Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 20. maí 2021 – 1. des. 2021 Sjá núgildandi
Sýnir breytingar gerðar 20. maí 2021 af rg.nr. 564/2021

676/2015

Reglugerð um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

  1. Reglugerð þessi gildir um alþjóðleg atvinnuskírteini sem gefin eru út hér á landi á grundvelli STCW-samþykktarinnar.
  2. Reglugerð þessi gildir um áhafnir allra íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, sem skráð eru hér á landi, samkvæmt lögum um skráningu skipa.
  3. Undanskilin gildissviði reglugerðarinnar eru:

    1. herskip, liðsflutningaskip og önnur skip sem EES-ríki reka í öðrum tilgangi en viðskiptalegum,
    2. fiskiskip,
    3. skemmtibátar,
    4. tréskip með frumstæðu smíðalagi.

2. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja öryggi áhafna, farþega og íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og efla varnir gegn mengun sjávar. Þessu markmiði skal náð með því að gera tilteknar kröfur um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna miðað við stærð skips, verkefni og farsvið.

3. gr. Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

2. vélstjóri (e. second engineer officer) er vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og ber ábyrgð á vélbúnaði skipsins og rekstri og viðhaldi véla og rafbúnaðar í forföllum yfirvélstjóra.

Aðstoðarmaður skiparafvirkja (e. electro-technical rating) er undirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við viðeigandi ákvæði III. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Aðstoðarvélstjóri (e. assistant engineer officer) er undirmaður í þjálfunarferli til starfa sem vélstjóri.

Alþjóðafjarskiptareglur (e. Radio Regulations) eru alþjóðafjarskiptareglur, sem fylgja með í viðauka, eða litið er svo á að þær fylgi með í viðauka við alþjóðafjarskiptasamninginn, með áorðnum breytingum (e. International Telecommunications Convention).

Efnaflutningaskip (e. chemical tanker) er skip sem er smíðað eða breytt og notað til búlkaflutninga á einhverjum þeim fljótandi efnum sem talin eru upp í 17. kafla alþjóðlega kóðans um efnaflutningaskip, í uppfærðri útgáfu (e. International Bulk Chemical Code).

Farþegaskip er hvert það skip, skrásett sem slíkt sem getur flutt fleiri en 12 farþega milli hafna innan lands og utan.

Félag (e. company) er eigandi skips eða hvers konar önnur samtök eða einstaklingur, til að mynda forstjóri eða þurrleigutaki, sem tekist hefur á hendur ábyrgð á rekstri skips úr höndum eiganda þess og hefur þar með samþykkt að takast á hendur öll þau skyldustörf og alla þá ábyrgð sem reglugerð þessi og viðeigandi lög leggja á viðkomandi aðila.

Fjarskiptamaður (e. radio operator) er einstaklingur sem er réttmætur handhafi viðeigandi skírteinis sem gefið er út eða viðurkennt af lögbæru yfirvaldi í samræmi við ákvæði alþjóðafjarskiptareglnanna.

Fjarskiptastörf (e. radio duties) ná eftir því sem við á til vaktstöðu, viðhalds og viðgerða á tækjabúnaði sem fer fram í samræmi við alþjóðafjarskiptareglurnar, alþjóðasamning frá 1974 um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS-samþykktina), ákvörðun hvers aðildarríkis og viðeigandi tilmæli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í uppfærðum útgáfum.

Flutningaskip er hvert það skip, skrásett sem slíkt, er siglir með varning milli hafna innan lands og utan.

Gasflutningaskip (e. liquefied-gas tanker) er skip sem er smíðað eða breytt til búlkaflutninga á einhverjum þeim fljótandi gastegundum eða öðrum vörum sem taldar eru upp í 19. kafla alþjóðlega kóðans um gasflutningaskip, í uppfærðri útgáfu (e. International Gas Carrier Code).

GMDSS-fjarskiptamaður (e. GMDSS radio operator) er einstaklingur sem hefur menntun og hæfi í samræmi við IV. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Hafskip (e. seagoing ship) eru öll skip að undanskildum þeim sem einungis er siglt á skipgengum vatnaleiðum eða sjóleiðum í eða nærri vari eða svæðum þar sem reglur um siglingar í höfnum gilda.

Hæfnisskírteini (e. Certificate of Proficiency - CoP) er skírteini, annað en réttindaskírteini, sem gefið er út til handa farmanni og tilgreinir þær viðeigandi kröfur þessarar reglugerðar um þjálfun, hæfni eða siglingatíma, sem hafa verið uppfylltar.

ISPS-kóði (e. ISPS Code) er alþjóðakóði um vernd skipa og hafnaraðstöðu, sem samþykktur var 12. desember 2002, með 2. ályktun ráðstefnu aðildarríkja að SOLAS-samþykktinni, í uppfærðri útgáfu.

Mánuður (e. month) er almanaksmánuður eða mánaðarhlutar sem eru 30 dagar samtals.

Olíuflutningaskip (e. oil-tanker) er skip sem er smíðað og notað til búlkaflutninga á jarðolíu og jarðolíuafurðum.

Réttindaskírteini (e. Certificate of Competency - CoC) er skírteini, sem er gefið út og áritað til handa skipstjórum, yfirmönnum og GMDSS-fjarskiptamönnum, í samræmi við ákvæði II., III., IV. eða VII. kafla í I. viðauka reglugerðar þessarar, og veitir lögmætum handhafa þess rétt til að takast á hendur störf á því ábyrgðarsviði sem tilgreint er í skírteininu.

Sérhæfður vélarliði (e. able seafarer engine) er undirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við III. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Sérhæfður þilfarsliði (e. able seafarer deck) er undirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við viðeigandi ákvæði II. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Siglingatími (e. seagoing service) er viðurkenndur starfstími við störf um borð í skipi í förum sem er krafist vegna útgáfu eða endurnýjunar réttindaskírteinis (e. Certificate of Competency), hæfniskírteinis (e. Certificate of Proficiency) eða vegna veitinga annarra starfsréttinda.

Skip sem siglir undir fána EES-ríkis (e. ship flying the flag of an EEA State) er skip sem er skráð í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) ogsiglir undir fána þess í samræmi við löggjöf þess; skip sem þessi skilgreining á ekki við um telst vera skip sem siglir undir fána þriðja ríkis.

Skiparafvirki (e. electro-technical officer) er yfirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við viðeigandi ákvæði III. kafla I. viðauka reglugerðar þessrar.

Skipstjóri (e. master) er sá sem hefur á hendi yfirstjórn skips.

