Fara beint í efnið

Prentað þann 30. nóv. 2021

Stofnreglugerð

677/2004

Reglugerð um hleðslumerki skipa.

1. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

 1. "Stjórnvöld" Siglingastofnun Íslands.
 2. "Samþykkt" eða "viðurkennt" samþykkt eða viðurkennt af stjórnvöldum.
 3. "Fiskiskip" hvert það skip sem er búið eða notað í atvinnuskyni til að veiða fisk, hval, sel, rostung eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
 4. "Nýtt skip" skip þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða er á svipuðu smíðastigi 24. september 1970.
 5. "Gamalt skip" skip, sem er ekki nýtt skip.
 6. "Lengd" 96% af mestu lengd í vatnslínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, mældri frá kjöllínu (spónlínu), eða sem lengdin frá fremri brún á stefni í miðju stýrisáss, í sömu vatnslínu, ef þessi lengd er lengri. Þar sem útlínur stefnisins eru íhvolfar fyrir ofan vatnslínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, skulu bæði fremri endamörk heildarlengdarinnar og fremri brún stefnisins, hvor um sig, tekin frá lóðréttri vörpun aftasta punktsins í útlínum stefnisins (fyrir ofan vatnslínuna) að þeirri vatnslínu. Í skipum hönnuðum með kjölhalla skal vatnslínan, sem lengd er mæld á, vera samsíða hönnunarvatnslínunni.
 7. "Viðurkennd stofnun" er stofnun sem er viðurkennd í samræmi við 4. gr. reglugerðar um viðurkenningu flokkunarfélaga og um reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun, nr. 142/2004 samkvæmt nýjustu útgáfu hennar, og sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt 5. gr. sömu reglugerðar.
 8. "Árleg dagsetning" þann mánaðardag og mánuð á hverju ári sem samsvarar gildislokadegi viðkomandi skírteinis.
 9. "Samþykktin" alþjóðahleðslumerkjasamþykktina frá 1966 ásamt bókun frá 1988 og breytingum við hana og tengdum bindandi kóðum samkvæmt nýjustu útgáfu þeirra.

2. gr. Almenn ákvæði.

Nema annað sé sérstaklega tekið fram gilda ákvæði samþykktarinnar um hleðslumerki og fríborð skipa svo og annað það sem samþykktin fjallar um. Viðaukarnir við samþykktina skulu vera óaðskiljanlegur hluti hennar og tilvísun í samþykktina skal um leið vera tilvísun í viðauka hennar.

Við ákvörðun hleðslumerkja skal beita ákvæðum I. viðauka samþykktarinnar.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er stjórnvöldum heimilt að ákvarða meira fríborð en sem nemur því lágmarksfríborði sem er reiknað út samkvæmt ákvæðum I. viðauka samþykktarinnar.

Stöðugleikagögn, sem krafist er samkvæmt 10. reglu í I. viðauka samþykktarinnar, skulu uppfylla viðeigandi kröfur IS-kóðans, þ.e. kóðans um óskaddaðan stöðugleika fyrir allar gerðir skipa sem falla undir IMO-gerðir (ályktun A.749(18) með breytingum samkvæmt nýjustu útgáfu hennar).

Sérhverju skipi, sem þessi reglugerð gildir um, er óheimilt að halda til hafs, nema að skoðun og merking hafi áður farið fram á því og alþjóðahleðslumerkjaskírteini eða, þegar það á við, alþjóðaundanþáguskírteini vegna hleðslumerkja samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar, hafi verið gefið út fyrir skipið.

3. gr. Gildissvið.

Nema annað sé sérstaklega tekið fram, ná ákvæði þessarar reglugerðar til nýrra skipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri og stunda millilandasiglingar.

Um borð í sérhverju skipi, sem þessi reglugerð gildir um, skal vera eintak af reglugerðinni.

4. gr. Undanþágur.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

 1. skemmtibáta sem eru ekki notaðir í atvinnuskyni;
 2. fiskiskip.

Stjórnvöld geta veitt skipi, sem stundar venjulega ekki millilandasiglingar en sem í undantekningartilvikum þarf að fara einstaka ferð, undanþágu frá hvaða ákvæði samþykktarinnar sem er að því tilskildu að það uppfylli þær öryggiskröfur sem að mati stjórnvalda eru fullnægjandi vegna fyrirhugaðrar ferðar skipsins.

Um aðrar undanþágur gilda ákvæði 5. og 6. gr. samþykktarinnar.

5. gr. Óviðráðanleg atvik.

Skip, sem ekki er háð ákvæðum samþykktarinnar þegar það lætur úr höfn til hvaða ferðar sem er, skal ekki sæta slíkum ákvæðum, þótt það berist af fyrirhugaðri leið vegna veðurs eða annarra óviðráðanlegra atvika.

