Prentað þann 14. nóv. 2024
666/2016
Reglugerð um (5.) breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012.
1. gr.
5.1.1. - 5.1.3. gr. reglugerðarinnar falla brott og breytist töluröð annarra greina sem því nemur.
2. gr.
1. mgr. 5.1.4. gr. reglugerðarinnar (sem verður 5.1.1. gr.) orðast svo:
Byggingarvörur til notkunar í eða við mannvirkjagerð skulu uppfylla skilyrði laga nr. 114/2014 um byggingarvörur og reglugerðar þessarar.
3. gr.
Við 5. hluta reglugerðarinnar bætist ný grein svohljóðandi:
5.1.2. gr.
Frístundahús til flutnings.
Frístundahúsi eða sambærilegu húsi sem byggt er utan lóðar og sérframleitt í einstökum tilvikum eða sérsniðið að tilteknum þörfum eftir pöntun á grundvelli hönnunargagna skal við umsókn um byggingarleyfi fylgja vottorð frá faggiltri skoðunarstofu eða byggingarfulltrúa um yfirferð uppdrátta og framkvæmd úttekta á burðargrind, festingum, einangrun og rakavarnarlagi. Hús þannig byggt skal einkenna með brennimarki eða á annan hátt sem byggingarfulltrúi viðurkennir.
Ákvæði þessarar greinar gilda ekki ef viðkomandi mannvirki er CE-merkt eða það fellur undir III. kafla laga um byggingarvörur. Í slíkum tilvikum skal yfirlýsing um nothæfi fylgja með byggingarleyfisumsókn í stað vottorðs skv. 1. mgr.
4. gr.
Á eftir orðunum "skulu uppfylla ákvæði" í 8.3.1. gr. reglugerðarinnar kemur: laga um byggingarvörur.
5. gr.
Í stað orðsins "Mannvirkjastofnunar" í 2. mgr. 8.3.2. gr. reglugerðarinnar kemur: umhverfis- og auðlindaráðherra skv. ákvæðum 2. mgr. 12. gr. laga um byggingarvörur.
6. gr.
1. mgr. 8.3.10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Heimild steypustöðvar til að framleiða steinsteypu til notkunar í mannvirkjum skv. reglugerð þessari er háð því að viðkomandi rekstraraðili hafi gefið út yfirlýsingu um nothæfi steinsteypunnar samkvæmt ákvæðum III. kafla laga um um byggingarvörur á grundvelli jákvæðrar umsagnar óháðrar rannsóknarstofu sem umhverfis- og auðlindaráðherra viðurkennir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga um byggingarvörur. Leyfisveitandi skal gæta þess að yfirlýsing um nothæfi og jákvæð umsögn um steypustöð liggi fyrir vegna mannvirkjagerðar í hans umdæmi.
7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8.3.11. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðsins "mannvirkjagerðar" í 1. málsl. kemur: einstaks tiltekins mannvirkis, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga um byggingarvörur.
- 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Heimild til steypugerðar skv. þessari grein skal vera skrifleg og bundin við einstaka tilgreinda framkvæmd, enda séu einnig uppfyllt önnur skilyrði 1. eða 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga um byggingarvörur.
8. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, öðlast þegar gildi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 6. júlí 2016.
F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.