Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 6. apríl 2025

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 29. maí 2020 – 29. maí 2021 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 29. maí 2020 af rg.nr. 512/2020

680/2004

Reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Tilgangur.

Tilgangur reglugerðarinnar er að bæta öryggi til sjós, vinnuskilyrði og heilbrigði og öryggi skipverja á íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum og erlendum farþegaskipum og flutningaskipum sem fara um íslenskar hafnir.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum sem skráð eru á íslenska skipaskrá. Skip sem er skráð í tveimur ríkjum telst skráð í fánaríkinu. Samgöngustofa sker úr ef ágreiningur er um hvort skip eða tilteknir hópar einstaklinga skuli teljast til skipverja að höfðu samráði við samtök útgerða og farmanna sem málið varðar. Að því er varðar ágreining um hvort tilteknir hópar einstaklinga skuli teljast til skipverja skal taka tilhlýðilegt tillit til ályktunar 94. fundar (um siglingar) allsherjarþings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um upplýsingar um starfsgreinahópa.

Ákvæði þessarar reglugerðar taka til erlendra farþegaskipa og flutningaskipa þegar þau fara um íslenskar hafnir.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkja eftirfarandi hugtök:

a) Vinnutími: Sá tími sem skipverja er skylt að vinna um borð.
b) Hvíldartími: Tími sem telst ekki til vinnutíma. Það telst ekki til hvíldartíma þegar stutt hlé er gert á vinnu.
c) Farþegaskip: Hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem getur flutt fleiri en 12 farþega til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
d) Flutningaskip: hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, er siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
e) Skipverji: Sérhver einstaklingur sem ráðinn er til starfa eða vinnur á skipi, sem reglugerð þessi tekur til.
f) Kvörtun: Allar upplýsingar eða skýrsla frá meðlimi áhafnar, fagfélagi, eða samtökum, stéttarfélagi eða almennt hverjum þeim einstaklingi sem hefur áhuga á öryggi skipsins, einkum því sem lýtur að öryggi eða heilsu áhafnarinnar.
g) Skipverji sem vinnur næturvinnu: Skipverji sem vinnur að lágmarki 3 klukkustundir af sínum daglega vinnutíma í næturvinnu eða sem ætlast er til að vinni að lágmarki 25% af sínum árlega vinnutíma í næturvinnu.
h) Útgerðarmaður: Eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri, umboðsmaður eða skipamiðlari þurrleiguskipa, sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins úr höndum eiganda, og sem hefur með því að taka þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem eru lagðar á skipaeigendur í samræmi við þessa reglugerð, án tillits til þess hvort einhverjar aðrar stofnanir eða einstaklingar uppfylla tilteknar skyldur eða ábyrgð fyrir hönd skipaeigandans.
i) Skoðunarmaður: Starfsmaður Samgöngustofunar sem annast eftirlit með ákvæðum reglugerðar þessarar.

II. KAFLI Íslensk farþegaskip og flutningaskip.

4. gr. Lágmarksaldur.

Enginn undir 16 ára aldri skal vinna um borð í skipi sem fellur undir reglugerð þessa.

5. gr. Vinnu- og hvíldartími.

Venjulegur vinnutími skipverja skal, að meginreglu til, ekki vera lengri en 48 klst. á viku, einn frídagur í viku og frí á lögboðnum frídögum, nema annað sé ákveðið í kjarasamningum.

Mörk vinnu- og hvíldartíma skulu vera annaðhvort:

* hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 72 klst. á hverju 7 daga tímabili eða
* lágmarkshvíldartími sem skal að lágmarki vera 10 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 77 klst. á hverju 7 daga tímabili.

Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri en tvö tímabil og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. Tímabilið milli tveggja hvíldartíma má ekki vera lengra en 14 klst.

Með kjarasamningum er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. og 3. mgr. vegna hlutlægra og tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna og tekið er mið af örari eða lengri fríum eða veitt uppbótarfrí fyrir skipverja sem vinna á vöktum eða um borð í skipum sem eru í stuttum ferðum.

Nafnakall, eldvarnar- og björgunaræfingar, sem mælt er fyrir um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum, skulu fara fram með þeim hætti að hvíldartími raskist eins lítið og hægt er og þannig að þær valdi ekki þreytu.