Skrifleg staðfesting (e. Documentary Evidence - DE) er skjal, annað en réttindaskírteini eða hæfnisskírteini, sem notað er til að staðfesta að viðeigandi kröfur í þessari reglugerð hafi verið uppfylltar.

Starfssvið (e. function) eru verkefni, skyldustörf og ábyrgð sem eru skilgreind í STCW-kóðanum, tengd rekstri skipa og sem lúta að öryggi mannslífa á hafinu eða umhverfisvernd sjávar.

STCW-samþykktin (e. STCW Convention) er samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá 1978 um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, að því leyti sem hún gildir um þau málefni sem um ræðir, að teknu tilliti til bráðabirgðaákvæða VII. gr. og reglu I/15 í samþykktinni svo og, eftir því sem við á, viðeigandi ákvæða STCW-kóðans, með síðari breytingum,

Strandsiglingar (e. near-coastal voyages) eru siglingar á hafsvæði A1, sbr. skilgreiningu í reglugerð nr. 53/2000, um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, með síðari breytingum, í sérefnahagslögsögu Íslands (EEZ) og á hafsvæðum erlends ríkis samkvæmt skilgreiningu þess erlenda ríkis á hugtakinu strandsiglingar.

Tilskipunin er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/106/EB frá 19. nóvember 2008 um lágmarksþjálfun sjómanna (endurútgáfa), ásamt þeim breytingum sem urðu með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/35/ESB frá 21. nóvember 2012 um breytingu á tilskipun 2008/106/EB um lágmarksþjálfun sjómanna.

Undirmaður (e. rating) er skipverji annar en skipstjóri eða yfirmaður.

Verndarfulltrúi skips (e. ship security officer - SSO) er sá einstaklingur um borð í skipi sem ber ábyrgð gagnvart skipstjóra og er tilnefndur af útgerðarfélagi til að annast siglingaverndarmál skipsins, þar á meðal að innleiða og viðhalda verndaráætlun skipsins, sjá um samskipti við verndarfulltrúa útgerðarfélagsins og verndarfulltrúa hafna.

Verndarskyldur (e. security duties) eru öll verkefni og skyldur um borð í skipum sem tengjast kröfum siglingaverndar, eins og þær eru skilgreindar í kafla XI/2 í SOLAS-samþykktinni, með áorðnum breytingum, og í ISPS-kóðanum.

Vélarafl (e. propulsion power) eru samanlögð, samfelld hámarksnafnaflsafköst allra aðalvéla skipsins í kílóvöttum (kW), eins og þau eru skráð í skráningarskírteini skipsins eða öðrum opinberum skjölum.

Viðurkennt (e. approved) er það sem Samgöngustofa eða annað lögbært stjórnvald metur fullnægjandi.

Yfirmaður (e. officer) er farmaður, annar en skipstjóri, sem er tilgreindur sem slíkur í landslögum eða landsreglum eða samkvæmt almennum kjarasamningi eða venjum þegar öðru er ekki til að dreifa.

Yfirmaður á þilfari (e. deck officer) er yfirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við ákvæði II. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Yfirmaður í vél (e. engineer officer) er yfirmaður sem hefur fullnægt skilyrðum um menntun og hæfi í samræmi við ákvæði III. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar.

Yfirstýrimaður (e. chief mate) er sá yfirmaður á þilfari sem gengur næst skipstjóra og tekur við stjórn skips í forföllum skipstjóra.

Yfirvélstjóri (e. chief engineer) er vélstjóri sem er æðstur að tign og ber ábyrgð á vélum, sem knýja skipið, og rekstri og viðhaldi véla og rafbúnaðar í skipinu.

Þriðja land (e. third country) er land sem er ekki aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

II. KAFLI Menntun og þjálfun.

4. gr. Kröfur um menntun og þjálfun.

  1. Farmenn, sem starfa á skipum sem reglugerð þessi gildir um, skulu hafa fullnægt skilyrðum um lágmarksmenntun og -þjálfun í samræmi við kröfur STCW-samþykktarinnar, eins og mælt er fyrir um í I. viðauka við reglugerð þessa og skilyrðum um útgáfu skírteina, og/eða skriflegra staðfestinga.
  2. Farmenn, sem hafa það hlutverk að stjórna eða hafa umsjón með björgunarförum og notkun þeirra, sbr. reglu III/10.4 í SOLAS-samþykktinni, skulu hafa fengið viðeigandi menntun og þjálfun og vera handhafar viðeigandi skírteina í samræmi við þessa reglugerð.
  3. Menntun og þjálfun farmanna skal fullnægja skilyrðum um fræðilega þekkingu og verklega hæfni í I. viðauka við reglugerð þessa, einkum hvað varðar þjálfun í meðhöndlun björgunarbúnaðar og slökkvibúnaðar.

5. gr. Nám og kennsla.

  1. Sjómannaskólar annast menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum. Um inntökuskilyrði sjómannaskóla, námskrá, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, með síðari breytingum. Um slysavarnaskóla sjómanna gilda lög nr. 33/1991, með síðari breytingum, og staðfestir ráðherra námskrá skólans.
  2. Nám og kennsla í sjómannaskólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar.

III. KAFLI Skírteinisútgáfa.

6. gr. Útgáfa skírteina.

