Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

672/1995

Reglugerð fyrir Hitaveitu Borgarness.

I. KAFLI Rekstrarform.

1. gr.

Hitaveita Borgarness er sjálfstætt fyrirtæki sem Borgarbyggð á og starfrækir. Fyrirtækið heitir Hitaveita Borgarness og er hér eftir nefnt hitaveitan í reglugerð þessari.

2. gr.

Reglugerð þessi gildir um allt starfssvæði hitaveitunnar. Starfssvæði hitaveitunnar er Borgarnes.

3. gr.

Verkefni hitaveitunnar er að sjá um orkuöflun og rekstur hitaveitu á starfssvæðinu. Yfirstjórn hitaveitunnar er í höndum bæjarstjórnar Borgarbyggðar sem getur falið veitunefnd stjórn hennar.

Veitunefnd er ákvörðunarbær þegar meirihluti hennar sækir fund. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

Verkefni veitunefndar er stjórn hitaveitunnar og eftirlit með því að skipulag og starfsemi sé í góðu horfi.

Veitunefnd semur gjaldskrá og leggur fyrir bæjarstjórn. Hún undirbýr samninga um orkukaup og orkusölu. Hún semur fjárhagsáætlanir og leggur fyrir bæjarstjórn. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri veitunnar og sér hann um að ráða menn til hitaveitunnar í samræmi við gildandi reglur bæjarfélagsins.

Veitunefnd semur nánari reglur um einstök framkvæmdaatriði þessarar reglugerðar eftir því sem þörf gerist og leggur fyrir bæjarstjórn.

II. KAFLI Almenn ákvæði.

4. gr.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu, sem tengist veitukerfi hitaveitunnar nefnist húseigandi. Notandi heits vatns er sá aðili sem skráður er fyrir mælagrind og ber hann ábyrgð á greiðslu hitaveitugjalda.

5. gr.

Heitt vatn er afhent um veitukerfi hitaveitunnar samkvæmt gildandi reglugerð og gjaldskrá.

Hitaveitunni er skylt að haga starfsemi sinni þannig að sem best verði tryggður eðlilegur og truflunarlaus rekstur eftir því sem aðstæður leyfa.

Hitaveitan skal gefa notendum upplýsingar um þrýsting og hitastig í stofnlögnum, sé þess óskað.

6. gr.

Hitaveitunni er heimilt að semja sérstaklega um stofngjöld og sölu á heitu vatni utan almennra söluskilmála.

7. gr.

Hitaveitunni er heimilt að nota aftur vatn, sem runnið hefur í gegnum hitakerfi húss. Notendum er heimilt að nýta varma afrennslisvatnsins til upphitunar á gróðurhúsum, bílastæðum, gangstígum o.s.frv. en skila afrennslisvatninu aftur, ef hitaveitan þarf á því að halda. Óski hitaveitan ekki eftir að nýta afrennslisvatnið skal húsráðandi annast og bera kostnað við að leiða það í frárennsli hússins. Óheimilt er að leiða það þangað heitara en 40°C. Setja skal hitamæli á afrennslislögn. Hitaveitan getur krafist þess að settur sé hitastýrður loki á afrennslið, ef grunur leikur á að afrennslisvatnið sé of heitt. Ef notendur nýta hitaveituvatn til hitunar bílastæða, gangstíga o.s.frv. og hitakerfin eru beint tengd hitaveitunni, þá getur hitaveitan krafist þess að þessi kerfi séu þrýstiprófuð við þann hita sem gert er ráð fyrir að notaður verði.

III. KAFLI Veitukerfið.

8. gr.

Hitaveitan leggur, kostar og á allar lagnir veitukerfisins, stofnæðar, dreifiæðar, heimæðar og lagnir innanhúss að og með mælagrindum ásamt tilheyrandi búnaði. Hún annast rekstur og viðhald eigin veitukerfis.

Áður en hafist er handa um lagningu heimæðar skal lóð vera komin í sem næst rétta hæð og gluggar og hurðir húss lokanlegar.

Hitaveitunni er ekki skylt að leggja heimæðar meðan jörð er frosin. Óski húseigandi eftir því skal hann greiða þann aukakostnað sem af því hlýst.

9. gr.

Við lagningu og viðhald veitukerfisins skal hitaveitan halda raski í lágmarki og ganga þrifalega um. Jafnframt skal hitaveitan færa allt rask til fyrra horfs eins og við verður komið.