Þegar skipverji er á bakvakt, t.d. þegar vélarúm er ómannað, skal hann ef venjulegum hvíldartíma er raskað með útkalli fá samfellda viðbótarhvíld í staðinn.

6. gr. Neyðartilvik.

Skipstjóri á skipi getur krafist þess að skipverji vinni þá tíma sem nauðsynlegir eru vegna öryggis skipsins á þeirri stundu, skipverja um borð, farms, annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að veita aðstoð öðrum skipum eða skipverjum í nauð á hafi úti.

Í slíkum tilvikum getur skipstjóri vikið frá skipulagi vinnu- eða hvíldartíma og krafist þess að skipverji vinni þann tíma sem nauðsynlegur er þar til ástandið er orðið eðlilegt aftur.

Skipstjóri skal tryggja eins fljótt og auðið er eftir að ástandið er orðið eðlilegt aftur að skipverji, sem hefur sinnt störfum í fyrirfram ákveðnum hvíldartíma sínum, fái næga hvíld.

7. gr. Árlegt orlof.

Allir skipverjar skulu eiga rétt á að minnsta kosti fjögurra vikna árlegu orlofi á launum, eða hlutfalli þar af fyrir starfstíma sem er skemmri en ár, í samræmi við viðmiðunarreglur um rétt til, og veitingu slíks orlofs sem mælt er fyrir um í lögum.

Greiðsla má ekki koma í stað árlegs lágmarksorlofs á launum, nema þegar um starfslok er að ræða.

8. gr. Næturvinna.

Næturvinna skipverja undir 18 ára aldri er bönnuð. Að því er varðar þetta ákvæði er "nótt" tímabil sem varir í a.m.k. níu samfelldar klukkustundur sem hefst eigi síðar en á miðnætti og sem lýkur eigi fyrr en klukkan fimm að morgni.

Samgöngustofa getur veitt heimild frá ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar í eftirtöldum tilvikum:

  1. þegar slíkt getur truflað árangursríka starfsþjálfun viðkomandi skipverja í samræmi við viðurkennt nám og áætlanir eða
  2. þegar sérstakt eðli skyldustarfs eða viðurkenndrar námsáætlunar krefst þess að skipverjar, sem undanþágan á við um, vinni skyldustörf að næturlagi og Samgöngustofa ákvarðar, að höfðu samráði við viðkomandi samtök skipaeigenda og skipverja, að vinnan sé ekki skaðleg heilbrigði þeirra eða vellíðan.

Ráðning, starf eða vinna farmanna undir 18 ára aldri er óheimil ef starfið er líklegt til að stofna heilbrigði þeirra eða öryggi í hættu. Samgöngustofa skilgreinir hvaða störf eru líkleg til að stofna heilbrigði eða öryggi í hættu að höfðu samráði við viðkomandi samtök útgerða og skipverja, í samræmi við viðeigandi alþjóðlega staðla.

9. gr. Skoðun.

Samgöngustofa skal hafa eftirlit með að fylgt sé ákvæðum þessarar reglugerðar í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum og getur skoðunarmaður hvenær sem er farið um borð og krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa slíkt eftirlit. Stofnunin getur falið öðrum viðurkenndum aðilum framkvæmd eftirlitsins. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga um eftirlit með skipum og reglum settum skv. þeim.

10. gr. Tafla yfir vinnutíma.

Á aðgengilegum stað um borð skal vera tafla, á því tungumáli eða þeim tungumálum sem notað/notuð eru við vinnu um borð og á ensku, sbr. fyrirmynd í I. viðauka með reglugerð þessari, sem hefur að geyma upplýsingar um skipulag vinnutíma um borð og þar sem birt er að minnsta kosti fyrir hverja stöðu:

a) áætlun um vinnuskyldu á sjó og í höfnum, og
b) hámarksvinnutími eða lágmarkshvíldartími sem krafist er í lögum, reglum eða kjarasamningum sem í gildi eru í fánaríki skipsins.

Á hverjum degi skal færa upplýsingar um daglegan vinnutíma eða daglegan hvíldartíma hvers og eins skipverja til að hægt sé að fylgjast með hvort gætt sé ákvæða 5. gr. reglugerðar þessarar. Skipverji á rétt á að fá afrit af þeim skráningum sem varða hann og skulu þær áritaðar af skipstjóranum eigi sjaldnar en mánaðarlega, eða öðrum þeim sem skipstjórinn hefur veitt til þess umboð auk skipverjans sjálfs.