  1. Samgöngustofa gefur út atvinnuskírteini til umsækjenda sem uppfylla kröfur þessarar reglugerðar. Réttinda- og hæfnisskírteini skulu gefin út eða endurnýjuð til allt að fimm ára í senn, nema annað sé tilgreint í þessari reglugerð.
  2. Samgöngustofa skal árita atvinnuskírteini fyrir skipstjóra, yfirmenn og fjarskiptamenn, eins og mælt er fyrir um í reglugerð þessari.
  3. Réttindaskírteini, hæfnisskírteini og skriflegar staðfestingar skulu vera á íslensku, ásamt enskri þýðingu.
  4. Samgöngustofa skal aðeins gefa út réttindaskírteini, hæfnisskírteini og áritanir eftir að hafa gengið úr skugga um réttmæti framlagðra gagna.
  5. Þeir farmenn, sem gegna stöðu fjarskiptamanns um borð í skipum, skulu uppfylla skilyrði IV. kafla I. viðauka reglugerðar þessarar og viðeigandi ákvæði viðurkenndrar námskrár. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini fjarskiptamanns í samræmi við alþjóðafjarskiptareglur.
  6. Samgöngustofu er heimilt að fella áritunina inn í sjálft skírteinið, sem gefið er út, eins og kveðið er á um í þætti A-I/2 í STCW-kóðanum og skal þá nota eyðublaðið sem sett er fram í 1. mgr. þáttar A-I/2. Ef áritunin er veitt á annan hátt skal nota eyðublaðið sem sett er fram í 2. mgr. sama þáttar. Áritanir skal veita í samræmi við 2. mgr. VI. gr. í STCW-samþykktinni.
  7. Áritanir til staðfestingar á útgáfu réttindaskírteinis og áritanir til staðfestingar á hæfnisskírteini, sem gefnar eru út til handa skipstjórum og yfirmönnum, í samræmi við reglur V/1-1 og V/1-2 í I. viðauka reglugerðar þessarar skal aðeins gefa út ef allar viðeigandi kröfur STCW-samþykktarinnar og reglugerðar þessarar hafa verið uppfylltar.
  8. Samgöngustofa, sem viðurkennir til bráðabirgða réttindaskírteini eða hæfnisskírteini, sem gefið er út til handa skipstjórum og yfirmönnum í samræmi við reglu V/1-1 og V/1-2 í I. viðauka reglugerðar þessarar, samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 10. gr. þessarar reglugerðar, skal því aðeins árita skírteinið að staðfest hafi verið að skírteinið sé lögmætt og í gildi. Eyðublað fyrir áritun skal vera það sem sett er fram í 3. mgr. þáttar A-I/2 í STCW-kóðanum.
  9. Áritanirnar sem um getur í 6. til 8. mgr. þessarar greinar:

    1. má gefa út sem sérstök skjöl,
    2. skulu aðeins gefnar út af Samgöngustofu,
    3. skulu tölusettar hver með sinni tölu en þó mega áritanir, sem staðfesta útgáfu réttindaskírteinis, hafa sama númer og réttindaskírteinið sjálft, enda sé númerið sérstakt fyrir þessi tvö skjöl og
    4. skulu falla úr gildi um leið og áritaða réttindaskírteinið eða hæfnisskírteinið, sem gefið er út fyrir skipstjóra og yfirmenn í samræmi við reglur V/1-1 og V/1-2 í viðaukanum við STCW-samþykktina, rennur út eða er afturkallað, fellt tímabundið úr gildi eða ógilt af útgáfuríki og, eigi síðar en fimm árum eftir útgáfudag þeirra.
  10. Í áritun skal tilgreina þær stöður, sem handhafa skírteinis er heimilt að gegna og þær takmarkanir sem settar eru, með sama orðalagi og notað er í réttindaskírteininu sem liggur til grundvallar útgáfu áritunar.
  11. Heimilt er að nota annað form en það sem mælt er fyrir um í þætti A-I/2 í STCW-kóðanum enda sé þeim lágmarksskilyrðum fullnægt að nauðsynlegar upplýsingar séu ritaðar með latneskum bókstöfum og arabískum tölustöfum, með þeim frávikum sem leyfileg eru samkvæmt þætti A-I/2.
  12. Geyma skal frumrit allra skírteina, sem þessi reglugerð kveður á um, um borð í skipinu sem handhafi starfar á.
  13. Umsækjendur um útgáfu réttindaskírteina eða hæfnisskírteinis skulu færa viðhlítandi sönnur á:

    1. hverjir þeir eru, með því að framvísa gildu vegabréfi eða öðrum gildum persónuskilríkjum, þegar umsókn er lögð fram,
    2. að þeir séu ekki yngri en tilskilið er í reglunum í I. viðauka þessarar reglugerðar sem fjallar um réttindaskírteinið eða hæfnisskírteinið sem sótt er um,
    3. að þeir fullnægi heilbrigðiskröfunum sem eru tilgreindar í þætti A-I/9 í STCW-kóðanum, 8. gr. þessarar reglugerðar auk II. viðauka hennar,
    4. að þeir hafi lokið tilskilinni menntun eða þjálfun og hafi að baki þann siglingatíma sem er áskilinn samkvæmt reglunum í I. viðauka þessarar reglugerðar vegna réttindaskírteinisins eða hæfnisskírteinisins, sem sótt er um,
    5. að þeir fullnægi þeim hæfniskröfum sem mælt er fyrir um í reglunum í I. viðauka þessarar reglugerðar hvað varðar starfsréttindi, þ.e. stöður, störf og starfstign sem tilgreina skal í áritunarskjali með réttindaskírteininu og
    6. að þeir hafi fullnægt skilyrðum þessarar reglugerðar þegar gerðar eru kröfur til útgáfu skírteinis umfram það sem mælt er fyrir um í I. viðauka.
  14. Samgöngustofa skal:

    1. halda skrá eða skrár yfir öll réttindaskírteini, hæfnisskírteini og allar áritanir eftir því sem við á, sem gefin eru út, eru útrunnin eða hafa verið endurnýjuð, felld úr gildi tímabundið, ógilt eða sem tilkynnt hefur verið um að séu týnd eða ónýt, og yfir undanþágur sem gefnar eru út.
    2. veita aðgang að upplýsingum um stöðu skírteina, áritana og undanþága svo viðeigandi stjórnvöld aðildarríkja að STCW-samþykktinni og félög geti sannreynt að skírteini og áritanir, sem farmenn hafa lagt fram hjá þeim með ósk um staðfestingu réttinda samkvæmt reglu I/10 í STCW-samþykktinni og sem gefin eru út til handa skipstjórum og yfirmönnum, þ.m.t. skírteini í samræmi við reglu V/1-1 og V/1-2 í I. viðauka, séu ósvikin og í gildi.
  15. Frá og með 1. janúar 2017 skulu upplýsingarnar, sem eiga að liggja fyrir í samræmi við b-lið 14. mgr., vera aðgengilegar á rafrænu formi.

7. gr. Skip í strandsiglingum.