Húseigandi á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar og viðhalds dreifikerfisins.

10. gr.

Kostnað við breytingar á húsveitu og hitunarkerfi húss vegna tenginga við hitaveituna skal húseigandi annast og kosta.

Húseigandi kostar breytingu á hitaveitulögnum, sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda hans.

Húseigandi skal fyrirfram sækja um leyfi fyrir öllum framkvæmdum, sem kunna að hafa í för með sér röskun á veitukerfi hitaveitunnar.

11. gr.

Hitaveitan hefur rétt til aðgangs að húsnæði því sem veitukerfi hennar liggur um til viðhalds, eftirlits, breytinga og lokunar sbr. 21. gr.

Inntak hitaveitu og mælagrind skulu alltaf vera í sama herbergi og skal lögn að mælagrind vera óhulin og aðgengileg til þjónustu.

Hitaveitan ákveður staðsetningu mælagrindar og inntaks í samráði við húseiganda. Húseigandi skal sjá fyrir inntaksstað hitaveitu við útvegg 1. hæðar (kjallara) ásamt nauðsynlegu rými fyrir mælagrind og annan búnað. Þar sem inntak kemur upp úr gólfplötu á húseigandi að sjá til þess að nægilega víð göt séu fyrir hitaveitulögnina. Niðurfall skal vera í gólfi þar sem mælagrind er staðsett. Húseigandi skal sjá fyrir lýsingu við mælagrind.

IV. KAFLI Húsveitur og tenging þeirra.

12. gr.

Um lögn nýrra hitunarkerfa eða breytingu á eldri kerfum gilda ákvæði byggingareglugerðar. Áður en hafist er handa um lögn nýrra hitunarkerfa, eða breytinga á eldri kerfum, skal sækja um orkukaupin eða breytingar til hitaveitunnar á þar til gerðum eyðublöðum sem hitaveitan lætur í té. Umsóknin skal undirrituð af eiganda hússins eða fullgildum umboðsmanni hans ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að annast. Umsókn skulu fylgja teikningar samþykktar af byggingafulltrúa.

Sækja skal um uppsetningu á tengibúnaði hitaveitunnar (mælagrind) með minnst fjögurra daga fyrirvara. Pípulagningameistari skal skila til hitaveitunnar tæknilegum upplýsingum um lagnakerfið á sérstökum eyðublöðum, vottorði um úttekt byggingafulltrúa og sækja um áhleypingu með minnst dags fyrirvara.

Engir aðrir en umboðsmenn hitaveitunnar (starfsmenn) mega hleypa vatni úr kerfi veitunnar á hitakerfi húsa í fyrsta sinn eftir tengingu. Ekki verður hleypt á hús, nema lagnir séu í samræmi við samþykktar teikningar og gildandi reglugerðir. Pípulagningameistari skal annast prófun hitalagna og vera viðstaddur þegar vatni er hleypt á hitakerfið.

Komi í ljós að verk er eigi framkvæmt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, reglugerð um hitaveitulagnir, eða öðrum reglum sem settar kunna að verða, getur hitaveitan stöðvað verkið þar til úr verður bætt.

13. gr.

Hitaveitan skal hafa aðgang að pípulögnum bæði innanhúss og utan. Húseiganda/notanda er skylt að láta í té upplýsingar um hitun hússins og heitt kranavatn sé þess óskað.

Óheimilt er að hylja mælagrind á þann hátt að valdi erfiðleikum við viðhald og viðgerðir og eigi má setja hillur eða annað ofan við mæli þannig að það hindri eðlilegan aflestur.

Ekki má tengja dælur eða annan búnað við húskerfin, sem truflað geta aðra notendur eða rekstur hitaveitunnar.

14. gr.

Sé húsveita tengd veitukerfi hitaveitunnar í heimildarleysi getur hitaveitan aftengt húsveituna fyrirvaralaust.

15. gr.

Húseigandi og notandi, ef ekki er um sama aðila að ræða bera in solidum, ábyrgð á meðferð búnaðar og lagna innanhúss, sem eru í eigu hitaveitunnar og þar með þeim kostnaði við viðgerð og endurnýjun þess búnaðar sem verður fyrir skemmdum af völdum notanda.

Húseiganda/notanda ber að tilkynna tafarlaust til hitaveitunnar, ef vart verður bilunar í búnaði eða tækjum hennar.