Afrit töflunnar skal varðveitt um borð í íslenskum skipum skv. reglugerð þessari í 6 mánuði frá því starfi var sinnt og útgerðarmaður skal varðveita skrána í 3 ár þaðan í frá. Útgerðarmanni er skylt að senda Samgöngustofa afrit skrárinnar óski hún eftir því. Samgöngustofa getur samþykkt að skrárnar séu varðveittar á rafrænan hátt og að upplýsingar til hennar séu sendar á rafrænan hátt.

Afrit af ákvæðum laga og reglugerða um vinnutíma skipverja og af viðeigandi kjarasamningum skulu geymd um borð og skal áhöfnin hafa greiðan aðgang að þeim.

11. gr. Ábyrgð útgerðarmanns og skipstjóra.

Útgerðarmaður skipsins skal útvega skipstjóranum nauðsynleg gögn til að fullnægja þeim skyldum sem þessi reglugerð hefur í för með sér, þar með talin gögn um rétta mönnun skipsins. Skipstjórinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að kröfum þessarar reglugerðar um vinnutíma og hvíldartíma skipverja.

12. gr. Læknisvottorð.

Allir skipverjar skulu hafa læknisvottorð um að þeir séu færir um að inna af hendi það starf sem þeir munu gegna á sjó. Undantekningar eru aðeins heimilar í samræmi við reglugerð þessa. Óheimilt er að lögskrá skipverja í skipsrúm ef læknisvottorð liggur ekki fyrir.

Ákveða skal, að höfðu samráði við útgerðarmenn skipsins sem um ræðir og viðkomandi samtök skipverja, hvernig heilbrigðiseftirliti skuli hagað og hvaða upplýsingar skuli koma fram á læknisvottorðinu, sbr. 4. gr. og I. viðauka reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 416/2003.

Allir skipverjar skulu fara reglulega í læknisskoðun. Vaktmenn, sem eiga við heilsuvandamál að stríða og læknir hefur staðfest að séu til komin vegna næturvinnu, skulu, alltaf þegar þess er nokkur kostur, færðir til í starfi þannig að þeir stundi dagvinnu sem hentar þeim.

Skipverjar skulu njóta öryggis og heilsuverndar í samræmi við starf sitt. Samsvarandi verndar- og forvarnarþjónusta eða aðstaða sem þjónar slíkum tilgangi skal vera til staðar vegna öryggis og heilsu sjómanna sem vinna dag- eða næturvinnu.

Læknisvottorð sem gefið er út í samræmi við ákvæði STCW-samþykktarinnar telst fullnægja kröfum 1. mgr. þessarar greinar og skal viðurkennt sem slíkt af Samgöngustofu.

Læknisvottorð skv. 1. mgr. þessarar greinar skal gefið út á viðeigandi hátt af lækni sem er til þess menntaður og hæfur eða, í því tilviki að einungis sé um sjónvottorð að ræða, af einstaklingi sem Samgöngustofa viðurkennir að sé hæfur til að gefa út slíkt vottorð. Læknar skulu vera sjálfstæðir faglega og beita læknisfræðilegri dómgreind sinni við læknisskoðun.

Skipverjum sem hefur verið neitað um vottorð eða hafa sætt því að hæfni þeirra til vinnu sé háð takmörkunum, einkum hvað snertir tíma, starfssvið eða farsvið, skal gefið tækifæri til að sæta annarri læknisskoðun af hálfu annars, sjálfstæðs læknis eða af hálfu sjálfstæðs, læknisfræðilegs úrskurðaraðila.

Í hverju læknisvottorði skal einkum tilgreina:

  1. að heyrn og sjón skipverja sem í hlut á og litskyggni, ef skipverjinn á að gegna stöðu þar sem það kann að hafa áhrif á hæfni hans til starfsins sem hann á að vinna að litskyggni hans sé ábótavant, séu algjörlega fullnægjandi, og
  2. að farmaðurinn sem í hlut á þjáist ekki af neinum sjúkdómi sem líkur eru til að versni við það að starfa á sjó eða valdi því að skipverjinn sé óhæfur til slíkra starfa eða að hann stofni heilsu annarra einstaklinga um borð í hættu.