  1. Óheimilt er að gera ríkari kröfur en leiða myndi af reglugerð þessari til áhafna skipa í strandsiglingum sem sigla undir fána annars EES-ríkis eða annars aðildarríkis að STCW-samþykktinni.
  2. Þegar ráðgert er að íslenskt skip stundi siglingar við stendur annars EES-ríkis eða annars ríkis sem er aðili er að STCW-samþykktinni á farsviði, sem afmarkar strandsiglingar samkvæmt skilgreiningu þess ríkis, skal Samgöngustofa leita samkomulags við viðkomandi ríki um skilyrði þess að íslenskt skip megi stunda þær siglingar. Á sama hátt skulu stjórnvöld annars EES-ríkis eða ríkis sem er aðili að STCW-samþykktinni leita samkomulags við Samgöngustofu um skilyrði fyrir siglingum á íslensku farsviði.
  3. Þegar skip, sem siglir undir fána einhvers EES-ríkis, stundar strandsiglingar við strendur annars EES-ríkis eða annars ríkis sem er aðili að STCW-samþykktinni, skal fánaríki skipsins gera kröfur um menntun og þjálfun, reynslu og útgáfu réttindaskírteina til þeirra farmanna sem á því skipi starfa sem teljast jafngildar þeim kröfum sem strandríkið gerir til strandsiglinga eigin skipa. Þær kröfur skulu þó aldrei vera strangari en kröfurnar sem gerðar eru í tilskipuninni, til skipa sem ekki stunda strandsiglingar.
  4. Farmenn á skipi, sem leggur í lengri siglingu en EES-ríki skilgreinir sem strandsiglinguog fer um hafsvæði sem sú skilgreining nær ekki til, skulu uppfylla viðeigandi kröfur í þessari reglugerð og sem gerðar eru til ótakmarkaðs farsviðs.
  5. Þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð þessari til skipa sem stunda strandsiglingar við Ísland skulu gilda þegar íslensk skip stunda strandsiglingar við strendur ríkis sem ekki er aðili að STCW-samþykktinni.
  6. Samgöngustofu er heimilt að viðurkenna réttindaskírteini farmanna sem annað EES-ríki eða annað ríki, sem er aðili að STCW-samþykktinni, gefur út til strandsiglinga, enda lúti það skilyrðum eða takmörkunum fyrrnefnda ríkisins um strandsiglingar við strendur þess ríkis.
  7. Samgöngustofa skal tilgreina mörk þess hafsvæðis sem skilgreinir strandsiglingar í þeim áritunum sem gefnar eru út skv. 6. gr. þessarar reglugerðar.
  8.  Samgöngustofa skal senda Eftirlitsstofnun EFTA upplýsingar um þau skilyrði sem gilda um strandsiglingar samkvæmt þessari reglugerð og viðaukum hennar, þ.m.t. skilgreiningu á strandsiglingum og kröfur um menntun og þjálfun til slíkra siglinga.

8. gr. Heilbrigðiskröfur.

  1. Um heilbrigði farmanna á skipum sem reglugerð þessi tekur til og um útgáfu heilbrigðisvottorða gilda ákvæði þessarar greinar, ákvæði II. viðauka reglugerðar þessarar ásamt viðeigandi verklagsreglum Samgöngustofu.
  2. Þeir sem bera ábyrgð á því að meta heilbrigði farmanna í samræmi við 1. mgr þessarar greinar skulu vera starfandi læknar sem eru viðurkenndir af Samgöngustofu.
  3. Sérhver farmaður, sem er handhafi réttindaskírteinis eða hæfnisskírteinis, og sem starfar á sjó skal vera handhafi gilds heilbrigðisvottorðs.
  4. Til að fá útgefið heilbrigðisvottorð skulu farmenn:

    1. hafa náð 16 ára aldri,
    2. sanna með fullnægjandi hætti deili á sér og
    3. hafa uppfyllt viðeigandi heilbrigðiskröfur sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
  5. Gildistími heilbrigðisvottorða skal að hámarki vera tvö ár. Sé farmaður yngri en 18 ára skal hámarksgildistími vera eitt ár.
  6. Ef gildistími heilbrigðisvottorðs rennur út meðan á siglingu stendur skal það halda gildi sínu þar til skipið kemur til næstu viðkomuhafnar þar sem viðurkenndur læknir er tiltækur, að því tilskildu að tímabilið sé ekki lengra en þrír mánuðir.
  7. Í neyðartilvikum getur Samgöngustofa heimilað farmanni að starfa án gilds heilbrigðisvottorðs þar til skipið kemur til næstu viðkomuhafnar þar sem viðurkenndur læknir er tiltækur, að því tilskildu að slík heimild gildi ekki lengur en þrjá mánuði og að farmaðurinn sem í hlut á sé handhafi heilbrigðisvottorðs sem er nýlega útrunnið.

9. gr. Endurnýjun réttindaskírteina og hæfnisskírteina.

  1. Hverjum þeim skipstjóra, yfirmanni og fjarskiptamanni, sem er handhafi skírteinis og starfar á sjó eða hyggst hverfa aftur til starfa eftir nokkurn tíma í landi, skal sýna fram á það, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, að hann uppfylli eftirtalin skilyrði til að halda réttindum sínum til starfa á sjó:

    1. fullnægi heilbrigðiskröfum skv. 8. gr. þessarar reglugerðar,
    2. uppfylli ákvæði A-I/11 í STCW-kóðanum.
  2. Hver sá farmaður, sem vill gegna áfram störfum um borð í skipi, sem sérstakar menntunar- og þjálfunarkröfur hafa verið gerðar til með alþjóðlegu samkomulagi, skal ljúka viðeigandi viðbótarmenntun og þjálfun.
  3. Að því er varðar áframhaldandi störf skipstjóra og yfirmanna tankskipa skulu þeir uppfylla kröfur 1. mgr. þessarar greinar auk þess að sýna fram á, á minnst fimm ára fresti, að þeir búi enn yfir viðvarandi faglegri hæfni til starfa á slíkum skipum í samræmi við 3. mgr. A-I/11 hluta STCW-kóðans.
  4. Umsækjendur um réttindaskírteini og hæfnisskírteini sem gilda eftir 1. janúar 2017 skulu hafa sótt viðurkennd upprifjunar- og uppfærslunámskeið eða undirgengist hæfnismat til samræmis við viðeigandi skilyrði um útgáfu réttindaskírteina eða hæfnisskírteina samkvæmt A-hluta STCW-kóðans í kjölfar endurskoðunar STCW-samþykktarinnar. Upprifjunar- og uppfærslunámskeið hafa að markmiði að veita viðbótarmenntun og -þjálfun til samræmis við breytingar á þekkingar- og hæfniskröfunum sem verða við breytingar á STCW-samþykktinni.
  5. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið skulu sjá til þess að í boði séu viðeigandi uppfærslunámskeið, sbr. 4. mgr. og í samræmi við þátt A-I/11 í STCW-kóðanum. Uppfærslunámskeið samkvæmt þessari grein skulu viðurkennd af Samgöngustofu. Markmið þessara námskeiða er að uppfæra þekkingar- og færniviðmið til samræmis við breyttar kröfur um menntun og þjálfun til samræmis við 3. mgr. Skal á námskeiðunum m.a. farið yfir nýlegar breytingar á alþjóðlegum reglum um öryggi mannslífa á hafinu, siglingavernd og umhverfisvernd sjávar.
  6. Samgöngustofa skal sjá til þess að texti nýlegra breytinga á landslögum, reglugerðum og alþjóðlegum reglum um öryggi mannslífa á hafinu, siglingavernd og umhverfisvernd sjávar séu aðgengilegar um borð í skipum sem falla undir reglugerð þessa, að teknu tilliti til b-liðar 3. mgr. 14. gr. og 15. gr.