V. KAFLI Skilmálar fyrir orkusölu.

16. gr.

Upphaf og lok samnings um orkukaup eru við skráningu tilkynninga hjá hitaveitunni þess efnis.

Húseigandi ber ábyrgð á tilkynningu um notendaskipti. Vanræki húseigandi tilkynningarskyldu sína, er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir orkunotkun, sem til fellur eftir að fyrri notandi yfirgaf húseignina.

17. gr.

Gjaldskrá skal samin af veitunefnd og samþykkt af bæjarstjórn.

Skal gjaldskrá við það miðuð að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem bundið er í rekstri hitaveitunnar.

Gjaldskrá sem hlotið hefur samþykki bæjarstjórnar skal lögð fyrir iðnaðarráðuneytið til staðfestingar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Hitaveitunni er heimilt að gera sérstaka samninga við notendur á svæði sínu, sem falla utan við gjaldskrá, enda sé samið sérstaklega um orkukaup notanda.

18. gr.

Hitaveitan selur heitt vatn í smásölu samkvæmt magnmælingu um rennslismæla.

Hitaveitan leiðréttir gjald fyrir vatnsnotkun með tilliti til hitastigs, þannig að fyrir hverja gráðu á Celcius, sem reiknað hitastig við húsvegg víkur frá 80°C breytist gjaldið um 2% til lækkunar.

Útreikningarnir miðast við að ná meðalleiðréttingu hjá notendum. Þannig verði sama magn ofleiðrétt og vanleiðrétt.

Við útreikningana er gengið út frá eðlilegu jafnvægisástandi í aðveitu og dreifikerfi. Ekki er leiðrétt vegna tímabundinna hitasveiflna í aðveitu, en búast má við hærri vatnshita í þurrviðri og lægri hita í bleytutíð.

Hjá þeim notendum, sem einungis kaupa neysluvatn og þar sem notkun er lítil eða mjög óregluleg, skal leiðrétting vera meðalleiðrétting hitaveitunnar.

Fastagjald greiðist af öllu hituðu húsnæði. Fastagjaldið miðast við flatarmál samkvæmt fasteignamati. Fastagjald er ekki greitt af bifreiðageymslum nema þær séu nýttar í annað. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði, en þeir sem ekki greiða fastagjald þetta skulu greiða 33,33% hærra verð fyrir hvern rúmmetra vatns.

Fyrir hvern mæli skal greiða fast gjald á mánuði, mælaleigu, háð stærð mælis.

Af húsi sem tengist hitaveitunni skal greiða stofngjald. Viðbótarstofngjald skal greiða af viðbyggingum húsa.

Fyrir heimæðar sem eru lengri en 25 m innan lóðarmarka skal greiða sérstakt gjald.

Ef óskað er fleiri en einnar mælagrindar í húsi, þar sem greitt hefur verið sameiginlegt stofngjald, skal greiða sérstakt mælagrindargjald á hverja mælagrind sem bætist við.

19. gr.

Hitaveitan ákveður stærð og gerð rennslismæla sem notaðir eru í mælagrind. Starfsmenn hitaveitunnar innsigla mælana.

Ef rofið er innsigli á búnaði hitaveitunnar varðar það refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.

Ef notandi óskar að mælir sé prófaður skal hann senda skriflega beiðni þar um til hitaveitunnar. Komi í ljós við þá athugun að frávik sé 5% eða minna, er heimilt að gera notanda að greiða mælaprófunargjald. Sé frávik meira skal hitaveitan greiða kostnað við prófunina og leiðrétta reikning notanda í samræmi við niðurstöður hennar, þó ekki fyrir lengra tímabil en tvo mánuði nema notandi eða hitaveitan, eftir því sem við á geti sannað að um lengra tímabil hafi verið að ræða, þó lengst fjögur ár.

20. gr.

Notandi skal greiða hitaveitunni gjald fyrir heitavatnsnotkunina samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma. Við breytingar á gjaldskrá skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili, sem reikningurinn tekur til.

Hitaveitan má byggja orkureikninga á áætlun um heitavatnsnotkun notanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun.

Þar sem vatnsmælir hefur verið settur upp, eða ef vatnsmælir bilar reiknar hitaveitan vatnsnotkunina með hliðsjón af hitaþörf hússins. Reikningar sem byggjast á staðreyndri vatnsnotkun nefnast álestrarreikningar, en reikningar sem byggjast á áætlaðri notkun nefnast áætlunarreikningar.

