Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 16. júlí 2008
Sýnir breytingar gerðar 16. júlí 2008 af rg.nr. 696/2008

685/2008

Reglugerð um viðmiðun ISN2004, grunnstöðvanet og mælistöðvar til notkunar við landmælingar og kortagerð.

I. KAFLI Markmið.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að viðhalda og staðfesta staðla landshnitakerfis fyrir landmælingar og kortagerð á Íslandi og tryggja þannig sameiginlega viðmiðun og hnitakerfi fyrir landið allt. Jafnframt er markmiðið að auðvelda öll samskipti og samvinnu um kort og landfræðileg gögn er tengjast m.a. verklegum framkvæmdum, skipulagi og landupplýsingakerfum.

2. gr.

Landmælingar Íslands annast innleiðingu viðmiðana og staðla um landmælingar og kortagerð og leiðbeiningar um notkun þeirra. Stofnunin leggur út hnitakerfi fyrir landið allt og sér um að tryggja viðhald og nákvæmni mælistöðva í grunnstöðvanetinu.

Stofnunin skal hafa tiltækar grunnupplýsingar um hnitakerfi og mælingar sem til eru af hinum ýmsu stöðum á landinu. Stofnunin skal einnig hafa upplýsingar um hver hafi framkvæmt mælingu, áreiðanleika þeirra og aðgengi.

II. KAFLI Viðmiðun ISN2004.

3. gr.

Viðmiðun ISN2004 ákvarðast af eftirfarandi:

1. Jarðmiðjukerfinu IGb00, tími 2004.6. Z-ás kerfisins fellur saman við snúningsás jarðar, en X- og Y-ásarnir spanna miðbaugsflötinn. X-ásinn liggur í fleti Greenwich hádegisbaugsins, en Y-ásinn hornrétt á X-ásinn til austurs.

2. Sporvölunni GRS-80 (sporvalan er hluti af alþjóðlegum staðli, Geodetic ReferenceSystem 1980). Kennistærðir sporvölunnar eru eftirfarandi:

  1. Hálfur langás, a = 6.378.137 m
  2. Þyngdarstuðull jarðar miðað við jarðarmiðju, GM = 3986005·108 ·m3 ·s-2
  3. Meðal hornhraði jarðar, ω = 7292115·10-11·rad·s-1
  4. Pólfletja sporvölunnar, f = 1/298,257222101.

3. Niðurstöðum GPS-mælinga árið 2004 á grunnstöðvaneti 147 mælistöðva (ISNET2004), 3. sbr. 5. gr.

4. gr.

Landshnitakerfið, sbr. 9. gr., hefur viðmiðunina ISN2004, sbr. 3. gr., og kemur hún í stað viðmiðunarinnar ÍSN93.

III. KAFLI Grunnstöðvanet.

5. gr.

Grunnstöðvanetið samanstendur af 147 mælistöðvum, sem mældar voru árið 2004 í landmælingaverkefninu ISNET2004, sbr. fylgiskjöl 1 og 2 með reglugerð þessari.

6. gr.

Landmælingar Íslands skulu sjá um viðhald og eftirlit með grunnstöðvanetinu. Skal stofnunin sjá um endurmælingu stöðva eftir því sem ástæða er til. Verði höggun á landi eða landshlutum skal sá hluti netsins sem höggunin tekur til mældur að nýju með viðeigandi mæliaðferðum og tækjabúnaði eins fljótt og aðstæður leyfa.

7. gr.

Endurmæla skal grunnstöðvanetið í heild sinni eigi sjaldnar en á 10 ára fresti.

8. gr.

Þurfi að færa til og endurmerkja mælistöð í grunnstöðvanetinu eða fjarlægja hana skal það gert undir stjórn Landmælinga Íslands.

9. gr.

Við kortagerð er almennt notað hnitakerfi á hornsannri keiluvörpun Lamberts, þar sem mælikvarðinn er einn á breiddarbaugunum 64°15' og 65°45' norður breiddar. Ásar hnita-kerfisins eru nefndir austurás og norðurás. Norðurásinn liggur til norðurs eftir lengdarbaug 19° vestur lengdar, en austurásinn hornrétt á norðurásinn til austurs við 65° norður breiddar. Skurðpunktur ásanna hefur hnitin austur = 700.0001.700.000 metrar og norður = 300.000 metrar. Hnit skulu birt með austurhnitum á undan norðurhnitum. Stefna er mæld og reiknuð réttsælis frá norðri til austurs.

IV. KAFLI Mælistöðvar tengdar grunnstöðvaneti.

10. gr.

Mælistöðvar tengdar grunnstöðvanetinu skulu vera varanlegar, svo sem stöpull eða málmbolti úr ryðfríu efni. Skulu þær merktar greinilega með númeri, ártali og einkennis-stöfum stofnunar eða fyrirtækis sem framkvæmir verkið sbr. 14. gr.

11. gr.

Innmæling á nýjum og gömlum punktum út frá grunnstöðvanetinu skal eigi hafa meira staðalfrávik en tveir sentimetrar til eða frá (+/- 2 sm) í legu og þrír sentimetrar til eða frá (+/- 3 sm) í hæð.

12. gr.

Endurmerkja skal mælistöð þegar eldri merking hefur verið færð til, raskast eða glatast. Endurmerkingu má aðeins framkvæma með samþykki þeirrar stofnunar eða fyrirtækis, sem upphaflega merkti mælistöðina.

Landmælingum Íslands skal tilkynnt um endurmerkinguna og afhent öll gögn þar að lútandi til skráningar (mælingar, úrvinnsla og stöðvarlýsing).

13. gr.

Ef mælistöð er endurmerkt skal hún fá nýtt nafn sbr. 14. gr. í samræmdu númerakerfi Landmælinga Íslands.

14. gr.

Nafn mælistöðva má vera allt að átta stöfum. Skulu tveir einkennisstafir þess aðila sem setur upp stöðina vera fremst og síðan allt að sex stafa tala. Seinni hluti nafnsins má þó þegar sérstaklega stendur á vera allt að átta stafa. Hafa skal samráð við Landmælingar Íslands um notkun einkennisstafa.

15. gr.

Gera skal lýsingu á mælistöð þegar hún er sett upp. Skal hún vera glögg og greinargóð þannig að hægt sé á auðveldan hátt að finna stöðina og meta notkunarmöguleika hennar. Stöðvarlýsingu skal halda við og breyta jafnóðum ef ástæða er til, svo sem vegna breytinga á leið að mælistöð eða næsta nágrenni hennar.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr.

Landmælingar Íslands skulu veita nánari upplýsingar og leiðbeiningar um eldri landskerfi, grunnstöðvanetið, viðmiðun ISN2004, stöðvarlýsingar, svo og um önnur atriði sem reglugerð þessi fjallar um.

17. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 9. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur þá úr gildi reglugerð nr. 919/1999 um viðmiðun ÍSN93, grunnstöðvanet og mælistöðvar til notkunar við landmælingar og kortagerð.

 Umhverfisráðuneytinu, 27. júní 2008. 

 Þórunn Sveinbjarnardóttir. 

 Magnús Jóhannesson. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.