Prentað þann 21. nóv. 2024
670/2019
Reglugerð um áhættumatsnefnd á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru.
1. gr. Heiti og aðsetur.
Nefndin heitir áhættumatsnefnd og heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Nefndin hefur aðsetur í ráðuneytinu.
2. gr. Starfssvið.
Hlutverk nefndarinnar er að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru, í samræmi við 6. mgr. 22. gr., sbr. 31. gr. a. laga um matvæli, nr. 93/1995, 7. gr. c. og 7. gr. o., sbr. 7. gr. laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Með vísindalegu áhættumati er átt við greiningu á áhættuþáttum á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru. Vísindalegt áhættumat beinist ekki að starfsemi einstakra eftirlitsskyldra aðila.
Áhættumat nefndarinnar skal nota á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru til þess að stuðla að bættri áhættustjórnun og vera til ráðgjafar í tengslum við stefnumótun yfirvalda í þeim málaflokkum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matvælastofnun geta óskað eftir áliti nefndarinnar. Telji nefndin þörf á að leggja fram tillögur um framkvæmd áhættumats skal nefndin óska samþykkis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
3. gr. Skipan áhættumatsnefndar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar áhættumatsnefnd til fimm ára í senn. Í nefndinni skulu sitja sex einstaklingar og skal ráðherra skipa nefndarmenn samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila:
- Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands.
- Landbúnaðarháskóla Íslands.
- Matís ohf.
- Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, á sviði læknisfræði vegna lýðheilsu.
- Sóttvarnarlæknis hjá landlæknisembættinu.
- Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.
Ráðherra skipar einn tilnefndra aðila formann nefndarinnar.
4. gr. Hæfi nefndarmanna.
Nefndarmenn mega ekki eiga hagsmuna að gæta í umsögn sinni og skulu gæta hlutlægni í störfum sínum. Um sérstakt hæfi nefndarmanna áhættumatsnefndar fer samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
5. gr. Starfshættir.
Formaður áhættumatsnefndar stýrir störfum nefndarinnar og ber ábyrgð á að halda saman gögnum vegna nefndarstarfs og sjá til þess að gögnum sé skilað á skjalasafn ráðuneytisins. Er þar átt við fundarboð, fundargerðir, bréfaskipti, vinnugögn sem varpað geta ljósi á nefndarstarfið, skriflegar umsagnir sem borist hafa, álitsgerðir, skýrslur og sérálit, eftir því sem við á hverju sinni.
Formaður fer með fyrirsvar nefndarinnar út á við. Formaður ber ábyrgð á fjármálum nefndarinnar og skal gæta þess að kostnaður fari ekki fram úr þeirri fjárhæð sem nefndinni er úthlutað ár hvert.
Nefndin setur sér starfsreglur, þ. á m. reglur um áhættumat og áhættukynningu sem staðfestar eru af ráðherra. Formaður tekur á móti verkbeiðnum, leggur þær fyrir nefndina og metur kostnað. Nefndin kynnir verkbeiðanda niðurstöðu sína svo fljótt sem auðið er. Álit nefndarinnar skal vera rökstutt og skal fært til bókar ásamt rökstuðningi. Niðurstöður nefndarinnar skulu vera opinberar og skal nefndin taka þátt í áhættukynningu eftir því sem við á.
Nefndin skal kalla eftir gögnum eftir þörfum. Telji nefndin þörf á sérkunnáttu við úrlausn mála getur hún leitað til innlendra eða erlendra aðila með þar til bæra sérkunnáttu.
Nefndin skal flýta störfum eins og kostur er og gæta þess að ekki verði óhóflegur dráttur á störfum hennar. Nefndinni ber að forgangsraða brýnum málum.
6. gr. Kostnaður af störfum nefndarinnar.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skal á hverju ári veita áhættumatsnefnd fjármagn til að sinna störfum sínum. Nægi úthlutuð fjárhæð ekki til að standa straum af kostnaði verkefna, skal nefndin upplýsa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þar um.
Formaður nefndarinnar fær greidda þóknun fyrir nefndarstörf samkvæmt ákvörðun ráðherra.
7. gr. Eftirlit.
Áhættumatsnefnd skal skila ársskýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eigi síðar en í lok janúar árið á eftir. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir störfum nefndarinnar og ráðstöfun fjármagns.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 31. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995 og 7. gr. laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 3. júlí 2019.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ása Þórhildur Þórðardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.