Ef styttra tímabils er ekki krafist sökum sérstakra skyldustarfa skipverja, sem í hlut á eða þess er krafist skv. STCW-samþykktinni:

  1. skal læknisvottorð gilda að hámarki í tvö ár nema skipverjinn sé undir 18 ára aldri, en þá skal gildistíminn vera eitt ár,
  2. vottorð um litskyggni skal að hámarki gilda í sex ár.

Í aðkallandi tilvikum má Samgöngustofa heimila skipverja að starfa án gilds læknisvottorðs þar til komið er í næstu viðkomuhöfn þar sem skipverjinn getur útvegað sér læknisvottorð hjá lækni sem er til þess menntaður og hæfur, að því tilskildu að:

  1. slík heimild gildi ekki lengur en þrjá mánuði og
  2. skipverjinn sem í hlut á, sé handhafi læknisvottorðs sem er nýlega útrunnið.

Ef gildistími vottorðs rennur út meðan á sjóferð stendur skal vottorðið halda gildi sínu þar til komið er í næstu viðkomuhöfn þar sem farmaðurinn getur útvegað sér læknisvottorð hjá lækni sem er til þess menntaður og hæfur að því tilskildu að tímabilið vari ekki lengur en þrjá mánuði.

Læknisvottorð skipverja, sem starfa um borð í skipum sem eru venjulega í millilandasiglingum, skal vera á ensku.

III. KAFLI

Erlend farþegaskip og flutningaskip sem fara um íslenskar hafnir.

13. gr. Skoðun.

Samgöngustofa skal hafa eftirlit með að fylgt sé ákvæðum þessarar reglugerðar og tilskipana skv. 17. gr. í erlendum farþegaskipum og flutningaskipum sem fara um íslenskar hafnir og getur hvenær sem er krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa slíkt eftirlit. Þegar skoðun er framkvæmd skal skoðunarmaður ákvarða hvort:

a) tafla með upplýsingum um vinnutilhögun um borð hafi verið útbúin á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í I. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og hafi verið sett upp á aðgengilegum stað um borð;
b) gögn um vinnutíma eða hvíldartíma skipverja hafi verið tekin saman á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í II. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og séu geymd um borð og að sannað sé að gögnin hafi verið árituð af lögbæru yfirvaldi í skráningarríki skipsins.

Ef kvörtun hefur borist eða ef skoðunarmaður telur, eftir athuganir um borð, að skipverjar séu of þreyttir skal skoðunarmaðurinn framkvæma nákvæmari skoðun, í samræmi við 1. mgr., til að ákvarða hvort vinnutími eða hvíldartími sem skráður hefur verið sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og hvort þeim hefur verið framfylgt með tilliti til annarra gagna um rekstur skipsins.

14. gr. Framkvæmd skoðunar.

Samgöngustofa er heimilt að framkvæma skoðun um borð í erlendum skipum sem fara um íslenskar hafnir til að ganga úr skugga um fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma og skipulag vakta um borð. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga og reglna um hafnarríkiseftirlit.

Gera skal allt sem hægt er til að forðast að skip sé tafið á ótilhlýðilegan hátt. Ef skip er tafið á ótilhlýðilegan hátt á eigandi þess eða útgerðarmaður rétt á bótum fyrir tap eða tjón sem hann hefur orðið fyrir. Í hvert skipti sem meint ótilhlýðileg töf á sér stað skal sönnunarbyrði þess efnis hvíla á herðum eiganda eða útgerðarmanni skipsins.

Samgöngustofa skal, ef kvörtun berst sem augljóslega er ekki tilefnislaus að hennar mati eða ef hún fær sannanir fyrir því að ástand skips og að fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma um borð er ekki í samræmi við reglugerð þessa, tilkynna skráningarríki skipsins um niðurstöðu skoðunar sem gerð hefur verið og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðbúnaður um borð, sem sannanlega stofnar öryggi eða heilsu áhafnarinnar í hættu, sé lagfærður.

Samgöngustofa er óheimilt að veita skipstjóra eða útgerðarmanni skipsins neinar upplýsingar um þann sem bar fram kvörtun.

Við skoðun á skipi sem skráð er í eða siglir undir fána ríkis sem ekki hefur skrifað undir ILO-samþykkt nr. 180 eða bókun við ILO-samþykkt nr. 147 skal Samgöngustofa tryggja að slík skip og áhöfn þeirra hljóti ekki hagstæðari meðferð en þá sem skip hlýtur sem siglir undir fána ríkis sem er aðili annað hvort að ILO-samþykkt nr. 180 eða bókun við ILO-samþykkt nr. 147 eða að hvoru tveggja.