10. gr. Viðurkenning réttindaskírteina og hæfnisskírteina þriðju ríkja.

  1. Farmönnum, sem hafa ekki undir höndum réttindaskírteini útgefið af EES-ríki og/eða hæfnisskírteini, fyrir skipstjóra og yfirmenn, í samræmi við reglur V/1-1 og V/1-2 í STCW-samþykktinni, er heimilt að starfa um borð í skipum, sem sigla undir fána EES-ríkis, að því tilskildu að réttindaskírteini eða hæfnisskírteini, sem þeir hafa undir höndum, hafi verið viðurkennd samkvæmt málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 19. gr. tilskipunarinnar.
  2. Telji Samgöngustofa að viðurkennt þriðja ríki uppfylli ekki lengur kröfur STCW-samþykktarinnar skal hún tilkynna það í samræmi við 20. gr. tilskipunarinnar.

11. gr. Ráðstafanir til að koma í veg fyrir sviksamlegt og annað ólögmætt athæfi.

  1. Samgöngustofa skal grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir sviksamlegt og annað ólögmætt athæfi í tengslum við útgáfu skírteina og áritana.
  2. Samgöngustofa getur leitað skriflegrar staðfestingar lögbærra yfirvalda útgáfuríkis þess efnis að framvísað skírteini farmanns og samsvarandi áritun eða aðrar skriflegar staðfestingar um þjálfun, sem gefin voru út af því ríki, séu lögmæt. Samgöngustofa skal einnig veita yfirvöldum útgáfuríkis, sem tilnefnd eru í samræmi við tilskipunina og STCW-samþykktina, skriflega staðfestingu á lögmæti skírteina farmanns og samsvarandi áritana eða annarrar skriflegrar staðfestingar um þjálfun sem stofnunin gefur út.
  3. Samgöngustofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og aðildarríkjum að STCW-samþykktinni um tilhögun eftirlits hér á landi og ráðstafanir til að koma í veg fyrir svik og annað ólögmætt athæfi.

IV. KAFLI Gæðakerfi og notkun herma.

12. gr. Gæðakerfi og gæðastaðlar.

  1. Um gæðakerfi og gæðastaðla gildir eftirfarandi:

    1. Öll menntun og þjálfun, hæfnismat, útgáfa atvinnuskírteina, þ.m.t. heilbrigðisvottorð, áritun og endurnýjun, sem fram fer hjá óopinberum stofnunum eða aðilum í þeirra umboði, skal lúta stöðugu eftirliti viðurkennds gæðakerfis, til að tryggja að þau markmið náist sem hafa verið sett, þar á meðal markmið um menntun og hæfi og starfsreynslu leiðbeinenda og matsmanna, í samræmi við þátt A-I/8 í STCW-kóðanum.
    2. Hjá opinberum stofnunum eða aðilum, sem sinna verkefnum sem greinir í a-lið, skal viðurkennda gæðakerfið sem skylt er að vinna eftir, lúta stöðugu innra og ytra eftirliti í samræmi við þátt A-I/8 í STCW-kóðanum.
    3. Skilgreina skal með skýrum hætti markmið menntunar og þjálfunar og tengda gæðastaðla um hæfni og tilgreina það þekkingar-, skilnings- og færnisstig sem krafist er til prófs og námsmats skv. STCW-samþykktinni og STCW-kóðanum.
    4. Gildissvið gæðastaðla skal ná til umsjónar með útgáfu atvinnu- og hæfnisskírteina skv. reglugerð þessari, útgáfu heilbrigðisvottorða, hvers konar þjálfunarnámskeiða og námsbrauta, prófa og mats á vegum eða í umsjón stjórnvalda fyrir hvert námskeið og hverja námsbraut, og hæfi og starfsreynslu leiðbeinenda og matsmanna, að teknu tilliti til stefnumiða, kerfa, eftirlits og innra gæðarýnis sem er komið á til að tryggja að skilgreindum markmiðum sé náð.
  2. Samgöngustofa skal, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, sjá til þess að hæfir og óháðir aðilar geri úttekt á starfsemi, er varðar öflun og mat á þekkingu, skilningi og færni svo og umsjón með útgáfu skírteina til að sannreyna:

    1. að allar ráðstafanir um innra eftirlit og vöktun, auk aðgerða til eftirfylgni, séu í samræmi við skipulagða tilhögun og skjalfesta málsmeðferð og tryggi að skilgreindum markmiðum verði náð,
    2. að niðurstöður óháðra úttekta séu skráðar hverju sinni og skulu kynntar þeim starfsmönnum sem bera ábyrgð á því sviði sem úttektin beinist að,
    3. að ráðstafanir séu gerðar til að ráða bót á annmörkum innan hæfilegs frests og
    4. að gæðakerfið taki til allra viðeigandi ákvæða þessarar reglugerðar, STCW-samþykktarinnar og STCW-kóðans.
  3. Samgöngustofa skal innan sex mánaða frá úttektardegi senda Eftirlitsstofnun EFTA skýrslu um hverja þá úttekt sem fer fram skv. 2. mgr., í samræmi við þátt A-I/7 í STCW-kóðanum.

13. gr. Notkun herma.

Þegar hermar eru notaðir við menntun, þjálfun eða námsmat sem krafist er samkvæmt reglugerð þessari, skal sjá til þess að kröfum um afköst, getu og gæði sem og önnur ákvæði, sem eru sett fram í þætti A-I/12 STCW-kóðans, og aðrar kröfur, sem mælt er fyrir um í A-hluta STCW-kóðans vegna þeirra skírteina sem þar eru tilgreind, sé fullnægt:

  1. að því er varðar lögboðna menntun og þjálfun með notkun hermis,
  2. að því er varðar notkun herma við hvers konar hæfnismat sem er krafist í A-hluta STCW-kóðans og fram fer með notkun hermis,
  3. að því er varðar hvers konar notkun herma til að meta eða sannreyna að tiltekinni kunnáttu og færni hafi verið viðhaldið eins og krafist er í A-hluta STCW-kóðans.

