulu seljandi og kaupandi sameiginlega tilkynna til Skattsins um yfirtökuna innan átta daga frá því að viðskiptin áttu sér stað. Í tilkynningu skal tilgreina fjárhæð endurgreiðslu sem leiðréttingarskyldan tekur til ásamt útreikningi, sbr. 2. og 3. mgr. þessarar greinar.

Um skilyrði og framkvæmd leiðréttingarskyldu gilda að öðru leyti ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, eftir því sem við á.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

7. gr. Kæruleið.

Ákvörðun um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari er kæranleg til yfirskattanefndar skv. 2. mgr. 43. gr. A laga nr. 50/1988, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Kærufrestur er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

8. gr.

Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari, s.s. um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu, endurgreiðslutímabil o.fl., gilda ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, eftir því sem við á.

9. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXIII og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXIV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 49. gr. sömu laga, og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.