15. gr. Úrbætur og farbann.

Ef skoðun eða nákvæm skoðun gefur til kynna að ástand skipsins fullnægi ekki kröfum reglugerðar þessarar skal Samgöngustofa gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur séu gerðar á aðbúnaði sem sannanlega stofnar öryggi og heilsu skipverja í hættu, t.d. með því að leggja farbann á skipið meðan úrbætur hafa ekki verið gerðar og meðan skipverjar hafa ekki fengið nægilega hvíld.

Ef augljósar sannanir eru fyrir því að vaktmenn á fyrstu vakt eða á síðari afleysingavöktum séu of þreyttir skal Samgöngustofa tryggja að skipið leggi ekki úr höfn fyrr en það sem er í ólagi hefur verið lagfært eða skipverjarnir fengið nægilega hvíld.

Ef svo ber undir að farbann sé lagt á skip skal Samgöngustofa tilkynna skipstjóranum, útgerðarmanni, stjórnvaldi fánaríkis eða skráningarríkis skipsins eða ræðismanni, eða í fjarveru hans næsta fulltrúa utanríkisþjónustu ríkisins, um niðurstöður skoðana skv. 13. gr. og þegar það á við, um þær aðgerðir til úrbóta sem krafist er.

Útgerðarmaður skipsins eða umboðsmaður hans á Íslandi getur kært farbann til farbannsnefndar sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og frestar kæra ekki áhrifum farbannsákvörðunar. Samgöngustofa skal veita skipstjóra upplýsingar um kærurétt vegna farbanns.

16. gr. Refsingar.

Um brot gegn reglugerð þessari vegna íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa fer eftir ákvæðum 15. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum.

17. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 4. mgr. 7. gr. og 17. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum og 8. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST), sem birtist í Stjórnartíðindum EB L 244, 16. september 1999, bls. 64 og ákvörðun EES-nefndar nr. 97/2000, sem birtist í EES-viðbæti 2/2001, bls. 14, sbr. þingsályktun Alþingis frá 27. mars 2001 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Jafnframt er með þessari reglugerð innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu, sem birtist í Stjórnartíðindum EB L 14, 20. janúar 2000, bls. 29 og ákvörðun EES-nefndar nr. 94/2000 frá 27. október 2000, sem birtist í EES-viðbæti 2/2001, bls. 11, sbr. og þingsályktun Alþingis frá 23. apríl 2001 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingar á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/13/EB frá 16. febrúar 2009 um framkvæmd samnings sem Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samband flutningaverkamanna í Evrópu (ETF) hafa gert með sér um samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, frá 2006, og um breytingu á tilskipun 1999/63/EB, sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 40/2011, bls. 44-64.

 Með reglugerð þessari eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/54/ESB frá 26. nóvember 2013 um tilteknar skyldur fánaaðildarríkis til að fara að og framfylgja samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2020, frá 7. febrúar 2020. Tilskipunin er birt með viðauka við reglugerð þessa.

 TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2013/54/ESB
 frá 20. nóvember 2013
 um tilteknar skyldur fánaaðildarríkis til að fara að og framfylgja samþykktinni um
 vinnuskilyrði farmanna, 2006
 

 EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
 með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 100. gr.,
 með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
 eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
 með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins (1),
 að höfðu samráði við svæðanefndina,
 í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð (2),
 og að teknu tilliti til eftirfarandi:
 1) Sambandsaðgerðir á sviði sjóflutninga hafa m.a. að markmiði að bæta aðbúnað og vinnuskilyrði farmanna um
 borð, vernd og öryggi á hafinu og að koma í veg fyrir mengun af völdum sjóslysa.
 2) Sambandinu er ljós sú staðreynd að flest sjóslys stafa beinlínis af mannlegum þáttum, sérstaklega þreytu.
 3) Eitt helsta markmið siglingaöryggisstefnu Sambandsins er að uppræta siglingar undirmálsskipa.
 4) Þann 23. febrúar 2006 samþykkti Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006 með það í huga að setja saman eitt samræmt og uppfært skjal sem einnig innihéldi þær grundvallarreglur sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum.
 5) Samkvæmt VIII. gr. samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006 á hún að ganga í gildi tólf mánuðum eftir að skráðar hafa verið fullgildingar a.m.k. 30 aðildarríkja að Alþjóðasiglingamálastofnuninni, sem samanlagt hafa 33% af brúttótonnatölu skipaflota heims. Þetta skilyrði var uppfyllt 20. ágúst 2012 og samþykktin um vinnuskilyrði farmanna, 2006 öðlaðist gildi 20. ágúst 2013.
 6) Með ákvörðun 2007/431/EB (3) var aðildarríkjunum heimilað að fullgilda samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006 og þau hvött til þess að gera það eins fljótt og auðið væri.
 7) Í samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006 eru settar fram hnattrænar lágmarksviðmiðanir til að tryggja rétt allra farmanna til mannsæmandi lífskjara og starfsskilyrða, óháð þjóðerni og burtséð frá því undir hvaða fána þeir sigla og til að koma á jöfnum skilyrðum fyrir alla.
 8) Ýmsir hlutar samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006 hafa verið teknir upp í mismunandi gerninga Sambandsins, bæði að því er varðar skyldur fánaríkis og hafnarríkis. Markmiðið með þessari tilskipun er að taka upp tiltekin ákvæði um samræmi við reglur og framfylgd, eins og fyrirhugað er í 5. kafla samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006, sem tengjast hlutum samþykktarinnar þar sem ákvæði um samræmi við reglur og framfylgd hafa ekki verið samþykkt. Þessir hlutar samsvara þeim þáttum sem settir eru fram í viðaukanum við tilskipun ráðsins 2009/13/EB (4).
 9) Tilskipun ráðsins 2009/13/EB er til framkvæmdar samningnum sem Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu og
 Samband félaga flutningaverkamanna í Evrópu hafa gert með sér um samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006 („samningurinn“), og fylgir hann með í viðauka hennar. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á tilskipun 2009/13/EB og ætti því að tryggja að farið sé að hagstæðari ákvæðum Sambandslaga í samræmi við þá tilskipun.
 10) Þrátt fyrir að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/21/EB (5) gildi um skyldur fánaríkis, í henni sé valkvætt úttektarkerfi aðildarríkja Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar tekið upp í Sambandslög og tekin upp gæðavottun landsbundinna siglingamálayfirvalda, ætti betur við að til væri sértilskipun sem næði yfir vinnuskilyrði farmanna og það myndi endurspegla með skýrari hætti mismunandi tilgang og málsmeðferðir án þess að það hefði áhrif á tilskipun 2009/21/EB.
 11) Tilskipun 2009/21/EB gildir um samninga Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Hvað sem öðru líður gætu aðildarríkin þróað, hrundið í framkvæmd og viðhaldið gæðastjórnunarkerfi fyrir þá hluta rekstursins sem tengjast fánaríkisverkefnum siglingamálayfirvalda þeirra og falla innan gildissviðs þessarar tilskipunar.
 12) Aðildarríkin ættu að tryggja að þau uppfylli skyldur sínar sem fánaríki með skilvirkum hætti að því er varðar að skip, sem sigla undir fána þeirra, framkvæmi viðeigandi hluta samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006. Við stofnun skilvirks kerfis eftirlitsfyrirkomulags, þ.m.t. skoðana, gæti aðildarríki veitt opinberum stofnunum eða öðrum stofnunum, í skilningi reglu 5.1.2. í samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006, heimild eftir því sem við á, með þeim skilyrðum sem þar eru sett fram.
 13) Samkvæmt c-lið 3. mgr. 2. gr. í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 (6) felur umboð Siglingaöryggisstofnunar Evrópu í sér það kjarnaverkefni að stofnunin eigi að starfa með aðildarríkjunum við að veita, að beiðni aðildarríkis, viðeigandi upplýsingar til að styðja við eftirlit með viðurkenndum stofnunum, sem starfa fyrir hönd þess aðildarríkis, án þess að það hafi áhrif á réttindi og skuldbindingar fánaríkisins.
 14) Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar og þeim verður því betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna umfangs og áhrifa aðgerðarinnar, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
 15) Beiting þessarar tilskipunar ætti ekki undir neinum kringumstæðum að leiða til að dregið verði úr þeirri vernd sem farmenn njóta nú samkvæmt Sambandslögum.
 SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

 1. gr.