 Við notkun herma við menntun, þjálfun eða mat á hæfni skal leiðbeinandi, eftirlitsmaður eða matsmaður sem stýrir eða hefur umsjón með menntun, þjálfun eða hæfnismati hafa fengið viðeigandi leiðbeiningar um kennslutækni í notkun herma og hafa hagnýta reynslu í meðferð þeirrar gerðar hermis sem er notuð. Enn fremur skal matsmaður við hæfnismat með hermi hafa öðlast hagnýta reynslu við mat með þeirri gerð hermis sem um ræðir undir efirliti reynds matsmanns og með fullnægjandi árangri að mati hans.

V. KAFLI Ábyrgð félaga.

14. gr. Ábyrgð félaga.

  1. Félög skulu bera ábyrgð á að farmenn séu ráðnir til starfa á skipum þeirra í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Sérhvert félag skal sjá til þess að:

    1. allir farmenn, sem ráðnir eru til starfa á skipum félagsins, séu handhafar viðeigandi skírteinis í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar,
    2. skip félagsins séu mönnuð í samræmi við öryggismönnunarskírteini, sbr. 12. gr. laga nr. 76/2001 og 21. gr. reglugerðar þessarar,
    3. öll skjöl og gögn um alla farmenn, sem starfa á skipum félagsins, séu uppfærð, endurnýjuð og þau gerð aðgengileg og að í þeim sé m.a. að finna staðfestingu um reynslu þeirra, menntun og þjálfun, heilbrigði og hæfni til þeirra verka sem þeim hafa verið falin,
    4. farmenn sem skráðir eru á skip félagsins fái nauðsynlega vitneskju og leiðsögn á vinnutungumáli skipsins eða ensku um skyldustörf sín og allt það sem lýtur að tilhögun, búnaði, tækjum, starfsaðferðum og sérstökum eigindum skipsins og máli skiptir fyrir dagleg skyldustörf þeirra eða hlutverk í neyðartilvikum,
    5. allir farmenn geti, með skilvirkum hætti, samræmt aðgerðir og athafnir sínar í neyðartilvikum og við störf sem eru nauðsynleg vegna öryggis eða til að fyrirbyggja og draga úr mengun,
    6. farmenn, sem starfa á einhverjum af skipum þess, gangist undir upprifjunarþjálfun og endurmenntun eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð,
    7. um borð í skipum þess séu alltaf viðhöfð skilvirk munnleg samskipti í samræmi við 18. gr. þessarar reglugerðar.
  2. Félög, skipstjórar og aðrir farmenn skulu hver um sig ábyrgjast að staðið sé að öllu leyti við þær skuldbindingar sem eru settar fram í þessari grein og að gerðar séu þær ráðstafanir sem tiltækar eru til að tryggja að sérhver farmaður geti af kunnáttu og færni stuðlað að öruggum rekstri skipsins.
  3. Félagið skal láta skipstjóra sérhvers skips, sem þessi reglugerð á við um, í té skrifleg fyrirmæli þar sem fram koma stefnumið og verklagsreglur sem fylgja ber í því skyni að tryggja að allir nýliðar um borð fái tækifæri til að kynna sér búnað um borð í skipinu, verklagsreglur og aðra tilhögun, sem er nauðsynleg vegna starfans, áður en þeir hefja störf. Í þessum stefnumiðum og verklagsreglum skal m.a. fjallað um:

    1. að nýliði skuli fá hæfilegan tíma til að kynna sér:

      1. þann búnað sem hann kemur til með að nota eða stjórna og
      2. verklagsreglur og fyrirkomulag varðandi vaktstöður, öryggi, umhverfisvernd sjávar og neyðartilvik sem varða skipið sérstaklega og farmaður verður að kunna skil á til að geta gegnt skyldustörfum sínum með fullnægjandi hætti,
    2. útnefningu reynds farmanns sem skal sjá til þess að nýliða sé gefið færi á að taka við mikilvægum upplýsingum á vinnutungumáli skipsins eða ensku.
  4. Félög skulu tryggja að skipstjórar, yfirmenn og aðrir farmenn, sem eru settir til ákveðinna skyldu- og ábyrgðarstarfa um borð í ekjufarþegaskipum þeirra, skuli hafa lokið kynningarþjálfun til að ná viðeigandi færni sem er nauðsynleg í tengslum við þá stöðu og þau skyldu- og ábyrgðarstörf sem viðkomandi á að taka að sér, með tilliti til leiðbeininganna, sem gefnar eru í þætti B-I/14 í STCW-kóðanum.

15. gr. Samskipti um borð.

Félög skulu sjá til þess:

  1. með fyrirvara um b. og c. lið þessarar greinar, að um borð í skipi þess séu ávallt viðeigandi ráðstafanir gerðar til að skilvirk munnleg samskipti um öryggismál geti farið fram milli allra skipverja, einkum með tilliti til öruggrar og skilvirkrar móttöku, miðlunar og skilnings skilaboða og fyrirmæla.
  2. að um borð í öllum farþegaskipum sé tekin ákvörðun um tiltekið vinnutungumál til að tryggja fullnægjandi frammistöðu skipverja í öryggismálum og það skráð í skipsdagbók. Félagið eða skipstjórinn, eftir því sem við á, skulu ákvarða viðeigandi vinnutungumál sem hver farmaður þarf að geta skilið og tjáð sig á. Ef vinnutungumálið er ekki opinbert tungumál fánaríkis skulu allar áætlanir og skrár sem er skylt að hengja upp einnig þýddar á vinnutungumálið.
  3. að um borð í farþegaskipum sé auðvelt að bera kennsl á skipverja sem hafa hlutverki að gegna samkvæmt neyðaráætlun og að þeir hafi nægilega tungumálakunnáttu til að inna þau störf af hendi, að teknu tilliti til eftirfarandi þátta:

    1. hvaða tungumál flestir farþegar, sem fluttir eru á tiltekinni leið, skilja,
    2. beiting undirstöðuorðaforða á ensku til að gefa einfaldar leiðbeiningar þannig að það gagnist til samskipta við farþega sem er hjálparþurfi, óháð því hvort farþegi
    3. nauðsyn þess að geta átt samskipti með einhverjum öðrum hætti þegar neyðarástand ríkir (t.d. með sýnikennslu eða bendingum),
    4. alhliða tilsögn í öryggismálum sem farþegar hafa fengið á eigin móðurmáli eða tungumáli sem þeir skilja,
    5. tungumál sem heimilt er að senda tilkynningar um neyðarástand út á, þegar slíkt ástand ríkir eða við æfingar, í þeim tilgangi að koma lífsnauðsynlegum leiðbeiningum til farþega og auðvelda skipverjum að aðstoða þá,
  4. að um borð í olíuflutninga-, efnaflutninga- og gasflutningaskipum félagsins, sem sigla undir fána EES-ríkis, geti skipstjóri, yfirmenn og undirmenn átt samskipti sín á milli á sameiginlegu vinnutungumáli eða -málum,
  5. að viðeigandi búnaður sé um borð svo samskipti geti farið fram milli skips og yfirvalda í landi; nota skal ensku á stjórnpalli skipa sem falla undir þessa reglugerð sem vinnutungumál fyrir öryggissamskipti frá stjórnpalli til stjórnpalls og frá stjórnpalli til strandar sem og til samskipta um borð milli leiðsögumanns og skipverja sem standa vaktir á stjórnpalli, nema ef þeir sem eiga í beinum samskiptum tali sameiginlegt tungumál annað en ensku,
  6. að við hafnarríkiseftirlit sé sýnt fram á að skip félagsins fullnægi ákvæðum þessarar greinar.

VI. KAFLI Hafnarríkiseftirlit.

16. gr. Hafnarríkiseftirlit.

  1. Skip sem falla undir ákvæði reglugerðar þessarar, óháð því undir hvaða fána þau sigla, skulu sæta hafnarríkiseftirliti sem hefur það markmið að færa sönnur á að allir farmenn, sem starfa um borð í viðkomandi skipi og sem eiga að geta framvísað réttindaskírteini eða hæfnisskírteini sem kveðið er á um í STCW-samþykktinni, séu handhafar viðeigandi skírteina eða geti framvísað gildri undanþágu til að gegna viðkomandi stöðu.
  2. Samgöngustofa skal sjá til þess að viðeigandi ákvæðum og málsmeðferð, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 816/2011, um hafnarríkiseftirlit, með síðari breytingum, sé beitt við hafnarríkiseftirlit samkvæmt reglugerð þessari.

17. gr. Tilhögun hafnarríkiseftirlits.

  1. Með fyrirvara um reglugerð nr. 816/2011, um hafnarríkiseftirlit, með síðari breytingum, skal hafnarríkiseftirlit skv. 16. gr. afmarkast við eftirfarandi:

    1. að sannreyna að allir þeir farmenn um borð sem eiga að hafa réttindaskírteini og/eða hæfnisskírteini, í samræmi við STCW-samþykktina, hafi undir höndum slíkt réttindaskírteini eða gilda undanþágu og/eða hæfnisskírteini, og geti lagt fram skriflega staðfestingu um að sótt hafi verið um áritun til staðfestingar á viðurkenningu yfirvalda í fánaríkinu á réttindaskírteininu,
    2. að sannreynahvort fjöldi farmanna og skírteini farmanna, sem starfa um borð, samræmist reglum yfirvalda fánaríkisins um öryggismönnun.
  2. Meta skal, í samræmi við A-hluta STCW-kóðans, hvort skipverjar séu færir um að standa vaktir og uppfylla verndarkröfur, eins og við á, í samræmi við kröfur STCW-samþykktarinnar, enda sé ástæða til að ætla að slíkum kröfum sé ekki fullnægt vegna þess að eitthvað af því sem hér er talið hefur gerst:

    1. skipið hefur lent í árekstri, tekið niðri eða strandað,
    2. efni, sem ólöglegt er að losa í hafið samkvæmt alþjóðasamningi, hafa verið losuð úr skipinu á siglingu, þegar það lá fyrir akkeri eða við bryggju,
    3. skipinu hefur verið stjórnað með tilviljanakenndum eða ótryggum hætti og ekki hefur verið fylgt reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um siglingaleiðir eða venjum og háttum við öruggar siglingar,
    4. skipinu er stýrt á einhvern þann hátt annan sem hættulegur er mönnum, eignum eða umhverfi, eða að öryggi er stefnt í hættu,
    5. skírteinið er fengið með sviksamlegum hætti eða handhafi þess er annar en sá sem skírteinið var upphaflega gefið út fyrir,
    6. skipið siglir undir fána lands, sem hefur ekki fullgilt STCW-samþykktina, eða skipstjóri, yfirmaður eða undirmaður er handhafi skírteinis sem er útgefið af þriðja landi sem hefur ekki fullgilt STCW-samþykktina.

="justify">Þrátt fyrir sannprófun skírteina er heimilt að fara fram á að farmaður sýni viðeigandi hæfni á starfsstöð sinni þegar mat skv. 2. mgr. fer fram. Í þessu getur m.a. falist að staðlar vegna vaktstöðu séu uppfylltir og að farmaðurinn sýni rétt fagleg viðbrögð við neyðaraðstæður.

18. gr. Kyrrsetning.

Með fyrirvara um reglugerð nr. 816/2011, um hafnarríkiseftirlit, með síðari breytingum, er Samgöngustofu einungis heimilt að kyrrsetja skip, samkvæmt þessari reglugerð, ef hafnarríkiseftirlitsmaður hefur ákvarðað að einhver eftirfarandi ágalla skapi hættu fyrir menn, eignir eða umhverfi:

  1. farmenn hafa engin skírteini, þá vantar viðeigandi skírteini eða gilda undanþágu eða geta ekki lagt fram skjöl til sönnunar því að umsókn um áritun til staðfestingar á viðurkenningu hafi verið send yfirvöldum fánaríkis,
  2. gildandi kröfur fánaríkis um öryggismönnun samkvæmt öryggisskírteini um lágmarksmönnun eru ekki uppfylltar,
  3. tilhögun siglinga- eða vélastjórnarvaktar er ekki í samræmi við þær kröfur sem fánaríkið hefur sett vegna skipsins,
  4. ekki er á vakt maður sem hefur réttindi til að stjórna búnaði sem er nauðsynlegur öruggri siglingu eða öryggisfjarskiptum eða til að forðast mengun sjávar,
  5. sönnun um faglega kunnáttu við þau skyldustörf, sem farmaður gegnir vegna öryggis skipsins og umhverfisverndar sjávar, hefur ekki verið lögð fram,
  6. ekki eru settir á fyrstu vakt við upphaf sjóferðar og síðari vaktir, sem á eftir fylgja, menn sem hafa fengið næga hvíld og eru vinnufærir að öðru leyti.

VII. KAFLI Viðurlög.

19. gr. Afturköllun atvinnuskírteinis eða áritunar.