Raunverulega vatnsnotkun skal staðreyna eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Þegar vatnsnotkun hefur verið staðreynd, skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar.

Notandi getur þó jafnan gegn greiðslu mælaálestrargjalds krafist aukaálestra og uppgjörs. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um vatnsnotkun vegna nýrra forsenda.

Reikninga skal senda notanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur.

Gjalddagi reikninga er útgáfudagur. Sé reikningur eigi greiddur innan tilgreinds frests er fram kemur á reikningi, reiknast dráttarvextir frá gjalddaga.

21. gr.

Hitaveitan hefur rétt til að stöðva afhendingu á heitu vatni til húsveitu (mælis) notanda, sem greiðir ekki áætlunar- eða álestrarreikning eða vanrækir skyldur sínar samkvæmt reglugerð þessari. Beri notandi ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa að undangenginni skriflegri aðvörun, sem sendist notanda með sjö daga fyrirvara. Hitaveitunni er ekki skylt að tilkynna notanda um sjálfa stöðvun orkuafhendingarinnar, enda sé hún gerð innan 21 dags frá aðvörun um hana. Hitaveitan ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar. Notanda ber að greiða fastagjöld samkvæmt gjaldskrá, þó lokað hafi verið fyrir heita vatnið.

Hitaveitan hefur rétt til þess að krefja notanda um greiðslu lokunargjalds samkvæmt gjaldskrá hafi komið til stöðvunar vatnsafhendingar af ástæðum sem um getur í 1. mgr. Heimilt er hitaveitunni að krefjast greiðslu þessarar áður en afhending er hafin á ný. Þó ekki komi til stöðvunar vatnsafhendingar er hitaveitunni heimilt að krefja notanda um lokunargjald vegna undirbúnings að stöðvun.

Enginn má af- eða endurtengja hitaveituna nema þeir sem hitaveitan hefur veitt umboð til þess. Sé brotið gegn þessu skal farið með það sem óleyfilega vatnsnotkun.

Verði uppvíst að heitt vatn hafi verið notað á annan hátt en um er samið, að raskað hafi verið mælitækjum eða tengingum breytt þannig að ekki komi fram öll notkun skal hitaveitan áætla það vatn sem notað var óleyfilega og skal notandi greiða fyrir hana á allt að þreföldu verði samkvæmt gjaldskrá fyrir allan tímann sem liðinn er frá síðustu skoðun veitunnar þar til leiðrétt er.

22. gr.

Hitaveitan ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni, sem leiða kann af rekstrartruflunum er verða á veitunni vegna frosta, rafmagnstruflana, náttúruhamfara eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir, ef rennsli í vatnsæð er stöðvað um stundarsakir vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra framkvæmda veitunnar.

Þurfi að takmarka notkun heita vatnsins um lengri eða skemmri tíma ákveður hitaveitan hvar og hvernig hún skuli takmörkuð. Takmörkunin hefur ekki áhrif á greiðslu fastagjalda.

Stöðvun eða óviðráðanlegar breytingar á rekstri veitunnar eða hluta hennar skal tilkynna svo fljótt sem unnt er og koma á eðlilegum rekstri aftur strax og því verður við komið.

23. gr.

Nú vanrækir húseigandi/notandi að vinna verk sem honum ber samkvæmt reglugerð þessari, eða verk er ekki unnið á viðunandi hátt, er hitaveitunni þá heimilt að undangenginni skriflegri aðvörun að stöðva afhendingu á heitu vatni til hans.

24. gr.

Öll gjöld samkvæmt reglugerð þessari skulu hafa beint aðfararhæfi skv. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför sbr. 79. gr. laga nr. 58/1967.

25. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.

26. gr.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

27. gr.

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Borgarbyggðar er hér með staðfest samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 og orkulögum nr. 58/1967 til að öðlast gildi 1. janúar 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.

Hitaveitu Borgarness er heimilt að beita ákvæðum 79. gr. laga nr. 58/1967 til innheimtu þeirra skulda sem fyrirtækið yfirtekur af HAB vegna skulda notenda á orkuveitusvæði fyrirtækisins.

Iðnaðarráðuneytið, 27. desember 1995.

F. h. r.
Þorkell Helgason.

Steinunn Bjarman.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.