 Efni
 Í þessari tilskipun er mælt fyrir um reglur til að tryggja að aðildarríkin uppfylli skyldur sínar sem fánaríki með
 skilvirkum hætti með tilliti til framkvæmdar viðeigandi hluta samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006.
 Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á tilskipun 2009/13/EB og 2009/21/EB eða á strangari viðmiðanir um lífskjör og
 vinnuskilyrði farmanna sem þar eru settar fram.

 2. gr.

 Skilgreiningar
 Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaks sem hér segir, auk þess sem viðeigandi skilgreiningar, sem settar
 eru fram í viðaukanum við tilskipun 2009/13/EB, gilda:
 „viðeigandi hlutar samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006“: þeir hlutar samþykktarinnar um vinnuskilyrði
 farmanna, 2006 þar sem inntakið telst samsvara ákvæðum í viðaukanum við tilskipun 2009/13/EB.

 3. gr.

 Eftirlit með reglufylgni
 1. Aðildarríki skulu tryggja að komið sé á skilvirku og viðeigandi fyrirkomulagi við framfylgd og eftirlit, þ.m.t.
 skoðunum með því millibili sem kveðið er á um í samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006, til að tryggja að
 lífskjör og starfsskilyrði farmanna á skipum, sem sigla undir fána þeirra, uppfylli og haldi áfram að uppfylla kröfur
 viðeigandi hluta samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006.
 2. Að því er varðar skip undir 200 brúttótonnum sem eru ekki í millilandasiglingum er aðildarríkjum heimilt, í
 samráði við hlutaðeigandi samtök skipaeigenda og farmanna að aðlaga, skv. 6. mgr. II. gr. samþykktarinnar um
 vinnuskilyrði farmanna, 2006, eftirlitsfyrirkomulag, þ.m.t. skoðanir, til að taka til greina sérstakar aðstæður er varða
 slík skip.
 3. Eftir því sem við á geta aðildarríkin, þegar þau uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari grein, veitt þeim
 opinberum stofnunum eða öðrum stofnunum, einnig annars aðildarríkis með samþykki þess síðarnefnda, sem þau
 viðurkenna að hafi nægilega getu, hæfni og sjálfstæði til þess, heimild til að annast skoðanir. Í öllum tilvikum skal
 aðildarríki þó bera fulla ábyrgð á skoðun á lífskjörum og starfsskilyrðum viðkomandi farmanna á skipum sem sigla
 undir fána þess aðildarríkis. Þetta ákvæði er með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/15/EB (7).
 4. Aðildarríki skulu setja skýr markmið og viðmiðanir um stjórn skoðunarkerfa sinna auk viðunandi, almennrar málsmeðferðar um mat á því að hvaða marki þessum markmiðum og viðmiðum sé náð.
 5. Aðildarríki skal tryggja að farmenn um borð í skipum sem sigla undir fána þess aðildarríkis hafi aðgang að afriti
 af samningnum. Aðganginn má veita rafrænt.

 4. gr.

 Starfslið sem annast eftirlit með reglufylgni
 1. Aðildarríkin skulu tryggja að starfslið, einnig starfslið stofnana eða annarra aðila („viðurkenndra stofnana“ í skilningi samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006) sem er heimilað að framkvæma skoðanir í samræmi við 3. mgr. 3. gr. og hefur umsjón með því að staðfesta rétta framkvæmd á viðeigandi hlutum samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006, hafi hlotið þjálfun, búi yfir hæfni, hafi til þess umboð, vald, stöðu og sjálfstæði sem er nauðsynleg eða æskileg til að þeir geti sinnt staðfestingunni og tryggt að farið sé eftir kröfum viðeigandi hluta samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006. Í samræmi við samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006 skal skoðunarmönnum veitt umboð til að gera ráðstafanir, eins og við á, til að banna skipi að halda úr höfn þar til nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar.
 2. Hvers kyns heimildir sem veittar eru að því er varðar skoðanir skulu hið minnsta veita viðurkenndu stofnuninni vald til að krefjast þess að ráðin sé bót á ágöllum sem hún finnur á lífskjörum og starfsskilyrðum farmanna og framkvæma skoðanir í þessu tilliti að beiðni hafnarríkis.
 3. Hvert aðildarríki skal koma á fót:
 a) kerfi til að tryggja að vinna, framkvæmd af viðurkenndum stofnunum, sem felur í sér upplýsingar um öll gildandi landslög, reglugerðir og alþjóðlega gerninga sem málið varðar, sé fullnægjandi og b) málsmeðferð um tengsl við slíkar stofnanir og eftirlit með þeim.
 4. Hvert aðildarríki skal senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni gildandi skrá yfir allar viðurkenndar stofnanir sem það hefur heimilað að starfa í sínu umboði og það skal halda þessari skrá við. Í skránni skal tilgreina þau starfssvið sem viðurkenndu stofnanirnar hafa fengið heimild til að sinna.