6. gr. Jafngildi.

Stjórnvöld geta heimilað að hvaða búnaði sem er, efni, tæki eða vélum sé komið fyrir um borð í skipi eða að einhverjar aðrar ráðstafanir séu gerðar í skipi annars en þess sem krafist er samkvæmt samþykktinni ef þau telja að prófanir eða annað sýni að slíkur búnaður, efni, tæki, vélar eða ráðstafanir séu að minnsta kosti jafngagnleg og það sem krafist er samkvæmt samþykktinni.

7. gr. Viðurkenningar vegna tilrauna.

Stjórnvöldum er heimilt að viðurkenna tilraunir um tiltekin atriði í skipum, sem samþykktin tekur til, enda sé slíkt gert samkvæmt 9. gr. samþykktarinnar.

8. gr. Viðgerðir, breytingar og endursmíði.

Skip, sem er í viðgerð, breytingum eða endurbótum og er útbúið samkvæmt því, skal uppfylla a.m.k. þær kröfur sem áður voru gerðar til skipsins. Almennt gildir að gamalt skip skuli í slíkum tilvikum ekki uppfylla, í minna mæli, kröfur til nýrra skipa samanborið við það sem það gerði áður.

Meiri háttar viðgerðir, breytingar eða endurbætur og búnaður í tengslum við þær skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru til nýrra skipa, innan þeirra marka er stjórnvöldum þykja skynsamleg og hagkvæm.

9. gr. Loftslagsbelti og svæði.

Skip, sem þessi reglugerð gildir um, skal uppfylla viðeigandi kröfur fyrir það skip í þeim loftslagsbeltum og svæðum sem lýst er í II. viðauka samþykktarinnar.

Höfn, sem er á mörkum tveggja loftslagsbelta, telst vera innan þess loftslagsbeltis eða svæðis sem skipið siglir um við komu eða brottför.

10. gr. Dýfing.

Að frátöldu því sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. þessarar greinar er óheimilt að viðeigandi hleðslumerki á hliðum skipsins, samsvarandi þeim árstíma og loftslagsbelti eða svæði þar sem skipið er, séu á kafi þegar skipið heldur til hafs, meðan á sjóferð stendur eða við komu til hafnar.

Þegar skip er í ferskvatni með eðlisþyngdina einn, má viðeigandi hleðslumerki fara í kaf um sem nemur þeim frádrætti sem leyfður er í fersku vatni og sýndur er á alþjóðahleðslumerkjaskírteininu. Þar sem eðlisþyngd er ekki einn skal frádrátturinn vera í hlutfalli við mismuninn milli 1,025 og raunverulegrar eðlisþyngdar.

Við brottför skips úr höfn, sem er staðsett á fljóti eða stöðuvatni, er heimilt að hlaða skipið dýpra um sem nemur þunga þess eldsneytis og allra annarra efna sem eyðast á milli brottfararstaðar og hafs.

11. gr. Skoðanir og merking.

Við beitingu þessarar reglugerðar skulu starfsmenn stjórnvalda annast skoðanir og merkingu skipa svo og veitingu undanþágu frá þeim. Stjórnvöldum er heimilt að veita viðurkenndum aðilum umboð til að annast skoðanir og merkingu. Í öllum tilvikum skulu stjórnvöld bera fulla ábyrgð á skoðun og merkingu.

Þegar stjórnvöld ákveða hleðslumerki skips skal bókstöfunum I og H komið fyrir á varanlegan hátt svo sem kveðið er á um í 7. reglu í I. viðauka samþykktarinnar. Í stað þessara bókstafa er viðurkenndri stofnun, sem ákveður hleðslumerki skips, heimilt að nota auðkennisbókstafi sína.

12. gr. Upphafs-, endurnýjunar- og árlegar skoðanir.

Skip skal vera háð eftirtöldum skoðunum:

 1. Upphafsskoðun, áður en skipið er tekið í notkun, skal vera allsherjarskoðun á burðarvirki þess og búnaði í þeim mæli sem ákvæði samþykktarinnar ná til skipsins. Þessi skoðun skal vera þannig að tryggt sé að fyrirkomulag, efni og efnismál séu í fullu samræmi við ákvæði samþykktarinnar.
 2. Endurnýjunarskoðun ekki sjaldnar en á fimma ára fresti, nema þegar 2., 5., 6. og 7. mgr. 17. gr. eiga við, til að tryggja að burðarvirki, búnaður, fyrirkomulag, efni og efnismál sé í fullu samræmi við kröfur samþykktarinnar.
 3. Árleg skoðun innan þriggja mánaða fyrir eða eftir hverja árlegu dagsetningu skírteinisins til að tryggja að:

  1. breytingar hafi ekki verið gerðar á bol eða yfirbyggingum sem hafa áhrif á útreikninga á staðsetningu hleðslumerkisins;
  2. ástandi búnaðar og tækja til að verja op, handriða, austuropa og innganga í vistarverur áhafnar sé viðhaldið;
  3. gengið sé frá fríborðsmerkjum á réttan og varanlegan hátt;
  4. upplýsingarnar, sem krafist er samkvæmt 10. reglu í I. viðauka samþykktarinnar, séu til staðar.