Samgöngustofu er heimilt að afturkalla skírteini eða áritanir ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum reglugerðarinnar til að öðlast slíkt atvinnuskírteini eða áritun eða vera skírteinishafi í samræmi við ákvæði laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

20. gr. Refsiákvæði.

Um brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 15. og 16. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum.

VIII. KAFLI Ýmis ákvæði.

21. gr. Öryggismönnun skipa.

  1. Um öryggismönnun skipa fer eftir ákvæðum 12. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum, að teknu tilliti til IV. viðauka við reglugerð þessa.
  2. Samgöngustofa ákveður mönnun farþegaskipa og flutningaskipa og gefur út öryggismönnunarskírteini fyrir þau þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður.
  3. Greiða skal gjald fyrir útgáfu öryggismönnunarskírteinis sem ákveðið er í gjaldskrá Samgöngustofu.
  4. Skipstjórnarmenn farþegaskipa og flutningaskipa skulu hafa yfir að ráða skírteinum miðað við stærð og farsvið skipsins og þann fjölda skipstjórnarmanna sem tilgreindur er í skírteini um öryggismönnun skipsins, sbr. IV. viðauki við reglugerð þessa.
  5. Vélstjórnarmenn skulu hafa yfir að ráða skírteinum miðað við vélastærð skipsins og þann fjölda vélstjórnarmanna sem tilgreindur er í skírteini um öryggismönnun skipsins, sbr. IV. viðauki við reglugerð þessa.

22. gr. Undanþágur.

  1. Um undanþágur fer samkvæmt 8. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum. Um gjald vegna umsóknar um undanþágu fer samkvæmt 14. gr. sömu laga.
  2. Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar er óheimilt að veita undanþágu til að gegna stöðu fjarskiptamanns nema með þeim undantekningum sem gerðar eru í alþjóðafjarskiptareglunum.

23. gr. Upplýsingar vegna tölfræðilegrar úrvinnslu.

  1. Samgöngustofa skal veita Eftirlitsstofnun EFTA upplýsingarnar, sem taldar eru upp í V. viðauka, en eingöngu til tölfræðilegrar greiningar. Slíkar upplýsingar skal ekki nota í stjórnsýslulegum eða lagalegum tilgangi eða til sannprófunar og þær eru eingöngu til notkunar fyrir EES-ríkin og Eftirlitsstofnun EFTA við stefnumótun.
  2. Samgöngustofa skal gera þessar upplýsingar aðgengilegar árlega fyrir Eftirlitsstofnun EFTA á rafrænu formi og skulu þær fela í sér upplýsingarnar sem skráðar eru til 31. desember næstliðið ár. Samgöngustofa hefur eignarrétt á upplýsingunum og óunnum gögnum vegna þeirra. Unnar tölfræðilegar upplýsingar, sem undirbúnar eru á grundvelli slíkra gagna, skulu gerðar aðgengilegar opinberlega í samræmi við ákvæðin um gagnsæi og verndun upplýsinga skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1406/2002, um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, eins og hún er innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1138/2007, með síðari breytingum.
  3. Til að tryggja vernd persónuupplýsinga skal Samgöngustofa sjá til þess að allar persónuupplýsingar séu nafnlausar, eins og tilgreint er í V. viðauka, áður en þær eru sendar til Eftirlitsstofnunar EFTA með því að nota hugbúnað sem Eftirlitsstofnun EFTA lætur í té eða viðurkennir. Eftirlitsstofnun EFTA skal eingöngu nota þessar nafnlausu upplýsingar.
  4. Öflun, framlagning, geymsla, greining og miðlun ofangreindra upplýsinga skulu vera með þeim hætti að tölfræðileg greining sé möguleg.

24. gr. Gjaldtaka.

Greiða skal gjald fyrir afgreiðslu og útgáfu atvinnuskírteina, áritun erlendra skírteina, veitingu undanþágna samkvæmt gjaldskrá Samgöngustofu. Gjöldin skulu standa undir kostnaði Samgöngustofu við afgreiðslu þeirra.

25. gr. Innleiðing á EES-gerðum.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/106/EB frá 19. nóvember 2008 um lágmarksþjálfun sjómanna (endurútgáfa), ásamt þeim breytingum sem urðu með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/35/EB frá 21. nóvember 2012 um breytingu á tilskipun 2008/106/EB um lágmarksþjálfun sjómanna.

26. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 17. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur brott reglugerð nr. 416/2003, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Sú krafa að þeir sem meti heilbrigði farmanna skulu vera læknar sem öðlast hafa viðurkenningu Samgöngustofu skal koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2017. Frá þeirri dagsetningu falla niður heimildir annarra lækna til að gefa út heilbrigðisvottorð til farmanna samkvæmt þessari reglugerð.

II.

Þeir sem eru lögmætir handhafar skírteina og áritana, sem gefin voru út samkvæmt reglugerð nr. 416/2003, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum, skulu halda réttindum sínum óskertum út gildistíma skírteinisins.

III.

Hafi viðurkenndur siglingatími, viðurkennd menntun og þjálfun eða viðurkennt þjálfunarnámskeið hafist fyrir 1. júlí 2013, er Samgöngustofu heimilt, til 1. janúar 2017, að gefa út, viðurkenna og árita réttindaskírteini til farmanna í samræmi við eldri reglugerð.

IV.

Þeir sem við gildistöku þessarar reglugerðar eru réttmætir handhafar skírteina til þess að gegna stöðu skipstjóra og eða stýrimanns á skipi sem er allt að 65 BT(brúttótonn) að stærð skulu eiga rétt á að fá þessi skírteini endurnýjuð að því tilskildu að þeir fullnægi skilyrðum um heilbrigði, viðhald faglegrar hæfni og með því að hafa að baki að lágmarki 12 mánaða siglingatíma á næstliðnum 5 árum. Ekki er heimilt að gefa út ný skírteini sem veita rétt til skipstjórnar á farþegaskipum sem eru 65 BT og minni eftir að reglugerð þessi hefur tekið gildi.

V.

Fram til 1. janúar 2017 er Samgöngustofu heimilt að endurnýja og framlengja gildistíma réttindaskírteina, hæfnisskírteina og áritana í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar, eins og þær voru fyrir 3. janúar 2013.

VI.

Frá og með 1. janúar 2017 er Samgöngustofu einungis heimilt að gefa út réttindaskírteini, hæfnisskírteini og áritanir í samræmi við þær kröfur sem reglugerð þessi kveður á um.

 Innanríkisráðuneytinu, 30. júní 2015. 

 Ólöf Nordal. 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.