 5. gr.

 Málsmeðferð um kvartanir um borð, meðhöndlun kvartana og ráðstafanir til úrbóta
 1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að í lögum þess eða reglugerðum sé viðeigandi málsmeðferð um kvartanir um borð.
 2. Ef aðildarríki berst kvörtun, sem að þess mati er ekki augljóslega tilefnislaus, eða fær sannanir fyrir því að skip sem siglir undir fána þess fer ekki að þeim kröfum sem kveðið er á um í viðeigandi hlutum samþykktarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006 eða að alvarlegir annmarkar séu á framkvæmdarráðstöfunum þess, skal aðildarríkið grípa til þeirra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að rannsaka málið og tryggja að bætt verði úr hvers kyns ágöllum sem í ljós kunna að koma.
 3. Starfslið sem fæst við eða verður vart við kvartanir skal meðhöndla sem trúnaðarmál öll tilvik óánægju eða umkvartana um hættu eða ágalla í tengslum við starfsskilyrði og lífskjör farmanna eða brot á lögum og reglugerðum og aldrei gefa í skyn við skipseigandann, fulltrúa hans eða rekstraraðila skipsins að skoðun hafi farið fram af völdum slíkrar óánægju eða umkvörtunar.

 6. gr.

 Skýrslur
 1. Framkvæmdastjórnin skal fjalla um málefni sem falla innan gildissviðs þessarar tilskipunar í þeim skýrslum sem hún gerir í samræmi við 9. gr. tilskipunar 2009/21/EB. 2. Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2018, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um framkvæmd og beitingu reglu 5.3. í samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, 2006, varðandi skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls. Í skýrslunni geta komið fram, ef við á, tillögur um ráðstafanir til að bæta lífskjör og starfsskilyrði á sviði siglinga.

 7. gr.

 Lögleiðing
 1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. mars 2015. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða. Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíkar tilvísanir.
 2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

 8. gr.

 Gildistaka
 Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

 9. gr.

 Viðtakendur
 Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

 Gjört í Strassborg 20. nóvember 2013.

 Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
 forseti. forseti.
 M. SCHULZ V. LEŠKEVIČIUS

 Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar
 „Að mati framkvæmdastjórnarinnar endurspeglar titillinn ekki nægilega vel gildissvið tilskipunarinnar“

 (1) Stjtíð. ESB C 299, 4.10.2012, bls. 153.
 (2) Afstaða Evrópuþingsins frá 8. október 2013 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 15. nóvember 2013.
 (3) Ákvörðun ráðsins 2007/431/EB frá 7. júní 2007 um heimild aðildarríkja til að fullgilda, í þágu Evrópubandalagsins, samþykkt
 Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna, 2006 (Stjtíð. ESB L 161, 22.6.2007, bls. 63).
 (4) Tilskipun ráðsins 2009/13/EB frá 16. febrúar 2009 um framkvæmd samnings sem Samtök skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samband félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF) hafa gert með sér um samþykktina um vinnuskilyrði farmanna, 2006, og um breytingu á tilskipun 1999/63/EB (Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2009, bls. 30).
 (5) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/21/EB frá 23. apríl 2009 um samræmi við kröfur fánaríkis (Stjtíð. ESB L 131, 28.5.2009, bls. 132).
 (6) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní 2002 um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (Stjtíð EB L 208, 5.8.2002, bls. 1).
 (7) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/15/EB frá 23. apríl 2009 um sameiginlegar reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaskoðun og -eftirlit og fyrir tilheyrandi starfsemi siglingamálayfirvalda (Stjtíð. ESB L 131, 28.5.2009, bls. 47).

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.