Við hverja árlega skoðun samkvæmt c-lið 1. mgr. þessarar greinar skal árita alþjóðahleðslumerkjaskírteinið eða alþjóðaundanþáguskírteinið vegna hleðslumerkja, sem gefið hefur verið út fyrir skip sem hefur verið veitt undanþága skv. 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar.

13. gr. Viðhald ástands eftir skoðun.

Að lokinni sérhverri skoðun á skipinu, sem kveðið er á um í 12. gr. er óheimilt að gera breytingar á burðarvirki þess, búnaði, fyrirkomulagi, efni eða efnismálum, sem skoðunin hefur náð til, án samþykkis stjórnvalda.

14. gr. Útgáfa skírteina.

Alþjóðahleðslumerkjaskírteini skal gefið út fyrir hvert skip að lokinni skoðun og það merkt samkvæmt þessari reglugerð.

Alþjóðaundanþáguskírteini vegna hleðslumerkja skal gefið út fyrir hvert skip sem hefur verið veitt undanþága samkvæmt 2. og 4. mgr. 6. gr. samþykktarinnar.

Slík skírteini skulu gefin út af stjórnvöldum eða viðurkenndri stofnun sem hefur umboð stjórnvalda til þess. Í öllum tilvikum skulu stjórnvöld bera fulla ábyrgð á skírteininu.

15. gr. Útgáfa eða áritun skírteina af öðrum stjórnvöldum.

Samningsríkisstjórn getur að beiðni stjórnvalda tekið skip til skoðunar og ef hún er sannfærð um að ákvæði samþykktarinnar séu uppfyllt skal hún gefa út eða heimila útgáfu alþjóðahleðslumerkjaskírteinis fyrir skipið og, þegar það á við, árita eða heimila áritun skírteinisins fyrir skipið, í samræmi við ákvæði samþykktarinnar.

Afrit af skírteininu ásamt afriti af skoðunarskýrslunni sem notuð er til að reikna út fríborðið ásamt afriti af útreikningunum skal senda eins fljótt og auðið er til stjórnvalda.

Á skírteini, sem gefið er út á þennan hátt, skal skráð að það hafi verið gefið út að beiðni íslenskra stjórnvalda og skal það hafa sama gildi og vera viðurkennt á sama hátt og skírteini sem gefið er út samkvæmt 14. gr.

16. gr. Gerð skírteina.

Skírteinin skulu vera samsvarandi einhverri þeirra gerða sem sýndar eru í III. viðauka samþykktarinnar. Texti skírteinanna skal vera á íslensku ásamt þýðingu á ensku. Stjórnvöld geta þó heimilað að textinn sé einungis á ensku.

17. gr. Tímalengd og gildi skírteina.

 1. Alþjóðahleðslumerkjaskírteini skal gefið út lengst til 5 ára.
  1. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., þegar endurnýjunarskoðun er lokið innan 3ja mánaða áður en gildandi skírteini rennur út, skal nýja skírteinið gilda frá þeim degi sem endurnýjunarskoðuninni lýkur fram til þess dags sem er ekki síðar en 5 árum frá því að gildandi skírteini rennur út.
  2. Þegar endurnýjunarskoðun er lokið eftir að gildandi skírteini rennur út skal nýja skírteinið gilda frá þeim degi sem endurnýjunarskoðuninni lýkur fram til þess dags sem er ekki síðar en 5 árum frá því að gildandi skírteini rennur út.
  3. Þegar endurnýjunarskoðun er lokið meira en 3 mánuðum áður en gildandi skírteini rennur út skal nýja skírteinið gilda frá þeim degi sem endurnýjunarskoðunin lýkur fram til þess dags sem er ekki síðar en 5 árum frá þeim degi sem endurnýjunarskoðuninni lýkur.
 2. Ef skírteini er gefið út til skemmri tíma en 5 ára mega stjórnvöld framlengja gildistíma skírteinisins fram yfir gildistíma allt að hámarkstímanum sem tilgreindur er í 1. mgr., að því tilskildu að árlegu skoðanirnar sem um getur í 12. gr. gildi þegar skírteini er gefið út til 5 ára séu framkvæmdar eins og við á.
 3. Hafi endurnýjunarskoðun, sem um getur í b-lið 1. mgr. 12. gr., verið lokið og ekki er hægt að gefa út nýtt skírteini fyrir skipið áður en gildandi skírteini rennur út má einstaklingurinn eða stofnunin sem annast skoðunina framlengja gildistíma skírteinisins lengst til 5 mánaða. Skírteinið skal áritað þegar það er framlengt á þennan hátt en einungis er heimilt að veita slíka framlengingu þegar engar breytingar hafa verið gerðar á burðarvirki, búnaði, fyrirkomulagi, efnum eða efnismálum sem hefur áhrif á fríborð skipsins.
 4. Sé skip ekki í höfn þar sem það á að sæta skoðun þegar skírteini rennur út mega stjórnvöld framlengja gildistíma skírteinisins en einungis má veita slíka framlengingu í því skyni að leyfa skipinu að ljúka sjóferð sinni til hafnarinnar þar sem á að skoða það og einungis í tilvikum þar sem slíkt virðist viðunandi og skynsamlegt. Ekki skal framlengja gildistíma neins skírteinis lengur en um 3 mánuði og skip sem fær framlengingu skal ekki, við komu þess í höfn þar sem skoðun á að fara fram, í krafti slíkrar framlengingar halda úr þeirri höfn án þess að hafa nýtt skírteini. Að lokinni endurnýjunarskoðun skal nýja skírteinið gilda lengst til 5 ára frá þeim degi sem gildandi skírteini rennur út áður en framlenging var veitt.
 5. Stjórnvöld mega framlengja skírteini, sem gefið er út til skips í stuttum ferðum og hefur ekki verið framlengt samkvæmt framangreindum ákvæðum þessarar greinar, um allt að 1 mánuð frá því að tilgreindur gildistími rennur út. Að lokinni endurnýjunarskoðuninni skal hið nýja skírteini gilda lengst til 5 ára frá þeim degi sem gildandi skírteini rennur út áður en framlenging var veitt.
 6. Í sérstökum tilvikum að mati stjórnvalda þarf nýtt skírteini ekki að hafa dagsetningu frá þeim degi sem gildandi skírteini rennur út eins og krafist er í 2., 5. og 6. mgr. Í þessum sérstöku tilvikum skal nýja skírteinið gilda til þess dags sem er ekki síðar en 5 árum frá þeim degi sem endurnýjunarskoðuninni lýkur.
 7. Sé árlegri skoðun lokið fyrir þann tíma sem tilgreindur er í 12. gr. þá:

  1. skal árlegu dagsetningunnin sem tilgreind er á skírteininu breytt með áritun til dagsetningar sem skal ekki vera síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem skoðuninni lauk.
  2. síðari árlegri skoðun sem krafist er samkvæmt 12. gr. skal lokið með millibilum sem mælt er fyrir um í þeirri grein með því að nota nýja árlega dagsetningu.
  3. sá dagur sem skírteinið rennur út getur verið óbreyttur að því tilskildu að ein eða fleiri árleg skoðun séu framkvæmdar þannig að ekki líði lengri tími á milli skoðananna en sá hámarkstími sem mælt er fyrir um í 12. gr.
 8. Alþjóðahleðslumerkjaskírteinið er úr gildi fallið ef eitthvert eftirtalinna tilvika koma upp:

  1. efnislegar breytingar hafa verið gerðar á bol eða yfirbyggingum skipsins þannig að nauðsynlegt er að ákveða aukið fríborð fyrir það.
  2. ástandi tengihluta og búnaðar sem um getur í c-lið 1. mgr. 12. gr. er ekki við haldið.
  3. skírteinið hefur ekki verið áritað til að sýna fram á að skipið hafi verið skoðað eins og mælt er fyrir um c-lið 1. mgr. 12. gr.
  4. styrkleiki burðarvirkis skipsins er skertur það mikið að skipið telst óöruggt.
  1. Gildistími alþjóðaundanþáguskírteinis vegna hleðslumerkja sem gefið er út af stjórnvöldum til skips, sem veitt er undanþága samkvæmt 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar, skal vera lengst til 5 ára. Þannig skírteini er háð starfsreglum um endurnýjun, áritun og ógildingu, áþekkum þeim sem gilda um alþjóðahleðslumerkjaskírteinið samkvæmt þessari grein.
  2. Gildistími alþjóðaundanþáguskírteinis vegna hleðslumerkja sem gefið er út til skips, sem veitt er undanþága samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þessarar reglugerðar, skal takmarkast við þá einstöku ferð sem skírteinið er gefið út fyrir.
 9. Skírteini sem gefið er út af stjórnvöldum til skips fellur úr gildi ef skipið er flutt undir fána annars ríkis.

18. gr. Hafnarríkiseftirlit.

Um hafnarríkiseftirlit með atriðum sem samþykktin gildir um gilda ákvæði 21. gr. samþykktarinnar.

19. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt VII. kafla laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

20. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 30. júlí 2004.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.